Minnir mig á skelfileg augnablik.

Atvikið þegar nemandinn í fallhlífarstökkinu lenti með deyjandi leiðbeinanda vekur vondar minningar í huga mér.

Ég varð fyrsti farþeginn í loftbelgsflugi á Íslandi 1976 á skelfilegan hátt. Vindurinn var allt of mikill og flugstjórinn sem stóð í körfunni sagði mér að halda henni fastri ásamt aðstoðarmönnum á meðan hann kynti loftbelginn með heitu lofti svo að loftbelgurinn reis smám saman skáhallt upp í loftið vegna vindsins.

Þá hrópaði flugstjórinn: "Þegar ég segi: Sleppa!, - eiga allir að sleppa nema Ómar. Þú heldur takinu, Ómar, og klifrar um borð."

Um leið og allir slepptu nema ég fóru loftbelgurinn og karfan neðan í honum á fleygiferð eftir túninu á Álftanesi, sem við vorum á. Ég komst ekki um borð en hékk á körfunni.

Karfan endasentist eftir túninu með mig hangandi utan á henni og fór í gegnum girðingu og grjórt við Álftanesveginn. Bæði stígvélin mín urðu eftir í girðingunni.

Karfan fór síðan á fleygiferð yfir Álftanesveginn og í gegnum urð og aðra girðingu þar. Enn hékk ég utan á henni.
Það var búið að tilkynna fjölmiðlunum það að þetta yrði fyrsta loftbelgsflug með farþega á Íslandi.

Þá loksins lyftust belgurinn og karfan frá jörðu með mig enn hangandi utan á körfunni. Skyndilega áttaði ég mig á því að ég myndi ekki komast upp í körfuna heldur hanga bjargarlaus utan á henni, nema að flugstjórinn kæmi mér til bjargar.

Ég hafði búist við að flugstjórinn hjálpaði mér en hann var greinilega búinn að gleyma mér eða afskrifa mig og kynti gashitatækið eins og óður væri. Hávaðinn í gastækinu var svo mikill að hann heyrði ekki hróp mín.

Þá kom eitt skelfilegasta augnablikið í lífi mínu þegar ég sá jörðina fjarlægjast þegar belgurinn þeyttist upp á við og áttaði mig á því að ég gæti ekki haldið takinu miklu lengur.

Til allrar hamingju kom niðurstreymi og belgurinn lækkaði flugið á ný en þá tók við önnur skelfing: Karfan byrjaði að snúast og á tímabili virtist svo sem ég yrði öfugu megin á henni, miðað við stefnu belgsins undan vindinum, og að hún myndi skella þannig á jörðinni að hún kremdi mig undir sér.

Enn var heppnin yfir mér. Karfan skalll í jörðina eftir að hafa snúist í heilan hring og ég missti takið, losnaði frá henni og kútveltist í móanum.

Nokkrir blaðamenn urðu vitni að þessum ósköpum og voru fegnir að sjá mig koma haltrandi til baka á sokkaleistunum með blóðuga fætur eftir grjót og gaddavír. Ég er enn með ör á hægri fæti eftir þessar hrakfarir.

Ekki var til setunnar boðið, heldur þeyst af stað og farið á eftir belngum í flugvél. Endalok ferðar belgsins urðu þær að hann flaug á háspennulínu í Melasveit, hálfbrann og skall niður á tún um leið og hann kortslúttaði sveitinni !

Flugstjórinn marðist en slapp óbrotinn.

Eftir á fékk ég þær upplýsingar að svona loftbelg, sem lyft er af heitu lofti, megi ekki taka á loft nema mest 3-4 hnúta vindi. Vindurinn í flugtakinu á Álftanesi var hins vegar 25-30 hnútar !


mbl.is Í fyrsta fallhlífarstökkinu með látnum leiðsögumanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Mögnuð frásögn Ómar..

hilmar jónsson, 3.2.2009 kl. 23:52

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

þetta hefur verið svakaleg lífsreynsla :S

Óskar Þorkelsson, 4.2.2009 kl. 00:03

3 identicon

Já,þetta er magnað,en annað Ómar hvað segir þú og þínir flokksfélagar um að hefja hvalaslátrun sem aldrei fyrr,getið þið ekki tjáð ykkur opinberlega um þetta og stoppað þessa vitleysu,en þá gef ég mér það að þið séuð á móti þessu,eða hvað?
Bestu kveðjur.

Kristján Blöndal (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 08:54

4 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Þú náðir þó flugi með loftbelg á Íslandi þrátt fyrir þessar ótrúlegu hrakfarir.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 4.2.2009 kl. 09:41

5 identicon

Þú hefur nú stundum þurft að vera fljótur að hugsa, Ómar, og sloppið fyrir bragðið úr flóknum situationum? Ertu ekki til í að segja okkur frá ýmsu, sem þú hefur lent í? Nefni bara forced landing á Mývatnsöræfum, uppi á Esju, ökuferð niður Kverkjökul - bara svona sem dæmi!

Zombie (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 10:56

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, Kjartan, og fór tíu árum síðar í annað flug sem var tóm hamingja.

Ég hef áður bloggað um þá siðferðisvitund sem birtist í því þegar hvalveiðisinnar segja að orðstír þjóðarinnar sé svo rústaður að það muni ekkert um það að þótt hann skaðist við að bæta hvalveiðunum ofan á það.

Sem sagt, ef þú ert staðinn að stórfellldu afbroti er bara allt í lagi að halda áfram með því að fremja mun minna afbrot.

Ég var á sínum tíma viðstaddur réttarhöld út af því að hvalveiðar brytu gegn lögum um dýravernd og niðurstaðan var sú að svo væri ekki. Um þá niðurstöðu má deila. Ein rökin gegn hvalveiðum voru þau að af því að hvalurinn væri stærstu dýra væri það frá náttúrunnar hendi ekki eðlilegt að hann væri drepinn eða þyrfti að óttast um það að vera hundeltur og drepinn.

Á móti voru færð þau rök, að fyrst hvalurinn vissi ekki hvað ótti væri og sú ónotatilfinning sem honum fylgdi væri bara allt í lagi að hundelta hann og drepa.

Hvalveiðar snúast ekki um það hvort veiðarnar séu sjálfbærar eða ekki heldur um álit okkar sem þjóðar erlendis og þess vegna þá fjármuni sem skaðað álit kostar okkur.

Þótt ferðamönnum hafi fjölgað til Íslands þrátt fyrir hvalveiðar, sannar það ekkert um skaðann af veiðunum. Hann gæti hafa komið í veg fyrir enn meiri fjölgu ferðamanna og stórauknar hvalveiðar setja hvalaskoðunarferðir, sem gefa sífellt meiri tekjur, í hættu.

Af þessum sökum finnst mér hvalveiðar ákaflega hæpnar.

Enn er svo stór hluti þjóðarinnar með hvalveiðum, að ljóst er að allir flokkar eru meira eða minna klofnir í málinu og að í mörgum tilvikum gengur slíkur klofningur þvert á mismun skoðana í öðrum málum.

Ómar Ragnarsson, 4.2.2009 kl. 11:06

7 identicon

Svo lummar kallinn á milljón sögum úr rallinu..  margar góðar þar.. 

Palli (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 12:00

8 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Það vill svo til að ég var að koma frá landi þar sem ALLT er borðað og allur matur gjörnýttur (Kína). Íslendingar hafa byggt afkomu sína á því að lifa af því sem landið og miðin hafa gefið af sér og er það eitthvað sem hefur þróast á mörgum öldum. Þar er hreinlega hluti af okkar menningu.

Síðan gerist það að stofnuð eru samtök úti i heimi m.a. af löndum sem hafa mjög mismunandi skoðanir til hvalveiða og í raun ekki neina aðra en pólitíska hagsmuni eins og dæmin sanna.

Síðan er gengið í það af fullum krafti að stoppa hvalveiðar Íslendinga. Önnur samsvarandi dæmi þekkjum við vel hvernig ráðist hefur verið á smáþjóðir eins og Grænlendinga (selveiðar), Færeyingar ... Og það undarlega við þetta allt er að það er alltaf ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur.

Það undarlega við þetta er að þarna eru Bandaríkjamenn fremstir í flokki og eru jafnframt hvalveiðiþjóð sjálf!

Öfgarnar og bullið í kringum þetta eru svo miklar (Keikó ...) að það háfa væri nóg og á meðan svelta heilu þjóðirnar út af matarskorti!

Ekki man ég eftir því að Íslendingar hafi verið að skipta sér af þjóðsiðum annarra þjóða eins og að múslímar borða ekki svínakjöt (skítugt), Indverjar borða ekki nautakjöt (heilagt) ... og ekki erum við að borða rottur eða hunda þó svo að það sé gert hjá öðrum þjóðum.

Matar- og veiðimenning verður að líta á sem einkenni hverrar þjóðar fyrir sig og því ber að fara varlega í að gagnrýna og segja öðrum fyrir í þeim efnum.

En allt er þetta prótein sem við þurfum öll til að lifa, sama hvort að það komi frá Mc Donalds, KFC eða úr hafinu í kringum Íslandsstrendur.

p.s. en persónulega hef ég nú mun meiri áhuga á flugi :)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 4.2.2009 kl. 12:12

9 identicon

Þessa frásögn (af loftbelgsferðinni) er að finna, í breyttri útgáfu þó, í bókinni Kvikasilfur eftir Einar Kárason. Þar er enginn nefndur á nafn, en talað um rauðhærða ofurhugann, fréttamanninn, flugmanninn og rallkappann, sem loftbelgseigandinn býður með sér í flugtúr.

Langaði alltaf að lesa orginalinn, og hér er hann kominn, takk fyrir það Ómar

Guðmundur Helgason (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 13:30

10 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Óhugnaleg reynsla.

TF-HOT flaug vissulega mest með farþega. En faðir minn fékk að fljúga reynsluflug yfir Reykjavíkurflugvelli árið 1957, þegar fyrsta flugbelgsflugið átti sér stað á Íslandi.

Sjá hér

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 4.2.2009 kl. 14:39

11 identicon

Annað bókmenntaverk, sem hefst á svipuðum atburði sem þar endar verr, kemur líka upp í hugann: Eilíf ást (Enduring Love) eftir Ian McEwan.

VV (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 14:40

12 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir að deila þessu með okkur. Sérstaklega myndrænt að að tapa stígvélunum á meðan hangið er dauðhaldi í loftbelgskörfu. Af einhverjum ástæðum datt mér í hug að þetta væri myndhverfing fyrir fyrrverandi ríkisstjórn.

Hrannar Baldursson, 4.2.2009 kl. 18:05

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vísa til framhalds af loftbelgssögunni hér fyrir ofan.

Ómar Ragnarsson, 4.2.2009 kl. 18:10

14 Smámynd: Berglind Hermannsdóttir

Ég táraðist úr hlátri við að lesa þetta blogg þitt.
Þetta hlýtur að hafa verið hrikalegt meðan á stóð en það verður að viðurkennast að það er spaugilegt að sjá þetta fyrir sér... eins og klippt út úr teiknimynd....
Gott að grínið endaði ekki alvarlega...

kv Berglind 

Berglind Hermannsdóttir, 4.2.2009 kl. 21:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband