Góð fyrirsögn fyrir álver á Bakka.

Fyrirsögnin "Góður fundur um Bakkaálver" gefur í skyn velþóknun mbl.is á því að álver rísi við Húsavík og að Alcoa fái þar með afhenta í raun í einokun alla þá orku sem fyrirtækið krefst  á Norðurandi með þeim afleiðingum að aðrir komist ekki að.

Eru það "góðar fréttir?" Mér finnst þær slæmar. Full þörf er á því að aflétta kverkataki Alcoa af orku- og náttúruauðlindum Norðurlands, stokka spilin upp á nýtt og laða aðra og hentugri orkukaupendur að. 

Meðan Alcoa heldur allri mögulegri orkuöflun á Norðurlandi í heljargreipum leggja aðrir ekki í að sækja þangað eftir orku. Það segir sig sjálft. 

Með fréttinni er birt mynd af virkjanastöðunum Þeystareykjum, Gjástykki, Kröflu og Bjarnarflagi. 

Greinilegt er að mat á umhverfisáhrifum virkjunar í Gjástykki mun ekki vefjast fyrir virkjanamönnum heldur treysta þeir því að það verði formsatriði eins og venja hefur verið. 

Gleymt verður loforð Jónínu Bjartmarz og Jóns Sigurðssonar rétt fyrir kosningar 2007 um að virkjanir í Gjástykki og við Leirhnjúk yrðu ekki leyfðar nema eftir sértaklega vandaðar rannsóknir og sérstaka atkvæðagreiðslu á Alþingi.

Enda var jú auglýst í hinum fræga bæklingi "Lowest engergy prizes" sem Alcoa og aðrir álframleiðendur fengu senda til sín, að á Íslandi yrði tryggt að "mat á umhverfisáhrifum yrði sveigjanlegt" og það virðist greinilega vera það sem stefnt er að nú. 


mbl.is Góður fundur um Bakkaálver
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Tek undir hvert orð, en það er nú ekkert nýtt... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 24.9.2009 kl. 01:44

2 identicon

Það er sjálfsagt vonlaust að láta sér detta í hug að sveitarstjórnarfólk Norðurþings tæki ofan sólgleraugun og skoðaði ástandið á Austurlandi núna eftir að virkjunarfylleríið við Kárahnjúka er yfirstaðið, eða svo gott sem. Skoða mannlausu húsin á Egilsstöðum og Reyðarfirði, skoða tölur um íbúaþróun o.s.frv. En það er ekki verið einungis að tala um virkjun jarðhita við Þeistareyki, í Bjarnarflagi, við Kröflu og í Gjástykki. Það dugar ekki fyrir 360.000 tonna álverksmiðju. Það verður líka að virkja fallvötn, og hvað er eftir þarna innan ásættanlegrar fjarlægðar? Jökulsá á Fjöllum? Skjálfandafljót, Austari-Jökulsá í Skagafirði? Hagkvæmir virkjanakostir eru nefnilega ekki margir eftir á landinu og trúlegt að þetta Bakkaævintýri setji landsmönnum nánast stólinn fyrir dyrnar gagnvart orkuvinnslu með hagkvæmum hætti til langrar framtíðar. Hvaða orku eiga þá börnin okkar að nota, til dæmis í samgöngur þegar olían er búin? Talað er um í fullri alvöru, að álverin komi til með að eiga virkjanirnar líka, því innlend orkufyrirtæki og ríkið sjálft fái hvergi fjármagn til slíkra stórframkvæmda. Eru allir með fullri meðvitund hér?

Schwarztenegger (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 07:08

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Manni finnst öfgarnar vera á báða vegu/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 24.9.2009 kl. 07:21

4 Smámynd: Sævar Helgason

Þetta segir Mogginn málgagn "kvótaeigenda og andstæðinga ESB" En lesi maður umfjöllun Fréttablaðsins um málið- kveður nokkuð við annan tón. ALCOA er engan veginn öruggt með að geta haldið kverkartaki á að sitja eitt og sér að forgangi til orkunýtingar þarna norðan heiða-kannski falla þeir út. .  Fleira virðist komið upp til orkunýtingarinnar þarna fyrir uppbyggingu, í heimabyggð. Nú bíðum við spennt eftir hver niðurstaðan verður...Það er vika í það...

Sævar Helgason, 24.9.2009 kl. 09:44

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta "eitthvað annað" virðist vera á leið til Blönduóss ef marka má fréttir af þreifingum vegna stórs gagnavers þar. Af hverju til Blönduóss en ekki Húsavíkur? Það skyldi þó ekki vera vegna þess að sá staður liggur nokkurn veginn mitt á milli landshlutanna sem álverin hafa úthlutað sér?

Þrátt fyrir himinskauta bjartsýni á Húsavík um orkugnægð á Norðausturlandi sjá allir sem leggja orkutölurnar saman að Alcoa mun þurfa alla orku svæðisins og jafnvel jökulsárnar í Skagafirði og Skjálfandafljót að auki.

Þeir sem ætla sér að ná í orku til gagnavera eða annars en áliðnaðar kunna samlagningu og geta á netinu aflað sér upplýsinga um hugsanlega orkuöflun. Þeir láta ekki blekkjast af því tali að þeir geti orðið að einhverri hornkerlingu á Húsavík eftir að búið er að lofa Alcoa allri þeirri orku sem risaálver þarf.

Ómar Ragnarsson, 24.9.2009 kl. 09:47

6 identicon

Hreinn,

Hvar á að taka orkuna? Hvað þarf að virkja á svæðinu fyrir 360 000 tonna álver. Er það ekki ca. 550MW?

Alcoa hefur gefið það út að þeir byrja ekki á álveri nema þeir fái tryggingu fyrir orku fyrir þá stærð. Allt eða ekkert.

Er ekki ljóst að ekki verður komist hjá því að fara í Skjálfandafljót?

einsi (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 09:59

7 Smámynd: Benedikt V. Warén

Gagnaver er gott og gilt, en hvað endast þau lengi??  Hvergi fleygir tækninni jafn hratt fram og í þeim geira.  Innan fárra ára gæti verið komin tækni sem gerir gagnaver óþörf a.m.k. að orkuþörfin verði einungis brot af því sem nú er.  Nú er t.d. talað um svarta kassann í flugvélum, þar sem verið er að skoða að koma upplýsingum beint frá vél í gagnasafn í landi.  Þar með þarf ekki að leita að svarta kassanum.

Með þessum orðum er ég ekki að tala gegn gagnaverum, bara að vekja athygli á þessu.  Öll störf á landsbyggðinni telja, bæði stór og smá.

Viljayfirlýsng við Alcoa er búin að vera gild í nokkurn tíma, hafi verið einhver önnur tækifæri inn í myndinni á meðan, hefði það trúlega verið skoðað vandlega.  Svo virðist ekki vera, - svo.....sorry..... áfram með Alcoa.

Fráleitt er ég á móti að gera "eitthvað annað" og hefur ýmislegt verið reynt á því svæði sem ég þekki best.  Sumt hefur tekist vel, annað bærilega og margt illa.  Dæmi um verk núverandi samgönguráðherra í firði ónefndum fyrir norðan að lengja flugvöll, er svo dæmi um þröngsýni og pólitísk fantabrögð á ekkert skylt við það að auka atvinnu.  Þar var fjármagni kastað á glæ, til að hossa pólitíkinni.

Schwarztenegger er á villigötum hér að ofan.  Byggingar standa ekki auðar vegna þess að það var virkjað og byggt álver.  Það var hvatt til að byggja og óraunhæfar væntingar á öllu Íslandi til fjölgunar íbúa.  Minningarnar um uppganginn sjást í gapandi tómum húsum, mest í Reykjavík.  Hvers vegna er það svo í höfuðborginni??  Voru það áhrifin frá virkjun og álveri á Austurlandi??  Auðvitað ekki, - bulláróður sem  Schwarztenegger telur henta sínum áróðri á á ekkert skylt við raunveruleikann.

Árið 1990 voru Austfirðingar 13.216 en fækkaði jafnt og þétt að meðaltali um 121 á ári til 2002 eða um 1.458 manns niður í 11.758 íbúa.  Það má leiða líkum að því að ef ekkert hefði verið aðhafst væri íbúatalan nú um 11.000 manns, eða 1.649 íbúum færra en nú er raunin.

Frá 2002 til þessa dags, sem um er rætt, hefur dæmið snúist við og fjölgunin hefur verið 891 eða um 155 manns á ári og telja nú skv. bráðabirgðatölum Hagstofunnar 12.649 manns.

Við Austfirðingar erum að ná sama fjölda og 1996 þegar íbúatalan var 12.680.  Með sama framhaldi gæti íbúatalan á Austurlandi verið komin í 13.000 að þremur árum liðnum og gætum þá jafnað íbúatölu frá árinu 1993.

Þetta geta menn fundið út, sem nenna að kynna sér málin og með því að skoða tölur frá Hagstofunni.

Benedikt V. Warén, 24.9.2009 kl. 13:06

8 Smámynd: Karl Ingólfsson

Athyglisverð orðanotkun hjá Hirti:

 

Þeistareykir...... gerir ráð fyrir 200 MW......Þeistareykjasvæðið gæti gefið 300-500 ...

Bjarnarflag gerir ráð fyrir 90 MW..... líklegt að stækka megi í 135 MW...

Gert er ráð fyrir að Kröfluvirkjun 2 verði 150 MW.

Gjástykkisvirkjun verður vonandi 45-90 MW.

Fremrinámar er álitlegt jarðhitasvæði....... sem væntanlega getur gefið 90-135 MW.

 

Það hefur löngum verið eðli Þingeyinga að vera uppfullir af lofti, Nú þykir mér heldur vera að hækka á Hirti gufuþrýstingurinn og hann farinn að reikna vonargufu á jarðhitasvæðum þar sem ekki hefur einusinni verið stungið niður bor, hvað þá að skoða málin í yfirsýn næsta áfanga Rammaáætlunar..

Með því að flagga ábyrgðarlausum afltölum sem þessum er verið að þyrla up ryki –eða réttara sagt gufu sem ekki er ljóst hvort innistaða er er fyrir.

Það er rétt eins og að allt kapp sé lagt á að fá álverið og svo verði bara fundið út úr því seinna hvar og hvernig orkunnar verði aflað. Ég sé fyrir mér aðstæður þar sem búið er að skrifa undir skuldbindandi samning um orkuafhendingu og get ímyndað mér hve hart verður gengið fram til að standa við slíka samninga. Langtíma afkastageta jarðhitasvæða er miklum vafa undirorpinn og lítil hjálp í því að Vona, Gera Ráð og Vænta.

Þetta óðagot minnir á Bankbóluna, ofveiði síldarinnar og Clariol Foot Spa.

Góðir hlutir gerast jafnan hægt en áföll ríða yfir vegna skorts á yfirsýn.

Gæti, líklegt, gerir ráð...

Gert er von að vænta...

Ef Ómar nefnir jökulár

álskallarnir skræmta

Karl Ingólfsson, 24.9.2009 kl. 13:15

9 Smámynd: Karl Ingólfsson

Pelli,

Manstu eftir skýrslunni frá HÍ og Byggðastofnun sem kom út rétt fyrir 2000 og fjallaði um íbúaþróun  á Austurlandi?

Helsta niðurstaða skýrslunnar var að íbúaþróun á Austurlandi takmarkaðist af kvennmannsskorti! -Eða með öðrum orðum að skortur á atvinnumöguleikum fyrir konur, -og þá sérstaklega menntaðar konur stæðu í vegir fyrir varanlegri fólksfjölgun og ef þessu yrði ekki snúið við væri fátt til ráða. Hlutfallið var ca 55%karlar /45% konur.

Býsna spaugilegt að bregðast við þessu með bygging virkjunar og álvers....

(Ekki bætir bölið að vinna í sterku segulsviði getur valdið þrálátum leggangaþurki)

Pelli, -þið verðið að taka ykkur á í kvenseminni ef þið ætlið að halda í horfinu fyrir austan, -nú eða þá einhenda ykkur í Gay Pride East....

(Það flokkast ábyggilega sem "eitthvað annað")

Karl Ingólfsson, 24.9.2009 kl. 13:32

10 Smámynd: Benedikt V. Warén

Kalli. 
Kynntu þér starfsmannastefnu Alcoa.  Þar var stefnan 50% störf fyrir konur á móti 50% störfum karla.  Þetta hefur því miður ekki gengið eftir, en mér skilst að hlutfallið sé býsna gott hjá Alcoa miðað við önnur álver.

Ég er til í að hjálpa til við að "gera eitthvað annað", svo framarlega að það skili störfum til samfélagsins, allt telur í því tilliti.

Við erum ekki kvennmanslausir hér fyrir austan, en þær eru vandar að virðingu sinni stúlkurnar okkar og líta ekki á hvern sem er.

Meðan ég man, - af hverju fórst þú að austan?

Benedikt V. Warén, 24.9.2009 kl. 14:33

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hingað til hefur talan 30 megavött verið nefnd af til þess bærum aðilum sem vonarpeningur varðandi orku úr Gjástykki. Halldór Blöndal fór létt með að spóla því upp í 50 megavött og nú bætir Hreinn um betur og veður upp í þrefalda tölu, 90 megavött.

Jafnvel 90 megavött munu ekki skapa nema 60 störf á Bakka og eyðileggja möguleikana á mun fleiri störfum varðandi nýtingu svæðisins Leirhnjúkur-Vítismór-Gjástykki sem ósnortnu heimsundri fyrir ferðamenn.

Ég þakka Hreini fyrir hreinskiptin svör. Þau varpa ljósi á það æði sem er runnið á menn þegar þeir fara hamförum til þess að færa einu erlendu fyrirtæki allar orkunytjar heils landshluta á silfur (ál-) fati.

Hreinn er þegar búinn að að leggja drög að óhjákvæmilegri sókn inn á magnaðasta og fjölbreyttasta eldfjallasvæði veraldar með því að reikna með virkjun við Fremri-Náma. Þá er Askja ekki langt undan, enda yrði þá hvort eð er búið að stúta jafnvel merkilegri stað, Gjástykki, og eftirleikurinn auðveldur.

Tveir ráðherrar Framsóknarflokksins lýstu því yfir á sínum tíma að friðlýsingar væru ekki heilagar, - þeim ætti að aflétta, hvenær sem þess teldist þörf.

Farið var létt með að létta af friðlýsingu Laxár-Mývatnssvæðisins á sínum tíma, óskabarni Birgis Kjarans, Eysteins Jónssonar og fjölmargra annarra góðra og gegnra Sjálfstæðismanna og Framsóknarmann.

Ómar Ragnarsson, 24.9.2009 kl. 14:45

12 identicon

Hreinn,

Takk fyrir fróðleg svör. Eins og Karl bendir réttilega á þá eru ýmsir fyrirvarar á orkuöfluninni og 550MW alls ekki í hendi.

 Alcoa krefst  tryggingar fyrir þessari orkuöflun. Það þýðir að girða þarf svæðið frá Þeistaareykjum og suður undir Herðubreið með háspennlínum og gufulögnum, a la Hellisheiði.

Fyrirgefið, en mér finnst það skelfileg tilhugsun.

einsi (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 19:36

13 Smámynd: Karl Ingólfsson

Ég sé að ég hef ávarpað Hrein Hjartarson sem Hjört og biðst forláts á þeirri misritun.

Benedikt, -Ekki fann mín kona vinnu á Austurlandi um árið og fylgdi ég að endingu áttavitanum sem að jafnaði vísaði til Suð-Vesturs....   

Að sjálfsögðu gerði Alcoa ráðstafanir í samræmi við kynjavanda Austurlands og auglýsti upp á líf og dauða eftir konum til starfa. Með því móti aukast  líkur á að kona e-h karlsins fái vinnu. 

Ég tel lítið gagn af hráum íbúatölum af Austurlandi. Það eina sem skiptir máli er að telja konurnar (Þetta gerði þekktur leiðsögumaður sem lengi vann hjá mér, -hann renndi alltaf yfir farþegalistana og taldi eingöngu einhleypu konurnar...)

Þetta skekkta kynjahlutfall er þekkt vandamál á norðurhjara Noregs og Svíþjóðar.

Það er umhugsunarefni hvað Vestfirðingum helst betur á konum en Austfirðingum. Annar félagi minn, líka leiðsögumaður sem þekkti vel til á báðum svæðum (n.b. móðirin var brottflutt frá austri til vesturs), gaf þá skýringu að munurinn lægi í því að á Ísafirði væri afgerandi menningarsamfélag og þær væri óumdeildur höfuðstaður og miðstöð fjórðungsins og þar væri þvíað finna ýmsa þá þætti sem ekki eru til staðar á höfuð(staðs)lausum Austfjörðum.

Kanski ættuð þið Austmenn að hætta að hugsa um "eitthvað annað" og fara að einbeita ykkur að því sem er "hinseigin".....

Karl Ingólfsson, 24.9.2009 kl. 21:35

14 Smámynd: Benedikt V. Warén

Það er fínt að reyna að rökræða við þína líka, Kalli.  Fyrst er talað um fólksfækkun og þegar bent er á að það er aukning, þá "....bíddu.....bíddu.....bíddu aðeins við.....það var aðeins átt við konur...."  Ég held að það séu ekki hávísindaleg rök bak við það að telja bara konur til manna....en, - athyglisvert samt.

Eins og þú bendir réttilega á, þá er það tilhneying hjá konum að flytja í þéttbýli og það gerist víðar en í útnárum Noregs og Svíþjóðar.  Þetta helgast sjálfsagt af ýmsu, m.a. fjölbreyttari vinnuumhverfi. 

Á austurlandi er enginn staður "dómerandi" eins og Ísafjörður á vestfjarðakjálkanum og Akureyri fyrir norðan.  Ef einn staður með 5-8.000 manns væri hér, væri dæmið ef til vill öðruvísi.  En einhversstaðar þarf að byrja á fjölguninni, þó það séu bara aumir karlar, hitt kemur síðar, - vonandi.

Með tilkomu álvers skapaðist fjölbreytni í atvinnu á svæðinu sem rétt væri að þú kynntir þér.  En það er víst ekki talið með, vegna þess að þetta er verksmiðja sem framleiðir ál, svona einhvern karlamálm, - eða hvað segir þú um það Kalli??

Ég þekki líka svona karl-einstakling, sem hafði bara áhuga á konum, ekki sérstaklega einhleypum, bara konum yfirleitt.  Það er til ágætt íslenskt orð yfir þennan sérstaka áhuga. 

Benedikt V. Warén, 24.9.2009 kl. 23:11

15 identicon

Benedikt,

Er það satt að mengunin frá álverinu sé töluvert meiri en reiknað var með í upphafi?

Og aðalástæðan sé sú að 25% þeirra sem vinna þar eru pólverjar, og þeir reykja næstum allir?

einsi (IP-tala skráð) 25.9.2009 kl. 02:06

16 Smámynd: Benedikt V. Warén

Einsi.  

Upplýsingafulltrúa Fjarðaáls er:

Erna Indriðadóttir
Sími: 470 7700
GSM: 843 7709

Hún hefur örugglega gaman að svara svona gildishlöðnum spurningum. 

----------------------------------------------------

Annað mál um jafnrétti má finna á heimasíðu fyrirtækisins: http://www.alcoa.com/iceland/ic/info_page/hr_team.asp

"Viðurkenning Jafnréttisráðs 2008

Þann 24. október 2008 afhenti Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, Tómasi Má Sigurðssyni, forstjóra Alcoa Fjarðaáls, viðurkenningu Jafnréttisráðs 2008 en hana hlýtur fyrirtækið m.a. fyrir góðan árangur í því að vinna gegn kynbundnu starfsvali og kynjaskiptingu vinnumarkaðar.......

.......Árangur þessarar stefnu er að 28% allra starfsmanna Alcoa Fjarðaáls eru konur, 34% í framleiðslustörfum og 27% í framkvæmdastjórn. Þetta er besti árangur sem náðst hefur innan Alcoa samsteypunnar og líkur til að um heimsmet í áliðnaðinum sé að ræða......."

Benedikt V. Warén, 25.9.2009 kl. 07:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband