BJÖRN BJARNASON, ÞÓRUNN OG ÁRÓSASAMNINGURINN.

Á fundi Framtíðarlandsins um Árósasamninginn í gær kom fram hve við Íslendingar séum miklir eftirbátar nágrannaþjóða okkar í virku lýðræði varðandi umhverfismál og að einstakir ráðherrar eins og Björn Bjarnason og Þórunn Sveinbjarnardóttir geti ráðið miklu þar um, til dæmis með því að beita sér fyrir fullgildingu svonnefnds Árósasamnings og að endurbæta íslenskan efnisrétt um umhverfismál.

Í fyrirlestri Aðalheiðar Jóhannsdóttur kom fram að þær reglur ESB sem séu hliðstæðar og undanfari Árósasamningsins hafi meðal annars verið settar til að knýja fyrrum austantjaldsþjóðir til að bæta úr skorti á lýðræði í þessum málum og auðvelda ráðamönnum þar að skipa málum þannig að lokaákvarðanir þeirra byggist á bestu fáanlegu upplýsingum og skoðanaskiptum. 

Nú er staðan hins vegar þannig að Íslendingar draga lappirnar í þessum málum á sama tíma og allar aðrar Norðarlandaþjóðir og jafnvel austantjaldsþjóðir hafa samþykkt svona ákvæði. Alls 41 þjóð hefur fullgilt Árósasamninginn. 

Hér heima skortir að dómi Aðalheiðar mikið á að svonefndur efnisréttur sé virkur. Þess vegna verði að fara dómstólaleið á fleiri málum hér en erlendis og þar sé mikið ójafnræði með aðilum því að stjórnvöld og ráðamenn hafi þar yfirburði.

Í Árósasamningum eru ákvæði um að ríkisvaldinu sé skylt að styrkja fjárhagslega viðurkennda andmælendur í álitamálum og þar er kannski um að ræða mikilsverðasta efni samningsins. 

Þess vegna eru margföld ástæða til að velta vöngum yfir afstöðu Björns Bjarnasonar í þessu máli. Vitað er um áhuga í röðum Samfylkingarfólks um að fullgilda samninginn en á sama hátt virðist Björn ekki hrifinn af því að sauðsvartur almúginn hafi sig mikið í frammi. Hvers vegna segi ég það?

Jú, á fundinum í gær kom fram í máli pallborðsmanns að Björn hefði þrengt ákvæði um gjafsókn en það gerir samtökum, félögum og einstaklingum erfiðara að leggja út í dýr dómsmál, - einnig að það væri fyrst og fremst Björn sem drægi lappirnar í því að fullgilda Árósasamninginn.

Björn er dómsmálaráðherra og hefur því talsvert um þetta mál að segja. Í nágrannalöndum okkar er svonefndum efnisrétti mun betur fyrir komið en hér, - þar eru ákvæði um efnistök, skilyrði, málsmeðferð og úrskurðarnefndir sem auðvelda miðlun upplýsinga og skoðana áður en koma þurfi til kasta dómstóla.

Maður hefði ætlað að dómsmálaráðherra væri því fylgjandi að létta álagi af dómstólum landsins og stuðla að lagabreytingum sem efla lýðræði og möguleika á niðurstöðum í erfiðum málum áður en í óefni er komið.

Björn var einn harðasti gagnrýnandi alræðis og ofríkis miðstjórnarvaldins í Austur-Evrópu á tímum kalda stríðsins og ætti því að fagna umbótum á íslensku réttarkerfi í anda lýðræðishugmynda sem eiga uppruna sinn í landi frelsisins, Bandaríkjunum. 

Ég á erfitt með að trúa því að hann dragi lappirnar gagnvart nútíma hugmyndum um upplýsingu, lýðræði og umhverfsmál sem jafnvel fyrrum austantjaldsþjóðir hafa tekið upp.

Ég lýsi því eftir afstöðu Björns Bjarnasonar í þessu máli svo að það liggir fyrir hvar hann stendur.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nei, nei og aftur nei. Ef ég skil rétt þ.e.a.s., að þetta sé tilraun til að koma meintum umhverfisverndarsinnum á traustari ríkisfjárlög þá er svarið bara einfalt nei. Það er fullt af samtökum til. Það er auðvelt að nefna öfgadæmi eins og rasista og þess háttar, en hver á að ákveða hverjir komist á fjárlög? Ríkið getur ekki borið fjárhagslega ábyrgð á öllu brölti borgaranna. Hvað sjálfskipaða talsmenn umhverfis og náttúru varðar, þá erum við skattborgarar nú þegar að halda úti heilu Ríkisútvarpi þeim til að því er virðist nær frjálsra afnota. RÚV drap t.d. stækkun Alcan eins og Ólafur Teitur hefur rakið í góðum pistli. Ekki meir. Annars stofna ég samtök um verndun allra minna áhugamála og heimta ríflega ríkisstyrki til að rannsaka sambærilega starfsemi á Hawai og Jamaica.

Fossvoxari (IP-tala skráð) 28.9.2007 kl. 14:22

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Fossvoxari. Þú vilt sem sagt að fjársterkir aðilar verði "jafnari en aðrir"?

Villi Asgeirsson, 28.9.2007 kl. 15:22

3 identicon

Fjársterkir aðilar verða vissulega ætíð að einhverju leiti jafnari en aðrir. En á það verður ekki bætandi að taka fjármuni þjóðarinnar og eyða þeim í enn eina vitleysuna.

Stjórnlyndi og peningaplokk af almúganum er ekkert svar.

Sauðsvartur almúginn hefur sitt fram, þegar hann vill. Hann á hinsvegar ekki skilið að þurfa að borga skatta til að fjármagna gæluverkefni sem eru ekki á verkahring þeirra sem taka skattfé með valdi.

Ef menn vilja gera eitthvað slíkt, eiga menn að gera það sjálfir, en neyða ekki nágranna sína til að borga brúsann.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 28.9.2007 kl. 17:43

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Skrýtið er að sjá mann notað orðið "stjórnlyndi" um það að reynt sé að skakka ójafnan leik þegar yfirvöld og stórfyrirtæki nýta yfirburðaaðstöðu sína til að keyra sitt fram.

Á sínum tíma notuðu yfirvöld í kommúnistaríkjunum þau rök að í kerfinu þar væri tryggt að stjórnvöld ynnu fyrir borgarana í kerfi þar sem ekki þyrfti að eyða fé eða kröftum í skoðanaskipti eða lýðræði. Stjórnvöld vissu ætíð best hvað þegnunum væri fyrir bestu.

Sérstaklega er skemmtilegt að heyra menn sem telja sig mikla lýðræðissinna halda þessu fram og verja það að á okkar landi sé ekki hægt að fullgilda samning sem á rætur sínar í lýðræðishugsun ættaðri frá Bandaríkjunum.

Sem sagt: Við höfum ekki efni á að haga lýðræðismálum okkar á sama hátt og nágrannaþjóðirnar. Þá höfum við það.  

Ómar Ragnarsson, 28.9.2007 kl. 21:18

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvar á að draga mörkin Ómar, hverjir fá og hverjir ekki?? Hvað á að verja miklu fjármagni í þetta? Hvar á að skera niður á móti?

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.10.2007 kl. 14:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband