Bjartar sumarnætur aftur á Íslandi.

Ég átti fund með nokkrum málsmetandi útlendingum um daginn og fór með þeim yfir sérstöðu Íslands gagnvart öllum öðrum löndum heims.

Ósnortin náttúruverðmæti Íslands skipa hinum eldvirka hluta landsins á bekk með 40 mestu náttúruundrum veraldar í vandaðri bók ferðamálasérfræðinga um 100 undur veraldar.

Í þeirri bók kemst Yellowstone þjóðgarðurinn í Bandaríkjum með sína tvær milljónir ferðamanna á ári ekki á blað, - Ísland er merkilegra.

Þetta vel menntaða háskólafólk hafði aldrei gert sér grein fyrir þessu né heldur að hvers kyns verðmætum hefði þegar verið fórnað og stæði til að fórna fyrir skammtímagróða á kostnað komandi kynslóða.

Ég var að heyra frá þeim aftur í gær og niðurstaða þeirra var einróma um björtustu vonina á Íslandi. Á ensku heitir það ecotourism, náttúruferðamennska.

Ef tilvera okkar snýst öll um peninga getum við á veturna selt það sama og Lapplendingar, sem fá fleiri ferðamenn til sín yfir veturinn en Íslendingar allt árið.
Lapplendingar selja fjögur atriði: Kulda, myrkur, þögn og ósnortna náttúru. Okkar náttúra tekur náttúru Lapplands langt fram.

Á sumrin seljum við þetta allt, nema að í staðinn fyrir myrkur koma bjartar sumarnætur. Það er í hendi okkar sjálfra hvort aftur verða bjartar sumarnætur á öllum sviðum á Íslandi.


mbl.is Bjartar sumarnætur að baki á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

„Sérkenni íslenskrar náttúru er einmannaleikinn í hverskonar myndum. Á Sprengisandi er það stormurinn, í Öskju hvinur snjóbyljanna, kynlegt urg fljótandi vikurhranna og þrumandi gnýr skriðufallanna. Við brennisteins- og leirhverina heyrist ekki mannsins mál fyrir hvæsi og þjótanda og við ströndina óma orgeltónar brimöldunnar. Við Laka er þögnin þrúgandi eins og í gröf.“

Orð þessi voru skrifuð fyrir hundrað árum, réttum. Þau skrifaði ferðalangur, Ina von Grumbkow, í bók sem hún gaf út eftir Íslandsför sína, kona sem hingað kom í eftirgrennslan sinni um örlög unnusta síns, sem horfið hafði í Öskjuvatn ásamt félaga sínum, sumarið áður. (sjá grein í Lesbók Mbl.17.08.08)

Það var einmannaleiki íslenskra öræfa sem hreif hana mest.  Og hann hefur margfaldast að verðmæti síðan þá.

Þegar Ina von Grumbkow sér Öskjuvatn í fyrsta sinn, er það ekki sorgin sem fyllir huga hennar heldur hástemmd hrifning hún skrifar m.a. í dagbók sína.


„Hvílíkt vatn – eins og dýrmætur eðalsteinn“ og að kvöldi fyrsta dags; „Hve konungleg gröf er þeim ekki báðum búin sem hvíla á botni þess“

Þeir eru löngu liðnir júlídagarnir eins og þeir sem hún varð aðnjótandi, einsömul með félögum sínum í Öskju, dögum saman, árið 1908.

Nú eru þar rútur, jeppar og túristar eins langt og augað eygir.

Og þú vilt, hvað... tvöfalda, þrefalda, fimmfalda, tífalda þá áníðslu Ómar, sem þegar er?

Verða þá ennþá til „Ósnortin náttúruverðmæti Íslands“ heldurðu, eins og þú lýstir þessu fyrir þessu málsmetandi velmenntaða háskólafólki?

Mengun og náttúruspjöll vegna ferðamennsku hefur enga sýnilega "kosti" umfram mengun og náttúruspjöll vegna stóriðju.  

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 13:19

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef skoðað 25 þjóðgarða og vernduð svæði erlendis og það er eingöngu framkvæmdaratriði hvernig umgengni er stjórnað þannig að náttúruspjöll verði ekki afl með miklu meiri umferð ferðafólks en hér.

Þessu er meðal annars stjórnað með því að hafa ítölu, en það getur endað með því að það sé langur biðlisti að komast til dæmis inn á ákveðnar gönguleiðir.

Persónulega er ég ekkert hrifinn af því að moka milljónum ferðamanna inn í landið.

En það virðist ekki hægt að meta neitt hér á landi öðruvísi en út frá peningum og ef þetta þarf endilega að snúast um þá, þá segi ég bara eins og kanarnir: "Let´s beat them at their own game."

En það er svo margfalt skárra en að fylla heilu dalina upp af auri eða umturna nýrunnum hraunum, þar sem ein jarðýta getur á einum degi valdið meiri óafturkræfum spjöllum en milljónir ferðamanna.

Ómar Ragnarsson, 26.1.2009 kl. 14:17

3 identicon

Ég er þessum sjónamiðum þínum alfarið andvígur og tel að heildarskaði sé minni af því að fórna vel völdum, afmörkuðum ferkílómetrum  undir „eyðileggingu“ sem tryggir íbúum í grennd þess, langþráð afkomuöryggi , vetur sem sumar, í stað þess að leggja allt landið undir milljónir „smájarðýtna“  sem koma þangað í jeppum, rútubílum og öðrum mengandi farartækjum bæði hvað háaða og útblástur varðar og krefjast auk þess tilheyrandi þjónustumannvirkja.

Við getum einnig litið til þess hvað átroðningur milljón sauðkinda hefur gert hálendi okkar í árhundruð.

Það er ágætt, en ekki nóg, að hafa skroppið hingað eða þangað og fundist þar fallegt og merkilegt.  En maður verður að hafa búið þar og kennt það á sjálfum sér hvernig það er að lifa við afkomulegt óöryggi allan ársins hring, til að teljast verulega marktækur.  Fólkið metur fegurðina líka út frá afkomumöguleikum sveitar sinnar. 

Látra Björg sagði:

 

Fagurt er í Fjörðum / þá frelsarinn gefur veðrið gott / heyið grænt í görðum / og heilagfiskið gott.

Hún sá fegurð Fjarða í því sem landið gat gefið  - og hafið. 

Það er fullgilt sjónarmið.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 10:02

4 identicon

Get ekki verið þekktur fyrir að fara, í fljótfærni, rangt með þessa fallegu vísu Látra-Bjargar:

Fagurt er í Fjörðum
þá Frelsarinn gefur veðrið blítt,
heyið grænt í görðum,
grös og heilagfiskið nýtt,
en er vetur að oss gerir sveigja
veit ég enga verri sveit,
um veraldarreit,
menn og dýr þá deyja.

biðst forláts á því.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 12:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband