5 flokka stjórn sat til enda kjörtímabils 1991. Mesti sigur nýs flokks var 1942.

Þrennt hefur vantað í umræðuna á þessari kosninganótt eða hefur þurft nánari skýringar. 

1.

Þrástagast hefur verið á því að aldrei hafi áður setið fimm flokka stjórn í landinu. Það er ekki rétt. Hér hefur einu sinni verið fimm flokka ríkisstjórn. 1989 var flokkum í ríkisstjórn fjölgað úr fjórum upp í fimm og stjórnin sat til enda kjörtímabilsins 1991. Þótt aðeins einn þingmaður sæti í meirihlutanum fyrir stjórnmálaflokkinn Samtök um jafnrétti og félagshyggju, var það viðurkenndur stjórnmálaflokkur, sem Stefán Valgeirsson stofnaði og bauð fram fullgildan framboðslista fyrir í Norðurlandskjördæmi eystra í kosningunum 1987. Hinir fjórir flokkarnir í stjórn voru Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag, Alþýðuflokkur og þingmenn úr Borgaraflokknum, sem stofnaður var 1987. Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra sagði síðar, að það hefði tekið jafn mikinn tíma hjá sér að hafa Stefán góðan og alla hina aðilana að stjórninni til samans.  

2. 

Talað hefur verið um "stærsta sigur nýs flokks í stjórnamálasögu landsins ef Miðflokkurinn fær 11% fylgi. Það er ekki rétt. Sameiningarflokkur alþýðu - sósíalistaflokkurinn, var stofnaður 1938 og bauð fyrst fram í næstu Alþingiskosningum í júlí 1942 og fékk þá 16,2% fylgi ef ég man rétt. Nútíma stjórnmálasaga Íslands hófst ekki við lýðveldisstofnun, heldur eftir að Ísland varð fullvalda 1918. Hið rétta er að gengi Miðflokksins verður það mesta hjá nýjum flokki í lýðveldissögunni ef fylgið verður meira en 10,9%. Það verður ekki af flokknum skafið og ekki heldur hitt, að það er hreint ævintýri og jaðrar við kraftaverk að koma svona framboði á koppinn með jafn góðum árangri með aðeins þriggja vikna fyrirvara. 

3. 

Rætt var um að hér á landi væri ekki nein hefð til fyrir því í stjórnmálum að mynda meirihluta með einum fleiri flokkum en þyrfti, eins og gert hefur verið í Finnlandi. En í borgarstjórn Reykjavíkur var myndaður meirihluti fjögurra flokka 2014, þótt aðeins þrjá flokka þyrfti til. Það var snjall leikur hjá Samfylkingu og Bjartri framtíð að láta ekki nægja að kippa annað hvort Vinstri grænum eða Pírötum inn til þess að mynda átta manna meirihluta, heldur kippa þeim báðum inn svo að meirihlutinn varð níu menn. Þetta þýddi einfaldlega að hvorki Píratar né Vinstri grænir gátu fellt meirihlutann einir og sér, og auk þess var komið í veg fyrir að einn borgarfulltrúi í meirihlutanum gæti fellt hann með því að ganga úr skaftinu. 


mbl.is Verður erfitt að mynda ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ráðuneyti Steingríms Hermannssonar 10.9.1989 - 30.4.1991

(Framsóknarflokkurinn, Alþýðuflokkurinn, Alþýðubandalagið, Borgaraflokkurinn og Samtök um jafnrétti og félagshyggju.)

Þorsteinn Briem, 29.10.2017 kl. 02:42

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sigmundur sagði reyndar að þetta væri stærsti nýi flokkurinn í fullveldissögu landsins. Svo hann fór ekki með rangt mál þar.

Jón Steinar Ragnarsson, 29.10.2017 kl. 07:10

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jú, hann fór með rangt mál, nú síðast á Stöð 2.  Ísland varð fullvalda ríki 1918 og Sameiningarflokkur alþýðu - sósíalistaflokkurinn var stofnaður sem nýr flokkur 1938 bauð fram í fyrstu kosningunum eftir stofnun hans, í júlí 1942 og hlaut 16,2 prósent atkvæða. 

Ómar Ragnarsson, 29.10.2017 kl. 13:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband