En hvað um hin lögin ?

Á borgarafundi í Iðnó í kvöld kom margt athyglisvert fram sem vekur spurningar um framgang annarra lagasetninga sem stjórnarflokkarnir hafa lofað heldur en hið alltumvefjandi Seðlabankafrumvarp.

Birgir Ármannsson, sem sat þarna fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, var harður í andstöðu sinni við breytingar á kosningalögunum og það var reyndar Bjarni Harðarson líka fyrir hönd hins nýja L-lista.

Þorkell Helgason upplýsti að lögfræðinga greindi á um hvort 2/3 þingmanna þyrfti til að samþykkja breytingar á kosningalögunum, en ef slíkan aukinn meirihluta þarf, fella Sjálfstæðismenn frumvarpið auðveldlega ef þeir vilja.

Eina lögfræðilega haldreipið með þessari kröfu um 2/3 virðist vera sú að enda þótt lögin sjálf bendi til þess að ekki þurfi aukinn meirihluta, finnst hið gagnstæða í fylgiskjali á fyrri stigum málsins.

Mér finnst fljótt á litið eðlilegra að þetta skrýtna fylgiskjal verði ekki látið ráða.

Steingrímur J. Sigfússson taldi að ef persónukjör yrði tekið upp myndi hann mæla með því að VG notaði sér það, enda þótt einstök kjördæmafélög réðu því raunar og myndu hugsanlega vilja annað.

Helgi Hjörvar taldi að Samfylkingin myndi hafa óraðaða lista og nota persónukjör þrátt fyrir prófkjör á undan.

Í ljós kom að þessi framboð haga undirbúningi sínum þannig að þau séu viðbúin bæði óbreyttum reglum eða breyttum, allt eftir því hver verða afdrif málsins á Alþingi.


mbl.is Búinn að staðfesta lögin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Finnbogason

Það er alveg skýrt í stjórnarskrá hvernig skuli stand að breytingum á kosningalögum og stjórnarskrá er það sem ræður. Þetta segir í stjórnarskrá um málið

Breytingar á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi.]1)

Þetta er nú ansi skýrt miðað við lagamál almennt. það eru því ýmsir hlutir sem eki er hægt að gera nema með auknum meirihluta eins t.d. og að breyta kjördæmamörkum til að jafna atkvæðavægi og halda menn að framsókn vilji slíkar breytingar fyrir kosningar (ef við látum nú sjálfstæðismenn liggja á milli hluta)

31. gr. [Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til fjögurra ára.

Kjördæmi skulu vera fæst sex en flest sjö. Mörk þeirra skulu ákveðin í lögum, en þó er heimilt að fela landskjörstjórn að ákveða kjördæmamörk í Reykjavík og nágrenni.

Í hverju kjördæmi skulu vera minnst sex kjördæmissæti sem úthluta skal á grundvelli kosningaúrslita í kjördæminu. Fjöldi þingsæta í hverju kjördæmi skal að öðru leyti ákveðinn í lögum, sbr. þó 5. mgr.

Öðrum þingsætum en kjördæmissætum skal ráðstafa í kjördæmi og úthluta þeim til jöfnunar milli stjórnmálasamtaka þannig að hver samtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína. Þau stjórnmálasamtök koma þó ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa minnst fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.

Ef kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum, eru eftir alþingiskosningar helmingi færri í einu kjördæmi en einhverju öðru kjördæmi skal landskjörstjórn breyta fjölda þingsæta í kjördæmum í því skyni að draga úr þeim mun. Setja skal nánari fyrirmæli um þetta í lög.

Breytingar á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi.]1)

Sævar Finnbogason, 27.2.2009 kl. 12:00

2 Smámynd: Jóhann Ólafsson

Ég ætlaði ekki að tjá um ofangreint efni heldur um síðustu afrek Ómars Ragnarssonar. Hann og örfáir fylgifiskar hafa ákveðið að skríða á fjórum fótum til Samfylgingarinnar líklega í von um sæti á lista eða sæti í nefnd eða stjórn á vegum Samfylkingarinnar eftir kosningar. Hann veit fyrir víst að þjóðin hefur hafnað honum og það skilur hann ekki. Það aumasta er að hann er búinn að ákveða hvernig kjósendur Íslandshreyfingarinnar eiga að kjósa í næstu kosningum eins og þeir séu hans eign. Það gott að losna við þetta fólk úr pólitíkinni en þetta er gömul hugsun og á ekki heima í nýju Íslandi

Jóhann Ólafsson, 27.2.2009 kl. 12:52

3 identicon

Rétt eins og hjá fyrri ræðumanni fjallar athugasemdin mín ekki um færsluna heldur nýjustu fréttir af sameiningu Íslandshreyfingarinnar og Samfylkingarinnar. Hún kemur mér allundarlega fyrir sjónir, m.a. í ljósi stuttrar fréttar sem birtist á vef RÚV 8. júlí 2008 sem ég birti hér að neðan. Hvert er tilefni þessara sinnaskipta?

Íslandshreyfing ályktar um stóriðju

Stjórn Íslandshreyfingarinnar segir Samfylkinguna veita stóriðjustefnu Sjálfstæðisflokksins meiri stuðning en Framsóknarflokkurinn gerði í fyrri ríkisstjórn. Samfylkingin standi hjá á meðan til standi að raska einhverjum einstæðustu náttúrugersemum landsins fyrir norðaustan Mývatn.

Í ályktun stjórnar Íslandshreyfingarinnar segir að framsóknarflokkurinn hafi kynnt nýtingaráætlun fyrir síðustu kosningar þar sem meðal annars hafi verið lofað að stefna ekki að virkjanaframkvæmdum við Leirhnjúk og Gjástykki nema að undangengnu samþykki Alþingis.

Svo hafi Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra gefið mjög hæpið rannsóknarleyfi í Gjástykki tveimur dögum fyrir kosningar sem núverandi iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, hafi svo ekki hróflað við.

Ómar Ragnarsson, formaður Íslandshreyfingarinnar, segir svæðin tvö einstök hvað náttúrufegurð og sögu varðar og telur að þar sé hægt að byggja upp öfluga ferðaþjónustu í tengslum við sköpunarmiðstöð. Hann segir svæðið við Leirhnjúka einstakan vitnisburð um sköpun jarðar. Hann sakar Samfylkinguna um að brjóta kosningaloforð með því að láta umhverfisspjöll við Gjástykki og Leirhnjúka engu varða.

Sverrir Guðmundsson (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 13:02

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Ómar. Ég sem flokksbundin Samfylkingarfélagi, tel það vera skynsamlega leið að óska eftir að Íslandshreyfingin verði félag innan Samfylkingarinnar. Ég sé í færslu hér á undan að verið er að vitna í ákvarðanir fortíðar. Landslag í stjórnmálum á Íslandi er gjörbreytt frá því fyrir 1 til 2 árum.

Það er sem okkur er brýnast núna er að horfa fram og taka höndum saman. Áherslur í umhverfismálum eru að breytast fremur hratt núna. Við erum að hefja uppbyggingu nýs þjóðfélags. Gerum það saman

Hólmfríður Bjarnadóttir, 27.2.2009 kl. 13:28

5 Smámynd: Jóhann Ólafsson

Ómar getur bara ekkert skautað framhjá fyrri yfirlýsingum og gagnrýni á Samfylkinguna bara að því að ástandið er annað í þjóðfélaginu í dag. Er Ómar þá orðinn virkjunarsinni ?  Málið er að Ómar er bara tækifærisinni og við höfum ekkert að gera við slíkt fólk í pólitík í dag.  

Jóhann Ólafsson, 27.2.2009 kl. 13:53

6 identicon

Sæll Ómar.

Takk fyrir alla skemmtunina gegnum tíðina og frábæra fréttamennsku. Þar kemst enginn með tærnar þar sem þú hafðir hælana.

Ég verð að segja það að ég sé óskaplega eftir þér í kjaftinn á Djöfullinnkrötunum. Þeir eru upp til hópa úlfar í sauðagæru! Kveðja, Benjamín.

Benjamín Baldursson (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 22:22

7 identicon

Boðað frumvarp um persónukjör snýst hvorki um að breyta kjördæmamörkum né um úthlutun þingsæta. Þess vegna er tilvitnun Sævars Finnbogasonar marklaus. 

Ómar hefur lög að mæla: Sú túlkun að fylgiskjal sé þyngra á metunum en lögin sjálf, er mjög hæpin. Raunar alveg fráleit.

Rómverji (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 00:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband