HINN "HUGLÆGI STYRKUR" KRÓNUNNAR.

Flestir þekkja viðbrögð hundsins sem á von á kjötbita: Hann iðar allur, fyllist óróa, spennist upp og slefar jafnvel í langan tíma áður en kjötbitinn kemst til hans. Í fjölmiðlum í dag var birt álit tveggja sérfræðinga sem lýstu svipaðri hegðun þjóðarinnar allt frá 2002 þegar ráðamenn notuðu 40 ára gamalt bragð til að fá fram hliðstæð viðbrigði hjá landsmönnum með því að veifa framan í þá ígildi kjötbitans, - álveri. Afleiðingin líktist fylleríi og í kjölfarið fylgdi hátt gengi krónunar, sem byggðist eingöngu á huglægu mati á gildi hennar en engann veginn á aukinni verðmætasköpun.

Rannsókn sérfræðings Seðlabankans á sínum tíma á því hvernig þenslan gat staðið frá 2002-2003 án þess að framkvæmdir væru hafnar leiddi í ljós að 80 prósent þenslunnar fólst í auknum yfirdráttarheimildum greiðslukorta landsmanna, - þeir eyddu og spenntu, fluttu inn ameríska pallbíla og steyptu sér í stórskuldir til að kaupa allt frá flatskjám upp í íbúðarhús.

Ráðamenn juku á neyslufylleríið með því að stórhækka lán til húsnæðiskaupa sem aftur leiddi til húsnæðislánasprengju vegna fyrirsjáanlegrar samkeppni bankanna. Fjórum árum siðar var útlánaaukningin meira en brennd upp á báli hækkaðs húsnæðisverð og ofurvaxta undir stjórn Seðlabankans, sem með þeim reyndi að hafa hemil á verðbólgu sem fór samt langt fram úr viðmiðunarmörkum. 

Ofurvextirnir löðuðu síðan að sér fjárfesta sem bröskuðu með krónur og krónubréf og nýttu sér vaxtamun Íslands og annarra landa. Afleiðingin varð fáránlega hátt gengi krónunnar sem eins og áður sagði byggðist eingöngu á tilfærslu með gjaldeyri og huglægu mat á krónunni en að engu leyti á aukinni verðmætasköpun.

Eins og oftast gerir fíkillinn sér enga grein fyrir ástandi sínu, - aðalatriðið í hans huga er að viðhalda vitneskjunni um komandi álverskjötbita til þess að geta haldið áfram að slefa og iða.

Þess vegna eru nú keyptar fleiri utanlandsferðir og fluttir inn dýrari og fleiri bílar en nokkru sinni fyrr á sama tíma og bensínverð rýkur upp í áður óheyrðar hæðir ! 

OECD og aðrir raunsæir aðilar sjá hins vegar ástandið í ofneyslunni og fylleríinu en ráðleggingum þeirra um að hætta drykkjunni er vísað á bug og í staðinn veifað enn nýju álveri til að fá þjóðina til að halda eyðslufylleríinu áfram.

Álver skortir aðeins 20% upp á að vera 100% ígildi þess að pissa í skóinn, - aðeins 20% fjárfestingarinnar verður eftir sem virðisauki. Til samanburðar má geta þess að meira en þrefalt hærri virðisauki fæst við fjárfestingu í sjávarútvegi og ferðaþjónustu.  

Störf í álveri eru dýrustu störf sem hægt er að skapa og atvinnuávinningurinn ekki meiri en svo að eftir að eyða allri orku landsins og stúta nær allri náttúru þess fyrir álver er afraksturinn aðeins um 2% af vinnuafli landsmanna.  

En víman má ekki víkja, væntingarslefan má ekki slitna og hinir óhjákvæmilegu timburmenn munu því á endanum verða enn hrikalegri en ella.  

 


mbl.is Krónan lækkaði um 6,97%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

UM 22.500 manns eiga nú afkomu sína undir orkugeiranum og stóriðju á Íslandi. Áversuppbyggingin í Straumsvík með tilheyrandi orkuöflun í Búrfelli, ásamt fleiri stóriðjuframkvæmdum á seinni árum, er grundvöllur þessara starfa. Þau störf eru flest langt yfir meðaltalstekjum í landinu og töluvert meira en 2% vinnuafls

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.3.2008 kl. 23:44

2 Smámynd: Pétur Kristinsson

En er það þess virði að fórna náttúru landsins fyrir þetta? Ef við horfum til framtíðar að þá er líftími virkjana takmarkaður eins og fyrir austan en ósnortinn náttúra er að eilífu ef að við eyðileggjum hana ekki. Ég hef tröllatrú á markaðssetningu náttúrunnar t.d. jeppaferðum á jökla og fleira, riverrafting, veiði alls konar úr hreinum ám og á hreindýrum. Þetta má nýta um ókomna framtíð og kostar heilmikla markaðsetningu því að samkeppnin við önnur lönd er hörð. Af því að ég hef aðeins unnið við þennan bransa að þá veit ég að miklir peningar geta verið í boði en aðeins ef við auglýsum Ísland.

Pétur Kristinsson, 18.3.2008 kl. 00:11

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er hlyntur öllu því sem þú nefnir Pétur í markaðssetningu og sölu á þessum náttúruauðlindum sem þú nefnir. En ég er ekki sammála þér í því að við séum að fórna náttúru landsins, nema að litlu leiti fyrir þessi 22.500 störf í orkugeiranum og stóriðju. Vissulega fórnum við einhverju, en aðeins litlum hluta. Orkuöflun og stóriðja hefur mjög svo takmarkaða vaxtamöguleika hér en það er ekki komið að leiðarlokum í þeim efnum. Það er töluvert í það enn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.3.2008 kl. 00:56

4 identicon

Ja hvur þremillinn Guntar TH, hví hellir þú ekki yfir manninn svívirðingum ?? sérðu ekki að þessi mynd er ekki af honum það liggur ljóst fyrir Guntar TH. Þetta er ferlegt Guntar TH. en síðan sem þú linkaðir á um daginn var dálítið vafasöm.

kv. Bernt Tove

Bernt Tove (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 09:47

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég skil ekkert í honum Ómari að biðja þig ekki um að hætta þessu....? Þú hefur ekkert að segja í umræðum hér.

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.3.2008 kl. 10:03

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég vil biðja þá sem koma með athugasemdir á síðunni minni að sýna lágmarks kurteisi og mannasiði í skrifum sínum svo sem að nefna viðmælendur sína réttum nöfnum og fara eftir reglum mbl.blog.

Ég hef verið á spítala undanfarna viku og því ekki getað fylgst með sem skyldi. Þar á undan hef ég dregið það við mig að skipta mér af frjálsum skrifum manna og treyst á að almennir lesendur skauti yfir athugasemdir sem stundum slæðast með og innihalda ómálefnalegar, rætnar og oft illskiljanlegar fullyrðingar.

Ef svo fer að þessi linni ekki og það fæli almenna lesendur frá síðu minni mun ég neyðast til að biðja stjórnendur bloggins um að grípa til viðeigandi ráðstafana.

Bull og sori á borð við athugasemd Bernt Tove (IP-tala skráð) hér að ofan er nokkuð sem ég vil ekki sjá á minni bloggsíðu og hygg ég að ég tali þar fyrir munn bloggvina minna og annarra gesta á síðunni.

Þetta fer að verða þreytandi og leiðinlegt en síðu minni og tilheyrandi athugasemdadálki var í upphafi hvorki ætlað að verða þreytandi, leiðinleg né meiðandi, heldur hressileg, skemmtileg og uppbyggjandi.

Ómar Ragnarsson, 18.3.2008 kl. 11:07

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hressandi athugasemd hjá þér Ómar, í veðurblíðunni hér á Reyðarfirði

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.3.2008 kl. 11:13

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gaman væri að vita hvernig talan 22.500 er fengin. Þótt stóriðjan eigi stærstan hlut í orkugeiranum á hún ekki þetta allt. Ef við tökum þá sem vinna í álverunum og bætum við 4-5 afleiddum störfum fyrir hvert starf fæst aðeins talal sem er brot af þessum 22.500.

Auk þess er vafasamt að fjórfalda starfsmannafjölda í hverri atvinnugrein í skjóli afleiddra starfa því að ef við gerum það við allar atvinnugreinar þjóðarinnar fáum við líkast til út tvöfalt fleira fólk en býr á landinu.

Nema að Gunnar telji með alla þá sem vinna tímabundið við virkjanaframkvæmdir. Þeir voru til dæmis ansi margir sem unnu við Blönduvirkjun en eftir að framkvæmdum lauk er hægt að telja þá sem vinna við Blönduvirkjun á fingrum annarrar handar.

Ómar Ragnarsson, 18.3.2008 kl. 11:13

9 identicon

Það er nánast alveg sama hvað gert er í framtíðinni, hvort það sé virkjanir eða leyfðar tugir ef ekki hundruðir ferða upp á fjöll, þetta snýst allt um náttúruna.  Ef virkjað er að þá er einhverjum tóftum og þúfum ásamt grjóthnullungum skellt í kaf með tilheyrandi færslu á lífríki af því svæði (jú, dýrin hafa vit á því að færa sig til rétt eins og maðurinn).  Ef fleiri útsýnisferðar á ofurjeppum verða leyfðar upp á hálendið þýðir það væntanlega jarðrask, sóðaskapur ferðamanna sem og ágætis skammtur af bensínbrennslu út í andrúmsloftið.  

Þetta Riverrafting ævintýri er sjálfsagt ágætt út af fyrir sig en ég er ekki að sjá 22.500 störf (eins og Gunnar nefnir) myndast útaf fáeinum ám hér á Íslandi sem skapist vegna örfárra aðila sem hafa gaman að þessu.  

Það skiptir í raun engu máli hvernig manneskjan snýr sér.  Þetta endar alltaf á því að náttúran tapar en bara hversu miklu í hvert skipti.  Það myndi engu skipta ef hvert einasta mannsbarn á Íslandi myndi baka pönnukökur og vöfflur og selja á erlendum mörkuðum, það myndi alltaf vera á kostnað náttúrunnar...munið...virkjanir!  Þessi athugasemd mín hefur eflaust fáeina vatnsdropana sopið og því hætti ég nú! 

eikifr (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 11:22

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég leyfi mér að vitna í Sigurjón Vigfússon (Rauða Ljónið) sem hann hefur lagt inn hér á athugasemdasíðunni þinni áður:

"Árið 1969 voru um eitthundrað verkfræðimenntaðir menn á landinu og áttu í erfiðleikum að fá sé vinnu við sitt hæfi á Íslandi. Nú eru um 3.500 verk- og tæknifræðingar og fjölgar ört, þrátt fyrir það er gríðarlegur skortur á fólki í þessari grein.

UM 22.500 manns eiga nú afkomu sína undir orkugeiranum og stóriðju á Íslandi. Tuttugu og tvö þúsund og fimm hundruð manns sem vinstrimenn vilja svipta lífsviðurværinu og tryggja að þeirra hagur og framtíð sé í lausu lofti.

Hvar skyldi allur þessi hópur 22.500 manna starfa? Hópurinn er í Ál geiranum Járn-blendinu, Landsvirkjun, Rei, Geysi Green, Orkuveitu Suðurnesja, Orkuveitu Reykjavíkur, Orkustofnum og fleiri fyrirtækjum og stofnunum sem öll fengu vítamínsprautu í kjölfar byggingar Álversins í Straumsvík".

Það er auðvitað þannig að afleiðingar stóriðjunnar koma víða fram. Eins og þú hefur sagt sjálfur Ómar, þá varstu hlyntur álverinu í Straumsvík á sínum tíma og stóriðjan hefur átt gríðarlega stóran þátt í því að auka fjölbreytni í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Og afleiðingarnar lýsa sér í alls óskyldum framkvæmdum, eins og t.d. uppbyggingu háskólasamfélagsins, samgöngubótum, í menningarmálum og ótal mörgu öðru. Stöðugleiki er forsenda áætlanna og uppbyggingar, og stóriðjan er traustur póstur. Við vitum hvar við höfum hana. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.3.2008 kl. 13:39

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég vil þó taka það fram að ég horfi til annara atvinnugreina en stóriðju með meiri velþóknun. Fátt er mér meira hugnanlegt en lítil og meðalstór fyrirtæki í þjónustu og framleiðslugeiranum. Ég tel að stóriðjan styrkji flesti fyrirtæki í nánd og firð.

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.3.2008 kl. 13:47

12 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Laissez-Faire (sem þýðir frjálshyggja eða afskiptaleysi) hlýtur að vera að grínast.

Lára Hanna Einarsdóttir, 19.3.2008 kl. 00:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband