Til hamingju með ferðina og athyglina.

Ég finn til mikillar samkenndar með Jóni Jóhanni Jóhannssyni og Jónasi Guðmundssyni vegna ferðar þeirra á rafbíl til Ísafjarðar. 

Því miður virðist þurfa mikla fyrirhöfn til þess að vekja athygli á þörfum umbótum á ýmsum sviðum. 

Í júlí 2009 fórum við Einar Vilhjálmsson hringveginn með útúrdúrum um Sauðárkrók og um Fjarðaleiðina eystra, og var það fyrsta slíka bílferðin þar sem eingöngu var notað íslenskt og umhverfisvænt eldsneyti til að komast hringinn. 

Nokkrum árum fyrr höfðu framtakssamir menn ekið hringinn á rafbíl og þurft til þess langan tíma. 

Fyrstu rafbílsferðina hringveginn á skaplegum tíma fóru Gísli Gíslason á Teslu í júlí í fyrra og voru þeir 30 klukkustundir á leiðinni brúttó.

Það er hraðamet rafbíls um hringveginn, - Tesla er langdrægasti rafbíllinn, en þarf talsverðan tíma í hleðslu.

Tesla er dýr lúxusbíll og ekki á færi almennings að eignast hann og því var það skynsamlegt hjá Jóni og Jónasi að nota bíl eins og Kia Soul á viðráðanlegra verði.  

Fyrir réttu ári var farið á rafhjólinu Sörla frá Akureyri til Reykjavíkur eingöngu á eigin vélarafli hjólsins, og var það alls 42 klukkustundir á leiðinni, en hjólið var sjálft á hreyfingu í 25 klukkustundir. 

Orkukostnaðurinn var 115 krónur. 

Og fyrir 9 dögum var svo farið á vespubifhjólinu Létti ( Honda PCX) á þjóðvegahraða hringinn um Fjarðaleið á alls 31 klukkustund, en þar af var hjólið 18 klukkustundir á ferð.

Eyðslan var 2,65 lítrar á hundraðið að meðaltali, og orkukostnaðurinn aðeins tæplega 6700 krónur, þar af 1916 krónur milli Reykjavíkur og Akureyrar, þar sem eyðslan var aðeins 9,9 lítrar alls.  

Þetta er tvisvar til þrisvar sinnum minna en á meðalbíl, og í innanbæjarakstri er eyðslan aðeins um 2,3 - 2,3 lítrar á hundraðið á þessu farartæki, sem er fljótara í förum innanbæjar en bíll og kostar aðeins fjórðung af verði ódýrustu bíla. 

Það sem gerir leiðina Reykjavík-Ísafjörður áhugaverða er sú staðreynd, að ef farið er með Baldri yfir Breiðafjörð, er þjóðvegaaksturinn aðeins rúmlega 290 kílómetrar, eða álíka og frá Reykjavík til Varmahlíðar. 

Ef hraðhleðslustöð væri í Stykkishólmi myndi það eitt og sér tákna byltingu fyrir rafbílana, því að þá væri hægt að fara um borð í Baldur með hlaðinn bíl og stytta brúttó ferðatímann úr 27 klukkustundum niður í þriðjung, allt að níu klukkustundir að því gefnu að hleðslustöð væri á Ísafirði og að rafbíllinn dragi í einum áfanga frá Brjánslæk til Ísafjarðar.

Mikið væri nú gaman ef hægt væri að koma á almennilegum rafbílasamgöngum vestur, jafnvel áður en leiðin Reykjavík-Akureyri verður fær fyrir venjulega rafbíla á viðráðanlegu verði.

Enn í dag búa Vestfirðingar að mestu einir allra landshluta að samgöngum á svipuðu stigi og fyrir hálfri öld og má alveg fara að kippa þeim inn í nútímann.  

 


mbl.is Komust á rafmagninu einu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband