Baráttukonan hún ömmusystir mín, Björg Runólfsdóttir.

Ég átti því láni að fagna að njóta leiðsagnar og verndar ömmusystur minnar, Bjargar Runólfsdóttur í fimm sumur 1950-54 að Hvammi í Langadal.

Hún var systir hins mikla eldhuga og frumkvöðuls Bjarna Runólfssonar að Hólmi í Landbroti, næst elst níu systkina, fædd 1892.

Eftir að hafa verið vinnuhjú í 40 ár leit út fyrir að draumur hennar um að eignast fjölskyldu og verða frjáls á eigin jörð væri á enda.

Þá kynntist hún Aðalbirni Sigfússyni, giftist honum og þau eignuðust jörðina Hvamm í Langadal, sem taldist ekki til stórbýla í dalnum á þeim tíma, og enn með gamlan torfbæ einan íbúðarhúsa. 

Túnið var lítið og að mestu í brattri brekku, því að neðan brekkunnar tók skriða Hvammsár mikið rými, en norðan hennar voru votlendi og flæðiengi. 

Þau eignuðust tvö börn með árs millibili, hófu að reisa steinhús og virkjun í Hvammsá, skammt sunnan bæjarins, en Bjarni bróðir Bjargar hafði þá, "ómenntaður sveitadrengurinn" smíðað um hundrað túrbínur í jafnmargar smávirkjanir.

En þá dundu áföll yfir, ekki aðeins kreppan mikla, heldur líka náttúruhamfarir.

Í gríðarlegu úrfelli féll mikil skriða niður í gilið, sem Hvammsá rennur um, og stíflaði hana. Þegar stíflan brast kaffærði flóðið og eyðilagði virkjunina og olli miklum spjöllum á þeim hluta túnsins, sem var neðan hlíðarinnar, sem bærinn stóð í.

Við tóku erfið kreppuár og vegna erfiðleika í sambúð Hvammshjónanna skildu þau eftir áratugs sambúð.

Jörðin hafði verið seld ríkinu og eftir stóð einstæð móðir með tvö börn.

Hún ákvað samt að berjast áfram fyrir draumnum um að eignast jörðina aftur. 

Gerð var lítil rafstöð í bæjarlæknum, sem gaf svo lítið rafmagn, að það varð að slökkva ljósin á bænum meðan mjólkað var með mjaltavélunum. 

Allt var unnið með hestum og höndum, og túnið var í svo brattri brekku, að það var eitt af störfum mínum að ganga með hrífu á eftir hestasláttuvélinni og rétta slegið grasið upp svo að það flæktist ekki fyrir í næstu umferð. 

Oftast varð að fara daglega til að lagfæra mjóan og grunnan skurð sem lá úr bæjarlæknum á ská upp hlíðina í annan læk sem rann á landamerkjum jarðarinnar. 

Kýrnar tíu voru reknar á daginn upp á svonefndan Nautahjalla í 240 metra hæð til þess að nýta alla fáanlega beitarhaga og sóttar aftur á kvöldin. 

Smám saman hafði Björgu tekist að stækka túnið lítillega, með skák niðri við þjóðvegiinn sem var kölluð Öfund, kennt við augnaráð eins af stórbændum sveitarinnar þegar hann skoðaði hana. Ári eftir að ég kom var sléttuð önnur skák við svnefnd Hólhús í brekkuhni fyrir norðan bæinn. 

Með útsjónarsemi gátu kýrnar orðið tíu. Naumhyggjan réði óhjákvæmilega ríkjum og lífsbaráttan var hörð. 

Töðugjöldin voru hátíð. Þá voru kökur á borðum. 

Einu sinni á sumri fór fisksali um dalinn og seldi nýjan fisk. 

Þegar ég fór í sveitina síðasta sumarið hafði ég með mér fjóra pakka af Royal búðingum til að gefa frænku minni. 

Enginn sími var á bænum þegar ég kom þangað fyrst. 

Fjósið var í kjallaranum undir íbúðarhúsinu og nýttist hiti kúnna til upphitunar. Kolaeldavél var í eldhúsi, sem var réttnefnt eldhús. 

Björg var hugsjónakona og fann til með þeim sem minna máttu sín og lifðu við ófrelsi og svo kröpp kjör að með fádæmum var. 

Hún tók því að sér fjóra "niðursetninga" hreppsins, allt konur, og fengu þrjár þeirra að vera í hálfhrundum gamla torfbænum, en ein þeirra, Margrét Sigurðardóttir, háöldruð en stórmerkileg einhlayp kona, að vera í herbergi inni í steinhúsinu. 

Margrét, eða Manga eins og hún var kölluð, var barnlaus, hafði aðeins eignast eitt andvana barn og kenndi það vinnuhörku þessara tíma. 

Þegar fólk hallmælir draumi alþýðufólks um að verða "sjálfstætt fólk" á þessum tíma skilur það ekki þær aðstæður sem þorri Íslendinga hafði orðið að búa við um aldir sem vinnufólk í vistarbandi.

Svo ófrjálst var þetta fólk, að á ofanverðri 19. öld voru tveir vinnumenn sakfelldir og dæmdir fyrir að fara í leyfisleysi í smáferð inn á afrétt. 

Þótt vistarbandinu hefði verið aflétt þegar Björg braust til sjálfstæðis og tókst að láta þá hugsjón sína rætast að láta ekki keðju kynslóðanna enda á sér, heldur koma afkomendum á legg og leggja sitt af mörkum til ræktunar lands og lýðs, var vistarband í raun óbeint í gildi hjá flestum, og frekar en að una því hlutskipti, reyndi fólk að kaupa sér örreytiskot upp í allt að 400 metra hæð ofan dalanna eða uppi í hátt liggjandi dölum milli Húnavatnssýslu og Skagafjarðar. 

Ásdís gamla Jónsdóttir í gamla bænum, skáldmælt og merk kona, hafði á tímabili búið í Rugludal í 440 metra hæð lengst frammi á heiði. 

Síðasta sumarið sem ég var í Hvammi, rættist draumur Bjargar um að eignast jörðina á ný og verða frjáls í fögrum fjallasal. 

Hún var einlæg Framsóknarkona af gamla skólanum og setti mannbætur og landbætur efst á listann, að skila jörðinni betri til afkomenda sinna en hún hafði tekið við henni. 

Það gerðist 1957 þegar Runólfur sonur hennar og Sigurbjörg Hafsteinsdóttir, kona hans, tóku við búinu. 

Björg var framsýn, - hún vildi horfa svo langt fram, að verkin lifðu meðan land byggðist.

Það var til heiðurs henni og í minningu hennar sem mín fyrsta "frjálsa" og eigin heimildamynd fékk heitið "Á meðan land byggist."

Ragnar sonur minn var síðar í sumarvist í Hvammi og tjáði mér síðar, að Björg gamla hefði verið orðin afhuga sínum gamla flokki þegar hann var þar, - ekki litist lengur nógu vel á það sem hefði gerst þar á bæ.

Enga beina skýringu gaf hún svo að það verður að giska.  Kannski vegna þess að henni fannst frammámenn flokksins og SÍS hafa fjarlægst hugsjónirnar, - en síðan má láta sér detta í hug að hún var Skaftfellingur, afkomandi fólks sem hafði lifað af mestu hamfarahörmungar Íslandssögunnar sem geysuðu aðeins einni öld fyrir fæðingu hennar. Í hennar ungdæmi miðaðist tímatalið enn við "fyrir eld" og "eftir eld."

Ég gæti ímyndað mér að henni til dæmis hafi fundist það firring og vanvirðing við þessar hörmungar og fólkið sem þurfti að þola þær og lifa þær af, að segja í stjórnarandstöðu að þáverandi ríkisstjórn stæði fyrir "Móðuharðindum af mannavöldum."

Og eitthvað hefði gamla konan sagt ef hún hefði heyrt forsætisráðherra Íslands fyrrum flokks hennar segja í 17. júní ræðu að aldrei hefði verið stéttaskipting né misrétti á Íslandi.

Á tímum Bjargar bjó fyrirfólkið í dalnum á stórbýlunum Geitaskarði, kirkjustaðnum Holtastöðum og Gunnsteinsstöðum.

Presturinn bjó á Æsustöðum.

Merkisfólk var þetta og vel þekkt. Mynd af glæsilegum húsakosti á Geitaskarði prýddi eitt sinn Morgunblaðið en þar bjó Þorbjörn Björnsson, bróðir Haraldar Björnssonar leikara.

Hreppstjórahjónin á Holtastöðum, Jósafat og Soffía Líndal voru prýðisfólk og af henni á ég góðar minningar. 

Hafsteinn Pétursson á Gunnsteinsstöðum var í foyrstusveit Framsóknarmanna í héraðinu og séra Gunnar Árnason gerðist síðar prestur í Kópavogi. 

En ég hygg á engan hallað þótt sagt sé, að á sinn hljóða hátt skilaði Björg Runólfsdóttir með sinni baráttu og hugsjónum arfleifð, sem gaf engri annarri eftir nema síður væri.

Við hana stend ég í ævilangri þakkarskuld.

 


mbl.is Kona í staðinn fyrir hús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um tuttugu þúsund Íslendingar flúðu héðan frá Íslandi til Vesturheims fyrir meira en einni öld og indíánar aðstoðuðu marga þeirra.

Þorsteinn Briem, 30.6.2017 kl. 01:42

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Frábær pistill Ómar, ég komst við að lesa um þessa baráttu. Ég komst sjálfur í snertingu við þessa sjálfstæðisbaráttu við fátæktina ungur drengur í sveit. Fallandi þrek baráttufólksins kom svo einmitt þegar tímarnir voru að batna og allt hefði getað orðið betra. Þá var bara lífsklukkan útgengin." Að skiljast við ævinnar æðsta verk, í annars hönd ...."

Halldór Jónsson, 30.6.2017 kl. 09:31

3 identicon

Takk fyrir þessa frásögn Ómar, gaman að lesa um hversu mikil baráttukona langamma mín var :)

Kv. Rúna (Bjargar Pétursdóttur)

Rúna Kristín (IP-tala skráð) 4.7.2017 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband