Mögnuð fjölbreytni hjólanna.

Á aldrinum 10-19 ára var ég heltekinn af reiðhjóladellu, flutti inn fyrsta fjaðraða framgaffalinn og setti gíra á Blakk, reiðhjólið mitt góða. 

Hjólaði í kapp við sjálfan mig langar ferðir, meðal annars í einum rykk 160 kílómetra á 7 og hálfri klukkustund upp í Norðurárdal þegar ég var 15 ára. Allt á lélegum malarvegum. 

Síðan kom 56 ára hlé og nú er ég "að vinna upp glötuð unglingsár" á rafreiðhjólinu Náttfara og Honda PCX vespuvélhjólinu Létti. 

Fjölbreytnin er ævintýraleg í tveggja hjóla fótknúnum eða vélknúnum fararskjótum. Vélknúin hjól allt frá 0,4 hestafla rafreiðhjólum upp í 326 hestafla Yamaha vélhjól. 

Svo framarlega sem hægt er að komast á bak og halda jafnvægi geta allir fundið reiðskjóta við sitt hæfi.

Rafreiðhjólið Náttfari er skemmtilegt millistig á milli fótknúins og vélknúins reiðhjóls.

Það er með 250 vatta mótor sem er skilyrði fyrir því að það teljist nógu kraftlítið og létt til að þurfa hvorki tryggingu né skrániningu.

Ég var svo heppinn að detta fyrir algerlega tilviljun niður á rafreiðhjól, sem er gert fyrir bandarískan markað, og hægt er að velja á milli fjögurra mismunandi nýtingu afls.

1. Slökkt á rafmagninu og eingöngu sexgírað fótafl.Náttfari við Engimýri

2. Kveikt á rafmagninu og fæturnir notaðir til þess að stilla blöndu af sexgíra fótafli og eins gírs rafafli.

3. Kveikt á rafmagninu og notuð handgjöf fyrir 250 vöttin til að knýja hjólið áfram í einum gír.

4. Kveikt á rafmagninu og notuð blanda af eins gírs handgjöf og sex gíra fótafli til að knýja hjólið áfram.

Á myndinni er Náttfari staddur við Engimýri í Öxnadal. DSC00417

Þessi fjölbreytilega orkunotkun gefur möguleika á að stilla notkun fótanna í hóf og skipuleggja til dæmis ferðir þannig, að maður komi ekki kófsveittur á fundi eða áfangastaði

Ef menn vilja meira rafafl og meiri hraða verður að tryggja hjólið og skrá, en aldeilis yfirgengilegt úrval er á markaði af rafhjólum, sem sjást ekki í umferðinni hér á landi, en ná allt frá 45km til 130 km hraða.

Verðlistinn er þéttur, frá 350 þúsund kalli fyrir ódýrustu hjólin, sem komast á 45 km hraða, kall, -  hægt að fá hjól með 82ja km hraða fyrir eina og hálfa millu,  -  og allt upp í eitt flottasta hjólið, sem er 275 kílóa BMW rafhjól með 48 hestafla rafmótor, nær 130 kílómetra hraða og hefur 160 kílómetra drægi.

Það kostar þrjár millur.  

 


mbl.is Aftur á hnakkinn eftir slys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Albert Einstein: "Life is like riding a bicycle. To keep your balance, you must keep moving."

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 7.9.2017 kl. 23:46

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Góður!

Ómar Ragnarsson, 8.9.2017 kl. 17:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband