Tilgangurinn, Trump ofar öllu, virðist helga öll meðöl.

Öll ævisaga Donalds Trumps ber þess merki, að leitun sé að manni í veraldarsögunni, sem hefur sett sig sjálfan í meiri forgang eða sem meiri miðpunkt alls, eins konar ofurmenni á öllum sviðum. 

Öll hegðun hans virðist hafa snúist í kringum það að hann sé mestur og bestur í hverju sem er, og að vegna þess helgi tilgangurinn meðalið, sem er að koma þessum snillingi efst á stall valda og auðæfa.

Þannig hefur hann haldið því fram að hafa verið besti hafnarboltamaðurinn í heimaborg sinni á unglingsárunum þótt engin gögn liggi fyrir um það.

Og hann hefur líka haldið því fram að hann hafi haft sigur í öllum sínum ótal málaferlum og gjaldþrotum, þótt flest ef ekki öll gögn bendi til annars.

Þessi saga er raunar ekki ný, því að í gegnum árþúsunda langa sögu mannkyns hafa slíkar persónur hvað eftir annað safnað að sér fylgismönnum, sem trúa á "hinn sterka leiðtoga" í tilbeiðslukenndri aðdáun og finnst öryggi sínu best borgið undir verndarvæng ofurmennisins. 

Enda ala þessi mikilmenni iðulega á umkomuleysi, ótta, óánægju og öryggisleysi sem flestra til þess að geta skapað sér aðstöðu til þess að gerast einhvers konar bjargvættur. 

Raunar virðist það ekki skipta neinu fyrir Trump að hafa nein gögn í höndum í málatilbúnaði, heldur hafa hann og hans menn búið til nýtt hugtak, "alternate truth" eða "alternate fact", sem þýða mætti með íslenska nýyrðinu "sannlíki."

Í gærkvöldi sást á sjónvarpsskjánum háðsádeila en jafnframt hrollvekjandi lýsing sjónvarpsmannsins John Olivers á dæmum um þetta, og rakið eitt afbrigðið, hvernig Trump leitar að verstu og ósvifnustu fréttaveitum í sjónvarpi vestra til að horfa á, og tekur síðan hin ótrúlegustu ummæli og býr til úr þeim hinn nýja sannleika, sem byggist ekki á neinum gögnum, heldur innantómum upphrópunum öfgafyllstu manna, sem hægt er að leita uppi í fjölmiðlum.

Oliver sýndi til dæmis feril þess sannlíkis, að tveir milljónir atkvæða í Kaliforníu hefðu verið kolólögleg í forsetakosningunum.

Engin tilviljun er að þetta eigi að hafa átt sér stað í Kaliforníu, því að þar hafði Hillary Clinton einna mest fylgi. 

Tilgangurinn er að draga úr trúverðugleika kosninga vestra á svo áberandi hátt, að þau úrslit, að Trump fékk hátt í þremur milljónum færri atkvæði á landsvísu en keppinauturinn, verði véfengd en hins vegar ekki véfengd úrslitin í kjörmannakosningunni. 

Í kappræðum við Clinton sagði Trump alveg blákalt, að ef hann tapaði, myndi hann kæra úrslit kosninganna og fá þeim hnekkt, en ef hann sigraði, myndi hann ekki gera það!  

Eftir að einn maður hafði talað opinberlega um tveggja milljóna atkvæða kosningasvindl í Kaliforníu, án þess að hafa neitt fyrir sér í því efni, fór hver kverúlantinn af að éta þetta upp eftir öðrum, og vegna þess að hinn mikli "raunveruleikasjónvarpsmaður" Trump virðist í sínu mikla og einhliða sjónvarpsglápi sjá þetta og heyra nógu oft á skjánum, fer hann að tala um það sem viðurkenndan sannleika. 

Að nefna ákveðna tölu, tvær milljónir, gerir sannlíkið sennilegra. 

Næsta skref er síðan að jábræður Trumps, sem hann hefur safnað í kringum sig, éta þetta upp eftir honum hver sem betur getur og láta að lokum nægja að vitna í Trump einan, því að hann sé boðberi sannleikans og orðinn forseti og ofar öllu. 

Í þessari furðulegu hirð Trumps étur síðan hver upp eftir öðrum þetta bull vikum saman í síbylju þangað til þetta hefur breyst í úr sannlíki í hreinan viðurkenndan sannleika. 

Þetta er hrollvekjandi fyrirbæri þegar búið er að búa til haug af slíkum sannlíkisfréttum sem hver um sig er eins og risavaxin Lúkasarfrétt á heimsvísu. 

Af því að sannlíkið, Lúkasarfréttaflutningurinn mikli, rímar ekki við það sem virtustu fréttaveiturnar hafa hingað til greint frá, er hafinn upp skefjalaus áróður gegn fjölmiðlum, sem beinist augljóslega að því að grafa undan tiltrú á fjölmiðlum almennt og stimpla þá sem varga í véum. 

Meðal þeirra sem Trump hefur þegar hyglað í breytingum á reglugerðum, eru vellríkir kolanámueigendur, sem hafa verið þekktir fyrir illa meðferð á námumönnum áratugum og jafnvel öldum saman.

Trump auðveldar þessum lagsbræðrum sínum með annarri hendinni til að græða á því að fá aukið frelsi til að eitra umhverfið og níðast á starfsmönnum sínum við hættulegar aðstæður, en býður síðan með hinni hendinni fulltrúum kolanámummanna í Hvíta húsið, fyrstur allra forseta Bandaríkjanna, til þess að þeir geti þar dáðst að Foringjanum, kysst á vöndinn og þakkað "Uber alles" fyrir að tryggja hag og vöxt kolanámufyrirtækja og þar með auðkýfinganna, sem eiga þær. 

Já, þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur. 

Og á þessum aðferðum og þessu hugarfari eiga síðan stjórnmál Bandaríkjanna og gangur heimsstjórnmála að byggjast. 

Gangur stjórnmála í stórveldi og heimsstjórnmálin þar með, hefur áður byggst á sannlíki og tilbeiðslu á Foringja, sem átti að vera ofurmenni og það er athyglisvert eftir á, út í hvílíkar öfgar og ósköp þetta fyrirbæri getur leitt ef það fær að vaxa í skjóli andvaraleysis. Vonandi gerist slíkt aldrei aftur. 

Fyrir rúmum 80 árum varð til sannlíki mikils Foringja, snillings og ofurmennis, um tilvist ofurmennakynstofnsins Aría og voru þróuð mikil vísindi í kringum það og sannlíkið um "óæðri og óæskilega kynþætti" svo sem Slava og Gyðinga. Boðskapurinn var að einn kynþáttur og ein þjóð væri á nánast guðlegan hátt og jafnvel vísindalegan (þróunarkenning Darwins), útvalin til valda og að til þess þyrfti "lífsrými" og yfirráð Aríanna yfir óæðri kynþáttum og löndum þeirra og útrýming óæskilegs kynþáttar, Gyðinga.

Þess vegna þyrfti að hreinsa til og það dugði ekki minna en heil heimsstyrjöld til þess að fylgja þessari "háleitu" hugsjón eftir.

Fyrir löngu er búið að afhjúpa það bull sem kenningin um Aríana var, en síbyljukenning Göbbels um að ef lygin væri endurtekin nógu oft yrði hún að sannleika, réði ferðinni í ótrúlega langan tíma.  


mbl.is Ítrekuð samskipti við Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mjög vel skrifað, Ómar Ragnarsson.

Þorsteinn Briem, 15.2.2017 kl. 11:03

2 identicon

Tek undir orð Steina Bríems. Mjög vel skrifað, enda Ómar Ragnarsson með bestu pistlahöfundum.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 15.2.2017 kl. 12:06

4 identicon

Sko Jónas, í fyrsta lagi er það tímasóun að biðja fyrir einhverjum, í öðru lagi eru Trump og Putin stórhættulegir geðsjúklingar... þeir munu aldrei stýra neinu nema beint í glötun

DoctorE (IP-tala skráð) 15.2.2017 kl. 13:28

5 identicon

Elvis Prestley sagði réttilega að fjölmiðlar gerðu ekkert annað en að ljúga. Þeir hafa versnað margfalt síðan. Það eru enn einhverjar risaeðlur sem trúa öllu sem stórfyrirtækja fjölmiðlarnir mata ofan í þá. Ég er reyndar bjartsýnni á að Trump muni kannski láta eithvað gott af sér leiða, úr því að hann er svona óvinsæll hjá stórfyrirtækjunum.

Benni (IP-tala skráð) 15.2.2017 kl. 14:13

6 identicon

Jónas Gunnlaugsson (12:57). A little girl in the sixth grade of a Sunday school asked Albert Einstein. „Do scientists pray?“ Einstein took her seriously. „Scientific research is based on the idea that everything that takes place is determined by the laws of natura, and this holds for the action of people,“ he explained. „For this reason, a scientist will hardly be inclined to believe that events could be influenced by a prayer, i.e. by a wish addressed to a supernatural Being.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 15.2.2017 kl. 14:35

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hvorki hefur verið sannað né afsannað að einhverjir guðir eða álfar séu til, enda er um trú að ræða í báðum tilfellum en ekki vísindi.

Þorsteinn Briem, 15.2.2017 kl. 14:41

8 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Meistari,  Meistarar, DoctorE ,  Benni

Heimurinn er skapaður úr hugsun, viðleitni.

Bænin er til að hugsun og viðleitni okkar komi inn í heiminn og vaxi þar.

Ef við búum til góða hugsun, góða viðleitni, góða sköpun, þá verður veröldin þannig.

Bænin er að við setjum í gang heilnæma, æskilega, hugmynd, viðleitni sem verður sköpun.

Mest af kennslunni í dag e fáum við sem auglýsingar frá fyrirtækjunum, og fjölmiðlunum sem skrifa það sem eigendurnir vilja.

Okkar fjölmiðlar endurtaka það sem erlendu fréttastofurnar eru látnar segja okkur.

Við sjáum aldrei að fjölmiðlarnir kenni okkur að peningur er aðeins bókhald.

Fjölmiðlarnir ættu að segja okkur að sá sem á peningaprentunina, eignast allt sem við gerum.

Þið getið frætt heiminn, og eigið að gera það.

Egilsstaðir, 15.02.2017  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 15.2.2017 kl. 14:50

9 identicon

Trú er fancy nafn yfir fáfræði sem fólk kaupir vegna innrætingar sem og hræðslu við dauðann.

Það er ekki til eitt einasta atriði í allri sögu okkar sem bendir til að guðir séu nokkuð annað en eitthvað sem menn sköpuðu... þetta var lengi vel og er enn bara pólitík með yfirnáttúrulega hræðslu ívafi.

DoctorE (IP-tala skráð) 15.2.2017 kl. 15:13

10 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Meistarar, Haukur Kristinsson og Steini Briem +

Það var haft eftir Einstein að hann hafi sagt: Mig langar að vita hvað Guð er að hugsa.

Ekki er ólíklegt að Einstein hafi haft í huga hvað hann mætti segja við litlu stúlkuna, til að æsa ekki  skólayfirvöld, sem trúðu auðvitað þáverandi nústaðreynda trú.

Einstein, og flestir á hans tíma, nema Tesla, töldu að eterinn sem fyllti  rúmmið væri vitleysa.

Nú í dag höfum við endurreist eterinn, en köllum hann súpu.

Skoðið þið Holograph heiminn og Skammta kenninguna, leita á Google, set hér nokkrar slóðir verð að hlaupa.

Þakka ykkur fyrir kennsluna, skoðið þið nústaðreyndatrúna og sköpunina.

Bið ykkur vel að lifa.

Egilsstaðir, 15.02.2017  Jónas Gunnlaugsson

Verum fulltrúar gnægta, lausna.

21.4.2013 | 16:32

Skapararnir og Nú staðreynda trúar fólkið.

28.6.2015 | 17:13

 Allar smáeindirnar í efninu, eru aðeins orkusúpa, en um leið og við leikendurnir í holograminu horfum á súpuna, skynjum við eterinn, súpuna sem efni. Myndin sem við lifum í holograminu er aðeins til í hugskoti okkar.

25.2.2016 | 02:33

Jónas Gunnlaugsson, 15.2.2017 kl. 15:22

11 Smámynd: Halldór Jónsson

Mikið glórulausir fordómar eru þetta hjá þér Ómar minn. Kjósendur kusu Trump eins og hann er og hann er að stjórna fyrir þá sem samsam sig við hann.

Samlíkingar þínar á honum við Dolla og Göbba eru fáránlegar eins og það væri að líkja þér við Ingjaldsfíflið í sögubókinni og þesssvegna gætir þú ekki til dæmis flogið eða skrifað blogg?

Halldór Jónsson, 15.2.2017 kl. 23:05

12 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Mestallt satt og rétt hjá Ómari.

Það hlýtur að vera öllum sjánlegt núna, það sem skynsamir menn sögðu fyrir, - að þessi Trump maður er gjörsamlega eins óviðfelldinn pólitíkus og hugsast getur.

Ofsa-hægri bull og vitleysa einhver.

Maðurinn virðist líka eiga við einhverja erfiðleika að stríða, annaðhvort bara vitlaus eða ótrúlega illa innrættur og ljótur hið innra.

Það er ekkert að tilefnislausu að öll heimsbyggðin hefur áhyggjur.

Varðandi stjórn Trumps, að þá er þegar ljóst að kallinn er bæði van- og óhæfur.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 16.2.2017 kl. 12:37

13 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Við skulum varast að stimpla þá rasista sem hafa aðra skoðun, en við.

Þegar við upphefjum okkur þá er það af þörf  okkar til að hljóta viðurkenningu.

Hyggjum að hugmyndinni, málefninu. 

Er verið að segja okkur satt.

Þeir sem vit hafa á tölvum og gagnageymslum, geta frætt okkur um allskonar spillingu og undirferli.

Er ekki sjálfsagt að hreinsa út?

Það er ágætt að tölvunördar upplýsa um svindl og óheilindi.

Allir nema Jón og Gunna fá að vita um svindlið frá tölvugúrúunum.

Jafnvel virtustu fréttastofur voru keyptar til að eigendurnir gætu haft stjórn á fréttaflutningnum.

Nú hamast stjórnkerfið við að búa til lög til að banna að upplýsa um svik og pretti.

Egilsstaðir, 17.02.2017  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 17.2.2017 kl. 13:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband