Mótsagnirnar í hinni "mikilfenglegu Ameríku."

Margt er mótsögnum hlaðið í hinni "mikilfenglegu Ameríku" sem forseti BNA þráir svo mjög. Á bandarískan mælikvarða þykir hægri mönnum þar í landi Demókratar vera nánast sósíalistískur flokkur, jaðra við kommúnisma. 

En á íslenskan mælikvarða er þessi flokkur hægra megin við allt íslenska flokkalitrófið. 

John F. Kennedy hefði aldrei komist til valda með sínar hugsjónir ef hann og ætt hans hefðu ekki verið vellríkt fólk. 

Raunar eru völd stjórnmálamanna vestra byggð á peningum, því að Hæstiréttur landsins hefur úrskurðað að engin takmörk megi setja á fjármögnun kosningabaráttu og stjórnmálastarfsemi í landinu. 

Af því leiðir eitthvert spilltasta þing á Vesturlöndum, þar sem þingmenn verða að eyða meirihluta vinnu sinnar í að þjóna þeim auðjöfrum, stórfyrirtækjum og fleirum, sem fjárfestu í þeim til þess að geta haft áhrif á þingið og störf þess. 

Tilsýndar er erfitt að sjá að húsið, sem Obama var að kaupa, sé 800 milljóna króna virði, þótt stórt sé. En margt í Bandaríkjunum er verðlagt talsvert öðru vísi en við eigum að venjast.  

Það fylgir sögunnni að húsið sé í "dýru", fínu hverfi. 

Slík hverfi er víða að finna vestra og minnisstætt er slíkt hverfi í borginni Avon í Klettafjöllunum í Colorado, sem við Helga sáum í ferð okkar vestra 2003. 

Borgin gerir út á það að vera "fínasta og dýrasta" skíðaborgin vestra og hinir ríku búa þar í sérstöku hverfi með glæsivillum. Við urðum að virða dýrðina fyrir okkur tilsýndar, því að hverfið er umgirt mannheldri girðingu og með öryggisgæslu allan sólarhringinn. 

Og verðlagið á húsunum er himinhátt, langt umfram íslensk verðmætamat. 

Á sínum tíma bjó Tage Erlander forsætisráðherra Svíþjóðar í ósköp venjulegri íbúð í blokk. 

Og virtist bara vera sæll og ánægður með það.

Ekki er ég viss um að íbúarnir í "dýra, fína" hverfinu í Avon séu haldnir meiri hugarró og hamingju en hinn hógværi sænski forsætisráðherra.   


mbl.is Obama keypti hús á 800 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Ætlar þú í alvöru að halda því fram að þetta sé öðruvísi hér?

Ásgrímur Hartmannsson, 5.6.2017 kl. 11:37

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Kommúnistinn" Hjölli Gutt býr í blokk, í einni þeirra svörtu nýju í Skuggahverfinu hér í Reykjavík, þar sem fersentímetrinn kostar eina milljón króna.

Þorsteinn Briem, 5.6.2017 kl. 12:55

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef fersentimetrinn kostar eina milljón í Skuggahverfinu kostar hver fermetri 10 þúsund sinnum meira eða 10 milljarða króna. 

Ómar Ragnarsson, 5.6.2017 kl. 15:35

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þetta átti nú að vera grín en grínarar skilja ekki annarra manna grín, eins og mýmörg dæmi sanna.

Þorsteinn Briem, 6.6.2017 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband