Níunda rassskellingin hjá Hæstarétti, gætu verið fleiri?

Síðast þegar rýnt var í það hve oft Mannréttindadómstóllinn í Strassborg hefði rassskellt Hæstarétt fyrir að fara ekki eftir mannréttindasáttmálum, voru þær átta. 

Sé það rétt er þetta sú níunda. Fyrstu og frægustu rassskellingarnr voru í máli Þorgeirs Þorgeirssonar og Jóni hjólreiðamann á Akureyri, en sá síðarnefndi varð, þótt tilefnið virtist lítið, til þess að taka varð upp dóms- og réttarkerfið á Íslandi frá grunni. 

Rassskellingarnar gætu hugsanlega hafa orðið fleiri, því að það hafa ekki allir efni á því að fara með mál sín til Strassborgar. 

Sem dæmi má nefna úrskurð Hæstaréttar varðandi aðild fjölmennra félagasamtak náttúruverndar- og útivistarfólks, sem stóð í þeirri trú að nýlögtekinn Árósarsamningur hér á landi, löngu á eftir öðrum Evrópuþjóðum, myndi veita því lögaðild að lagningu Álftanesvegar.

Árósasamningurinn er einmitt með þann yfirlýsta tilgang að veita slíkum hópum og samtökum lögaðild að framkvæmdum á borð við þennan veg.

Venjulega eru úrskurðir Hæstaréttar um hliðstæð atriði stuttorðir, en í þetta sinn dugði ekkert minna en tíu blaðsíðna langloka til þess að réttlæta það óréttlæti, að tilgangur og innihald Árósasáttmálans gilti ekki um Hraunavini, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands eða allt útivistar- og göngufólkið sem naut fyrrum þess svæðis ósnortins og tiltölulega nýs hrauns, sem var rústað á óafturkræfan hátt með þessum vegi.

Það gæti kannski orðið níunda rassskellingin ef fé og aðstaða fengist til að vísa því máli til Strassborgar. En í þess stað eiga níu einstaklingar að síðustu málaferlunum út af Gálgahraunsmálinu fullt í fangi með að greiða þann kostnað, sem þegar er orðinn af málinu.  


mbl.is Fimmta áminningin til Hæstaréttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómars mörg er ferleg frétt,
fól fá skell á rassinn,
hrollur fer um Hæstarétt,
hér er reisupassinn.

Þorsteinn Briem, 16.3.2017 kl. 22:16

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Í einhverjum miðli sá ég í gær að þetta var í 5. sinn vegna tjáningarfrelsisins.

Er það víst að þetta sé algengara hjá íslenskum dómstólum en evrópskum?

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.3.2017 kl. 16:41

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef miðað væri við fólksfjölda myndu fimm dómar vegna tjáningarfrelsisins á Íslandi samsvara um þúsund dómum í Þýskalandi.  

Ómar Ragnarsson, 17.3.2017 kl. 21:02

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég held að það sé vafasamt að nota höfðatöluna á þetta. Þarna eru fleiri breytur. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.3.2017 kl. 17:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband