Byggðin dreifist í raun þrátt fyrir þéttingu byggðar.

Það þarf ekki að fjölyrða um hagkvæmni þéttingar byggðar og að þess vegna væri hægt að reikna út mikla hagkvæmni við það að öll byggð og sem mest þjónusta og atvinnustarfsemi væri sett í stór háhýsi á sem minnstu svæði.

 

En til þess að það gæti gengið yrði að ríkja harðsvírað miðstjórnarvald þar sem bannað hefði verið strax um 1950 að byggja neitt austan Elliðaáa og sunnan Fossvogar. 

Þegar fólksstraumurinn var sem mestur frá Austur-Þýskalandi til Vestur-Þýskalands fyrir daga Berlínarmúrsins, var sagt, að fólkið kysi sér búsetu með fótunum. 

Og hér á landi og í nágrannalöndum okkar kýs fólk sér búsetu með samgöngutækjum sínum. 

Ætli ég verði ekki að teljast ósköp venjulegur fjölskyldufaðir og að ef allt væri með felldu hvað snerti þéttingu byggðar ætti ég ekki heima austarlega í Grafarvogshverfi heldur við Háaleitisbraut þar sem allir mínir afkomendur ólust upp. 

En aðeins eitt barnanna býr í grennd við Háaleitisbraut, einn sonur minn býr erlendis, en öll hin börnin ákváðu að setjast að í úthverfunum og í Mosfellsbæ með alla sína 18 afkomendur. 

Helmingurinn af þessum afkomendum býr í Mosfellsbæ. 

Ef við hjónin ættum heima vestur undir Kringlumýrarbraut værum við í útjaðri fjölskyldubyggðarinnar og mun fjær þeim nær öllum, en við erum núna. Núverandi búseta þeirra þrjátíu sem eru í stórfjölskyldunni, auðveldar öll samskipti okkar. 

Og nú leitar sá eini afkomandi, sem eignast hefur langafabarn, til Reykjanesbæjar eins og svo margt af unga fólkinu gerir um þessar mundir, sem leita þangað sem húsnæði er ódýrast og fljótlegast að komast yfir það, svo sem suður með sjó og í Árborg. 

Samkeppnin um búsetuna einskorðast heldur ekki lengur við atvinnusvæðið á Suðvesturhorninu, heldur við Leifsstöð. 

Fólk flytur einfaldlega til útlanda ef þar bjóðast aðstæður, sem því líkar betur við en hér heima. 

Það er að vísu lengri leið fyrir mig að fara til ýmissa erindagerða vestan Elliðaáa héðan frá austanverðu Borgarholtinu heldur en var frá Háaleitisbraut, en með því að nota að mestu tvenn hjól, rafreiðhjól og létt Honda PCX vespuhjól, hef ég minnkað persónulegan samgöngukostnað minn og kolefnisspor um 70%. 

Hjá svonefndum Samtökum um betri byggð stóð eitt sinn til að leggja fram tillögu á landsfundi Samfylkingarinnar um að banna allar lagningar á nýjum götum og hverfum í útbæjum Reykjavíkur og stöðva með því alla íbúafjölgin þar. 

Ég spurði tillögusmiðinn hvort hann teldi líklegt að hægt væri að þvinga fólk til að flytja inn til miðborgarinnar gegn vilja þess með slíku banni. 

Uppbyggingin í ytri hverfum höfuðborgarsvæðisins byggðist nefnilega á eftirsókn eftir ódýrara húsnæði og dreifðri byggð. 

"Þetta fólk, sem vill endilega vera í dreifðri byggð, getur bara flutt upp á Akranes eða til Hveragerðis" var svarið. 

Sem sagt, betra fyrir hagkvæmnina af þéttari byggð að fólk ætti heima á Akranesi en í Mosfellsbæ? 

Frá Úlfarsdal til þungamiðju byggðar höfuðborgarsvæðisins sem er austast í Fossvogsdal, er álíka langt og frá Vesturbænum í Reykjavík til þessarar þungamiðju. 

Það er nefnilega liðin um hálf öld síðan þessi þungamiðja var við Tjörnina. 140 þúsund af 210 þúsund manns á höfuðborgarsvæðinu, eiga heima austan við Elliðaár og sunnan við Fossvogsdal.  

Og þau 7% af svæðinu vestan Elliðaáa, sem flugvöllurinn þekur, skipta augljóslega engu bitastæðu máli í því sambandi. 


mbl.is Lóðalagerinn tæmdist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Eins og fyrri daginn "gleymir" þú hér að nefna það sem mestu máli skiptir í þessu samhengi, Ómar Ragnarsson.

Þorsteinn Briem, 23.7.2017 kl. 23:05

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar er byggðin mun þéttari en austan Elliðaáa en þar eru samt stór opin svæði, Klambratún (Miklatún), Öskjuhlíð, Nauthólsvík, Ægisíða og Hljómskálagarðurinn.

Þar eru einnig einkagarðar við langflest íbúðarhús og í mörgum tilfellum bæði framgarðar og bakgarðar.

Alls áttu 40.295 lögheimili í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar 1. janúar 2013, rúmlega þriðjungur Reykvíkinga, þar af 15.708 í 101 Reykjavík, 16.067 í 105 Reykjavík og 8.520 í 107 Reykjavík.

Og þá áttu þar lögheimili 7.915 börn (sautján ára og yngri eru skilgreindir sem börn), þar af 2.659 í 101 Reykjavík, 3.203 í 105 Reykjavík og 2.053 í 107 Reykjavík, samkvæmt Hagstofu Íslands.

Þar að auki starfa flestir Reykvíkingar vestan Kringlumýrarbrautar.

Þorsteinn Briem, 23.7.2017 kl. 23:10

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Reykjavík starfa langflestir vestan Kringlumýrarbrautar og á því svæði eru stærstu vinnustaðirnir í Reykjavík.

Og langflest hótel og gistiheimili í Reykjavík eru vestan Kringlumýrarbrautar.

Í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík eru samtals um 20 þúsund nemendur og kennarar og á Landspítalanum starfa um fimm þúsund manns.

Vestan
Kringlumýrarbrautar er enn verið að þétta byggðina og auka atvinnustarfsemi, til dæmis með því að reisa stór hótel og hátæknisetur lyfjafyrirtækisins Alvogen skammt frá húsi Íslenskrar erfðagreiningar.

Hversu mikil atvinnustarfsemi er til að mynda í Háaleitis- og Bústaðahverfinu, Laugardalssvæðinu, Grafarvogi, Grafarholti, Árbænum og Breiðholtinu?!

Reykvíkingar
eru 58% þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Og ef einhverjir geta talið upp meiri atvinnustarfsemi í Reykjavík en vestan Kringlumýrarbrautar, einhverju öðru sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu eða utan þess, þætti mér gaman að sjá það.

Þorsteinn Briem, 23.7.2017 kl. 23:11

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Reykvíkingar starfa flestir vestan Kringlumýrarbrautar og þar er nú verið að þétta byggðina.

Kannanir sýna að helmingur núverandi starfsmanna Landspítalans býr í innan við 14 mínútna hjólafjarlægð í vinnuna og fjórðungur starfsmanna býr í innan við 14 mínútna göngufjarlægð.

Þar er langtímastaðsetningin farin að móta rétt búsetumynstur, þar sem fólk býr nálægt vinnustað en keyrir ekki borgarenda á milli.

Deiliskipulag fyrir Landspítala við Hringbraut samþykkt


Og þeir sem starfa bæði og búa vestan Kringlumýrarbrautar, til að mynda á Vatnsmýrarsvæðinu, geta gengið eða hjólað í vinnuna, í stað þess að fara þangað akandi frá austurhluta Reykjavíkur, sem þýðir mun meiri innflutning á bensíni, meira slit á götum og bílum, meiri mengun og mun fleiri árekstra í umferðinni.

Þorsteinn Briem, 23.7.2017 kl. 23:13

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Hlutfallslega flestir svarendur [í Reykjavík] vilja helst búa í vesturhluta borgarinnar, miðbæ og nærliggjandi hverfum, borið saman við núverandi búsetu.

Um helmingur svarenda býst við að flytja og skipta um húsnæði innan fimm ára.

Um 87% reikna með að flytja innan borgarinnar og þar af um helmingur innan sama hverfis.

Af nýbyggingasvæðum er miðbærinn vinsælastur og næst kemur Vatnsmýri."

Könnun á húsnæðis- og búsetuóskum Reykvíkinga árið 2013

Þorsteinn Briem, 23.7.2017 kl. 23:14

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, stærsta vinnustað landsins, starfa um 4.700 manns og mikilvægt að sem flestir þeirra búi nálægt sjúkrahúsinu, meðal annars til að minnka bensínkaup, slit á götum og bílum.

Nú býr um helmingur
þessara 4.700 starfsmanna í minna en fjórtán mínútna hjólafjarlægð frá sjúkrahúsinu.

Og ákveðið hefur verið að Landspítali-háskólasjúkrahús verði áfram við Hringbraut.

Ætlunin er að byggja 600 íbúðir á Hlíðarendasvæðinu einu og mjög stórir vinnustaðir eru skammt frá því svæði, til að mynda Landspítalinn, Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands, og líklegt að margir sem þar starfa kaupi íbúðir á Hlíðarendasvæðinu, í stað þess að búa langt frá þessum vinnustöðum.

Það sparar þeim mikil bensínkaup, löng ferðalög á milli heimilis og vinnustaðar, miklar og margar umferðartafir og jafnvel kaup á bíl, þar sem einn bíll getur nægt á heimili í stað tveggja.

Þar af leiðandi getur verið hagstæðara að búa nálægt vinnustað, enda þótt íbúðir séu dýrari þar en langt frá vinnustaðnum.

Þorsteinn Briem, 23.7.2017 kl. 23:16

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Miðja íbúafjöldans á höfuðborgarsvæðinu, frá Kjalarnesi að Hafnarfirði, er vestan Kringlumýrarbrautar í Reykjavík:

Íbúafjöldi á höfuðborgarsvæðinu
1. janúar 2014:

Reykjavík 121.230 (58,1%),

Kópavogur 32.308 (15,5%),

Hafnarfjörður 27.357 (13,1%),

Garðabær 14.180 (6,8%),

Mosfellsbær 9.075 (4,4%),

Seltjarnarnes 4.381 (2,1%).

Samtals 208.531.

Sunnan Reykjavíkur og Seltjarnarness (í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði) 73.845 íbúar.

Í Laugardal, Árbæ, Breiðholti, Grafarvogi, Grafarholti, Úlfarsárdal, Mosfellsbæ og á Kjalarnesi 74.970 íbúar.

Í Háaleitis- og Bústaðahverfi 14.519 íbúar.

Á Seltjarnarnesi, í Vesturbæ, Miðbæ, Hlíðum, Holtum, Túnum og Teigum 45.064 íbúar, 30.545 fleiri en í Háaleitis- og Bústaðahverfi.

Og póstnúmer 105 Reykjavík er að langmestu leyti í Hlíðum, Holtum og Túnum vestan Kringlumýrarbrautar.

Miðja íbúafjöldans á höfuðborgarsvæðinu
, frá Kjalarnesi að Hafnarfirði, er því vestan Kringlumýrarbrautar í Reykjavík, nálægt Klambratúni (Miklatúni) og því skammt frá Landspítalanum.

Þorsteinn Briem, 23.7.2017 kl. 23:18

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar er nú verið að byggja eða nýbúið að byggja um 1.250 íbúðir:

Um 200 íbúðir Búseta við Einholt og Þverholt,

um 100 stúdentaíbúðir í Brautarholti 7,

um 140 íbúðir í Stakkholti,

um 180 íbúðir í Mánatúni,

um 80 íbúðir á Lindargötu 39 og Vatnsstíg 20-22,

um 20 íbúðir á Lindargötu 28-32,

um 90 íbúðir á Höfðatorgi,

um 140 íbúðir á Lýsisreit við Grandaveg,

um 20 íbúðir í Skipholti 11-13,

um 70 íbúðir á Mýrargötu 26,

um 20 íbúðir á Hljómalindarreit milli Laugavegar og Hverfisgötu,

um 70 íbúðir á Frakkastígsreit milli Laugavegar og Hverfisgötu,

um 40 íbúðir á Tryggvagötu 13,

um 80 íbúðir austan Tollhússins.

Einnig verða til að mynda um 200 íbúðir á Barónsreitum, um 60 á Hverfisgötu 96 neðan við Laugaveg 77, um 20 á Frakkastíg 1, um 170 við Slippinn í Vesturbugt, um 170 í Austurhöfn við Hörpu og um 100 við Guðrúnartún.

Þar að auki verða til dæmis um 350 stúdenta- og starfsmannaíbúðir við Háskólann í Reykjavík, um 100 íbúðir við Stakkahlíð fyrir námsmenn og aldraða og um 80 íbúðir við Keilugranda í samstarfi KR og Búseta.

Og einnig er ætlunin að byggja 600 íbúðir á Hlíðarendasvæðinu einu.

Alls verða því byggðar á næstunni um tvö þúsund íbúðir í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar í viðbót við þær 1.250 íbúðir sem þar er verið að byggja eða nýbúið að byggja.

Og einnig er nýbúið að byggja og verið að byggja íbúðir á Seltjarnarnesi.

Steini Briem, 6.2.2016

Þorsteinn Briem, 23.7.2017 kl. 23:29

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

14.3.2013:

"Samningar hafa tekist á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins um kaup á landi ríkisins í Skerjafirði.

Í samningnum felst að Reykjavíkurborg kaupir land ríkisins, alls um 112.000 fermetra svæði. Gera má ráð fyrir að allt að 800 íbúðir geti risið á  byggingarlandinu.

Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra og Dagur B. Eggertsson sem staðgengill borgarstjóra undirrituðu samninginn á Reykjavíkurflugvelli.

Samningurinn var samþykktur í borgarráði með öllum greiddum atkvæðum á fundi þess í morgun.

Í samningnum segir að sameiginlegt markmið ríkis og Reykjavíkurborgar sé að koma svæðunum sem losna við lokun norður/suður og austur/vestur flugbrautar Reykjavíkurflugvallar (stundum kölluð litla flugbrautin) í uppbyggingu með hag beggja samningsaðila að leiðarljósi.

Fjöldi íbúða og fyrirkomulag á svæðinu verður útfært í deiliskipulagi undir forystu umhverfis- og skipulagssviðs."

Ný 800 íbúða byggð í Skerjafirði - Reykjavíkurborg

Þorsteinn Briem, 23.7.2017 kl. 23:37

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þrátt fyrir venjubundinn stórmokstur sömu gömlu athugasemdanna sjá allir sem líta á kort af höfuðborgarsvæðinu hve fráleitt það er að þungamiðja byggðarinnar sé við Klambratún. 

Samkvæmt þínum eigin tölum eiga innan við 50 þúsund manns heima vestan Kringlumýrarbrautar (Seltjarnarnes talið með)  en 160 þúsund manns samtals á höfuðborgarsvæðinu austan Kringlumýrarbrautar.

Hvernig í ósköpunum þú getir sagt að þessar tölur séu jafnstórar er mér hulin ráðgáta.   

Ómar Ragnarsson, 24.7.2017 kl. 01:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband