Líst vel á Sigríði Ingibjörgu.

Fyrir viku sátu frambjóðendur í prófkjörum Samfylkingarinnar fyrir svörum hjá Græna netinu. Margir komu þar vel fyrir en röggsemi og glæsileiki Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur vakti athygli mína sem og málflutningur hennar og skoðanir

Þetta vegur að hluta til upp vonbrigði mín með það að Þórunn Sveinbjarnardóttir skuli ekki enn njóta staðfestu sinnar þegar hún skráði nafn sitt á spjöld sögunnar og hún lagðist gegn Kárahnjúkavirkjun.

Það er ekki gott að átta sig á því hvort bæði hún og Kolbrún Halldórsdóttir gjaldi fyrir það að hafa ekki mátt sín mikils gegn úrslitakostum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í stóriðju- og virkjanamálum.

Svo virðist sem það þyki ekki kostir að sýna hreinskilni og heiðarleika og þora að standa við skoðanir, sem ekki eru alltaf vel séðar hjá flokksforystunni. Ásta Möller hefur sýnt slíkt en virðist ekki vera þakkað fyrir það.

Þetta er undarlegt í kjölfar tímabils þar sem kallað hefur verið eftir heiðarlegri stjórnmálamönnum.

Að vísu er undantekningu að finna hvað snertir Ragnheiði Ríkarðsdóttur. Hún hefur stundum kveðið upp úr með skoðanir sem hafa verið lítt þóknanlegar forystumönnum flokks hennar. Og orðið fyrst stjórnarþingmanna til að gera það.

Hún var ekkert að skafa utan af því þegar hún sagði að veran á þingi væri eins og að afgreiða á bensínstöð.
Við þurfum á stjórnmálafólki að halda sem segir okkur sannleikann þótt beiskur kunni að vera.


mbl.is Ásta Ragnheiður í 8. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Sigríður er einn helsti ljósi punktur Samfylkingarinnar og merki um þá miklu endurnýjun sem átt hefur sér stað í flokknum.

Hilmar Gunnlaugsson, 15.3.2009 kl. 00:52

2 identicon

Ég hlustaði á hana í fréttunum áðan og hún var alveg slegin útaf laginu þegar hún var spurð að því fyrir hvað hún stæði.

Eftir hik svaraði hún að hún stæði fyrir eigin kjark, þor, stórhug, þekkingu og reynslu. Þessi kynslóð stjórnmálamanna er hvorki að láta hugsjónir né hógværð þvælast fyrir sér.

Árni V. (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 01:26

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég heyrði ekki í henni í fréttunum áðan og reikna með að viðtalið hafi verið lengra en þetta. Get því ekki dæmt enn af öðru en nokkurra mínútna tölu hennar á fundinum, sem ég vitna til.

Ómar Ragnarsson, 15.3.2009 kl. 03:09

4 identicon

Varðandi það sem Árni V. segir um Sigríði Ingibjörgu. Það sem hún sagði nákvæmlega í kvöldfréttunum í gær á ruv.is er þetta : "Ég stend fyrir hérna ....[það er orðalag spyrjandans sem hlægir] Ég stend fyrir bæði það að sýna hugrekki og heiðarleika í stjórnmálum og ég stend fyrir þekkingu og reynslu í málaflokkum sem við þurfum að takast á við á næstu árum sem verða erfiðir. Ég er hagfræðingur og hef starfað bæði fyrir verkalýðshreyfinguna  og félags- og tryggingamálaráðuneytið. Ég hugsa að ég sé valin út af þekkingu og reynslu og út af því að ég hef sýnt að ég er óhrædd að axla ábyrgð." Hún sagði sig úr bankaráði Seðlabankans strax 9. október 2008 og bað þjóðina afsökunar á því að hafa ekki gert það fyrr. Sjá t.d. á Smugunni. Ég fyrir mitt leyti hefði viljað sjá Önnu Pálu ofar.

Græni armur Samfylkingarinnar, sem farið er að bera aðeins meira á, er greinilega ekki ofarlega á blaði í prófkjörum flokksins sem sýnir bara að hann er enn óforbetranlegur stóriðjuflokkur... Allir þingmenn Samfylkingar nema Þórunn og Rannveig greiddu atkvæði á eldfimum tímum með Kárahnjúkavirkjun.

Græna loppan (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 08:15

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samfylkingin afsakaði það að vera "óforbetranlegur stóriðjuflokkur" með því að ekki væri hægt að komast fram hjá þeirri staðreynd að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefðu meirihluta á þingi.

Ef sá meirihluti fellur verður þessi afsökun Samfylkingar og VG ekki lengur gild og þá verður það forsenda fyrir að breyta um kúrs að Samfylkingin standi í lappirnar.

Til þess þarf hún að fá allan þann stuðning sem unnt er að veita því að annars er þetta dæmi augljóslega tapað.

Ómar Ragnarsson, 15.3.2009 kl. 13:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband