Gömlu mennirnir vissu þetta.

Ef lofthiti fylgdi sólargangi væri hlýjast að meðaltali í kringum 20. júní hér á landi. En vegna tregðu í hitabreytingum tefjast árlegar hitasveiflur um einn mánuð. 

Þannig er að meðaltali kaldast á hverju ári seint í janúar í Reykjavík og jafnvel síðar inn til landsins norðan- og austanlands. 

Og að sama skapi er hlýjast að meðaltali í kringum 20. júlí, mánuði eftir sumarsólstöður, eins og nú gæti verið að gerast. 

Gamla tímatalið íslenska miðast við þetta og í almanakinu var miðsumar í fyrradag og heyannir hófust í gamla daga. 

Ég man þá tíða þegar ég var í sveit um miðja síðustu öld að allt sumarið fór í kapphlaupið við að slá og ná inn heyjum sumarsins, og stóð slátturinn eitt sumarið alveg fram í miðjan september og farið upp fyrir túnið og slegin svonefnd Kvíabrekka fyrir ofan bæinn. 

Einnig náð inn útheyi af landi utan túnsins niðri á sléttlendinu niður af bænum, þótt þau hey væru afar næringarlítil. 

Nú má sjá víða hvernig vel vélvæddir bændur klára mestallan heyskapinn á undra skömmum tíma, jafnvel heilan slátt á viku eða tiu dögum. 

Í lok júlí hefur sólin sigið nokkrar gráður og kemst meira en sex gráður undir sjóndeildarhringinn um miðnæturskeið í Reykjavík, en talsvert seinna á norðurhluta landsins. 

"Nóttlaus voraldarveröld" orti skagfirska skáldið, sem alltaf var með hugann á Íslandi, þótt hann lifði mestan sinn aldur í Vesturheimi. 

Og tvisvar síðustu daga hefur hitinn farið yfir 20 stig á Sauðárflugvelli á Brúaröræfum í 660 metra hæð yfir sjávarmáli. 


mbl.is 24,9 stiga hiti í Húsafelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband