Ekkert nema óvinsælt...

Strax eftir hrunið síðastliðið haust var það ljóst að hvaða ríkisstjórn, sem hér myndi sitja, gæti ekkert annað gert í málum þjóðarinnar en að standa að óvinsælum aðgerðum, fleiri, harðari og óvinsælli en nokkur önnur ríkisstjórn hefur þurft að standa fyrir.

Þá þegar hefði átt að vera ljóst að aðeins utanþingsstjórn eða þjóðstjórn gætu staðið að hinum óhjákvæmilegu og sársaukafullu aðgerðum sem einar kæmu til greina eins og í pottinn var búið.

Davíð Oddsson fékk bágt fyrir að orða hugmyndina um þjóðstjórn. Utanþingsstjórn hefði þó verið enn eðlilegri kostur, sá eini sem ekki hafði tengsl við hrunið.

Hún hefði getað komið í veg fyrir þá töf og þann óróa sem var til óþurftar. Stefnt hefði mátt að kosningum, sem hefði þá átt að halda næstkomandi haust eftir vandaðan undirbúning að stjórnlagabreytingum og lúkningu aðgerða í samstarfi við AGS.

Hvað um það, kosningar voru haldnar, meirihlutastjórn með nýtt umboð þjóðarinnar er við völd og loks eftir nær aldar bið hefur það fengist fram sú löngu tímabæra nauðsyn, að Íhald og Framsókn séu ekki með þann þingmeirihluta sem geri það óhjákvæmilegt að annar hvor þessara tveggja flokka hafi úrslitavald um stjórnarmyndun.

En ríkisstjórnin á ekki sjö dagana sæla í vændum. Þær líta ekki vel út, þessar ráðstafanir hennar, og enn verra er framundan þegar í kjölfarið koma sársaukafullar skerðingaraðgerðir í ríkisþjónustunni.

Hvað sem því líður má ekki gleymast hvað það var sem stefndi þjóðarbúi okkar í hrun síðastliðið haust og olli því að við eigum enga góða kosti í stöðunni, aðeins mismunandi slæma.


mbl.is Áfengi og eldsneyti hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Vissulega eigum við einungis mismunandi slæma kosti. Þessi sem Steingrímur tók er mjög slæmur. Hann velur 2,7+8 milljarða kostnaði hjá heimilum landsins en fær bara 2,7 til sín en fjármagnseigendur fá 8.

Þessir 8 milljarðar eru vaxtaberandi til framtíðar.

Betra hefði verið að gera 10,7 milljarða upptæka hjá heimilunum. Það hefði gefið meira í ríkissjóð.

Svo má ekki gleyma því að þessir 2,7 milljarðar koma af neyslufé almennings sem einnig þarfa að nota til að borga af lánum. Almenningur eyðir þá minna í annað og þar koma þá minni neysluskattar. Þetta er því algjörlega að pissa í skóna og mjög slæmur kostur af mörgum slæmum.

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 29.5.2009 kl. 10:17

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Sammála Þorsteini, en vil bæta við að ofan á skattaklúðrið er verið að eyða dýrmætum tíma í ESB draumóra. Kannski er ESB góður kostur einhvern tíma í framtíðinni, en maður ræður ekki smið til að lagfæra á meðan húsið brennur. Maður slekkur fyrst eldinn.

Ég var ánægður að sjá D og B missa meirihluta á þingi, en þessi stjórn er að dúlla sér við gæluverkefni sem hefðu verið í fínu lagi í góðæri. Ég hef það á tilfinningunni að fæstir á þingi skilji hvað er að gerast.

Og eitt að lokum, þótt ég hafi sagt það frá í byrjum október. IMF hefur ekkert hingað að gera. Þessi samtök eru ekki að vinna fyrir okkur, heldur þá sem við skuldum. Það ætti að vera öllum orðið löngu ljóst, meira að segja nafna mínum Egilssyni.

Villi Asgeirsson, 29.5.2009 kl. 10:48

3 Smámynd: P.Valdimar Guðjónsson

Rét Ómar. Þetta er nokkurn veginn röðin sem hefði átt að vera á þessu  ásamt með þjóðstjórn strax eða utanþingsstjórn.

Dýrmætur tími fór í kosningahark og nú ESB vitleysuna.    Tími sem "undirmannað stjórnkerfi" (orð Steingríms)  hefur þurft að sóa tíma sínum í.

Óvissa og stöðug seinkun á raunhæfum áætlunum og niðurskurði í ríkisbúskapnum veldur enn meiri seinkun á vaxtalækkunum, trausti erlendis og stöðugleika gengisins.

Enn hefur nokkurn veginn allt verið öfugt gert af því sem Göran Person ráðlagði af eigin reynslu.   

 Eins er með viðreisn bankakerfisins.   Þar þykjumst við vita best sjálf, þó Íslendingar hafi aldrei áður lent í svipaðri stöðu. (sem betur fer).     Enn eru þeir að véla um sem grautuðu sjálfir í hlutunum fyrir hrun.

P.Valdimar Guðjónsson, 29.5.2009 kl. 11:25

4 Smámynd: Björn Birgisson

Góður pistill Ómar. Góðir kostir í stöðunni eru sárafáir, en þeir vondu fjölmargir. Hækkanir á bensíni, brennivíni og tóbaki eru léttvægar. Almenningur getur hætt að drekka og reykja, eða minnkað neysluna, til að eiga fyrir öðrum hækkunum sem af þessu leiða. Bensínkaup er auðvelt að minnka. Bara ganga meira og hjóla.

Björn Birgisson, 29.5.2009 kl. 12:49

5 identicon

Alveg er það óþolandi, og um leið sorglegt, hvað fáir þingmenn (ef einhverjir) spá í hvað hækkun þessarra gjalda hefur á sölu.  Ef sala á eldsneyti og áfengi dregst saman vegna þessarra hækkanna, þá minnka líka tekjur ríkisins.  Hver er þá raunverulegi ágóðinn af þessum hækkunum?

Sverrir Hákonar (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 14:52

6 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Hver er þá raunverulegi ágóðinn af þessum hækkunum?

Enginn.. þetta er bara heimskuleg kommunistísk aðgerð

Óskar Þorkelsson, 29.5.2009 kl. 16:31

7 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Fólk er fljótt að gleyma! Þetta er einmitt þeir skattar sem alltaf hafa verið hækkaðir fyrst! Minni líka fólk á að ef að gengið heldur áfram að mjakast upp þá mælist þessi hækkun ekki í næstu mælingu neysluvísitölu.

Það hefur komið fram í dag að það er erfitt að hækka tekjuskatt á miðju ári og því er horft til neysluskatta. Guðmundur Ólafsson hagfræðingur stakk upp á að hækka aftur lækkun á virðisauka á landbúnaðarvörur en hann var lækkaður í 7% á síðasta ári. Þegar fólk er að miklast yfir hækkun lána þá er nú rétt að benda á að meðal lán skv. seðlabankaskrýslu í febrúar, er um 80 þúsund sem þýðir um hva eitthvað um 200kr eða minna á 40 ára láni.

Fólk verður bara að átta sig á að um áramót hækkar hér tekjuskattur aftur örugglega um 2 til 3%. Og það sem ekki næst að draga seman verður að velta yfir á fólk t.d. með hærri þjónustugjöldum. Það verður að finna leiðir til að ná niður 170 milljörðum á næstu 3 árum.

Önnur leið væri sú ömurlega leið sem fjallað var um á RUV í vikunni að selja t.d. Landspítalann. Held eftir þá mynd sé það eitthvað sem við viljum ekki. Þetta var ömurleg mynd um einkavæðingu og afleiðingar hennar.

En það sem við eigum að stefna að er að falla ekki þá freistingu að sala almannaþjónustu fyrirtækja sé það rétta eins og þessar þjóðir sem takað var um gerðu. T.d. vatnasveitur í Bolevíu, járnbrautakerfið í Bretlandi, Rafveitur í Suður Afríku og Colembíu.

En ef þjóðin neitar að taka þátt í ná niður fjárlagahalla gæti það orðið þrautarlending okkar.

Minni á að það eru aðeins 18 ár síðan að Finnar gengu í gegn um krísu sem ekki var eins slæm okkar. Þar þurfti að bjóða börnum upp á heitan mat þegar þau komu í skólan eftir helgi því heimilin höfðu sum staðar ekki efni á því að hafa heitan mat. Fólk fór í Súpueldhús hjá hjálparsamtökum og biðraðir numu oft kílómetrum, Allt að 1000 skólum var lokað og atvinnuleysi fór yfir 20% og 50% í sumum landshlutum. EN Finnar stóðu saman um að koma sér út úr þessu. Nýsköpum eins og t.d. þar sem þeir selja ferðafólki þögn, snjó og kulda er dæmi um það. Sem og Nokia.

En hér eru flestir sem reikna með og heimta að lífsgæði þeirra og tekjur skerðist ekkert og aðrir helst erlendir kröfuhafar borgi allt saman.

Magnús Helgi Björgvinsson, 29.5.2009 kl. 17:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband