Fréttir gerast þegar þeim sýnist.

Á næsta ári eru rétt 50 ár síðan ég vann í fyrsta sinn við blaðamennsku. Það var á dagblaðinu Vísi. Ýmislegt hefur maður lært á þessari tæpu hálfri öld í bransanum.

Nefna má fjögur atriði:

1. Nú, rétt eins og þá, vekja fréttir af ofbeldi og kynlífi áhuga. Einhver stærsta fréttin að vetrarlagi um 1950 var um að prestur einn utan af landi hefði guðað á glugga að næturþeli hjá konu einni í Þingholtunum og var ekki að því að spyrja að lögregluþjónn, sem var í tygjum við konuna að mig minnir og þótti málið vera sér skylt, réðst þegar til atlögu við prestinn með félögum sínum í löggunni og færði hann til yfirheyrslu niður á lögreglustöð.

Presturinn var síðan látinn laus og málið féll niður, en fólk deildi um það hvort meint brot hans hefði réttlætt það að grípa til svona harkalegra aðgerða gegn honum. Þar með var komin formúla að dúndurfrétt með hæfilegu ívafi af ofbeldi og kynlífi. Og ekki dró það úr að um meintan gerning prestsins er notað máltækið "að guða á glugga."

Í revíu Bláu stjörninnar söng Soffía Karlsdóttir í kjölfar þessa:

"En sértu ennþá ung og dreymin /
er enginn vandi´að fleka heiminn. /
Ef freistingarnar guða á gluggann þinn /
þá gættu þess að hleypa þeim inn.

Hér á mbl.is má sjá að tvær fréttir af kjallaraslysum karlmanna hafa fengið mikla lesningu.

Heyrt hef ég talað um það, bæði almennt og í bloggheimum, að býsna sé skrýtin árátta hjá mbl.is að velta sér upp úr slíkum fréttum og spurt er hvort sams konar fréttir af kvenfólki komi í næstu viku.

Og þá kem ég að atriði númer tvö:

2. Fréttir gerast þegar þeim sýnist. Þetta getur verið hábölvað fyrir fjölmiðlafólk en blaða- eða fréttamaður sem sættir sig ekki við þetta, þyrfti helst að finna sér annað starf því að þetta eðli fréttanna getur verið mjög ergilegt ef menn láta það fara í taugarnar á sér.

Báðar karlmannakjallarafréttirnar á mbl.is eru þess eðlis að þær eru afar fátíðar. Þess vegna eru þær fréttnæmar.

Báðar fréttirnar gerðust þegar þeim sýndist, - ekki eftir beiðini mbl. is. Hvenær sem er hefði hvor þeirra um sig átt rétt á sér að því gefnu að ekki væri mikið annað og merkilegra að gerast á þeim tíma.

Ef maður hefði bitið hest, svo að stórséð hefði á og annar maður bitið hund til bana sama dag, hefði verið út í hött að fara að færa þær til eða sleppa þeim bara vegna þess að þær gerðust á sama tíma. Þaðan af síður að fara að leita uppi einhverjar fréttir af hestum og hundum sem bitu menn í næstu viku.

Þá kem ég að því þriðja sem margir eiga erfitt með að sætta sig við:

3. Mikilvægi frétta fer eingöngu eftir því hvaða fréttir aðrar eru að gerast á sama tíma. Um þetta má nefna ótal dæmi.

Í "gúrkutíð" getur mjög lítil frétt orðið fyrsta frétt. Þegar margir stóratburðir eru að gerast samtímis getur einhver þeirra fallið alveg útbyrðis.

Þetta er auðvitað augljóst en á löngum ferli voru það ekki svo fáar stundirnar sem fóru í það að útskýra fyrir óánægðum aðstandendum jákvæðra og góðra frétta, að því miður hefðu aðrar og stærri fréttir orðið að hafa forgang.

Tímaritið Time ætlaði að hafa forsíðu og aðalpistil blaðsins um Heimaeyjargosið 1973. En Lyndon B. Johnson fyrrverandi Bandaríkjaforseti tók upp á því að deyja síðar sama dag og blaðið hætti við gospistilinn.

20. ágúst 1980 átti stórsýning dansks sirkus að verða fyrsta frétt sjónvarps. Hekla byrjaði að gjósa þennan dag og aldrei var sagt frá sirkusnum.

Daginn sem Hekla byrjaði að gjósa 1991 varð það ekki aðalfréttin þann dag, því að sama dag hófst Flóastríðið.

Þá er það fjórða atriðið:

4. Eðli frétta er betur útskýrt í erlendum heitum um fyrirbærið heldur en í íslenska orðinu frétt. Á ensku "News".
Á dönsku "nyheder." Sem sagt: Eitthvað nýtt, eitthvað sem er sérstakt, óvenjulegt.

Það er ekki frétt ef hundur bítur mann en hins vegar frétt ef maður bítur hund.


mbl.is Skaut sig óvart í kynfærin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Daginn sem Hekla byrjaði að gjósa 1991 varð það ekki aðalfréttin þann dag, því að sama dag hófst Flóastríðið."

Og ef ég man rétt þá kom páfinn til landsins þennan dag og Ólafur V. Noregskonungur lést.  - Í einhverjum fréttatíma RÚV útvarps þennan dag var það orðinn svo lítil frétt að frændi okkar Noregskonungur væri dáinn og fátið yfir stórfréttum dagsins svo mikið, að alveg undir lok fréttatíma las þulur: Ólafur vaff Noregskonungur lést í dag.

Heimir Már Pétursson (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 16:33

2 identicon

Og í dag gengur fréttamennskan út á að "skúbba" og helgar þá tilgnangurinn meðalið.

Mér hefur virst fréttamennska hér hafa farið svo hrakandi undanfarin ár eftir að reyndir menn hættu á sjónvörpunum og blöðunum og börn ráðin í staðinn sem hafa kannski ágætis einkunnir úr skólum en með falleinkunn í öðru. 

Hér eru ekki sagðar fréttir eins og einu sinni var.  Þær eru búnar til. 

Fyrin nú utan málfarið.  Manni svíður í sálina að heyra og lesa armbögurnar og villurnar sem  renna frá þessu fólki daginnn langan. 

Jón Óskarsson (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 23:37

3 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Var fréttaritari RÚV í Lundúnum þegar fyrra Flóastríðið hófst.  Þar sem Bretar voru beinir aðilar að því stríði og mikið af hótunum Saddams Husseins um efnavopnaárásir o.fl. beindust að Bretlandi, var vitlaust að gera á Lundúnavaktinni -eins og oft áður á þessum árum.  

   Einn morguninn dettur svo allt í dúnalogn, heyrist ekki múkk að heiman og alveg að bresta á með hádegisfréttum.  Þegar ég hringdi heim á RÚV til að ath. hverju þögnin sætti, var mér sagt að gos væri hafið í Heklu og Ólafur Noregskonungur látinn.   Flóabardagi, sem þá var hafinn, beit því í gras fyrir eldfjallinu og Noregskonungi það hádegið.  Undir kvöldið byrjaði ballið svo aftur og stóð mánuðum saman, með fáum hléum.

(Man þó alveg þetta með Ólaf vaff, sem Heimir Már minnist á, enda klassísk kryddsíld).

Hildur Helga Sigurðardóttir, 27.5.2009 kl. 01:38

4 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Það heitir nú víst "að lúta í gras"...

Hildur Helga Sigurðardóttir, 27.5.2009 kl. 01:42

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Páfinn kom til Íslands í júní 1989 og fór þá í Þingvallakirkju, sem Berlusconi sagði síðar hverjum sem heyra vildi að væri eins og krækiber í Helvíti miðað við Péturskirkjuna í Róm.

Þorsteinn Briem, 27.5.2009 kl. 12:45

6 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Ekki gleyma því að daginn títtnefnda árið 1991 stóðu lætin í Vilnius hvað hæst, ef ég man rétt þá dóu 11 litháískir mótmælendur þann dag.

Hvað varðar skúbbáráttuna sem Jón kemur inn á þá er þetta einmitt fjórða atriðið sem Ómar nefnir. Fréttagildið er ekki það sama ef einhver annar hefur fært þér fréttina áður. Síðan eru til blaða- og fréttamenn sem hafa engan áhuga á að skúbba heldur eru fyrst og fremst fréttaskýrendur.

Guðmundur Sverrir Þór, 27.5.2009 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband