Fagætt afreksfólk. Ótrúlegt kraftaverk Stefáns Karls.

Nokkur ógleymanleg atvik og tilviljanir hafa gert Stefán Karl Stefánsson mér næsta nákominn. 

Fyrst sem stórkostlegur leikari og frændi Magnúsar Ólafssonar vinar míns úr Sumargleðinni, síðan sem fágætur afreksmaður í Stjörnuliði mínu, og loks sem afabróðir langafabarns míns, sem heitir Íris Stefánsdóttir.  

Nú stíga þau fram, hann og Steinunn Ólína á einstakan hátt og gefa okkur það sem okkur er öllum dýrmætast, hreinskilni, æðruleysi, uppörvun, kjark og kærleikans visku.

Af þessu tilefni verð ég að segja hér sanna sögu af sannkölluðu kraftaverki, sem Stefán Karl vann í ferð með Stjörnuliðinu á 1000 stráka peyjamót í knattspyrnu í Vestmannaeyjum hér um árið.

Þar lék Stjörnuliðið skemmtikappleik fyrir framan strákaskarann í setningarathöfninni og á þessum árum voru þjóðþekktir snillingar í liðinu, svo sem Magnús Scheving, sem tók svakaleg innköst með heljarstökki áfram auk annarra kúnsta, Árni Johnsen varði markið með lundaháf og ótrúlegustu kúnstir voru framkvæmdar í vítaspyrnukeppni.

En eitt atriði reis upp úr þessu öllu með atviki, sem átti sér enga hliðstæðu í um 30 ára sögu Stjörnuliðsins, og var þó af nógu að taka. 

Hjalti Ursus Árnason var þarna með kraftakeppni þar sem aðeins sterkustu menn eða þrautþjálfaðir aflraunamenn voru gjaldgengir. 

Hjalti skoraði á viðstadda kraftajötna úr Eyjum eða annars staðar frá að taka þátt í keppninni og fór fljótlega þannig, að mönnum voru þessar aflraunir algerlega ofviða og atriðið hikstaði. 

Hjalti beindi þá orðum sínum að okkur, og fölnuðum við þegar hann manaði okkur til að senda þátttakanda úr Stjörnuliðinu, því að augljóst var að enginn okkar ættu minnstu möguleika á öðru en að verða fyrir algerri niðurlægingu. 

Datt okkur helst í hug að einhver okkar gæti fíflast nógu mikið til að leiða athyglina frá niðurlægingunni, og varð úr að Stefán Karl, sem þá var grannur sem rengla, gæti helst notað þennan renglulega vöxt sinn til að vekja hlátur.  

En ég gapi enn í dag við tilhugsunina um það sem Stefán gerði. Það vantaði ekki að hann gerði úr þessu drepfyndið atriði, heldur leysti hann aflraunirnar af hendi þannig að í lokin sneri þetta kraftaverk hans í bókstaflegri merkingu atriðinu alveg við, hann var kraftamaðurinn mesti og gerði atriðið að sínu atriði þegar aðrir glúpnuðu.

Eina skýringin sem ég kann á þessu ótrúlega afreki er sú, að grannir vöðvar Stefáns Karls séu annars eðlis en á venjulegum mönnum.

Kemur í hug hnefaleikarinn Jimmi Wilder, sem var laufléttur væskill en rotað marga tvöfalt þyngri menn.

Við rannsókn á vöðvum Wilders kom í í ljós að trefjarnar í vöðvum og sinum hans voru talsvert frábrugðnar því sem er að jafnaði í mönnum.

Eftir að hafa séð Stefán Karl gera þetta, ganga óhræddur, æðrulaus og hugrakkur til leiks og vinna kraftaverk, veit ég engan honum fremri til að ganga á hólm við þá áskorun, sem nú blasir við honum, og standa uppi sem sannur meistari, hvernig sem fer.

Sendi honum og hans fólki innilegar baráttukveðjur og þakkir fyrir það sem þau gefa okkur öllum með frammistöðu sinni.   

 


mbl.is Veikindi Stefáns Karls langt gengin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tek undir með þér og sendi honum og fjölskyldu hans baráttukveðjur á þessum erfiðu tímum.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 22.6.2017 kl. 19:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband