Landsvirkjun líka úr böndunum.

DSCF5021

Fróðlegt var að heyra um það í Silfri Egils í gær að þjóðin muni missa yfirráð yfir Landsvirkjun og láta fyrirtækið í hendur einkaaðilum. Kannski erlendum um síðir. 

IMGP0004Fyrir Kárahnjúkavirkjun var staða LV mjög sterk en nú fara 60% af útgjöldum hennar í vaxtagreiðslur af himinháum lánum sem það steypti sér út í. Það er sexfalt hærra hlutfall en tíðkast hjá sambærilegum fyrirtækjum erlendis.

Á fundi Viðskiptaráðs 2007 upplýsti Hörður Árnason, forstjóri Marels, að á ákveðnu árabili á milli tveggja tímapunkta þar sem gengi krónunnar var hið sama, hefði Landsvirkjun verið rekin með tapi. Fjölmiðlafulltrúi Landsvirkjunar sat fundinn og átti ekkert svar við þeirri spurningu Harðar, hvort þetta ástand væri eðlilegt hjá einokunarfyrirtæki Ástæðan var einföld: Fyrirfram var ákveðið að gera þetta, sama hve mikil áhætta yrði tekin því að ríkið myndi hvort eð er borga þetta.En núna er ástandið þannig að ríkissjóður hefur enga burði til að standa undir þessu.  

Ég er búinn að fara tvær myndatökuferðir að Kárahnjúkum og þar eru í gangi þrennar athyglisverðar framkvæmdir. Á efstu myndinni sést fokgirðing sem byrjað er að gera í Kringilsárrana og á að stöðva leir- og sandfok inn á friðaða svæðið sem aldrei var reiknað með að yrði í hættu, vegna þess að aðeins væri leirfok í sunnan- og vestanáttum.

Það gleymdist að þetta er þurrasta svæði landsins og því kom í ljós í fyrra að þarna verður sandfok í hvaða vindátt sem er. Ef smellt er tvívegis á hverja mynd svo að hún fylli út i skjáinn, má sjá þetta betur, einkum á neðstu myndunum. 

Á næstefstu myndinni er horft til suðurs frá Kárahnjúkastíflu. Þegar lónið er fullt er allt svæðið, sem horft er yfir, undir vatni, alveg upp að þeim stað sem staðið er, og hið dökka Sandfell stendur upp úr eins og eyja. Í fyrra var hleypt niður úr lóninu um 25 metra en núna 45 metra. Hinum megin við Sandfell sést vegur sem markar vatnsbakkann í fullu Hálslóni. Allt svæðið frá honum og niður á flata ísinn verður þurrt þegar ísinn yfir landinu er farinn. 40 ferkílómetrar lands eru á þurru og  nú er allt þetta svæði á þurru og  aðeins ísinn kemur í veg fyrir leirfok ef vind hreyfir. Til samanburðar má geta þess að ef vatnsborði Hvalfjarðar yrði hleypt niður um 45 metra myndi allt fjarðarstæðið verða á þurru nema einn hylur yst í honum.

 Þegar ís hefur leyst á lónstæði Hálslóns eftir 2-3 vikur verður fróðlegt að sjá hvað gerist. Í sumar mun reyna meira á varnir gegn sandfokinu en í fyrra enda eru í gangi tilraunir með rykbindiefni upp á 160 milljónir króna.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig binda eigi sand, sem er eins fínn og hveiti í þurru veðri og rýkur af tugum ferkílómetra lands áður en lónið fyllist í ágústbyrjun. 

DSCF5055

Nú er búið að planta röð af steypubílum við Kárahnjúka og setja upp steypustöð.

Þetta á að nota síðar í sumar til að steypa upp 18 metra háa viðbótarstíflu þvert yfir Dimmugjljúfur norðan við Kárahnjúkastíflu sem ekki var gert ráð fyrir í áætlunum um virkjunina.

Ástæðan er sú yfirfallsfossinn grefur í sundur gljúfrið rétt norðan við Kárahnúkastíflu og því verður að búa þar til 18 metra djúpt vatn til að vernda gljúfurbotninn.

Nú eru vinnuvélar notaðar til að undirbúa þetta mikla verk og á meðfylgjandi myndum hér fyrir neðan sást þessar vinnuvélar á bakkanum hægra megin á þeim stað þar sem stíflan á að koma yfir í gljúfurvegginn.  

DSCF5067

 Stærðarhlutvöllin sjást vel þegar horft er á hina stóru vélskóflu uppi á gljúfurbarminum. 

Á neðstu myndinni sést hvar yfirfallsrennan kemur niður á barminn, en þar myndast fossinn mikli í september.  

Þegar ég spurði á sínum tíma hvers vegna ekki hefði verið kannað með borunum það svæði, þar sem þurfti að bora aðrennslisgöngin í gegn og sjá mátti úr lofti að var 6-7 kílómetra breitt misgengissvæði með allt að níu metra breiðum sprungum var svarið:

"Þess gerðist ekki þörf, - við ætluðum þarna í gegn hvort eð var."

Þetta var og er hugsunarhátturinn á bak við rekstur og framkvæmdir Landsvirkjunar undanfarin ár.

DSCF5066Tekin var gríðarleg áhætta á mörgum sviðum hvað snertir það að framkvæmdin tækist og ekki síður hvað snertir rekstraröryggi virkjunarinnar.

Við erum hugsanlega ekki búin að bíta úr nálinni með það allt.  


mbl.is Tónlistarhús 650 millj dýrara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

landsvirkjun var tekin í pant af AGS... bara spurning um tíma hvenær hún verður hirt af okkur.

Óskar Þorkelsson, 18.5.2009 kl. 16:54

2 Smámynd: Oddur Ólafsson

Þú ert snillingur Ómar.  Hafðu þökk fyrir þína baráttu.

Oddur Ólafsson, 18.5.2009 kl. 22:23

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Og undarlegt að eftir meira en tvö þúsund flettingar á þessari færslu í gær þá hafa aðeins tveir séð ástæðu til að taka til máls. Engin umræða myndast!

Árni Gunnarsson, 19.5.2009 kl. 13:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband