Gömul saga og ný.

Stjórnmálaflokkar verða til vegna þess að fólk með líkar skoðanir binst samtökum til að vinna þeim sem best brautargengi. Furðu algengt er einnig að flokkarnir klofni vegna þess að skoðanirnar verða skiptar þegar á hólminn er komið.

Nær allir stjórnmálaflokkar, sem myndaðir hafa verið hér á landi frá 1916 hafa klofnað. Framsóknarflokkurinn klofnaði þegar Tryggvi Þórhallsson og hans skoðanasystkin klufu sig út úr honum og mynduðu Bændaflokkinn. Sá flokkur varð ekki langlífur og leystist upp.

Alþýðuflokkurinn klofnaði 1930 þegar Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður. Seinna varð frekari klofningur þegar Héðinn Valdimarsson og hans menn gengu til liðs við Kommúnistaflokkinn og stofnuðu Sameiningarflokk alþýðu - sósíalistaflokkinn. Í kjölfar árásar Sovétmanna á Finna gekk Héðinn ásamt fleirum úr þeim flokki.

Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði 1953 þegar Lýðveldisflokkurinn var stofnaður og bauð fram en fékk ekki þingmann.

Margir sósíalistar gengu til liðs við Þjóðvarnarflokkinn 1953 en eftir 1959 var ljóst að dagar hans væru taldir.   

Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði 1987 þegar Borgaraflokkurinn var stofnaður. Sá flokkur klofnaði aftur þegar hluti hans gekk til liðs við við vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar. 

Alþýðuflokkurinn klofnaði enn og aftur 1956 þegar Hannibal Valdimarsson og fleiri mynduðu Alþýðubandalagið í samvinnu við sósíalista. Síðan klofnaði Alþýðubandalagið eftir frægan Tónabíósfund og Samtök frjálslyndra og vinstri manna voru stofnuð.

 

Þau samtök klofnuðu 1974 þegar Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson gengu úr vinstri ríkisstjórn en Magnús Torfi Ólafsson sat eftir í embætti.

Enn klofnaði Alþýðuflokkurinn þegar Vilmundur Gylfason og fleiri stofnuðu Bandalag jafnaðarmanna, sem síðar leystist upp og hver fór sína leið.

Kvennalistinn klofnaði um EES-málið og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gekk síðar til liðs við Samfylkinguna og varð formaður hennar.

Alþýðuflokkurinn klofnaði enn einu sinni 1994 þegar Jóhanna Sigurðardóttir gerðist formaður í nýjum flokki, Þjóðvaka.

Frjálslyndi flokkurinn klofnaði 2007 þegar hluti hans tók þátt í myndun Íslandshreyfingarinnar og enn klofnaði Frjálslyndi flokkurinn þegar Jón Magnússon sagði sig frá honum.

Af þessari upptalningu sést að stærð flokka skiptir ekki máli þegar um klofning þeirra er að ræða.

Flokkar utan fjórflokksins hafa lifað mislengi óklofnir, yfirleitt haldið saman í nokkur ár áður en klofningurinn varð.

Klofningur Borgarahreyfingarinnar er kannski hraðamet í klofningi nýs flokks og þess vegna þungbærari fyrir þann flokk en ella.   


mbl.is Þráinn segir sig úr þingflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð samantekt, bróðir:)

Sigurlaug (IP-tala skráð) 14.8.2009 kl. 20:36

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Er ekki spurning að Borgarahreyfingin sé stjórnmálaflokkur í eiginlegri merkingu?

Árni Gunnarsson, 14.8.2009 kl. 22:04

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Málið er einfalt hvað það snertir að Borgarahreyfingin er skilgreind sem stjórnmálaflokkur að lögum.

Það er eina viðmiðið sem hægt er að nota þar sem sama regla gildir um öll íslensk stjórnmálaöfl eða stjórnmálafélög.

Samkvæmt íslenskum lögum eru þau samtök talin stjórnmálaflokkar sem bjóða fram til Alþingiskosninga og gildir einu hvað þeir telja sig sjálf vera.

Lítum á dæmi um samtök sem skilgreind eru sem stjórnmálaflokkar en hafa mismunandi nöfn, - flokkur, fylking, - hreyfing, - framboð:

Sjálfstæðisflokkur.

Samfylkingin.

Borgarahreyfingin.

Vinstri hreyfingin - grænt framboð.

Orðið "flokkur" hefur að margra mati svo neikvæða ímynd að nauðsynlegt sé að nefna stjórnmálasamtök eitthvað annað, svona álíka eins og að orðið "félag" hefði svo neikvæða ímynd að íþróttafélög færu að kalla sig knattspyrnufylkingar eða knattspyrnuhreyfingar.

Ómar Ragnarsson, 14.8.2009 kl. 23:10

4 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Jamm, óþarfi að lísa Borgarahreyfinguna dauða enn. Margt á enn eftir að gerast, og nóg eftir af kjörtímabilinu.

Vart verður drama næsta árs minna í sníðum, en þá mun koma í ljós, hvernig í ósköpunum á að skera útgjöld ríkisins niður um 100 milljarða, eða svo.

Ef Borgarahreyfingin, getur ekki gert sér mat úr því, þá á hún ekki skilið að lifa.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 15.8.2009 kl. 01:38

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Vorið 1974 klofnaði aftur Samtök frjálslyndra og vinstri manna þegar Bjarni Guðnason sagði skilið við flokkinn.

Frægt var í umræðum á þingi þá um vorið að hann lét eitthvað frá sér fara sem Hannibal líkaði ekki. Bað hann þá þingflokkinn að þegja og átti við Bjarna!

Nú er Þráinn í áþekkri stöðu. Hann er einn og hefur því miður orðið fyrir því að verða þolandi ómaklegra persónulegra móðgana sem erfitt er að fyrirgefa. Þingmenn eiga að vera fyrirmynd annarra enda má fylgjast mjög vel með störfum þeirra og athöfnum sérstaklega þegar það er birt á ljósvakanum. Á þeim vettvangi er sérstök ástæða að gæta vel að því sem maður lætur fara frá sér. Oft er betra að þegja en segja!

Mosi

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 15.8.2009 kl. 08:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband