Réttar upplýsingar skipta oft öllu´máli.

Á svokallaðri upplýsingaöld er oft bagalegt ef upplýsingar skortir eða upplýsingar eru rangar. 

Af því leiðir að í mörgum tilfellum er ýmist ekki hægt að taka réttar ákvarðanir eða að teknar eru ákvarðanir, sem eru rangar. 

Í tengdri frétt á mbl.is kemur fram að Slysaskráningu Íslands sé svo ábótavant, að til vansa og vandræða getur verið.

Á þessari bloggsíðu hefur frá fyrsta pistli fyrir rúmum áratug verið bent á, að síbyljufullyrðining og auglýsingin á því að allar orkulindir Íslands séu "100% endurnýjanlegar" sé röng, og að það sé ekki hægt að réttlæta það að jafn stór fullyrðing sem er grundvöllur undir því hvernig við kynnum og auglýsum land okkar og þjóð sé til dæmis látin dynja á ferðamönnum frá því að þeir ganga eftir innganginum í Leifstöð með stóru Landsvirkjunarauglýsingunni þar til að þeir kveðja landið með því að ganga fram hjá sömu risamynd.

Í samræðum og samskiptum við útlendinga er þetta auðvitað oft nefnt og þá segi ég að rétt tala sé líklega nálægt 75%.

Af viðbrögðum þeirra sé ég, að sú tala er samt svo há, að athygli vekur.

Þess vegna er barnalegt af okkur að halda 100% tölunni fram.

Í sumum málum er gefin skökk mynd með því að sleppa því að nefna staðreyndir. Til dæmis er talað stanslaust um það í Teigsskógarmálinu hve hræðilegir fjallvegir hálsarnir í Gufudalssveit, Hjallaháls og Ódrjúgsháls séu.

Til þess að sjá þá í réttu samhengi er hins vegar nauðsynlegt að nefna, að á leiðinni milli Gilsfjarðar og Vesturbyggðar eru tveir fjallvegir í viðbót, Kleifaheiði og Klettsháls.

Kleifaheiði er hæstur fjallveganna á þessari leið, 402 metrar yfir sjó, og Klettsháls er 332 metrar.  En hinn ógurlegi Hjallaháls er álíka hár og Klettsháls, 336 metrar.

Eftir því sem ég best veit eru veður og færð oft verri á Klettshálsi en á Hjallahálsi, og Kleifaheiði er 66 metrum hærri en Hjallaháls.

Samt er aldrei minnst á nauðsyn þess að fara framhjá eða undir Kleifaheiði eða Klettsháls, enda búið að gera þessa fjallvegi betri en áður var og malbika þá.

Um alla nefndra hálsa liggja heilsársvegir og hægt er að lagfæra Hjallaháls og malbika veginn eða gera jörðgöng undir hann.

Ódrjúgsháls er með engu móti hægt að kalla hálendisveg því að hann er aðeins 160 metrar yfir sjó og telst því á skilgreindu láglendi hér á landi, álíka hátt yfir sjó og nýjustu hverfin við Vatnsendahæð í Kópavogi.

Vegarstæðið í austanverðum Ódrjúgshálsi er hins vegar afleitt og forneskjulegt, en vel er hægt að nota annað, nýtt og miklu betra vegarstæði.

Því er haldið fram að jarðgöng undir Hjallaháls yrðu svo miklu dýrari en vegur um Teigsskóg.

Auðvelt er að fá slíkt út með því að hafa gangamunnana í aðeins 40 metra hæð yfir sjó eins og gert er ráð fyrir í útreikningunum, en hitt er aldrei nefnt að með því að hafa munnana í 110 metra hæð, sem er ekkert meira en við Vestfjarðagöng og Norðfjarðargöng, verða jarðgöngin álíka dýr og vegur um Teigsskóg.

Burtséð frá því hver niðurstaðan verður í þessu deilumáli, er lágmarks krafa að allar réttar upplýsingar liggi fyrir.  

Framkvæmda- og virkjanasaga Íslands er full af svona málum og þegar hefur verið valdið mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöllum hér á landi með einu þeirra.

 


mbl.is „Við getum gert allt betur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ólafur Arnalds prófessor - Teigsskógur og vegalagning:

"Skipulag vegalagningar um Gufudalssveit er orðið langt og sorglegt drama.

Ljóst var fyrir 11 árum síðan, þegar Skipulagsstofnun hafnaði vegastæði um Teigsskóg, að leggja þyrfti veginn með öðrum hætti.

Hefði sú vinna farið strax í gang keyrðu Vestfirðingar fínan malbikaðan veg um Gufudalssveit núþegar, bara á öðrum stað.

Það er afskaplega leiður ávani ýmissa stjórnvalda, í þessu tilfelli Vegagerðarinnar, að hunsa álit annarra stjórnsýslueininga á sviði umhverfismála.

Reynt var að láta ráðherra snúa við úrskurðinum, sem hún gerði (Jónína Bjartmarz) en Héraðsdómur ógilti úrskurð ráðherra (2008).

Enn var þumbast við en árið 2009 staðfesti Hæstiréttur "Héraðsdóminn". Ögmundur Jónasson komst síðar að sömu niðurstöðu sem ráðherra vegamála.

Þessi vegalagning um Teigsskóg virðist hins vegar hafa beinlínis orðið að þráhyggju hjá Vegagerðinni eða einhverjum þar innanhúss.

Og nú á enn að hunsa álit Skipulagsstofnunar og annarra ríkisstofnana sem fara með umhverfismál af hálfu ríkisins.

Veglína Vegagerðarinnar um Teigsskóg er umhverfislegt stórslys.

Jafnframt er beitt óvönduð vinnubrögðum, að mínu mati, til að viðhalda þráhyggjunni, gert lítið úr svæðinu við Teigsskóg (málið snýst alls ekki bara um skóginn), m.a. með vafasömum myndbirtingum.

Lítið er gert úr öðrum möguleikum en þegar rýnt er í þær röksemdir standast þau ekki mál.

Þá er fullkomlega gengið fram hjá byggðarsjónarmiðum sem lúta að því að treysta þéttbýlið á Reykhólum."

Þorsteinn Briem, 21.10.2017 kl. 08:54

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

31.3.2017:

"Endurbætur á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit, frá Bjarkarlundi að Skálanesi, hafa staðið til um margra ára skeið en gamall malarvegur er kominn til ára sinna.

Í vikunni skilaði Skipulagsstofnun áliti á umhverfismati Vegagerðarinnar fyrir veginum.

Í umhverfismatinu voru teknar fyrir fimm leiðir og lagði Vegagerðin til leið sem er kölluð Þ-H.

Skipulagsstofnun lagði hins vegar til í áliti sínu að farin yrði önnur leið sem er talin valda minni umhverfisáhrifum, D2.

Þrátt fyrir álit Skipulagsstofnunar hyggst Vegagerðin halda sínu striki."

 

 

 

 

 

 

 

Mynd með færslu 

 

 

Veglína Þ-H er græn og D2 appelsínugul.

Hvert er gjaldið fyrir Vestfjarðaveg?

Þorsteinn Briem, 21.10.2017 kl. 08:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband