"Lambalærið" komið glóðvolgt.

Sess lambalærisins verður vonandi óbreyttur, hvað sem gerist í landbúnaðarmálum. Mér mistókst setja lagið "Lambalæri" inn í tónlistarspilarann í fyrradag en nú er það komið glóðvolgt inn á tónlistarspilarann hér við hliðana í tilefni af grill- og lambalærishefð Íslendinga, sumarstemningunni og 2x50 ára starfsafmæli mínu og Lúdósextetts og Stefáns. 

Til hagræðis fylgir með textinn:

 

Vertu hress vegna þess vinur kæri

að komast bærilega í tæri við tækifæri.

Tökum séns, trylltan skrens, gaurinn glæri !

Njóttu nú þín við þetta grín ! Þó nú væri !

Meðan að blóðheit bjóðast góð lambalæri.

 

Nú skal kjamsa og gramsa og gæða

sér á góðgæti á glóð og það snæða,

leika milla og grilla og glefsa´í

gómsæta lostætið sem ilmar, nautn nefs í, 

kneifa í stólum Kókakóla og Pepsí.  

 

Lambalæri´eru ljúf eins og lömbin.

Þegar lömbin koma á diskinn þá kýlist vömbin.

Mat og víf, nautnalíf mjög ég mæri. 

Þess vegna óð er okkar þjóð í lambalæri.

 

Lambalæri´nú lyst okkar vekur

meðan lendar sínar sprellandi gellan skekur.

Tökum séns, trylltan séns, gaurinn glæri !

Njóttu nú þín við þetta grín !  Þó nú væri !

 

Ég og þú étum nú, enginn efar

að ef að glás er af krás maður slefar.

Nautnaseggirnir, sleggjurnar hneggja.

Vöðvaða steggina hér leggirnir eggja.

Úti við veggi drekkum dreggjarnar geggjað.

 

Lambalæri´eru ljúf, í mér hrærir  

þessi lífsnautn sem oss ærir og endurnærir.

Eftir sult farðu´á fullt, gaurinn glæri !  

Annars flengi ég þig í keng og hengi´í snæri ! 

 

Lambalæri´eru ljúf eins og lífið,

lostætt nammi þegar hrífur oss dívu-vífið.

Mat og víf, nautnalíf mjög ég mæri.

Þess vegna óð er okkar þjóð í lambalæri.

Þess vegna óð er okkar þjóð í lambalæri. 

.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Kjúklingar myndu lækka um 70%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar. Vegna frétta af landbúnaðarstefnu ESB og inngöngu okkar ( ef af verður) þá er það vissa mín að sauðfjárbændur þurfa ekki að miss úr nætursvefn þessvegna.

Fyrir margt löngu gerði ég stóra rannsókn (fyrir félag sauðfjárbænda) á matarvenjum 1200 Íslendinga. Þar kom fram að íslenska lambakjötið er það kjötmeti sem íslendingar treysta best (lang lang best). Það var nánst sama hvernig spurt var: hvaða kjöt er best að grilla,- öruggast á grillið,- bragðbesta kjötið, auðveldast að matbúa... og alltaf er lambakjötið efst. Spurt var t.d.: hvaða matur er þjóðlegastur: ofnsteikt lambalæri eða hryggur,- hátíðlegasti maturinn; soðið hangikjöt !

Niðurstaðan var alveg afgerandi; Íslendingar vita hvernig íslenska lambið er alið og hvar og hversu lengi. Hreint kjöt, ómengað og án aukaefna ! Við getum treyst á að kjötið er gott og hollt.

Ég sannfærður um að ekkert getur breytt þessu viðhorfi. Innflutt lambakjöt er ekkert svipað að bragðgæðum og hið Íslenska. Kannski ódýrara en ekki betra.

Áhyggjur Steinþórs í SS tel ég nánast óþarfar eða amk. stórlega ýktar. Sjálfsagt geta komið erlend tilboð á lambakjöti,- en ef ísl. framleiðendur taka þann slag af viti og faglega: hefur íslenska lambakjötið vinninginn.

kv bdj

Bjarni Bagur Jonsson (IP-tala skráð) 16.7.2009 kl. 13:17

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

það er til fólk á Íslandi sem raunverulega vilja leiðrétta þetta ósanngjarna kapphlaup, en það fólk kemst aldrey til valda! Milliliðir hirða gróðann og kenna öðrum um! VAKNIÐ GOTT FÓLK! Annars eruð þið ekki Íslendingar í raun.

Hvers vegna?

Held það sé vegna þess að eiginhagsmunir ráðandi afla eru of valdamikil . það eru ekki flokkar þessa lands, heldur heimsvaldaflokkarnir. Ég er hvorki vitlaus né einföld. Ég mynda mér mínar skoðanir. þeir sem gefa sig í landspólitík og svíkja kjósendur eru á mjög lágu plani í þroska og heilbrigðri skynsemi og náungakærleika.

þegar fólk selur staðfestu sína og upplýstu sannfæringu eru þeir ekki á bandi sinna eigin þegna heldur svikaranna. FÖÐURLANDSSVIKARAR.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.7.2009 kl. 17:23

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er með títtnefnt lambalæri í ofninum.

Takk fyrir textann.

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.7.2009 kl. 18:08

5 identicon

Ekki  veit ég af hverju, -----  en mér kemur í hug sagan af manninum,sem sótti lambalærið í áramótabrennuna á Klambratúni!  En þetta er nú bara svona inter nos.

Eiður (IP-tala skráð) 16.7.2009 kl. 18:26

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta var jólahangiketið og lambalæri inn við beinið.

Ómar Ragnarsson, 16.7.2009 kl. 19:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband