"Það sem er gott er óhollt..."?

Það hefur verið sagt að það, sem sé gott, sé annað hvort syndsamlegt eða óhollt.

Ég bloggaði eitt sinn um það guðdómlega góðgæti súkkulaði og það, hve mikinn þátt það á vafalaust í því að vestrænar þjóðir eiga við offituvandamál að stríða.

Ég áttaði mig ekki sjálfur á því hve mikil áhrif þessi freistandi matvara hefði á holdafarið fyrr en ég þurfti um þriggja mánaða skeið að vera í fitubindindi vegna lifrarbilunar af völdum sterkra sýklalyfja sem olli ofsakláða og tilheyrandi svefnleysi.

Nú þurfti að lesa utan á öllum umbúðum um fituinnihald alls sem neytt var og leita upplýsinga um annað. Þá kom í ljós að tæpur þriðjungur af einu mínu mesta yndi, Prins póló, var hrein fita.

Á þessum þremur mánuðum missti ég 16 kíló og auðvitað var svona svakalegt fitubindindi óhollt í sjálfu sér, því að fita í hófi er nauðsynleg fyrir líkamlegan þrótt.

Þegar bindindinu lauk var það unaðsleg stund að veita sér fyrsta daginn þann munað að éta hálft stykki af Prins Póló.

Fyrstu vikurnar eftir að lifrin varð alheil sveif maður næstum á skýi, - gat étið það sem manni sýndist í fyrsta sinn í 40 ár !

Sumt súkkulaði, einkum ljóst súkkulaði, inniheldur flest það sem veldur offitu og sjúkdómum og tengdum vandræðum sem aftur veldur tjóni á ýmsa lund og kostnaði í heilbrigðis- og tryggingakerfinu.

Fer þar stundum saman hin óhollari tegund fitu og mikill hvítasykur sem er eitt kostnaðarsamasta og lúmskasta fíkniefni nútímans.

Hjá sumum flugfélögum er meira að segja í ráði að leggja sérstakt gjald á umframkíló farþeganna. Það kostar eldsneyti og peninga að lyfta nokkrum tonnum af aukakílóum frá jörðu í hverri flugferð upp í 40 þúsund feta hæð og geta ekki flutt eins margt fólk og ella.

Skattur á vörur sem innihalda mikinn hvítasykur og fitu er því réttmætur. Maður á að borga fyrir að neyta.

Vegna hnémeiðsla get ég í bili ekki stundað eins mikla hreyfingu og jafnan áður og verð því að grípa til þeirrar reynslu sem ég fékk í fyrra til að fara ekki aftur upp í þá þyngd sem ég var kominn í þegar ég veiktist. Það þýðir breytingu á mataræði hvað snertir fitandi matvöru.

Verðhækkun á fitandi vörum virkar sem hvati fyrir mig og vonandi fyrir fleiri. Nú um stundir spara ég líklega 7 -10 þúsund krónur á mánuði vegna samdráttar í neyslu á súkkulaði.

Af því að sumt kex er ekki fitandi er aukaskattur á það þó ósanngjarn að mínu mati. Ef hrökkbrauð telst kex er aukaskattur á það fráleitur að mínum dómi.

 

P. S. Í gær birti ég mynd í bloggpistli með spurningunni: Hvorum megin við máluðu steinana er flugbrautin?

P1010171

Lofaði að birta svar í dag og hér fylgir það fyrir neðan myndina frá í gær.

Á þeirri mynd sést hinn jaðar flugbrautarinnar, sem er ein af þremur brautum valllarins, 30 metra breið og 1400 metra löng, nothæf fyrir Fokker og farþegaþotur af millistærð.

P1010173
mbl.is Skattur á kex og gos í 24,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband