Löngu tímabær ákvörðun um þjóðveg 1 og Öxi. Áfram bitbein.

Þegar þjóðvegur eitt er ekinn um Suðurland austur á firði búast bæði útlendir ferðamenn og flestir Íslendingar við því að leiðin sé auðrötuð og greið alla leið til Egilsstaða. 

En síðasti sjoppu- og þéttbýlisstaðurinn, sem þetta á við er Djúpavogur, því á leiðinni áfram þaðan koma upp undarlegar aðstæður. Léttir, Djúpavogi

Margir, sem fara eftir vegaskiltunum, eru allt í einu komnir á gamlan malarveg yfir heiði í stað þess að vera áfram á malbiki. 

Eru raunar á undan búnir að furða sig á malarkaflanum innst í Berufirði. 

Ég skrifaði tvisvar bloggpistla um þjóðveg eitt á Austurlandi og veginn yfir Öxi og viðbrögðin voru slík að ég man engin dæmi slíks fyrr eða síðar, hvað snertir lengd símtalanna. 

Þetta voru menn sem voru algerlega á öndverðum meiði og svo æstir, að það þurfti átak til að ljúka símtölunum. 

Hvorir um sig gátu varla komist af með minna en hálftíma, og þýddi ekkert að segja við þá að ég væri búinn að heyra hinn langa fyrirlestur svo oft áður, að ég þyrfti ekki að heyra hann einu sinni enn. 

Fyrir nokkrum árum sat ég ráðstefnu á Egilsstöðum þar sem einn ræðumanna, sveitarstjórnarmaður, lýsti þeim gróna og eindæma ríg sem búinn væri að valda miklum vandræðum og tjóni. 

Til dæmis því að þingmenn og ráðherrar hefðu forðast að taka ákvarðanir sem brýnt var að taka af ótta við að allt færi upp í loft. 

Ekki veit ég hvort þessu hefur linnt, en hvað sem um þetta má segja er það fagnaðarefni að loks nú skuli það hafa verið ákveðið, sem þurfti um þjóðveg eitt og heilsársveg yfir Öxi. 

Vegurinn yfir Breiðdalsheiði sem þjóðvegur eitt er auðvitað brandari, svo langur sem malarkafli hans er. 

Hann er ekki nema tíu kílómetrum styttri en fjarðaleiðin, sem er öll malbikuð. 

Þegar ég fór hringinn í fyrra og aftur í ár á Hondu PCX vespuhjólinu mínu, var tvísýnt um það hvort þoka væri á Öxi eldsnemma morgun, svo að fjarðaleiðin varð fyrir valinu. 

Hjólin á Hondunni eru lítil og malarvegir því varasamir, nema þeir séu því betri. 

Þess vegna kom Breiðdalsheiði ekki til greina fyrir mig, þótt hún beri hið flotta númer. 

Í ár var líklegra að Öxi væri í sæmilegu standi og því fór ég hana, enda er sú leið 61 kílómetrum styttri en þjóðvegur eitt og 71 kílómetrum styttri en fjarðaleiðin. 

Nú hefur samgönguráðherra sem betur fer afgreitt þetta mál og þess vegna er þýðingarlaust að hringja í mig til að taka hálftíma snerru um málið. 

P.S.  En það er eins og við manninn mælt, málið er strax orðið að kosningamáli fyrir austan, því að Einar Brynjólfsson alþínigismaður ætlar að berjast á móti þessari ákvörðun. 


mbl.is Hringvegurinn mun liggja um firðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég hélt að Alþingi en ekki ráðherra, hvað þá ráðherra í starfsstjórn, tæki ákvarðanir um helstu vegamál.

Á Íslandi er þingræði og Alþingi hefur fjárveitingavaldið.

Þorsteinn Briem, 30.9.2017 kl. 23:54

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"41. gr. Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum."

Stjórnarskrá Íslands

Þorsteinn Briem, 1.10.2017 kl. 00:00

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Vegáætlun er nú hluti af samgönguáætlun. Lög um samgönguáætlun nr. 33/2008."

"Fjögurra ára samgönguáætlunin er gerð til nánari sundurliðunar 12 ára áætlunarinnar og er endurskoðuð annað hvert ár.

Sá hluti hennar er tekur til vegamála heitir nú vegáætlun.

Tekjur og framlög til vegamála eru einkum af mörkuðum tekjustofnum; bensíngjald, olíugjald og þungaskattur km-gjald en einnig framlag úr ríkissjóði.

Helstu gjaldaliðir eru; nýbyggingar vega, viðhald þeirra og þjónusta ýmiss konar.

Hin síðari ár hafa margir þættir almenningssamgangna verið í umsjá Vegagerðarinnar, svo sem ferjur og flóabátar, áætlunarflug og sérleyfisakstur - og greiðsla styrkja til viðkomandi rekstraraðila.

Tólf ára samgönguáætlun hefur að geyma stefnumótun en fjögurra ára áætlunin er verkefnaáætlun, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 33/2008."

Kynningarrit um samgönguáætlun 2011-2022

Þorsteinn Briem, 1.10.2017 kl. 00:16

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef maður les um málið má sjá, að búið var að taka þessa ákvörðun fyrir stjórnarslit. Þar að auki er vafasamt hvað merkingar á vegum teljast mikil stórmál þótt deilendur fyrir austan telji svo vera. 

Ómar Ragnarsson, 1.10.2017 kl. 00:39

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ókunnugir álpast yfir Breiðdalheiði í vályndum veðrum og lenda í vandræðum. af því hún er merkt #1. Heilsársvegur um Öxi er óraunhæf af mörgum ástæðum en góður sumarvegur í núverandi vegstæði er gott mál.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.10.2017 kl. 11:59

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sneiðingarnir í Berufirði upp á Öxi og hæð vegarins og Breiðdalsheiðar gera það að verkum að þessir vegir geta lokast á sama tíma og Fjarðaleiðin er vel fær. 

En samt er klassamunur á Öxi og Hrafnseyrarheiði fyrir vestan, sem gerir það að verkum að það hefði átt að vera búið að gera Dýrafjarðargöng fyrir mörgum árum.  

Ómar Ragnarsson, 1.10.2017 kl. 13:58

7 identicon

Þegar úrtölumenn heimsótti Hjálmar Guðmundsson (afi minn) þar sem hann var að pjakka á Öxi sagði hann við þá:

Axarveginn á ég einn
öllum svara reiður
hann er brattur,hann er beinn
hann er líka breiður.

Ármann (IP-tala skráð) 1.10.2017 kl. 18:19

8 identicon

Sæll Ómar.

Eins og fram kemur í þessari frétt, hef ég beðið um opinn fund í umhverfis- og samgöngunefnd til að ræða þessa ákvörðun ráðherra.

Mér finnst nauðsynlegt að ráðherrann standi fyrir máli sínu frammi fyrir nefndinni, enda er það óþolandi að hann, með sitt takmarkaða umboð, taki jafn umdeilda og afdrifaríka ákvörðun, án nokkurs rökstuðnings, korteri fyrir kosningar.

Ég hef ekki tekið efnislega afstöðu til þessarar ákvörðunar ráðherrans, jafnvel þó Mogginn vilji túlka fundarbeiðni mína á þann veg. 

Það kemur mér á óvart að jafn reyndur fjölmiðlamaður og þú fallir í þá gryfju að trúa þessari útleggingu blaðamanns, ekki sízt í ljósi þess að beiðni mín er tekin upp orðrétt í fréttinni.

Sem sagt: umboðslaus ráðherra tekur afrifaríka ákvörðun, sem klýfur samfélagið fyrir austan, án rökstuðnings, rétt fyrir kosningar (og lofar reyndar nýjum vegi yfir Öxi í ofanálag / sárabætur).

Kveðja,

Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata í Norðausturkjördæmi

Einar Brynjólfsson (IP-tala skráð) 1.10.2017 kl. 21:06

9 identicon

Og þar kom hárblásarinn vaðandi og þú skotinn fyrir engar sakir.

Þorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 1.10.2017 kl. 21:29

10 identicon

Ég kveinka mér svo sem ekki. Ég valdi það hlutskipti að fara út í pólitík. Ég bít á jaxlinn og leiðrétti rangfærzlur.

Einar Brynjólfsson (IP-tala skráð) 1.10.2017 kl. 22:07

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Einar Brynjólfsson, rökstuðninginn má finna hjá Vegagerð Ríkisins, Jón Gunnarsson fór að tillögu Vegagerðarinnar. Fagaðilar á hennar vegum mæla með að þjóðvegur #1 fari um firði. 

Þeir sem eru á móti þessari skynsemistillögu eru talsmenn sérhagsmuna en ekki almannahagsmuna.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.10.2017 kl. 08:55

12 identicon

Sæll Ómar.

Eins og fram kemur í þessari frétt, hef ég beðið um opinn fund í umhverfis- og samgöngunefnd til að ræða þessa ákvörðun ráðherra.

Mér finnst nauðsynlegt að ráðherrann standi fyrir máli sínu frammi fyrir nefndinni, enda er það óþolandi að hann, með sitt takmarkaða umboð, taki jafn umdeilda og afdrifaríka ákvörðun, án nokkurs rökstuðnings, korteri fyrir kosningar.

Ég hef ekki tekið efnislega afstöðu til þessarar ákvörðunar ráðherrans, jafnvel þó Mogginn vilji túlka fundarbeiðni mína á þann veg. 

Það kemur mér á óvart að jafn reyndur fjölmiðlamaður og þú fallir í þá gryfju að trúa þessari útleggingu blaðamanns, ekki sízt í ljósi þess að beiðni mín er tekin upp orðrétt í fréttinni.

Sem sagt: umboðslaus ráðherra tekur afrifaríka ákvörðun, sem klýfur samfélagið fyrir austan, án rökstuðnings, rétt fyrir kosningar (og lofar reyndar nýjum vegi yfir Öxi í ofanálag / sárabætur).

Kveðja,

Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata í Norðausturkjördæmi

Einar Brynjólfsson (IP-tala skráð) 2.10.2017 kl. 18:11

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ekki verður hún skárri athugasemdin þó Einar Brynjólfsson birti hana tvisvar.

"... af[d]rifaríka ákvörðun sem klýfur samfélagið fyrir austan, án rökstuðnings..."

Hvað á píratinn við; "afdrífarík ákvörðun"? Er píratinn á atkvæðaveiðum fyrir austan?

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.10.2017 kl. 18:22

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

 Afhverju kynnir píratinn sér ekki rökstuðning Vegagerðarinnar fyrir málinu? Athyglin sem pírataþingmaðurinn vekur á sér með þessu útspili er heldur neikvæð en sjálfsagt er sú athygli betri en engin.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.10.2017 kl. 18:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband