Vantar 125 cc flokkinn hér á landi.

Létt vélhjól með vélarstærðina 125 cc falla í sérstakan flokk úti í Evrópu eftir því sem mér skilst. Unglingar geta farið ári fyrr en ella að aka slíkum hjólum og er þessi flokkur stundum kallaður "æfingaflokkurinn." 

Þessi stærðarflokkur er talinn hagkvæmur vegna sérstöðu hans varðandi getu og hagkvæmni og að rétt sé að láta hann njóta þess þegar reynt er að liðka fyrir umferð og minnka umferðarteppur og umferðartafir af völdum fjölgandi og stækkandi bíla. Vespuhjól 125cc

Vélarstærðin ein gerir það að verkum að hámarkshraði þessara hjóla er í kringum hámarkshraðamörkin hér á landi, 90 km/klst og þyngdin er svipað öryggisatriði, yfirleitt á bilinu 100 - 130 kíló, en lengri og dýrari 125cc hjól geta orðið 160-180 kíló.

Af þessu tvennu, miklu lægri hámarkshraða og miklu minni þyngd, leiðir að þessi hjól eru bæði auðveldari í meðförum og hættuminni en stærri hjól og vegna hinnar sérstöku flokkunar þeirra eru þau víða langvinsælustu vélhjólin, enda sparneytustu hjólin á markaðnum með rauneyðslu á 2,2-2,4 innanbæjar en 2,4-2,7 á þjóðvegum. 

Fyrir þá, sem vilja hjól sem getur fylgst með umferðarhraðanum hvar sem er en er þó með hámarksöryggi, er þetta upplagður ferðamáti sem minnkar einn og sér eyðslu og kolefnisspor um meira en helming miðað við sparneytnustu bíla, sem eru fjórum til fimm sinnum dýrari og þyngri. 

Stærsti kostur vespulaga hjóla með góðri framrúðu er skjólið sem lagið veitir fyrir vætu og vindi. 

Þennan flokk vélhjóla vantar hér á landi, því að allt tal um einhverjar "séríslenskar aðstæður" sem geri svona flokkun ómögulega, er út í hött. 

Um það get ég borið vitni eftir rúmlega árs notkun hjóls af þessari stærð í hverri einustu viku að vetri og sumri. 

Hin mikla samkeppni vélhjólaframleiðenda í þessum flokki veldur því að úrval svona hjóla er mjög mikið.  

Léttustu hjólin eins og Honda Vision, Suzuki Adress og Yamaha deligth,  eru sum með um 110 cc 8-9 hestafla vélar, ná samt 85-90 km/klst hraða, eru um 100 kíló og myndu kosta allt niður í 350 þúsund krónur ný. 

Algengustu hjólin eins og Honda SH, PCX og Forza, Suzuki Burgman 125, Yamaha N-Max og Kawasaki J125 eru með 12-14 hestafla 125 cc vélar, ná 95-105 km/klst hraða og kosta 550-1100 þús krónur. ný. 

Dýrari hjólin eru 15-30 sm lengri en hin og kallast erlendis "sofa"soooters, vegna þess að með lengingunni verða hjólin þægilegri ferðahjól og með allt að tvöfalt meira farangursrými. 


mbl.is Lögbrot að aka aflmeiri bifhjólum á stígum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju má hjólreiðafólk bruna á 40-50km/klst á gangstéttum ?

Hef næstum fengið þá á mig !"

Birgir Gudjonsson (IP-tala skráð) 22.10.2017 kl. 11:29

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mín reynsla er sú að það eru nær eingöngu menn á reiðhjólum sem eru knúin fótaafli eingöngu, sem brjóta þá meginreglu umferðarlaga að ógna ekki umferðaröryggi. Þótt þetta séu ekki mörg tilfelli eru þau nógu mörg til þess að þau eigi ekki að líðast. Mér skilst að í athugun sé að taka upp sjálfvirkt eftirlit á helstu stöðunum þar sem hætta er á svona atferli.

Ómar Ragnarsson, 22.10.2017 kl. 15:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband