Framhald loftbelgssögunnar.

Ég reyni yfirleitt að láta bloggpistla mína ekki vera of langa og þess vegna vantaði framhaldið á söguna af loftbelgsferðinni.

Það er svona: Átta árum eftir loftbelgsferðina þegar ég hélt að ég væri að verða laus við þessa slæmu en samt ljúfsáru minningu var ég minntur óþyrmilega á hana á óvæntan hátt.

Tímaritið Samúel var þá í aðalgrein sinni með risavaxna forsíðumynd og fyrirsögn um það sem tímaritið kallaði "Stærsta hasssmygl Íslandssögunnar."

Aðeins einn maður sást á þessari forsíðumynd. Það var ég.

Tímaritið hafði komist yfir eina af ljósmyndunum, sem teknar voru áður en flugtaksbrun loftbelgsins byrjaði og á henni var þessi loftbelgur í flugtaksstöðu og ég hélt þar í hann dauðahaldi !

Loftbelgurinnn hafði nefnilega síðar eftiri viðgerð verið notaður sem felustaður fyrir hassið sem smyglað var af loftbelgsmótum erlendis inn í landið !

Önnur viðbót: Eftir að ég hrataði af belgnum kynti flugstórinn gashitavélina sem ákafast en tókst samt ekki betur til en svo að hann lenti á sjónum í Bessastaðatjörn og þar eyðilögðust myndavélarnar sem ég hafði ætlað að nota til að taka myndir í fluginu. Ef ég hefði verið um borð og belgurinn þyngri sem nam minni þyngd hefði hann líklega sokkið með okkur báða þar.

Flugstjóranum tókst að láta belginn lyftast upp úr sjónum en stefndi þá hraðbyri beint á stóra gluggann á Bessastöðum !

Í stað þess að koma svífandi inn um gluggann á 25 hnúta hraða til fundar við forsetann tókst honum þó með naumindum að láta belginn lyftast yfir Bessastaði.

Ég fór til Reykjavíkur og elti loftbelginn á FRÚnni. Á tímabili virtist sem belgurinn myndi lenda á Akrafjallinu en uppstreymið við fjallið kom til bjargar og lyfti honum yfir fjallið. En litlu munaði.

En nú stefndi belgurinn á Skarðsheiði, sem er miklu hærra fjall. Þetta skynjaði flugstjórinn og stýrði í tæka tíð til lendingar í Melasveit.

Ég lenti á Narfastaðamelum þar rétt hjá og sá hvernig belgurinn hvarf handan við hæð. Síðan gaus upp stór eldrauður blossi og mér varð illt við því að nú hugði ég að flugstjórinn mikli væri ekki lengur meðal lifenda.

En þegar við komum að túninu var hann þar sviðinn, meiddur og draghaltur, en belgurinn lá afvelta undir háspennulínu allur brunnin að neðan.

Að öllu þessu eru ótal vitni en sumar sannar sögur eru einfaldlega þannig að ekkert skáld kæmist upp með það að búa slíkt til nema vera vændur um allt of villt hugmyndaflug sem enginn gæti trúað.

Af einhverjum ástæðum er allt líf mitt fullt af svona sögum.


mbl.is Ómar Ragnarsson: „Skelfileg lífsreynsla“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Það er greinilega ekki sama hverjir fá að fljúga og lenda á Bessastaðartúninu. Nokkrir fisflugmenn voru á rúntinum hér um árið og datt þeim í hug að lenda á veginum við Bessastaði. Fljótlega þurfti löggan að fara að skipta sér að. Náðu allir að forða sér nema einn (mótorinn var eitthvað erfiður í gang). En einhverra hluta vegna fékk hann skammir fyrir. Þegar hann var spurður út af hverju hann hefði lent þarna, að þá svaraði hann því til að hann hefði langað að heilsa upp á Dorit forsetafrú.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 4.2.2009 kl. 12:58

2 identicon

Hér segir af þessu í Mogganum á sínum tíma:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1475510

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1475477

Beggi (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 13:13

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég gerði á sínum tíma frétt um möguleika á flugvelli á Bessastaðanesi sem væri ekki nær Bessastöðum en Hótel Saga er frá Reykjavíkurflugvelli.

Til þess að sýna hvað um væri að ræða lenti ég FRÚnni og fór aftur í loftið á túninu þar sem norður-suður-brautin myndi verða næst húsunum.

Þetta undirbjó ég mjög vel. Fór til Bessastaða, fékk leyfi hjá forsetanum til að skoða túnið og síðan eftir það annað leyfi hjá honum til að lenda þarna og fara aftur á loft.

Vélin var tryggð fyrir þessa lendingu og öllum formsatriðum fullnægt.

Ómar Ragnarsson, 4.2.2009 kl. 13:14

4 identicon

Þú ættir e.t.v. að taka allar þessar sögur, sem ég efa ekki að séu fjölmargar, og setja þær saman í bók eða jafnvel sjónvarpsþætti.

Það yrði miklu skemmtilegra en þessi pólitík sem þú ert að sinna. ;-)

Gisli Freyr Valdórsson (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 13:51

5 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Bloggið er fín dagbók hjá Ómari. Seinna meir, að þá er hér á ferð gríðarmikil heimild á ferð sem vert er að halda upp á. Vonum bara að Morgunblaðið muni hafa áfram burði til að sinna þessu með sóma eins og þeir hafa gert hingað til.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 4.2.2009 kl. 14:07

6 identicon

svakaleg loftbelgssaga!  :)

"....og setja þær saman í bók eða jafnvel sjónvarpsþætti."  styð það!

Hlynur (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 14:48

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég tek undir að þú átt örugglega efni í sjónvarpaða framhaldsþætti - Ævintýri Ómars, enda hefurðu komið víða við og ennþá margt spennandi að gerast.

Hrannar Baldursson, 4.2.2009 kl. 19:23

8 identicon

Ég var einmitt að rifja það upp um daginn við einhverja að þú hafðir alltaf þennan hrakfallapoka þinn meðferðis hvert sem þú fórst. Svo er minnst á pokann í fréttinni í Mogganum af þessum atburði!

Þegar ég var að rifja upp þennan poka, spurði sá ég var að tala við hvers vegna þú hafir kallað hann hrakfallapoka, enda fannst honum nafnið benda til þess að þú ættir alltaf von á því að lenda í vandræðum.

Ég gat ekki alveg svarað því en þegar þú segir: ,,Af einhverjum ástæðum er allt líf mitt fullt af svona sögum" þá hlýtur maður að spyrja hvort pokanum hafi fylgt einhver ólukka eða hvort tilvist hans hafi verið tilkomin vegna hrakfalla!

Svolítið skondið ef hugsað er út í það ef pokinn sá arna hefur verið félagi þinn í flestum eða öllum þínum hrakföllum ;)

Lára

Lára (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 20:02

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hann er ætíð í hrakföllum,
hrikalegur oft í bakföllum,
og langt í að hann muni loka,
lífs síns hrakfallapoka.

Þorsteinn Briem, 4.2.2009 kl. 21:10

10 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Bráðskemmtileg frásögn. 

Ég hef einu sinni hitt þig.... þá var ég lítil stelpa stödd í Dal í Miklaholtshreppi og þú nauðlentir á túninu þar.

Anna Einarsdóttir, 4.2.2009 kl. 23:10

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Anna, ég man vel eftir lendingunni á túninu í dagl sem var nú reyndar ekki nauðlending heldur lenti ég þarna af því að ég komst ekki lengra á leið minni á skemmtun á Hellissandi.

En ég man vel eftir því hvað túnið var blautt, því sjaldan hefur ég lent á meiri blautsvampi.

Þá kom sér vel að flugvélin mín, TF-GIN, var létt og með stór hjól. Annars hefði hún geta farið á nefið og jafnvel á bakið.

Ómar Ragnarsson, 4.2.2009 kl. 23:54

12 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ó !     Ég gaf mér að um nauðlendingu hefði verið að ræða þar sem túnið í Dal var ekki beint þekktur flugvöllur.  Þetta var allavega afar minnisstæður atburður fyrir litla stúlku í lítilli sveit.

Anna Einarsdóttir, 5.2.2009 kl. 00:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband