Að vera "þægur".

Hve margir hafa verið þaggaðir niður með því að segja við þá: "Ég held þú ættir að halda þig við..." og síðan er tiltekinn sá afmarkaði bás sem viðkomandi er ætlað að halda sig á?

Það er rétt að sum embætti fela það í sér að takmörk eru fyrir því sem þeir, sem þeim gegna, geta sagt opinberlega.

Hins vegar ríkja tjáningar- og málfrelsi í þessu landi og ég fæ ekki séð hvers vegna Eva Joly má ekki verja málstað okkar Íslendinga erlendis á þann hátt sem hún sjálf telur réttastan.

Kann að vera að einhverjir vildu að hún hefði gert það öðruvísi í einstökum atriðum en þá er það þeirra að fara í rökræðu um það mál.

Á árunum upp úr aldamótunum ríkti vaxandi og skaðleg þöggun hér á landi.

Ein helsta undirstaða þöggunar er að sem flestir séu í þeirri stöðu að þeir vogi sér ekki að taka opinberlega afstöðu í umdeildum málum.

Sjálfur kannast ég við slíkt frá fyrri tíð þegar maður gekk undir manns hönd við að hræða mig frá því að gera og segja það sem ég taldi réttast.

Einn ráðherranna fyrir áratug var óánægður með það sem ég var að gera, kvaddi mig með þessum orðum eftir rökræðu okkar um þetta með því að segja við mig í lokin: "Vertu nú þægur."

Eva Joly hefur aldrei verið "þæg". Það kann að geta komið sér illa við hana á stundum en hún hefur náð þeim frábæra árangri í störfum sínum sem hefur skapað orðstír hennar að hafa aldrei verið "þæg", - aldrei verið hrædd við að gera það sem hún taldi sjálf réttast.

Íslendingum veitir ekki af stuðningi á alþjóðavettvangi og atbeina velunnara okkar.

Einu sinni var sagt: "Ber er hver að baki nema sér bróður eigi." Nú geta Íslendingar sagt við Evu Jolly: "Ber er hver að baki nema sér systur eigi."


mbl.is Hrannar sendir Joly tóninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Það vakti athygli þegar tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu ekki atkvæði gegn aðildarumsókn ESB. Ragnheiður Ríkharðsdóttir greiddi með og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sat hjá. Það vakti hins vegar enga athygli að allir þingmenn Samfylkingarinnar greiddu atkvæði með. Nú skiptast menn í flokka í því máli, nema virðist Samfylkingin, þrátt fyrir það virðist vara afar erfitt að fá rök með aðildarumsókn nema almennt kjaftæði og froðusnakk. Rökræða um málin fara ekki fram. Síðan kemur Icesavesamningurinn sem átti að vera svo glæsilegur, en þegar hann er skoðaður kemur í ljós á honum alvarlegir gallar, sem mönnum virðist hafa sést yfir. Samt á hlýðnin að gilda, samþykkja vegna þess að annað gæti litið illa út. Það að líta vel út, gæti þýtt 300 milljarða viðbótarálögur á börnin okkar og barnabörn.

Ég er á móti ESB Ómar, en það er ekkert persónulegt út í þig. Ég sé bara engin rök fyrir því að við náum samningum sem við teljum ásættanlega. Þá tel ég að valdið sé betur komið nær okkur en fjær.

Ég er á móti Icesavesamningum vegna þess að ég tel að við höfum með honum gert alvarleg mistök, þar sem okkur er ætlað að borga meira en okkur ber. Það er heldur ekkert persónulegt út í þig.

Ég studdi virkjun í Kárahnjúkum vegna þess að ég taldi það hagstæðan virkjunarkost og ég taldi það gott fyrir Austurland. Það hafði ekkert með persónulega afstöðu tí þín að gera. Síðar fékk ég viðbótarupplýsingar um málið sem gerði það að verkum að mér snerist hugur og ég tel nú að Kárahnjúkavirkjun sé alvarleg mistök. Aftur hefur það ekkert með þig persónulega að gera.

Ef Eva Joly telur Icesavesamninginn vera vondan samning, þá má hún hafa þá skoðun, og hún má setja þá skoðun. Það truflar vinnu hennar við rannsókn hrunsins ekki neitt. Við þurfum að geta rökrætt þau mál sem við erum að takast á um. Það er e.t.v. okkar helsti vankantur í gegnum árin.

Sigurður Þorsteinsson, 2.8.2009 kl. 16:08

2 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Áletrun á ísskápshurðinni minni: "Well behaved women rarely make history"

Gæti útlagst sem: "Þægar konur komast sjaldan á spjöld sögunnar".

Getur átt við um karla líka...

(Það er svo vinsælt hjá þeim, sem vilja "þagga" mig, að benda mér á að "halda mig bara við kóngafólkið". Les: Það er svona hérumbil það eina sem jafn illa gefin og yfirborðskennd kona gæti hugsanlega haft vit á...)

Hildur Helga Sigurðardóttir, 2.8.2009 kl. 16:17

3 Smámynd: Snorri Magnússon

Góður pistill Ómar.  Því er nefnilega einu sinni þannig farið að ef allir eru og verða alltaf "þægir" gerist aldrei nokkur skapaður hlutur og allir "co-a" með fljótandi sofandi að feigðarósi!!

Snorri Magnússon, 3.8.2009 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband