Ólíkindaskepnur.

Gömlum kúreka eins og mér kemur ekki á óvart uppátæki bresku kúnna sem maður flúði undan út í á. Nautgripir af báðum kynjum  eru nefnilega hreint óútreiknanlegir.  

Allir vita að þessar hæglátu skepnur geta alveg sleppt sér þegar þær eru settar út í fyrsta sinn á vorin, en reynsla mín af þeim þau sumur sem ég sýslaði með þær í sveitinni var sú, að að meðaltali um það bil einu sinni á sumri slepptu þær sér alveg aukreitis og það var engin leið að finna það út fyrirfram hvenær slíkt gerðist.

Þetta lýsti sér á þann hátt, að án nokkurs aðdraganda eða sýnilegrar ástæðu tóku þær upp á því þegar þær voru reknar ofan úr fjallinu að skvetta skyndilega upp rössunum með halana beint upp í loftið og hlaupa og hendast langa leið niður á jafnsléttu, gersamlega óviðráðanlegar og þjóta þar með rassaköstum um víðan völl, svo dýrmæt mjólkin gusaðist úr júgrum sumra þeirra.

Í bókinni "Manga með svartan vanga" fjallar einn kafli um það þegar bóndinn á Strjúgsstöðum kom með kú til að halda undir ungum bolakálf á bænum.

Ég var einn heima þessa dagstund og þetta gekk brösuglega, því að kýrin var mjög stór en bolakálfurinn hins vegar lítill, alls ekki fullvaxinn, nema þá helst þar á líkamanum sem nota skyldi við þetta tækifæri.

Reyndum við ýmsar aðferðir við að vinna þennan stærðarmun upp, meðal annars með því að leiða bolapísluna upp á barð neðst í túnbrekkunni, sem bærinn stóð í og bakka kúnni inn að barðinu.

Bóndinn var mjög grannur og lítill vexti og réði illa við kúna og ekki gekk mér betur með kálfinn, sem hrataði jafnvel fram af barðinu þegar allt stóð sem hæst og allt fór í vaskinn, - ég meina grasið.

Þegar þetta fáránlega basl stóð sem hæst gerðist það allt í einu upp úr þurru að kýrnar, sem höfðu verið að bíta gras í miklum rólegheitum í brekkunni fyrir ofan okkur, urðu skyndilega eins og ærar, tóku á rás í þéttum hóp og hlupu niður brekkuna og beint á okkur, mig, bóndann og bolakálfinn.

Ég slapp naumlega á harðahlaupum, en bóndinn, sem var mjög grannur og lítill vexti, varð fyrir kúahópnum, sem ruddi honum um koll svo hann kútveltist á milli fóta þeirra eins og kefli.

Í annað skipti gerðist það í fjósinu á bænum, að þegar bóndinn ætlaði að binda nautið í fjósinu og beygði sig niður fyrir framan bolann, virtist nautið skyndilega halda að bóndinn væri kýr og hóf sig upp á hann.

Bóndanum brá óskaplega, enda fátítt að naut séu hommar, og varð skyndilega svo sterkur að hann reis upp undir nautinu og kastaði því afturábak ofan í flórinn.

Það var ógnarlegt að sjá hvað maðurinn gat orðið sterkur þegar hann reisti þetta stóra dýr upp á endann og slöngvaði því svo afturábak ofan í flórinn svo að unaðarsproti þess minnti á stinna garðslöngu, sem úðast úr.  

Miðað við stöðu mála hjá nautinu var þetta ákaflega myndrænt, en ég segi bara eins og Kristján heiti ég Ólafsson, - við förum ekki nánar út í það.

Eftir þessi atvik treysti ég aldrei nokkrum nautgrip eitt einasta augnablik, sama hve gæfur hann  er.

Vísa að öðru leyti um nánari lýsingar á bókina "Manga með svartan vanga."

 


mbl.is Stökk út í á til að forðast kýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: brahim

Ég var mörg ár í sveit. Þetta dæmi um breska manninn er einskær heigulsháttur.

Kýr eru afskaplega vinaleg dýr...hef aldrei kynnst öðru.

brahim, 17.9.2009 kl. 00:36

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nautið ei með lítinn lók,
lyftan var þó bara djók,
Ómar þá í typpið tók,
og tudda sýndi Playboybók.

Þorsteinn Briem, 17.9.2009 kl. 00:43

3 identicon

Í Bretlandi liggja gönguleiðir til sveita gjarnan í gegnum bithaga kúa. Þær eru óútreiknanlegar gagnvart fólki og öðrum dýrum. Sérstaklega virðast hundar pirra þær.

Í júní síðastliðnum varð t.d. fyrrum innanríkisráðherra Breta, David Blunkett, fyrir beljuárás og hann slapp með brotið rif og aðra slæma áverka. Í júlí og ágúst sl. létu alls fjórir göngumenn lífið vegna árása breskra kúa, að ótöldum þeim fjölda sem slösuðust af völdum þeirra.

Fimmta valdið (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 11:49

4 identicon

Takk Brahim!

Brúnkolla (IP-tala skráð) 17.9.2009 kl. 12:24

5 Smámynd: Einar Steinsson

Síðan er það nú líka að Íslenskar kýr líta út eins og kálfar í samanburði við sum erlend kúakyn.

Einar Steinsson, 17.9.2009 kl. 15:29

6 Smámynd: Hulduheimar

Ég býst við að aðstandendum þeirra sem hafa verið drepnir af kúahjörðum finnist þetta ekki eins fyndið og ykkur. Staðreyndin er nefnilega sú að fjöldi fólks deyr árlega af þessu völdum, m.a. í Bretlandi. Í ágúst síðastliðnum sendi m.a. eitt hundatímarit K9 frá sér aðvörun eftir að þrír hundaeigendur höfðu á jafn mörgum mánuðum verið traðkaðir til bana af kúahjörð. Hér má sjá nokkrar fréttir af slíku ásamt aðvöruninni frá K9.

http://www.metro.co.uk/news/article.html?Dog_walker_trampled_to_death_by_cows&in_article_id=707384&in_page_id=34

http://www.thisislondon.co.uk/news/article-23381611-details/Farmer+crushed+to+death+by+cow/article.do

http://www.telegraph.co.uk/news/newstopics/howaboutthat/1906578/Woman-trampled-to-death-by-cows.html

http://news.bbc.co.uk/2/hi/uk_news/england/coventry_warwickshire/4091126.stm

http://www.dogmagazine.net/archives/3719/dog-walkers-warned-about-danger-of-death-from-cows/

Hulduheimar, 18.9.2009 kl. 14:36

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég viðurkenni að ég varð hroðalega hræddur þegar kýrnar hlupu yfir bóndann á Strjúgsstöðum og hélt að ég væri vitni að stórslysi.

Á einhvern óskiljanlegan hátt komst hann ómeiddur frá þeim, þótt fátæklegur fatnaður hans væri allur rifinn og hann sjálfur blóðrisa.

Í síðara tillfellinu varð ég skelkaður við að sjá hvað sú réttláta reiði, sem hinn lítillækkandi árás nautsins hafði valdið hjá bóndanum, gerði hann skelfilega sterkan.

Hláturinn fraus á vörum mínum og varð að hræðslugrettu.

Ómar Ragnarsson, 19.9.2009 kl. 01:41

8 identicon

Sem nautgripabóndi í yfir 20 ár skal ég leyfa mér að fullyrða það að kýr eru hinar blíðustu skepnur. Það á við um það flestar en ekki allar. Það eru til mannillar kýr, og það sem e.t.v. hefur oft hjálpað til hjá okkur íslendingum er hversu smávaxin íslenska kýrin er. Það er reyndar svolítið tvíeggjað atriði, því að sé kúakynið stórvaxið, þá er geðslag skyndilega orðið mjög mikilvægt atriði í ræktun, og grunar mig nú að Bretinn hafi forðað sér undan kú sem vigtaði svipað og smábíll, - nú eða Guttormur sálugi.

Annað á við um nautin, þau vilja passa upp á sitt og geta verið stórhættuleg ef út í það fer. "worst case scenario" er fyrir óvanan að ramba á mannillt naut þar sem ekki er undankomu auðið. Á því herrans ári 1995 urðu a.m.k. 4 Rangæingar illilega fyrir barðinu á blóðillum nautum, en sluppu allir með skrekkinn og tilheyrandi beinbrot og meiðsli. Einum barst hjálp, einn þóttist dauður vera, einn skýldi sér bak við rafmagnsstaur í haganum , og einn náði sér lausum af eigin rammleik. Skömmu síðar varð svo mannslát, þegar nýborin kýr réðist á aldraðan mann. Nýbærur geta verið í sama klassa og hörðustu naut hvað viðmótið varðar, bara ekki eins viðbragðsfljótar.

Svo eru það kýr vs hundar. Sumar kýr þekkja ekki hunda (ef þær eru ekki aldar upp við viðveru þeirra) og koma þær þá á fullu stími í forvitniskasti. Sama á við um allt forvitnilegt, t.d. Fýla sem lenda í haganum ofl. Svo eru til kúakyn sem eru harðari en önnur varðandi sitt ungviði, t.d. Galloway kýr, sem eiga það til að ráðast til atlögu ef maður kemur of nálægt þeim fljótlega eftir burð. Þær eru einnig grimmar við hunda, og hafa þær verið nýttar í Skoskum beitarlöndum til að passa upp á lambfé! Það er ekki bara á Íslandi sem það getur átt sér stað að hundar myndi hóp af dýrbítum, en ein góð Galloway kýr lætur ekki vaða yfir sinn haga bara sisvona!

Tja, það er margt skrítið í kýrhausnum!!!

Jón Logi (IP-tala skráð) 19.9.2009 kl. 07:54

9 identicon

Kýr eru dýr og öll dýr fara eftir eðlishvöt, það ætti að nægja til að segja manni að fara varlega í kringum þau dýr sem maður þekkir ekki sjálfur, sama hvaða tegund það er. Ég elska kýr, hef verið aðdáandi þeirra frá því ég var smástelpa að þjálfa þær í hlýðni í sveitinni... ótrúlegt hversu fljótar þær voru að tengja saman vissa hluti og fara eftir þeim. Kom mér afskaplega vel þar sem ég þurfti þá ekki að labba langar leiðir til að komast fyrir hópinn heldur flautaði bara á þær og þær lölluðu á móti mér :) En þó að nautgripir séu ljúfir og tamdir allajafna þá eru ákveðnir hlutir sem koma þeim í viðbragðsstöðu, t.d. þegar þeim finnst eitthvað ógna afkvæminu eða hjörðinni, ég held að það sé innbyggt í allar dýrategundir. Ég hef aldrei orðið vitni að skyndilegum rassaköstum nema þá bara þegar hljóp leikur í yngstu kýrnar út í haga og þær náðu að hrífa hinar með sér, en aldrei þannig að það væri ógnandi á neinn hátt.

Rósa (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 18:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband