"Ekkert er ókeypis"?

Það hefur verið sagt að engin vara né þjónusta sé í raun "ókeypis". Að baki liggi alltaf kostnaður eða vinna, sem meta megi til peninga. 

"Costco-æði" er nýtt orð, sem meðal annars speglast í því að fyrr í dag höfðu 68 þúsund manns skráð sig inn á sérstaka facebook- síðu áhugafólks um Costco og verðið á söluvörunni þar. Kannski verður talan komin í 100 þúsund á morgun, sem er helmingur allra kjósenda á Íslandi. 

Nú hefur framkvæmdastjóri FÍB fært að því rök að Costco leggi 15% álagningu á eldnsneyti og fölnar þá aðeins trú sumra á það að álagningin sé engin. 

Að vísu er til dæmi um afnám einokunar hér á landi, sem bendir til þess að tímabundið hafi þeir tveir aðilar, sem þá hófu að keppa um hylli neytenda, það er, að farþegar í áætlunarflugi innanlands hafi flogið með keppinautunum fyrir verð, sem var það lágt, að ekki aðeins hafi það falið í sér enga álagningu, heldur meðgjöf. 

Þetta gerðist með því að Íslandsflug bauð helmingi lægra fargjald en Flugfélag Íslands, sem hafði haft einokun á helstu flugleiðum innanland. 

Flugfélagið svaraði með því að lækka sitt verð líka um helming, og vegna þess að bakhjarl þess, Icelandair, var margfalt sterkari en bakhjarlar Íslandsflugs, þoldi Flugfélagið lengur að bjóða svona lágt verð, þannig að Íslandsflug gafst upp, og síðan hefur Flugfélag Íslands haft einokun á þessum flugleiðum. 

Ekki leið á löngu þar til flugfargjöldin höfðu hækkað það mikið að nýju, að þau voru orðin nokkurn veginn jafn há og fyrr. 

Af því mætti draga þrjár spurningar:

1. Töpuðu bæði flugfélögin á rekstrinum á meðan á samkeppninni stóð?

2. Ef þau töpuðu, sem hlýtur að hafa verið raunin, hve mikið var það tap? Og var flugið í raun á "gjafverði"?  Ef það var tap á rekstrinum, hvaðan komu þeir peningar, sem þurfti til að borga það tap?  Frá gróða á öðrum sviðum í umsvifum þessara félaga?

3. Veldur einokunin því, að okrað sé á neytendum? Hvers vegna getur á stundum verið álíka dýrt að fljúga milli Akureyrar og Reykjavíkur og á milli Íslands og meginlands Evrópu, allt að tíu sinnum lengri leið?

Og síðan fleiri spurningar. Á vöruverðið eftir að verða jafnara en nú er á þeim markaði, sem Costco hefur áhrif á?  Og hefur verið okrað hingað til á neytendum á einstökum vörum á þeim markaði?


mbl.is Telur Costco leggja 15 kr. á lítrann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eftir lestur þessa pistils og margra annara fæ ég það á tilfinninguna að innbyggjum sé farið að líða skelfilega ílla útaf því að nú er komin verslun sem ætlar sér ekki að okra á þeim eins og verslanir á skerinu hafa gert.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 30.5.2017 kl. 20:36

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Olíufélögin hafa haldið því fram að álagning þeirra sé afar lítil og hátt bensínverð ekki þeim að kenna. Olífélögin hafa brugðist við lægra verði hjá Costco með því að fullyrða aðað álagning þeirra sé engin og að jafnvel sé um meðgjöf að ræða, í þeim annarlega tilgangi einum að lokka viðskiptavini til sín. Þau gefa í skyn að þetta sé tímabundið hjá Costco. Við sjáum til með það.

Fyrir samkeppni í fluginu innanlands, áður en Íslandsflug kom til sögunnar, voru fargjöldin ekki bara dýr, heldur var stundvísinni hjá Flugfélagi Íslands afar ábótavant og gárungarnir kölluðu flugfélagið Later. (Late air) Flugfélag Íslands drap samkeppnina með undirboðum og þeir urðu stundvísari. Í dag er dýrara að fljúga innanlands en nokkru sinni fyrr en hluti hærra verðs má að örlitlum hluta skrifa á hærri lendingargjöld sem sett voru á eftir hrun og réttlætt með tvennu, ríkissjóður þurfti meiri tekjur og skattleggja þurfti blessaðan koltvísýringinn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.5.2017 kl. 20:55

3 identicon

Sæll Ómar.

Fyrr og síðar hefur það verið þannig
að ríkir sem og aðrir í þeirra stöðu
hafa getað gengið að afslætti vísum
út um alla tranta og trissur.

Þeir hafa að sjálfsögðu glaðir teki við
þessari ölmusu og gengið að henni sem vísri.

Nú bregður svo við þegar sauðsvartur almúginn,
- skríllinn á Íslandi - á loksins kost á að kaupa
vörur að ógleymdu benzíni á verulegum afslætti
að flest er fundið Costco til foráttu og er engu
líkara en að menn hafi fengið gott afbrýðisemiskast
yfir því öllu!

Háð þeirra og hnjóð skýrist í því ljósi einu!!

Húsari. (IP-tala skráð) 30.5.2017 kl. 21:55

4 identicon

Framkvæmdastjóri FÍB færði ekki fyrir því rök að Costco væri með 15% álagningu á eldnsneyti. Framkvæmdastjóri FÍB áætlaði að Costco leggði 15kr á eldnsneytislítran."..„Miðað við for­send­urn­ar á heims­markaði í dag þá erum við að sjá að álagn­ing­in hjá Costco gæti verið í kring­um fimmtán krón­urn­ar, gróft áætlað..." Það er töluverður munur á því að áætla eitthvað gróflega eða færa fyrir því rök. Auk þess sem hann virtist ekki viss um að hafa talið allar álögur ríkisins.

Einhver taldi að Costco ætti eftir að laga verðin hjá sér. Vatn á 11 krónur þegar skilagjaldið af umbúðunum eru 16 krónur skilar engum gróða og greiðir engin laun. Ef Costco er að selja vörur undir kostnaðarverði er hæpið að nokkur fari að keppa við þá í verðum. Þeir hætta frekar að selja þær vörur sem fást í Costco og loka búðum í nágrenninu.

Hábeinn (IP-tala skráð) 30.5.2017 kl. 23:23

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

FÍB er úti að aka.

Þorsteinn Briem, 30.5.2017 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband