Íslenskur friðarhöfðingi.

Ég játa að ég er ekki nógu kunnugur í Sómalíu til að geta útskýrt til fullnustu hvers vegna ræningjar í þessu landi eru það öflugir að þeir komist í heimsfréttirnar. Hitt veit ég að persónulega upplifði ég nálægð þeirra nokkru fyrir norðan landamæri Sómalíu og Eþíópíu fyrir tveimur árum.

Það voru ræningjar á landi, sem herjuðu norður fyrir landamærin inn í Eþíípíu. Ég var þá á ferð með Helga Hróbjartssyni kristniboða syðri landleiðina milli Addis Ababa og héraðsins El-Kere.

Á leiðinni fékk ég að vita hjá innfæddum að engir erlendir ferðamenn væru óhultir fyrir ræningjum frá Sómalíu á þessum slóðum og þess vegna dirfðust engir útlendingar að fara um þessar slóðir.

Hins vegar breytti það miklu fyrir mig að vera í för með Helga Hróbjartssyni kristniboða. Slíkrar virðingar nyti hann á þessum slóðum fyrir einstætt líknar- hjálpar og menntastarf sitt. Enginn myndi dirfast að snerta hár á höfði hans, hvorki sómalskir ræningjar né nokkrir aðrir.

Á langri leið um þau héruð þar sem Helgi hafði unnið ævistarf sitt hittum við fólk, sem komið var til áhrifa fyrir tilverknað Helga og voru orðnir stjórnendur í hinum fátæku og frumstæðu samfélögum á þessum slóðum.

Í El-Kere var haft á orði að virðingarröð átrúnaðargoða fólksins væri þessi: 1. Allah. 2. Múhammeð. 3. Helgi Hróbjartsson.

Þetta afrek Helga er þeim mun merkilegra að hann er kristniboði og þess vegna með ólíkindum sú virðing sem hann hefur aflað sér, ekki aðeins meðal muslima heldur einnig yfir landamærin á slóðir ræningja.

Ég hef hvergi upplifað eins sterkt hvað ævistarf eins manns getur haft göfgandi áhrif á fjölda fólks og ljúft að minnast þessum á hátíð friðarins.

Ég er að vinna að heimildarmynd um Helga, sem ber nafnið "Engill af himnum." Vegna veikinda og anna við önnur störf hefur það starf dregist á langinn en mjakast þó áfram. Myndin byggist á tveimur ferðum til Eþíópíu 2003 og 2006 og ég reikna með að í tengslum við myndina muni einnig fylgja mynd um ferð til Mósambík árið 2005.

Ekki er langt síðan að bandaríski flugherinn gerði árás á sómalska uppreisnarmenn með velþóknun yfirvalda í Eþíópíu. Sómalía er greinilega "órólegt horn" á austurströnd Afríku rétt eins og Balkanskagi hefur löngum verið í Evrópu.


mbl.is Sómölskum sjóræningjum sleppt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

en hann er í 3ja sæti, á eftir félögunum Allah og Muhammed. er trúboðið þá ekki að virka sem skildi? hvar eru Guð og Ésú?

Brjánn Guðjónsson, 26.12.2008 kl. 14:27

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Brjánn minn góður. Jesú og Múhameð eru tveir af mörgum spámönnum í íslam (múhameðstrú) en Múhameð sá mikilvægasti, enda opinberaði erkiengillinn Gabríel Kóraninn fyrir Múhameð. Og um sama Guð er að ræða í bæði kristni og íslam, enda þótt hann sé kallaður Allah í íslam, og reyndar nota kaþólikkar á Möltu einnig orðið Allah yfir Guð.

Í íslam er Guð hins vegar ekki þríeinn, Guð, Jesú og Heilagur andi, eins og hann er í mörgum kirkjudeildum, samanber trúarjátningu íslams sem sjá má á fána Sádi-Arabíu: "Enginn er Guð nema Allah og Múhameð er spámaður hans."

Þannig getur Helgi Hróbjartsson kristniboði fallið vel inn í ofangreint íslamískt sístem sem engill, eða fullkomið engilsígildi sem þjónar Allah, enda merkir orðið engill (angelos á grísku) sendiboði og Helgi er að sjálfsögðu sendiboði Guðs.

Í Sjálfstæðisflokknum er þetta atriði svona og þessar persónur sem þríeinn Guð:

Guð = Davíð Oddsson,
Jesú = Geir Haarde,
Heilagur andi = Þorgerður Katrín.

Vinstri grænir eru hins vegar með íslamískt sístem og þar af leiðandi einn Guð, Steingrím Joð, sem um tíma var negri í Þistilfirði.

"Þrenningarhugtakið sem slíkt er ekki að finna í Biblíunni, hvorki í Gamla eða Nýja testamentinu. Það var kirkjufaðirinn Tertullianus (um 160—225) frá Karþagó sem um ár 200 setti fram grundvallarsetningu þrenningarkenningarinnar: "Guð er einn að eðli og þrjár persónur." Hugtakið Þrenningin var fyrst notað af Þeophílusi frá Antiokkíu um ár 180 og varð afgerandi við framvöxt kaþólsku kirkjunnar og rétttrúnaðarkirkjunnar."

Hinn fallni engill Lúsífer ræður hins vegar ríkjum í Sómalíu um þessar mundir.

Ég vona að þetta skýri málið fyrir þér, elsku kallinn minn.

Þorsteinn Briem, 26.12.2008 kl. 17:09

3 identicon

Ég ætla ekki að dæma alla trúboða en svona yfirhöfuð þá hefur trúboð gert illt verra í þessum löndum.

Steini það er hugsanlegt að ef þessir kuflar hefðu ekki tekið þá persónulegu ákvörðun að Jesú væri guð, að þá væru islamistar og kristnir bara ágætis vinir.
Það er nefnilega það að Sússi sé titlaður sem guð sem er þeirra helsta bitbein, islamistar vilja meina að Sússi og Mummi séu spámenn, að guð sé bara einn.
Það er margt alveg eins eða mjög svipað í báðum þessum trúarbrögðum.

DoctorE (IP-tala skráð) 26.12.2008 kl. 17:59

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

DoctorE. Menn finna sér alltaf eitthvað til að rífast og slást um. Ef engin væru trúarbrögðin væri það bara eitthvað annað, samanber söguna af bræðrunum Kain og Abel, sem reyndar er Biblíusaga. Núna slást menn út af olíu og næst verður það vatnið. Við Íslendingar eigum hins vegar besta vatn í heimi, flytjum sífellt meira út af því og verðið mun hækka enn frekar á næstu árum og áratugum.

Enda þótt meirihluti Íraka og Írana séu sjía-múslímar féll um ein milljón manna í stríði þessara þjóða á árunum 1980-1988, þar sem þær börðust aðallega um áhrif á Persaflóasvæðinu.

"Súnní er stærsta fylkingin innan íslam, en íslömsk trú klofnaði í tvo meginmeiði á sjöundu öld í kjölfar deilna um eftirmann Múhameðs spámanns. Annarsvegar eru súnní-múslímar, eða súnnítar, sem eru mikill meirihluti múslíma í heiminum, og hins vegar sjía-múslímar, eða sjítar, sem eru í minnihluta í heiminum. Sjítar eru þó í meirihluta í Írak og Íran."

"Sagan af Kain og Abel bergmálar með margvíslegum hætti í bókmenntum Vesturlanda. Ameríski rithöfundurinn John Steinbeck (1902-1968) sem notaði 3. og 4. kafla 1. Mósebókar sem innblástur fyrir skáldsögu sína frá 1952 East of Eden útskýrði þannig áhrifamátt textans:

"Ég trúi því að það sé aðeins til ein saga í heiminum, og aðeins ein, … Mannkynið er fangað – í lífi sínu, í hugsunum sínum, í hungri sínu og metnaði, í ágirnd sinni og grimmd, og einnig í gæsku sinni og örlæti, - í neti góðs og ills … þannig er þessi eina saga [um Kain og Abel] grunnur allra geðflækna mannsins – og ef fallið er tekið með þá hefur maður summu allra sálrænna erfiðleika sem maðurinn getur orðið fyrir."

Kain, banamaður hins saklausa Abel, bregst við boði Guðs um að útskýra gerðir sínar með kaldhæðinni gagnspurningu sem hefur bergmálað í gegnum alla mannkynssöguna.

"Þá sagði Drottinn við Kain: "Hvar er Abel, bróðir þinn?" Kain svaraði: "Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?"" (1Mós 4.9)"

Þorsteinn Briem, 26.12.2008 kl. 19:10

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég sé af einni athugasemdinni að það gera sér ekki allir grein fyrir því hve langt Helgi Hróbjartsson hefur náð í hugsjónastarfi sínu í Afríku. Hann er í sömu hávegum hafður og að kristnir menn á Íslandi hefðu sína röðun svona: 1. Guð. 2. Jésú. 3. Arabískur múslimatrúboði.

Einnig átta ekki allir sig á því á hvern hátt trúboð Helga og félaga hans virkar. Þeir sýna fram á gildi trúar sinnar með hegðun sinni og hjálpar- og líknarstörfum sem eiga að sýna kærleiksboðskap kristinnar trúar í verki,

Við hjónin komum með Helga til afar afskekkts staðar sem er í þriggja daga göngufjarlægð frá næstu byggð og yfir þrjá fjallgarða að fara. Þetta hafði Helgi lagt á sig ítrekað fyrr á árum þegar hann fór í ferðir sínar til þessa afskekkta þorps sem heitir Gúrra. Enginn vegur lá þangað.

Eftir að Helgi keypti gömlu FRÚ-na mína gat hann flogið þangað á hálftíma og hann flaug með okkur hjónin þangað.

Þarna var Helgi nánast tilbeðinn. Áður en hann kom þangað fyrst réði þarna ríkjum djöflatrú, sem byggðist á skelfilegum óttaboðskað og fórnum til að blíðka djöflana.

Nokkrir gamlir galdralæknar réðu fyrrum ríkjum og byggðu veldi sitt á því að þeir einir gætu haldið djöflunum í burtu með særingum sínum.

Með reglulegu millibili þurfti að fórna fyrir þá og bera í þá vín og dýrindis matföng.

Helga tókst með einstæðri framkomu sinni og mildi að snúa fólkinu til trúar kærleika, fyrirgefningar og auðmýktar og vinna bug á hræðsluvaldi gömlu galdrameistaranna.

Búið var að reisa skóla og stofna til grunnmenntunar og grunnheilbrigðisþjónustu. Engin þvingun var höfð í frammi og það haft í huga að umbótastarfið tekur 2-3 kynslóðir.

Alls staðar þar sem við komum flykktist allt fólkið í kringum Helga nema á þessum stað. Þar flykktust fleiri í kringum Helgu, konu mína vegna þess að fólkið hafði aldrei áður séð hvíta konu.

Á leið minni út úr þorpinu kom gömul kona hlaupandi út úr einum strákofanum, féll fyrir fætur mér og kyssti þá, svona svipað og maður heyrir að fólk hafi gert við Krist.

Þetta var þakklætis- og virðingarvottur hennar við hinn hvíta samlanda Helga. Það er engin leið að lýsa þessu af neinu viti í stuttri athugasemd. Það verður að bíða heimildarmyndarinnar.

Ómar Ragnarsson, 27.12.2008 kl. 01:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband