Hver er munurinn á Smáralind og Lækjartorgi?

Sóknin gegn móðurmáli Íslendinga þyngist sífellt.

Þótt gott framtak einstaklings, Eiríks Rögnvaldssonar, hafi haft einhver áhrif á einum stað og skilti verið fjarlægt þaðan, er þetta svipað og þegar reynt var að höggva haus af marghöfða þursum í gömlu ævintýrunum, - það spruttu tvö eða fleiri höfuð í stað þess sem hoggið var af. 

Og skiltið rís bara í staðinn í Smáralind.  Hver er munurinn á Smárlind og Lækjartorgi?

Outlet, tax free, black Friday, Air Iceland - connect, þetta er samræmd stórsókn á hendur íslenskunni hvert sem litið er. 

Í einstaka erlendum stjórnarskrám má sjá greinar um hver sé eða hverjar séu þjóðtungur viðkomandi lands. 

Við vorum kannski of bláeyg í stjórnlagaráði að setja ekki eina slíka grein inn í frumvarp okkar. 

Við héldum að ákvæði í öðrum lögum myndu duga, en þannig virðist það ekki vera, enskan veður yfir allt og alla. 

Stundum reyna enskusjúklingarnir að klína orðum eins og afdalamennsku á þá sem vilja standa vörð um íslenska tungu. 

Samkvæmt því hefði Eiður heitinn Guðnason átt að vera einstakur afdalamaður. 

Var hann þó löggiltur dómtúlkur í ensku og starfaði árum saman með glæsibrag í utanríkisþjónustunni. 

Hann og Vigdís Finnbogadóttir verða í minnum höfð sem glæsilegir fulltrúar einstaks tungumáls og menningar sem voru andstæðan við afdalamennsku enskufíklanna sem halda að það tungumál sé svo fínt og yfir allt hafið, að ekki megi einu sinni bera fram staðarnöfn annarra landa en Englands eins og það gert af hverri heimaþjóð.  


mbl.is „Íslensk tunga aldrei í forgangi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mikið rýkur nú moldin í logninu, hefði hún amma mín á Baldursgötunni sagt.

Íslenskir unglingar tala engan veginn verri íslensku en töluð var á Íslandi fyrir hálfri öld.

Þorsteinn Briem, 23.8.2017 kl. 21:04

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Undirritaður bjó í áratug í norðlenskum afdal og þar var notaður mýgrútur af dönskuslettum en ekki vantaði harðmælið, sem margir íslenskufræðingar voru afar hrifnir af og töldu besta íslenska framburðinn.

Þorsteinn Briem, 23.8.2017 kl. 21:06

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Dönskuslettur voru margfalt fleiri í íslensku en enskuslettur eru nú.

Og íslenskan er langt frá því að deyja út.

Nýjar slettur koma í tungumálið en aðrar falla út og nýyrði eru smíðuð.

29.12.1998:

"Orðin sem hún skráði sem dönskuslettur í íslensku voru 3.500.

Úir og grúir af dönskuslettum í daglegu máli."

Hvað er dönskusletta og hvað íslenska?

Þorsteinn Briem, 23.8.2017 kl. 21:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband