Þjóðin tók fyrsta skrefið 25. apríl.

Þjóðin tók fyrsta skrefið í átt að persónukjöri í kosningunum í vor. Tvöfalt fleiri en áður nýttu sér rétt sinn til að strika út nöfn eða endurraða á framboðslistunum og færðu þar með niður tvo þingmenn um eitt sæti hvorn og litlu munaði að þeir yrðu fleiri.

Þeir sem hafa allt á hornum sér varðandi persónukjörið gefa sér það að öll framboð verði skikkuð til að bjóða fram óraðaða lista og láta þeim kjósendum, sem það vilja, allt vald í hendur til að raða á listana.

Þessu var ekki svona farið í þeim drögum að lögum um persónukjör sem reifuð voru í vor. Samkvæmt því átti að ganga eins skammt í þessu efni og unnt væri og gefa framboðunum sjálfum kost á að velja, hvaða hátt þau vildu hafa á.

Það getur orðið aðallega á þrennan hátt:

1. Framboðið leggur fram raðaðan lista með númer fyrir framan hvert nafn og sömu reglur gilda þá um kosninguna og verið hefur.

2. Framboðið leggur fram lista sem þeirri röð frambjóðenda sem flokkurinn mælir með, og eru þá ekki númer fyrir framan nöfnin en þeir kjósendur, sem það vilja, raða síðan með því að númera við nöfn og hafa að því leyti til allt vald til að raða á listann.

3. Framboðið leggur fram algerlega óraðaðan lista nema hvað efsta nafnið er valið með slembivali. Þeir kjósendur sem það vilja ráða öllu um röðina á listanum.

Nú er komin margra áratuga hefð á að fólk geti raðað á lista flokkanna í prófkjörum. Það á ekki að vera neitt stórmál fyrir kjósendur að setja númer fyrir framan nöfn frambjóðenda í samræmi við ósk hvers kjósanda um röð.

Persónukjör hefur gefist vel í nokkrum nágrannalöndum okkar. Hvers vegna að vantreysta íslenskum kjósendum? Hvað er svona voðalegt við lýðræðið ?


mbl.is Persónukjör á næsta ári?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Hvað ef ég vil kjósa bæði Steingrím og Jóhönnu?

Eða ef einhver vill bjóða sig fram utan flokks?

Þórður Björn Sigurðsson, 12.5.2009 kl. 23:22

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Drögin að reglunum í vor gerðu ráð fyrir sem einfaldastri breytingu til þess að gefa fólki kost á að ná valdi á þessu. Samkvæmt því má aðeins raða á listann sem kosinn er.

Dæmi eru um það erlendis að gengið hefur verið lengra í valmöguleikunum en það gæti hugsanlega komið hér síðar.

Svona persónukjör hefur þann kost að það er jákvæðara að velja fólk heldur en að hafna fólki og strika það út.

Ég hef alltaf verið svolítið veikur fyrir því fyrirkomulagi sem þekkist að hafa blöndu af einmenningskjördæmum og landslistum.

Hér á landi gæti það falist í 11-25 einmenningskjördæmum og að síðan yrði heildar þingmannafjöldi flokkanna í samræmi við heildaratkvæðamagnið frá frambjóðendum þeirra í einmenningskjördæmunum plús atkvæðin sem þeim eru greidd á landslistum þeirra.

Þetta gæfi möguleika fyrir frambjóðendur utan flokka eins og stundum gerðist hér forðum, svo sem þegar utanflokkamaðurinn Gunnar frá Selalæk var þingmaður Rangárvallarsýslu.

Raunar voru framboð Eggerts Haukdals, Ingólfs Guðnasonar og Stefáns Valgeirssonar framboð þeirra sem einstaklinga utan flokka, þótt þeir hefðu allir með sér á lista þá 9-11 meðframbjóðendur sem þurfti til að fylla listana.

Ómar Ragnarsson, 12.5.2009 kl. 23:35

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Ómar.

Ég er sammála þér að þjóðin tók fyrsta skrefið í þessu efni í síðustu kosningum, með útstrikunum einkum og sér í lagi.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 13.5.2009 kl. 00:46

4 Smámynd: Helgi Kr. Sigmundsson

Þetta er flókið mál og ákveðnar efasemdir hafa verið settar fram um að þetta sé í raun framför.  Ég hef áhyggjur af því að kosningamálin verði of persónubundin við þetta og stefnur flokka (sem er mikilvægast fyrir kjósendur) víki.  Hvernig verður þetta t.d. útfært í sambandi við uppbótarþingmenn?  Þetta er ekki sá vandi sem við eigum við að etja og þeir sem það boða eru í raun að stinga höfðinu í sandinn og vilja ekki horfast í augu við vandamál sem þeir eiga enga lausn á.  Vilja frekar eyða tíma okkar í að ræða einhver mál sem beina athyglinni frá raunverulegum vanda okkar og mögulegum lausnum.

Sama á við um stjórnlagaþing.  Það hefur enginn fært sannfærandi rök fyrir því að íslensku stjórnarskránni sé um að kenna hvernig efnahagsmál hafa þróast á Íslandi og í heiminum öllum!

Við skulum ekki láta rugla okkur í ríminu og höldum einbeitingunni í úrlausn vanda lands og þjóðar.

Helgi Kr. Sigmundsson, 13.5.2009 kl. 00:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband