Óþolinmæðin hefur stórskaðað okkur.

Allt frá miðjum sjöunda áratug síðustu aldar og fram á okkar daga hefur mæling á gildi framleiðslu í landinu miðast við magn, helst magn, sem hægt er að mæla í tonnum og megavöttum. 

Í lok síðustu aldar magnaðist þessi hugsun upp í alveg nýjar hæðir. Samstarfsnefnd um orkufrekan iðnað sendi bænarbréf til helstu stóriðjufyrirtækja heims með þeirri stóru upphrópun, sem kom ekki fyrir almenningssjónir fyrr en áratug síðar í Framtíðarlandinu, bók Andra Snæs Magnasonar: "Lægsta orkuverðið!" 

Og í kjölfarið var í þessum endemis bæklingi lofað "sveigjanlegu mati á umhverfisáhrifum" og öllum mögulegum brögðum beitt til að keyra þessa stefnu upp í hina risavöxnu Kárahnjúkavirkjun með sínu lága orkuverði og yfirgengilegum ívilnunum til handa stóriðjunni. 

Afleiðingin varð stórfelldasta mögulega árás á mesta verðmæti þjóðarinnar, sem var algerlega fyrirlitið: Íslensk náttúra, einstök á jarðarkringlunni. Öll möguleg nýting hennar í formi verndarnýtingar fyrir ferðamenn var hrópuð niður með fyrirlitningar upphrópun: "Eitthvað annað, - jafn fráleitt og fjallagrasatínsla!" 

Því var algerlega hafnað að taka sér nauðsynlegan tíma til að gefa ferðaþjónustunni færi á að sanna gildi sitt, en stóri munurinn á þvi og stórfelldum umhverfisspjöllum stórvirkjana væri sá, að verndarnýting landsins myndi verða afturkræf, en langflestar virkjanirnar gersamlega óafturkræfar. 

Því var algerlega hafnað í íslenskri náttúru fælust nokkrir aðrir möguleikar en fólst í tillögu, sem örfáum atkvæðum munaði að yrði samþykkt á landsfundi Samfylkingarinnar 2009:  Að nýta alla virkjanlega orku á Íslandi til þess að reisa eins mörg álver og mögulegt væri!" 

Þessi stefna hafði áður náð hámarki árið 2007 þegar teknar voru skóflustungur af risaálveri í Helguvík, byrjað reisa kerskóla og hamast við að koma jafnstóru risaálveri á koppinn á Bakka við Húsavík og að stækka álverið í Straumsvík upp í risaálver. 

Samtímis var krafist risaálvers í Þorlákshöfn og skipti engu þótt bent væri á það í andófinu gegn þessum ósköpum að jafnvel þótt öll orka landsins yrði nýtt fyrir þessi álver myndu minna en 2% vinnuafls á landinu fá vinnu í þeim og innan við 4% þótt reynt væri að tengja "afleidd störf" við þessi ósköp. 

Hagfræðingar, sem komust að því hve sáralitlu stóriðja af þessu útsölutombólutagi skilaði í virðisauka í þjóðfélagið voru kaffærðir í síbyljunni um gildi hinna stóru talna tonna og megavatta. 

Nú bendir Róbert Guðfinnsson réttilega á svipað fyrirbæri í ferðaþjónustunni, að einblína á hausatölu ferðafólks en gleyma öllu öðru. 2007 hugsunarhátturinn varðandi óþolinmæðina gagnvart gagnlegri þróun í atvinnumálum virðist sífellt leita fram í endalausri skammtímagræðgi gullgrafarahugsunarháttarins. 


mbl.is Fjöldi ferðamanna ekki aðalatriði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vel mælt Ómar,vel mælt.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 12.2.2017 kl. 12:46

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Erlendir ferðamenn koma hingað til Íslands vegna þess að þeir vilja það sjálfir, ekki hægt að banna þeim það og dýrt fyrir þá flesta að ferðast hingað, hvað þá að dvelja hér á Íslandi.

Því er engin sérstök ástæða til að plokka hér meiri peninga af þeim.

Þorsteinn Briem, 12.2.2017 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband