Hefur tafist heldur lengi.

Möguleikar á að fimmfalda orku jarðhitasvæða eða jafnvel meira voru reifaðar í fréttum um síðustu aldamót.

Í áttblöðungnum sem borinn var í Jöklugöngunni 2006 var lagt til, að beðið yrði árangurs af djúpborunum og Kárahnjúkavirkjun frestað á meðan, en í staðinn séð hvernig ferðaþjónusta og önnur nýting svæðisins geti eflst líkt og kom fram í sjónvarpsfréttum í viðtali við Louis Crossley nokkru áður.

Henni, ásamt fleirum, hafði tekist að fresta virkjun Franklin-árinnar á Tasmaníu og setja svæðið frekar á heimsminjaskrá UNESCO.

Þetta var gert og virkjunin í Franklin-ánni þar með tekin af dagskrá.

Ég var kominn í svo harða sjálfsritskoðun á þessum tíma, að ef ég birti svona viðtal, yrði að ég að vera með aðra frétt á móti, jákvæða fyrir virkjunina. Helst tvær jákvæðar. 

Ég gat "skúbbað" með viðtalinu en ákvað að bíða þar til Morgunblaðið yrði fyrst með hana, til þess að ekki væri hægt að "hanka" mig á því að hafa frumkvæði.

Helgina sem viðtalið var birt,  var ég með líka álíka langa jákvæða frétt um framkvæmdirnar eystra.

En þetta var unnið fyrir gýg. Á næsta fundi útvarpsráðs kvartaði fulltrúi Framsóknarflokksins sárlega yfir hinum "hlutdræga fréttaflutningi" mínum. 

Það hefur dregist of lengi að bora djúpa holu á réttu svæði. 

Landsvirkjun vildi endilega bora fyrstu holuna við Kröflu og valdi versta staðinn, við hliðina á mislukkaðri holu frá 1975, sem gereyðilagðist og hlaut heitið "Sjálfskaparvíti!"

Að sjálfsögði var nýja holan enn mislukkaðri, því að borinn komst fljótlega niður á kviku, sem þarna var síðan í Kröflueldum.

Að vísu var reynt að breiða yfir mistökin með því að tiltaka hve mikil orka væri samt í þessari holu, en á núvirði var, miðað við að hún hefur verið ónothæf, hent hátt í tveimur milljörðum í ruslafötuna.  

 

  


mbl.is Gæti leitt til byltingar á heimsvísu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill, Ómar. Bravo!

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 1.2.2017 kl. 16:12

2 identicon

Þetta var merkilega halelúja samkoma hjá starfsmönnum Ross Beaty.
Verkefnið er áhugavert og borunin tókst vel.
Enn er þó allt á huldu hvort þarna fáist vinnanleg gufa. Slíkt kemur að öllum líkindum ekki í ljós fyrr en síða árs 2018.

Það má segja að HS Orka bori þarna upp á líf og dauða því efri hluti jarðhitakerfisins sem drífur Reykjanesvirkjun er ofnýttur og þrýstingur hefur fallið yfir 40 loftþyngdir (bör) og afköst virkjunarinnar með 2 50MW vélum er nú komin niður fyrir 80MW og fellur stöðugt.

Nýlega birtu Landmælingar Íslands ný gögn um endurmælingu Íslenska landmælingakerfisins og þar kemur fram mikið staðbundið landsig við Reykjanesvirkjun og Hengislvirkjanir. 
Landsigið orsakast af gríðarlegri aftöppun vatns og gufu úr jarðhitakerfunum sem nýtt eru til þess að drífa allt of stórar virkjanir. Jarðskorpan dregst saman við þessa þrýstilækkun og kólnun bergsins.
Það er því ljóst að vinnsla jarðhitans er ekki sjálfbær og þarna fer fram nokkurs konar námagröftur á varmaorku þar sem vinnslan er mun hraðari en endurnýjunargetan.
Það er athygli vert að upplýsingar af þessu tagi koma ekki frá orkufyrirtækjunum eða Orkustofnun heldur óháðri mælingastofnun upp á Akranesi.

Heimild:
http://www.lmi.is/wp-content/uploads/2017/01/kvardinn_janúar_2017.pdf

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 1.2.2017 kl. 16:23

3 identicon

Kom nokkuð fram á fundinum hve mikið úraníumvinnsla á Reykjanesi muni aukast? 

Virgin (IP-tala skráð) 1.2.2017 kl. 17:58

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Niðurstöður Landmælinga stangast hressilega á við við fullyrðingar HS orku um að allt sé í stakasta lagi á virkjanasvæðinu.

Á sama tíma er þrýst á af þeirra hálfu að hefja virkjanaframkvæmdir í Eldvörpum, en jarðvarmahólfið undir þeim er hið sama og undir Svartsengi og því um örvæntingarfulla aðgerð að ræða, sem aðeins mun hraða endanlegu hruni kerfisins.

Það er gersamlega ábyrgðarlaus framkoma gagnvart náttúruverndargildi Eldvarpa.  

Ómar Ragnarsson, 1.2.2017 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband