Hringurinn að lokast.

Það er hreint ótrúleg tilviljun að báðir oddvitar fyrrverandi ríkisstjórnar hafi þurft á sama tímabili að horfast í augu við sjúkleika sem hafi haft áhrif á stöðu þeirra og framtíðaráform.

Ég hef áður bloggað um það hve sleginn ég varð við fyrstu fréttir af veikindum Geirs H. Haarde og um óskir mínar honum til handa að hann nái fullri heilsu. Sömu óskir vil ég flytja Ingiibjörgu Sólrúnu.

Ákvörðun hennar veldur hins vegar því að hægt sé að sjá fyrir endann á því að ljúka þeirri hringferð sem íslensk stjórnmál fóru í eftir hrunið mikla. Ef marka má orð Davíðs Oddssonar voru það, auk hans, þrír stjórnmálamenn sem vissu mest um það hvert stefndi, Geir, Ingibjörg og Árni Mathiesen.

Þau létu Björgvin Sigurðsson ekki vita um allt en hann sagði þó fyrstur af sér og tók á sig ábyrgð af því að hafa verið ráðherra viðskiptamála. Áður hafði Geir H. Haarde staðið frammi fyrir hliðstæðri ákvörðun og Ingibjörg Sólrún nú.

Fyrir daginn í dag blasti við öllum að Ingibjörg Sólrún var ein eftir af þeim sem báru mesta ábyrgð á fyrrverandi ríkisstjórn. Línuritið yfir aldursskiptingu fylgismanna Samfylkingarinnar, sem birtist í Morgunblaðinu í dag, er ekki uppörvandi.

Ungt fólk vill breytingar og uppgjör og það stakk auk þess í augu að svo virtist sem það ætlaði að stefna í minnsta endurnýjun hjá Samfylkingunni, sem var þó meðal þeirra þriggja flokka sem báru ábyrgð á hruninu, þótt ábyrgð Sjálfstæðisflokksins væri langmest, - Framsóknarflokksins næstmest eftir tólf ára valdasetu framundir hrun og Samfylkingarinnar minnst.

Almennt geta alþingismenn þó ekki skotið sér undan allri ábyrgð af því að þessir 63 fulltrúar þjóðarinnar virtust ekki með á nótunum að öllu leyti. En VG nýtur þess að vera eini stóri flokkurinn á þingi sem ekki hefur verið í ríkisstjórn fyrr en nú eftir að uppgjörið er hafið.

Seðlabankastjórnin er farin, stjórn Fjármálaeftirlitsins sömuleiðis, og kosningar fengust á dagskrá.

Nú er eftir að loka svipuðum hring hjá þeim í kerfi banka og stórfyrirtækja, sem báru mesta ábyrgðina á hruninu.


mbl.is Ingibjörg Sólrún hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábært að hún sé loks farin frá, en það er samt fáránlegt að Björgvin hafi náð svo góðu kjöri, og alveg hreint ömurlegt að Kristján L. Möller hafi gert slíkt hið sama. Sigmundur Ernir, sem í miðri hringiðunni laug upp í opið geðið á allri þjóðinni í beinni útsendingu, og hefur enn ekki beðist afsökunar á því, er síðan efsti nýji maður á lista! 

Ekki þykir mér hann frýnilegur, toppur Samfylkingarinnar....

Gunnar (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 18:25

2 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Það má deila um það hversu mikla ábyrgð Björgvin G. axlaði, degi fyrir stjórnarslit. Það má líka deila um það hversu mikið sé að marka orð Davíðs Oddssonar, svo að ekki sé tekið sterkar til orða.

Mesta ábyrgðin á bankahruninu hvílir á þeim flokkum sem voru við stjórn fyrir 2007. Það er einfaldlega staðreynd. Ingibjörg Sólrún hefur verið einn öflugasti talsmaður jafnréttis, jöfnuðar og réttlætis á Íslandi á undanförnum árum. Það er mikil eftirsjá að henni í pólitík og engin ástæða til að fagna.

Svala Jónsdóttir, 8.3.2009 kl. 18:28

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Dagur B. Eggertsson gæti orðið næsti formaður Samfylkingarinnar og borgarstjóri eftir sveitarstjórnakosningarnar á næsta ári, vorið 2010.

Þorsteinn Briem, 8.3.2009 kl. 18:57

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Innilega sammála!

Svanur Sigurbjörnsson, 9.3.2009 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband