Er þetta ekki starf sem vert væri að sækja um?

Mikið er kvakað víða í sveitum landsins um bagalega fólksfækkun. Eitt ráð við slíku liggur eðli málsins beint við, en það er að auka frjósemi bænda og því eðlilegt að slíkt skilyrði sé sett hjá stefnuvottum, sem ferðast víða um Suðurlandsundirlendið, - að þeir miðla af þekkingu sinni, ef þeir eru hoknir af reynslu á þessu sviði í bókstaflegri merkingu, og geta nefnt óyggjandi tölur í því efni.

Eru áreiðanlega fáir betur til þess fallnir en slíkir menn til að veita bændum góðar frjósemisleiðbeiningar og aðstoða þá eftir megni. .

Það liggur beinast við að álykta sem svo, að því lengri reynsla og árangur sem býr að baki hjá umsækjendum um svona starf, því meiri von sé á árangri af leiðbeiningum, bæði skriflegum og verklegum.

Þótt ég verði 77 ára á þessu ári er ég enn ágætlega heilsuhraustur, stunda líkamsrækt og hleyp til dæmis með mælingu skeiðklukku í hverri viku upp stiga í blokkinni, sem ég bý í, frá kjallara upp á fjórðu hæð í einum rykk á undir 30 sekúndum til þess að fylgjast sem best með snerpu og þreki.

Þessi árangur í því að fara uppá þá fjórðu og ágæt önnur hreysti, auk þess að vera faðir sjö barna, 21 barnabarns og eins barnabarnabarns, hlýtur að vera akkur í svona starfi.

Kannski er bara hið besta mál að sækja um og skella sér í þetta, ef maður er ráðinn.

Og það yrði viðeiganndi, bæði þjóðlegt og dreifbýlislegt, að texti erindisbréfsins yrði í bundnu máli: 

 

Með líkömum stinnum og sterklegum

má stirðlega elskhuga gera´að sér hænda

á fullu í fjörugum, verklegum

frjósemisleiðbeiningum til bænda.  


mbl.is Óvenjulegar kröfur hjá sýslumanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Oft hann upp á fjórðu fór,
í firna góðu standi,
ekkert verður slen og slór,
á Suður- öllu landi.

Þorsteinn Briem, 24.3.2017 kl. 03:12

2 identicon


Hoppar og skoppar um hæðir og hlað,
háir hvorki mæða né helti.
En húmorinn helst á sama stað,
hangandi fyrir neðan belti.

Hábeinn (IP-tala skráð) 24.3.2017 kl. 09:21

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk fyrir stökurnar, piltar. En miklu veldur sá sem upphafinu veldur, en samkvæmt mbl.is-fréttinni voru það sýslumannsembættið á Suðurlandi og Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Ómar Ragnarsson, 24.3.2017 kl. 09:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband