Munum eftir fordæmi Skoda.

Ég held að hin góða Skoda-vísa verði aldrei of oft kveðin, en þar á ég við það hvernig mönnum tókst að reisa þetta forna gæðamerki úr öskustó, sem það hafði hrapað niður á kommúnistatímanum, til vegs og virðingar á ný.

'Ég hef áður minnst á þetta í bloggi mínu sem fyrirmynd um endurreisn vörumerkisins Íslands.

Þetta gátu Skoda-verksmiðjurnar ekki einar og óstuddar, heldur fengu til þess hjálp frá erlendum aðilum sem höfðu trú á því að þetta væri hægt.

Í stórri bílahandbók, sem ég á, er rætt um framleiðslu Skoda-verksmiðjanna á árunum 1960-90 sem "international joke."

Framleiðsluvörur verksmiðjanna voru sem sé hafðar að háði og spotti um víða veröld vegna lélegra gæða, ef hægt var að nota það orð um þessa framleiðsluvöru.

Ég notaði Skoda ´84 í tvö sumur á Kárahnjúkasvæðinu og ótrúlegt en satt, þá reyndist þessi gamli og nær verðlausi garmur mér ótrúlega vel.

Hugmyndin á bak hönnun þessa bíls var ekki svo galin, vélin afturí og vatnskassi fremst líkt og í Porsche 911. En Skodinn var bara enginn Porsche og þegar vatnsleiðslurnar um sílsana byrjuðu að leka var ballið búið.

Í lokin skildi ég Skodann eftir við verkstæði á Egilsstöðum og bað um skýrslu hvað þyrfti að gera til þess að koma honum í gegnum skoðun, - lista yfir nauðsynlegar aðgerðir. Þá var bakgírinn horfinn og Skodinn eyddi býsnum af olíu og vatni en komst samt allan fjandann vegna þungans á afturhjólunum.

Ég fékk skýrslu þegar ég kom næst austur og opnaði hana, spenntur að sjá listann yfir það sem þyrfti að gera. Aðeins eitt orð stóð á blaðinu um það sem væri að: "ALLLT."

Ég ók Skódanum á bílasafnið á Ystafelli þar sem hann er nú sýningargripur við hliðina á Skoda Ingimars Eydals, vinar míns góða.

Fyrir stríð var orðstír Skodaverksmiðjanna mikill og eitt það helsta sem Hitler græddi á því að ná Tékkóslóvakíu undir sig voru skriðdrekaverksmiðjurnar, sem létu honum í té drjúgan hluta skriðdrekanna sem ruddu þýska hernum braut í leifturstríði yfir Niðurlönd og Frakkland.

Þegar múrinn féll tóku Volkswagen verksmiðjurnar Skodaverksmiðjurnar að sér, framleiddu fyrst Skoda Felicia með 538 breytingum til batnaðar, en síðan nýja Skodabíla sem eru í með sama undirvagni og krami og Volkswagen en aðeins öðruvísi útliti.

Nú má sjá í bílablöðum að Skoda er í mörgum þeirra kominn upp fyrir móðurverksmiðjuna í gæðum á áreiðanleika.

Fyrst Skoda tókst á einum áratug að rísa upp úr dýpstu eymd í svaðinu til virðingar ættum við Íslendingar að geta gert það líka.

Til þess þurfum við hjálp eins og Skoda en síðan stefnum við að virðingu og trausti vegna eigin verðleika.

Það er leiðin sem við getum farið ef við höldum rétt á spöðum og höfum vilja, kjark og metnað.


mbl.is Vörumerkið Ísland stórskaddað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Já einu sinni var það "Skódi ljóti, spýtir grjóti, drífur ekki upp í móti.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 18.8.2009 kl. 23:50

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

orð að sönnu Ómar.

Óskar Þorkelsson, 19.8.2009 kl. 00:17

3 Smámynd: Einar Jón

Fyrirtækið Ísland þarf semsagt bara að komast í eigu erlends fyrirtækis...?

Einar Jón, 20.8.2009 kl. 05:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband