"Skóreimamarkið" var einstakt.

Svonefnt "skóreimamark" sem þeir FH-ingarnir Geir Hallsteinsson og Gunnar Einarsson skoruðu hér um árið er hugsanlega eina slíka handboltamarkið, sem skorað hefur verið. 

Markið var einstakt á að horfa og það ætlaði allt um koll að keyra í Laugardalshöllinni, þegar það var skorað, ekki aðeins vegna þess hve þetta var einstakur atburðu, heldur vegna þess að fólk skiptist í tvo hópa varðandi það hvort það væri löglega skorað. 

Málavextir voru þeir að Gunnar var afar góður, léttur lipur og tekniskur handboltamaður, enda lærisveinn Geirs Hallsteinssonar og var talað um hann sem hugsanlegan arftaka hins mikla snillings. 

Án þess að það hefði frést út í frá höfðu Gunnar og Geir æft vandlega á æfingum ákveðna tegund af nokkurs konar sirkusmarki og framkvæmd bragðsins tókst fullkomlega þegar þeir létu til skarar skríða í alvöru handboltaleik. 

Bragðið byggðist á því að Geir var á skóm, þar sem önnur skóreimin virtist hafði losnað í miðjum leik. 

Hann fékk boltann og hljóp ógnandi nokkur skref með hann á ská í átt að marki andstæðinganna, líkt og hann ætlaði að stökkva upp, brjótast í gegn eða skjóta með lágskoti, en "fintur" af ýmsu tagi voru sérgrein Geirs.

En í þetta sinn stoppaði hann skyndilega með boltann fyrir utan vörnina, beygði sig eldsnöggt niður til að hnýta skóreimina en sendi boltann í sömu andrá aftur sig beint í hendur Gunnars sem kom hlaupandi utan af vellinum hinum megin í átt að Geir. 

Gunnar hljóp upp á afturhluta baks Geirs, nákvæmlega á því augnabliki þegar hann var búinn að beygja sig alla leið niður að lausreimaða skónum, og notaði Gunnnar bak Geirs eins og stökkbretti til þess að stökkva svo hátt með boltann, að hann gat skotið yfir vörnina sem var framundan og skorað glæsilegt mark án þess að nokkrum vörnum yrði við komið.

Ég vona að þetta sé rétt lýsing í meginatriðum en mig minnir dómararnir hafi dæmt markið löglegt.

Um þennan dóm var deilt eftirá en það er erfitt að sjá hvað var í raun ólöglegt við þetta.

Maðurinn, sem hleypur upp á bak hins, verður að vera mjög léttur og fimur, og varla á færi nema snillings eins og Geirs að framkvæma það jafn snilldarlega og hann gerði að hægja á sér með boltann, beygja sig niður og senda boltann til samherjans um leið og hann bar hina hendina að lausu skóreiminni.

Þar að auki er erfitt að endurtaka þetta eftir að búið er að gera það einu sinni, því að tiltölulega auðvelt er að trufla framkvæmdina ef mótherjarnir vita um að hugsanlega muni þetta verða reynt.  

 


mbl.is Markið sem allir eru að tala um (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband