Einstakt andrúmsloft á metttíma. Sumir "trömpast" alveg.

Donald Trump hefur aðeins setið í tvær vikur í embætti, en vafasamt er að nokkru sinni fyrr í sögu Bandaríkjanna síðan 1933 hafi jafnmikið gengið á í kringum Hvíta húsið við forsetaskipti og nú. 

Það er ekki aðeins allt umrótið sem fylgt hefur orðum og gjörðum forsetans, sem er óvenjulegt, heldur ýmis fyrirbæri tengd þessu ástandi, sem varla hefur sést fyrr.

Eitt af því eru stuttir sjónvarpspistlar með sama ívafi, sem farið hafa um facebook og netmiðla um mörg lönd og eiga það margir sameiginlegt að í þeim leita fulltrúar viðkomandi þjóða eftir því að fá að komast á vinsældalista þjóðanna hjá Trump með því að fá að verma annað sætið, næst á eftir hinum nýju Bandaríkjum hans.

Ég datt fyrir tilviljun niður á deilingu á nokkrum af slíkum þáttum og sýndist ótækt að ekkert yrði gert hér á landi í þessa veru, einkum vegna þess að Danir voru búnir að gera sína útgáfu og að frá fornu fari hafa ríkt ákveðnir "Dana-komplexar" í sambúð frænd- og vinaþjóðanna Dana og Íslendinga.

Pistilinn, sem er i bréfsformi á ensku, má sjá á "status" á facebook-síðu minni og ef hann er að einhverju hafandi, væri gaman að myndskreyta hann og láta einhvern lesa hann, sem gæti náð að herma að einhverju leyti eftir Trump.

Eitt það sterkasta af mörgum trompum ( trömpum) sem við eigum til þess að komast í annað sæti lista Trumps er sú staðreynd að við Íslendingar fundum upp slagorðið "Ameríka fyrst" meira en þúsund árum á undan Trump. 

Við fundum nefnilega upp "Ameríka fyrst!" með því að finna Ameríku fyrst. 

Og ekki bara það. Til að tryggja það að hið nýja meginland yrði kristið frá upphafi skiptum við yfir í kristna trú á sama árinu og við fundum Ameríku fyrst!  Og sýndum þá fádæma framsýni að að gera harðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að múslimar, sem þá seildust til valda á leið allt vestur til Spánar, yrðu innflytjendur í Guðs eigin landi.

Þar að auki stilltu íslensku víkingarnir sig um að sigla suður til Mexíkó þótt þeir gætu það vel, af því að öllu skipti að það land yrði ekki byggt glæpalýð og eiturlyfjasölum.

 

En landkönnuðir frá ESB-löndum eins og Kólumbus eyðilögðu þetta fyrir okkar mönnum og síðar Trump. 

Í einu múslimsku innrásinni í land okkar fyrr á öldum, Tyrkjaráninu 1627, sýndu Danir algeran aumingjaskap, og afhjúpuðu getuleysi sitt til að byggja múra með því að byggja Skansinn á allt of seint, á röngum tíma, röngum stað og allt of lítinn. Algert "distaster". 

Við Íslendingar toppuðum hins vegar Dani með því að stöðva hraunrennsli frá heilu eldfjalli á Heimaey með tvöföldum múr úr vatni og ösku.

En þetta er aðeins upphaf bréfsins til Trump á facebook, því að við höfum af svo mörgum góðum rökum að taka að hann er margfalt lengri.  

 

Og nú er best að fara að halla sér eins og Gísli Halldórsson sagði á sínum tíma.  


mbl.is Munu svara í sömu mynt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mary Anne MacLeod Trump (May 10, 1912 - August 7, 2000), mother of the 45th President of the United States, Donald Trump, was born in the village of Tong, on Lewis in the Outer Hebrides of Scotland, United Kingdom.

Þorsteinn Briem, 4.2.2017 kl. 11:36

5 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Bönnum bandaríkjamönnum með tvöfalt ríkisfang að koma til Evrópu......það yrði einhver söngurinn hjá Trumpistum.........money-mouth

Ragna Birgisdóttir, 4.2.2017 kl. 11:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband