Alþjóðlegur brandari breyttist í virtan framleiðanda.

Skodaverksmiðjurnar í Tékklandi eiga langa og marka sögu. Fyrstu rúmu hálfa öldina var Skoda virt vörumerki, þekkt fyrir vöruvöndun og góðar framleiðsluvörur. Skoda 46

Hitler vissi hvað var í húfi þegar hann hernam Tékkóslóvakíu veturinn 1938-39. Skoda framleiddi mikilvæg hergögn, og ári síðar, þegar þýski herinn réðst á Niðurlönd og Frakkland voru meira en 10 prósent skriðdrekanna, sem sköpum skiptu, Skoda-skriðdrekar. 

Skoda framleiddi ágæta bíla allt fram yfir 1960.Skoda 440

Efsta myndin er af Skoda ´46 en nokkrir slíkir bílar voru fluttir til Íslands.

Einnig fluttu Strætisvagnar Hafnarfjarðar inn  Skoda vagna.

Fólksbílarnir voru með ágætar vélar en þverfjaðrir að framan og aftan þóttu hastar þótt hægt væri að segja með stolti að billinn væri einn fárra bíla á markaðnum þá, sem væri með sjálfstæða fjöðrun á öllum hjólum líkt og sjálfur Benz.

Þegar kommúnistar tóku einræðisvöld Tékkóslóvakíu 1948 var haldið áfram að framleiða bíla sem voru í grunninn óbreyttir næstu tólf árin, þótt yfirbyggingum væri breytt. 

"Blöðruskódinn" var svipaður útlits og Kaiser-Frazier höfðu verið í Ameríku en var með þverfjaðrir bæði að framan og aftan. Blöðruskódi

Skoda 440 hélt þverfjöðrinni að aftan og þótt því hastur. 

Vélarnar voru það góðar, að þær lifðu langleiðina út öldina.

En meðan verð var að framleiða tæknilega óbreytta bíla hrakaði vinnubrögðum og framleiðslugæðum, og enda þótt Skoda 1000MB væri alger nýsmíði með svipaða tækni og Renault 8, Simca 1000 og Hillman Imp, vatnskælda vél að aftan, sjálfstæða gormafjöðrun og afturdrif, varð þessi bíll upphafið á slæmu niðurlægingartímabili Skoda.Skoda-1000_MB-1964-1600-0e 

1995 var svo komið, að þrátt fyrir ítalska hönnun á Skoda Favorit og 538 endurbætur eftir að Volkswagen keypti verksmiðjurnar, var talað um Skoda sem "alþjóðlegan brandara" í bilabókum.

Skoda Farvorit/Felicia var síðasti "ekta" Skódinn því að nú var ljóst, að mjög róttæka aðgerða var þörf til að bjarga þessum öldnu og fyrrum virtu verksmiðjum frá algerri niðurlægingu eða dauða. 

Umskiptin urðu þegar farið var inn á þá braut, að allir Skodar deildu undirvagni og vélbúnaði með Volkswagenbílum, og fengju síðan að þróa útlit og séreinkenni út frá því. 

Vegna þess að Volkswagen frumseldu nýjar gerðir fyrst undir eigin nafni, en Skoda fengi síðan að vinna úr þeim, einni "kynslóð" á eftir, gerðist ákeðið undur: Smám saman tók Skoda forystu af Volkswvegen í gæðum, endingu og lágri bilanatíðni. Skoda Favorit

Skoda gat líka farið nýjar leiðir, svo sem með framleiðslunni á Skoda Superb, sem var í raun lengdur Passat og átti enga samsvörun í línunni hjá Volkswagen. 

Það segir sína sögu um gott gengi Skoda, að innrás þeirra inn í afar krefjandi markað lúxusbíla skuli hafa tekist jafnvel og raun ber vitni. 

Skoda Superb

Brandarinn hafði snúist við; nú var gantast með það að Skoda væri betri bíll en Volkswagen af því að það væru Tékkar sem settu Skoda saman, en Tyrkir, sem settu Wolkswagen saman.

Tuttugumilljónasti bíllinn hjá Skoda og gott orð af Skoda er engin tilviljun, Tékkarnir, með þýskri hjálp, eiga þetta skilið. 

P.S. Í athugasemdir við þennan pistil eru þegar komnar tvær Skodasögur. 


mbl.is 20 milljónir Skoda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Foreldrar mínir áttu um tíma Skóda á áttunda áratugnum. Hann var gulur og var oft tregur í gang. Einu sinni kviknaði í honum þegar verið var að spreyja kertaþræðina til að reyna að fá gripinn til að starta. Svona bíla kölluðu krakkar skóda ljóta og maður skammaðist sín hálfpartinn fyrir hann. Hann dugði nú samt bærilega.

Þorsteinn Siglaugsson, 29.9.2017 kl. 20:51

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég átti Skoda 120 á árunum 2005-2008 og notaði hann til ferða frá Egilsstöðum upp á Kárahnjúkasvæðið. Vegna vélarinnar afturí og afturdrifsins komst hann um furðu slæma vegi. Í hann vantaði afturábakgírinn og hann lak vatni, en enda þótt það hafi verið skylda í fyrstu lögum um bifreiðar að hafa bakkgír féll sú skylda síðar niður og er ekki lengur krafist sliks. 

Ýmislegt fleira hrjáði Skódann og loks bað ég verkstæði eystra um að leggja ódýrt mat hvað þyrfti að gera til þess að hann kæmist í gegnum næstu skoðun þegar ég kæmi austur.  Sem sagt, hvað væri að bílnum. 

Þegar austur kom fékk ég niðurstöðuna afhenta í umslagi, sem ég opnaði við hátíðlega athöfn. Inni í því var blað þar sem stóð: "Að þessum bíl er: ALLT!"

Ég safnaði saman vatni og skrölti á Skodanum til Ystafells þar sem Skódinn er nú á safninu ásamt Skoda Ingimars Ingimars Eydals. 

Ómar Ragnarsson, 29.9.2017 kl. 21:15

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fyrsti bíllinn minn var Skoda Okravía árg. 65. Skelfilega ljótur og kraftlítill en dugði mér ágætlega þegar ég var 17 ára. 

Í dag er ég með Skoda Superb 4x4 í leigubílaakstrinum og held ég geti sagt með sanni að hann er með betri bílum sem ég hef átt. Kraftmikill og sparneytin og plássið aftur í og í skottinu er fáránlega gott. Hef bæði verið með Opel Insignia og VW Passat, sem vissulega eru fínir bílar en ég reikna fastlega með að ég haldi mig við Superb-inn við næstu endurnýjun. Ég mun þó sennilega fara til Póllands til að kaupa nýjan eftir hálf ömurlega reynslu af Heklu þegar ég lét þá taka nýlega VW Bjöllu upp í sem milligjöf.

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.9.2017 kl. 22:14

4 identicon

Sæll Ómar. Ég hefi átt fjóra Skoda, 1000mb, favorit og tvo felisia. Allir þessir bílar reyndust mér mjög vel voru ódýrir í rekstri og biluðu ekkert meira en aðrar tegundir bíla sem ég hefi átt, sumir af rómuðum gæðategundum. Þeir höfðu ágæta fjöðrun og voru þægilegir í akstri. Ég tel miðað við mína reynslu að Skoda hafi goldið upprunans í austur-evrópu og verið rakkaður niður meira en efni stóðu til þótt vissulega hafi verið framleiddir betri bílar en um leið miklu dýrari.

Með kv, Þorvaldur Ágústsson.

Þorvaldur Ágústsson (IP-tala skráð) 30.9.2017 kl. 00:38

5 identicon

Sæll Ómar.

Ég hef sjálfur átt þó nokkra bíla um ævina og mismunandi að gæðum.

Eftir að hafa átt bifreið sem fór tvisvar vélin í með stuttu millibili og í seinna tilfellinu kostaða það mig flutning á bifreiðinni, norðan af ströndum til Reykjavíkur, þá gat ég ekki hugsað mér að eiga notaða bifreið alla vega ekki í bráð.

Nú á þessum árum bjó ég í 101 og ákvað að rölta upp í Heklu og skoða verð á nýjum bifreiðum.

Fyrsti sýningasalurinn sem ég kom inn í var skoda salurinn og eins og all flestir íslendingar hafði ég ekki mikla trú á skoda enn mér leist nokkuð vel á  Škoda Felicia 1998 árg ( after facelift ).

Verði á honum var eitthvað sem ég réði við og eftir reynsluakstur sló ég til og verslaði svona grip.

Mér líkaði það vel við skodann og hann reyndist mér það vel að ég skipi honum svo upp í 2002 Skoda Fabíu combi, sem ég átti í all mörg ár.

Með kveðja Jón Ómar Jóhannsson.

 

 

Jón Ómar Jóhannsson (IP-tala skráð) 30.9.2017 kl. 11:28

6 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Kunningi minn átti einu sinni Skoda 130.  Sá peyi var vélstjóri, og dundaði sér á sjó við að hanna nýjan blöndung, sem hann ákvað að setja í þennan bíl sinn til að prófa.  Blöndungurinn sá var lítið annað en málmstykki sem borað hafði verið gegnum.

Þetta gekk samt með þvílíkum ágætum að vélarafl skódans jókst um fjölmörg herstöfl, og okkar maður gat mökkað ansi hressilega af stað nokkrum sinnum... eða þar til dró úr vélaraflinu smám saman.

Kom á daginn að boltarnir sem héldu heddinu höfðu lengst í atganginum, og allst skrölti sundur.  Og bíllinn þar með kapútt.

Ásgrímur Hartmannsson, 30.9.2017 kl. 15:05

7 Smámynd: Már Elíson

Ég er búinn að eiga bíla undir merkjum SKODA frá 1982 og byrjaði á Skoda Rapid 2ja dyra. - Af einhverjum ástæðum er hans ekki getið í pistli Ómars. - Þessi gerð var að mínu mati mjög vel heppnuð, en VW voru byrjaðir að "skipta sér af" um eða uppúr 1980 við smíðina, og þá í Tékklandi hinu gamla. - Hef ekki þessa bilanasögur sem hér á undan eru taldar, en ég vil meina að margir eigendur SKODA á Íslandi hafi sjálfir séð um að koma óorði á bílinn með með illri meðferð, kæruleysi og ótrú. - Nú á ég SKODA OCTAVIA Elegance sem ég keypti nýjan og lagði mikið í, fékk mér einkanúmerið SKODA um leið og hægt var að fá einkanúmer og betri bíla í dag er vart að finna. - SKODA er í dag valinn af leigubílstjórum í LONDON, MADRID svo eitthvað sé nefnt af stórborgum, og aðeins vegna þess að honum má treysta. - Leigubílstjórar á Íslandi hafa fulla trú á SKODA sem kemur betur út en VW, en þeir eru í dag hlutaðeigendur. - Takk fyrir pistilinn Ómar, deginum bjargað, og íslendingar betur upplýstir um gæði SKODA.

Már Elíson, 30.9.2017 kl. 16:54

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þótt ýmsar gerðir bíla geti haft slæmt orð á sér, finnast oftast undantekningar. 

Þannig átti ég Fiat 850 1968-1971, ók honum hátt í 90 þúsund kílómetra um allt land og hef ég aldrei átt bíl sem reyndist mér betur. 

Samt töluðu margir illa um Fiat 850 og mágur minn, sem átti svona bíl, sagðist aldrei hafa kynnst verri bíl. 

Ómar Ragnarsson, 30.9.2017 kl. 19:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband