Hvers vegna kóngafólk?

Þótt lýðræðishefðin sé einna sterkust og hafi verið einna langvinnust í vestrænum ríkjum, þarf ekki endilega að vera samasemmerki á milli hennar og þess, hvort um lýðveldi eða konungdæmi sé að ræða. 

Þannig hefur lýðræði verið stöðugt bæði á Norðurlöndum, í Niðurlöndum og á Bretlandi, þótt um sex konungdæmi hafi verið að ræða. 

Konungar og drottningar í þessum löndum hafa lítil sem engin pólitísk völd en sinna eins konar starfi fullltrúa þjóðarinnar sem einnig komi fram inn á við til að uppörva þjóðina og hughreysta eftir þörfum. Svona eins konar sálgæsla fyrir alla. 

Þetta kom vel fram í heimildamynd um Díönu prinsessu af Wales í tilefni af því að í dag eru tuttugu ár síðan hún lést í bílslysi í París. 

Atburðarásin næstu vikuna eftir lát hennar virtist koma öllum á óvart, svo víðtæk voru áhrifin af láti hennar og mun almennari og dýpri en nokkurn óraði fyrir. 

Fyrsti votturinn um að sviptingasöm vika væri í vændum var þegar Tony Blair forsætisráðherra áræddi að kalla Díönu prinsessu fólksins. 

Með þessu var hrundið af stað atburðarás þar sem Elísabet drottning og konungsfjölskyldan neyddist til að víkja til hliðar ævagömlum hefðum og reglum, sem giltu um svona atburði.

Þótt Díana og Karl Bretaprins hefðu verið skilin að borði og sæng í fimm ár og lögskilin í tvö ár og Díana því ekki lengur inni á gafli í konungsfjölskyldunni sá Elisabet sig knúna til að láta draga fánann í hálfa stöng á konungshöllinni, nokkuð sem ekki hafði einu sinni verið gert þegar faðir hennar dó.

Tony Blair og fleiri óttuðust óróa og jafnvel afdrifaríka andúð almennings á konungdæminu en með því að stytta fjarveru konungsfjölskyldunnar, láta draga fána í hálfa stöng og halda í fyrsta sinn ræðu í beinni útsendingu þegar fjölskyldan tók beinan þátt í útiathöfn.

Segja má að afar vel flutt og samið ávarp drottningar hafi eitt það mikilvægasta á ferli hennar til að ná til þjóðarinnar og byggja upp samhug hennar og kóngafólksins.

Fyrir lýðveldissinna eins og mig hefur konungdæmi ævinlega virkað forneskjulegt, ekki síst hið mikla tilstand og kostnaður í kringum "slektið."

En Óskarsverðlaunamyndin um konunginn stamandi, Georg sjötta Bretakonung, og hlutverk hans í því að stappa stálinu í Breta á ögurstundum heimsstyrjaldarinnar, fékk mig til þess að líta hlutverk þjóðarleiðtoga af þessu tagi svolítið öðrum augum.

Það furðulega er, að fyrirkomulagið sjálft, æviráðning á grundvelli erfða og kynslóðaskipta, höfðar að því leyti til margra að þar er um að ræða svipað fjölskyldufyrirkomulag og hjá almenningi.

Almennir þjóðfélagsþegnar kjósa ekki um mæður sína, feður og systkini, og að því leyti standa gleði og sorgir kóngafólksins og samskipti þess innan fjölskyldunnar nær venjulegu fólki og verða skiljanlegri og líkari en ella, svo undarlega sem það hljómar í lýðræðisþjóðfélagi.  


mbl.is Síðustu orð Díönu prinsessu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Eins og Ísland var á árunum 1918-1944 er Ástralía sjálfstætt konungsríki, þar sem Elísabet Bretadrottning er þjóðhöfðingi beggja ríkjanna.

Þorsteinn Briem, 31.8.2017 kl. 17:07

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Orðið konungdæmi er notað yfir það sem á ensku kallast monarchy, enda þótt þjóðhöfðinginn beri ekki í öllum tilfellum titilinn konungur eða drottning og dæmi um aðra titla eru keisari, fursti, hertogi, emír og soldán.

Í ríkjum með þingbundinni konungsstjórn er forsætisráðherra höfuð framkvæmdavaldsins og leiðtogi löggjafarvaldsins en þjóðhöfðinginn beitir einungis táknrænu valdi sínu með samþykki ríkisstjórnarinnar.

Danmörk, Svíþjóð og Noregur eru öll með þingbundna konungsstjórn.

Í Bretlandi er einnig þingbundin konungsstjórn og Elísabet 2. Bretadrottning er nú þjóðhöfðingi Bretlands og fimmtán annarra ríkja í Breska samveldinu, þar sem hún tilnefnir landstjóra sem hefur táknrænt gildi.

Þessi ríki eru því einnig með þingbundna konungsstjórn, til að mynda Kanada, Ástralía og Nýja-Sjáland.

Þorsteinn Briem, 31.8.2017 kl. 17:09

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stjórnarskrá Konungsríkisins Íslands árið 1920:

"1. gr. Stjórnskipulagið er þingbundin konungsstjórn."

Ísland
varð fullvalda og sjálfstætt ríki 1. desember 1918 og Danmörk og Ísland voru frá þeim tíma tvö aðskilin og jafnrétthá ríki, enda þótt þau hefðu sama þjóðhöfðingja.

Færeyjar og Grænland
eru hins vegar í danska ríkinu og því engan veginn hægt að tala um "ríkjasamband" Færeyja, Grænlands og Danmerkur, enda þótt Færeyjar og Grænland hafi fengið heimastjórn.

Konungsríki - Vísindavefurinn

Þorsteinn Briem, 31.8.2017 kl. 17:10

4 identicon

Á hverjum degi láta fjöldi manns lífið á bílslysum, því miður. Einnig ungar konur, mæður, glæsilegri og ekki minni manneskjur en Díana. Athyglið sem andlát hennar vakti er dæmigert fyrir dómgreindarleysi og "triviality."

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 31.8.2017 kl. 17:31

5 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Já Haukur.

Það er ekki sama hver er hver og hver er hvurs.

Jón eða séra Jón.

Það er í raun alveg ótrúlegt að við skulum á

árinu 2017, vera ennþá með þessa dragbíta á

þjóðfélögum, kónga, drottningar, prinsessur og prinsa.

Kostar almenning þvílíkt, svo í raun hefur lítið

breyst meða þessa hirð.

Áður fyrr sáu sérstakir skattheimtumenn um að

rukka ruslaralýðin um pening svo þetta eðalfólk,

sem gerir þarfir sína nákvæmlega eins og ég þú,

um pening svo það gæti lifað í vellystingum

alla sína ævi.

Í dag er þetta ríkið sem sér um það.

Þannig í grunnin hefur lítið breyst í þessi

hundruð ára sem kóngafólk hefur ráðið ríkjum.

Vantar bara drekana til að fullkomna ævintýrasöguna

með prinsa og prinsessur.

Sigurður Kristján Hjaltested, 31.8.2017 kl. 17:50

6 identicon

Sigurður, það leiðréttist hérmeð sú rangfærsla þín að konungdæmi kosti almenning mikið. Þessi kostnaður liggur allur fyrir t.d. í Breska samveldinu og hann er harla lítill miðað við þær tekjur sem koma inn á móti. Þessar tekjur eru margfaldar á við kostnað ríkisins. Svo ríflegar að jafnvel Verkamannaflokkurinn vill ekki hreyfa við konungdæminu vegna fyrirsjáanlegs tekjutaps. Þannig er það nú kallinn minn.

jon (IP-tala skráð) 31.8.2017 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband