Hreina loftið, sem gumað er af, klikkar. Ekki orð um ástæðuna.

"Styrkur brennisteinsvetnis fór í dag yfir heilsuverndarmörkin." "Full ástæða til að fylgjast með loftgæðum í dag og næstu daga." 

Maður spyr: Til hvers? Það er ekki sagt orð um ástæðuna fyrir þessu eitraða lofti og því síður um það hvernig maður á að forðast það. Fara úr borginni? 

Landið og Reykjavík þar með er auglýst sem land hins hreina lofts og vatns til að draga að erlenda ferðamenn.  Einnig sem land hinnar "hreinu og endurnýjanlegu orku". 

Út á þetta fékk Reykjavík umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.

En vesalings Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur verður að auglýsa um hið slæma loft, því að annars væri það að bregðast skyldum sínum.

Hér verður sett fram tilgáta um það afhverju styrkur brennisteinsvetnis er yfir mörkum:

Fyrir rúmum áratug var rokið í það að reisa Hellisheiðarvirkjun í viðbót við virkjunina á Nesjavöllum.

Auglýst var í aðdraganda virkjunarinnar að "hrein og endurnýjanleg orka" væri svo mikil undir Hellisheiði, að hægt væri að reisa 1000 megavatta virkjun, tífalt stærri en Nesjavallavirkjun.

Látið var nægja að reisa 303 megavatta virkjun og sagt að eins fullkomnar og vandaðar rannsóknir og undirbúningur væru fyrir hendi og kostur væri á.

Eftir á hefur komið í ljós, að forsendurnar fyrir "endurnýjanlegu orkunni" voru að orkan entist í 50 ár, sem er víðsfjarri því að fela í sér sjálfbæra þróun, ekki frekar en að kolanáma þarna teldist endurnýjanleg með svo stuttum nýtingartíma.

Og enn síðar kemur í ljós að 50 ára endingin er líka fjarri, því að nú er upplýst að orka upphaflegs nýtingarsvæðis Hellisheiðarvirkjunar er fallin úr 303 megavöttum niður í 225, eða um fjórðung og að svartnætti hefði verið framundan í fyrra ef ekki hefði komið til auka orka frá Hverahlíð, sem þó bætir aðeins upp 50 megavött af þeim 78, sem þurfti að bæta upp.  

Við blasir að allir kostnaðarútreikningar fyrir sölu á raforku til stóriðju verða rangir og að Reykvíkingar eiga eftir að blæða fyrir þetta allt, líka með ófullnægjandi loftgæðum.

Þeir sem stóðu að Hellisheiðarvirkjun, eru á bak og burt frá henni og hafa látið öðrum um að reyna að þrífa upp skítinn og tapið og vandræðin.  

Fólkið, sem nú vinnur við það, er ágætasta fólk, sem reynir að gera sitt besta, til dæmis með niðurdælingu sem gæti dregið úr eitrun loftsins.

En það dugar greinilega ekki til.

Enginn hefur minnst á það að hinir upprunalegu ábyrgðarmenn verði látnir svara fyrir það sem gert var, hvað þá að taka á sig nokkra ábyrgð.   


mbl.is Styrkur brennisteinsvetnis yfir mörkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í dag á ruv.is:

"Styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti er nú yfir heilsuverndarmörkum í Reykjavík.

Vegna veðuraðstæðna er líklegt að styrkurinn verði áfram hár í dag og næstu daga.

Brennisteinsvetnismengun á höfuðborgarsvæðinu kemur að nánast öllu leyti frá jarðhitavirkjunum á Hellisheiði, samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirlitinu.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að Heilbrigðiseftirlitið hafi einnig bent á að styrkur svifryks hafi í morgun verið yfir heilsuverndarmörkum við Grensás í Reykjavík.

Styrkurinn þá var 67,45 míkrógrömm á rúmmetra en sólarhrings heilsuverndarmörk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.

Styrkur niturdíoxíðs hefur einnig verið hár undanfarna daga.

Sú mengun kemur aðallega frá bifreiðum og er mest á morgnana og síðdegis þegar umferð er mest."

Þorsteinn Briem, 1.3.2017 kl. 16:11

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

18.1.2013:

"Morgunútvarpið hefur fjallað um brennisteinsvetni í andrúmsloftinu i vikunni, það er að segja mengun frá Hellisheiðarvirkjun sem berst yfir íbúðabyggð, til dæmis á höfuðborgarsvæðinu.

Mengunin getur valdið fólki óþægindum og til að mynda eru vísbendingar um að sala á astmalyfjum aukist í kjölfarið á mengunartoppum frá virkjuninni.

En brennisteinsvetni hefur áhrif á fleira, meðal annars er ýmiss konar tækjabúnaður viðkvæmur fyrir þessari mengun og til dæmis rekja tæknimenn í Útvarpshúsinu margvíslegar bilanir til mengunarinnar."

Þorsteinn Briem, 1.3.2017 kl. 16:19

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Allt er þetta satt og rétt, Steini. 

Ómar Ragnarsson, 1.3.2017 kl. 16:33

4 identicon

Hárrétt, að þessu sinni hjá þér, Ómar. "Hreina, vistvæna og endurnýjanlega" íslenska orkan er tálmynd, enn ein falsfrétt íslenskra stjórnmálamanna og fjölmiðla.

Hellisheiðarvirkjun er rekin með tapi, afskriftir upp á hundruði milljarða blasa við Reykvíkingum og/eða ógnvænleg hækkun á orkuverði.

Í þetta skipti er um manngert umhverfisslys að ræða. Nánast allir núverandi stjórnmálaflokkar í Reykjavík, í núverandi meiri/minnihluta tóku þátt í feigðarflaninu - og ekki má gleyma álitsgjöfunum og "sérfræðingunum".

Ábyrgðin er sannarlega vanhæfra stjórnmálaflokka.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 1.3.2017 kl. 17:34

5 identicon

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/03/01/styrkur_brennisteinsvetnis_eykst/

GB (IP-tala skráð) 2.3.2017 kl. 08:41

6 identicon

Ók yfir Hellisheiði kl 22 í gær.

Þegar komið var niður á Sandskeið var ekið í gegnum þétta, illa lyktandi, jarðlæga þoku sem máði upp í nokkurra metra hæð.
Vel sást í stjörnur og norðurljós upp úr þokunni  og hún minnti á Norðlenska dalalæðu -en lyktaði verr.

Sé í fljótu bragði ekki aðra ástæðu fyrir þessu fyrirbæri en gas og gufu úr virkjuninni sem hfur kólnað, sigið til jarðar og skriðið undan brekkunni niður á flatlendið við Sandskeið.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 2.3.2017 kl. 08:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband