Ekki seldur, sárt saknað.

Rúnar Júlíusson tengist mér sérstökum böndum. í meira en þrjátíu ár var hann fastamaður í svonefndu Stjörnuliði sem keppt hefur árlega á ýmsum stöðum víða um land. Leikmenn í þessu liði hafa líkast til verið vel á annað hundrað alls í gegnum árin. Eðli málsins samkvæmt hefur verið mikið gegnumstreymi leikmanna í liðinu á svo löngum tíma því stjörnur á sviði lista, stjórnmála og íþrótta koma og fara.

Rúnar var eini leikmaðurinn fyrir utan okkur bræðurna, Jón og mig, sem hefur leikið með liðinu allan tímann og aðeins misst úr tvo eða þrjá leiki. Alltaf kom hann, ljúfur, léttur og yndislegur, frá Keflavík og lagði sitt af mörkum hvernig sem heilsan var.

"Þú verður aldrei seldur" sagði ég eitt sinn við hann þegar hann kom til leiks, nýkominn úr erfiðum veikindum og spilaði meira af vilja en getu í einum af tugum leikja okkar í Vestmannaeyjum. "En kannski fjarlægður", svaraði hann brosandi og tók um hjartastað. "Það er ekki hægt að kveðja á heppilegri stað" bætti hann við og leit yfir knattspyrnuvöllinn.

Honum auðnaðist að láta ljós sitt skíina mörg ár eftir það og það varð að lokum ekki knattspyrnuvöllurinn þar sem kallið kom, heldur sviðið sem hann hafði átt í meira en fjörutíu ár. "Ekki hægt að kveðja á heppilegri stað".

Gull að manni, ljúfur, brosmildur og jákvæður. Fallinn er frá sá sem best söng lagið "Þú ein" við brúðkaup. Hans er sárt saknað. Hann átti engan sinn líka.


mbl.is Rúnar Júlíusson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Samúðarkveðjur til þjóðarinar...

Villi Asgeirsson, 5.12.2008 kl. 12:59

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nú spilar Rúnar á öðrum völlum og senum, stærri en hann hefur áður þekkt.

Allir sjáumst við þar.

Þorsteinn Briem, 5.12.2008 kl. 14:43

3 identicon

Guð blessi minningu hans. Ég votta fjölskyldu hans og vinum djúpar samúðarkveðjur. Öðlingur, mannvinur og stór listamaður er horfinn af sjónarsviðinu. Takk Ómar fyrir þessa grein þína.

Hreggviður Davíðsson (IP-tala skráð) 5.12.2008 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband