Áralangt verkefni framundan.

Nú eru aðeins tveir kostir uppi í stöðu Icesave-málsins og rétt að skoða þá báða. 

Ef forsetinn skrifar undir mun að vísu ljúka því ástandi að Alþingi og stjórnvöld séu upptekin af þessu máli og upp runninn sá tíma að hægt sé að fara að snúa sér að öðrum brýnum verkefnum, sem hrópa á úrlausn.

Hins vegar mun þá bíða stjórnvalda margra ára starf líkt því sem beið Þjóðverja eftir Versalasamningana þegar þeir urðu að beygja sig undir nauðasamninga sem lögðu á þá fáránlegar byrðar sem þeir gátu á engan hátt staðið undir, mun óbærilegri byrðar en við tökum á okkur nú.

Það þarf að afla markvisst, ötullega og af lagni málstað okkar skilnings hjá viðsemjendum okkar og fá þá til að axla stærri hluta af þeim byrðum sem  þetta mál hefur velt á herðar þeirra sem báru sameiginlega ábyrgð á því.

Þetta eru svo mörgum sinnum stærri þjóðir en við að það verður að fá þær til að taka meira tillit til þess stærðarmunar en tekist hefur að fá þær til að gera.

Þjóðverjar komust að nýjum samningum sex árum eftir Versalasamningana, svoefndum Locoarno-samingum 1925 og þeir hefðu kannski reynst haldgóðir ef kreppan mikla hefði ekki eyðilagt grundvöll þeirra. 

Ef forsetinn notar sér vald sitt samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar, taka lögin að vísu gildi, en verður vísað til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem samkvæmt lagabókstaf á að halda eins skjótt og verða má. 

Um það gilda engar nákvæmar reglur og raunar skortir tilfinnanlega á það. Hafa þyrfti nógu langan aðdraganda til að málið væri vel rætt og reifað.

Á þeim tíma myndi ríkja svipað óvissuástand og ríkt hefur í haust á meðan þessir samningar hafa verið þæfðir á þingi. 

En hvernig  sem mál veltast er ljóst að Icesave-málið verður stórverkefni svo mörg ár sem munu líða áður en því lýkur endanlega.  

 

 

 

 


mbl.is Alþingi samþykkti Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fannar frá Rifi

þú verður löngu dauðir og líklega ég líka úr elli áður en Icesave og hinir djöfullegu vextir sem þeim fylgja verða að fullu borgaðir.

nauðsynin er ekki meir en sú að núna er farið í frí nánast fram í febrúar. í febrúar rennur út frysting á lánum og þá fara hundrið ef ekki þúsundir fjölskyldna í gjaldþrot. 

bara láta samning frá í sumar standa og leyfa Bretum og Hollendingum að taka þeim, semja upp á nýtt eða stefna okkur fyrir dóm á Íslandi sem myndi í versta falli láta okkur greiða allt, í krónum. ekki í erlendri mynt sem við höfum enga leið á að geta gert. nema með því að stunda útrásarhagfræði í lántökum.

Fannar frá Rifi, 31.12.2009 kl. 00:51

2 Smámynd: Fannar frá Rifi

óvissan er betri í nokkra mánuði heldur ævinlangur þrældómur.

Fannar frá Rifi, 31.12.2009 kl. 00:52

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

IceSave-reikningarnir fara ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu, frekar en fjölmiðlalögin, sem voru afturkölluð eftir að forseti Íslands neitaði að skrifa undir þau sumarið 2004.

Þar að auki er tími til kominn að Íslendingar hætti öllu væli út af þessum reikningum.

Það er mikil skömm að þessum gráti fólks sem á nóg af peningum til að éta á sig gat og sjálfsagt að míga í þeirra brunn.

Væla utan í útlendingum og biðjast vægðar er mesti ræfildómur sem um getur!

Þorsteinn Briem, 31.12.2009 kl. 01:12

4 Smámynd: Sigurður Jón Hreinsson

Steini Briem, talað þú fyrir þig.  ÞAð er klárlega líka ræfildómur að beyja sig undir afarkosti annara þjóða og lenda svo í gjaldþroti innan fárra ára.

Fannar. sammála þér núna en vill benda á að lokaorð þín ;"óvissan er betri í nokkra mánuði heldur ævinlangur þrældómur", eiga líka vel við í umræðunni um kvótakerfið.

Sigurður Jón Hreinsson, 31.12.2009 kl. 01:23

5 Smámynd: Fannar frá Rifi

Sigurður. varðandi kvótakerfið þá er þar einfaldlega verið að beita Mugabe hagfræði að færa fyrirtæki frá einstaklingum sem reka þau í dag til vildarvina og flokksfélaga. kynntu þér Zimbabwe, fyrrningu jarðnæðis, endurúthlutun þess og afleiðingarnar. á einu voru annað hvort 9 eða 12 núll (gætu hafa verið fleiri) tekin af gjaldmiðlinum en nokkrum mánuðum síðar var aftur prenntaðir seðlar með slíkum fjölda núlla.

Fannar frá Rifi, 31.12.2009 kl. 01:29

6 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Steini Briem!     Akkurat ekki góði,það er miklu frekar aumingjadómur að lyppast niður og  samþykkja,greiðslur sem okkur ber ekki að greiða.

Helga Kristjánsdóttir, 31.12.2009 kl. 01:30

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í þessu máli gilda orð Vilmundar um það hvað sé löglegt og hvað sé siðlaust.

Þeir sem tala um að við eigum ekki að borga neitt af því að hugsanlega sé hægt að sækja það mál á lagalegum grundvelli eru í afneitun á því að Íslendingar hafi borið siðferðilega sinn hluta ábyrgðar af hruninu.

Fjármálaeftirlit Breta vildi snemma árs 2008 fá Landsbankann til að setja í Icesave í útibú en íslensk stjórnvöld og Fjármálaeftirlitið létu Landsbankann komast upp með að draga lappirnar.

Á þessum tíma létu meira að segja margir sér það vel líka að með því að hafa Icesave í útibúi kæmu peningarnari fljótar heim til Íslands.

Milljónir Þjóðverja sögðu réttilega að þeir hefðu alla tíð verið á móti nasistum og því ekki átt sök á því hvað gert var í nafni þjóðarinnar.

Samt varð þetta saklausa fólk að taka afleiðingunum af því sem stjórnvöld gerðu í þeirra nafni, svo óréttlátt sem það nú var hvað snerti hvern og einn einstakling.

Það er auðvitað ósanngjarnt að Icesave-skuldunum sé velt yfir á íslenskan almenning en það er líka ósanngjarnt að velta þeim yfir á breskan og hollenskan almenning.

En hjá því verður ekki komist að þessar þrjár þjóðir bæti að sanngjörnu marki það tjón sem innistæðueigendur urðu fyrir.

Vegna gríðarlegs stærðarmunar þjóðanna er hlutfallslega of stórum byrðum velt yfir á Íslendinga og það verður hið stóra verkefni næstu ára að skipta þessu réttlátar.

Það er ekki "væl", minn kæri Steini að leita eftir því, það er spurning um sanngirni.

Ómar Ragnarsson, 31.12.2009 kl. 01:42

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nú er loks smá von til að Íslendingar læri að fara vel með peninga, leggja fyrir og eignast þannig hlutina, eins og útlendingarnir sem lögðu sitt sparifé inn á IceSave-reikningana.

Það er mikil skömm að því að Íslendingar þykist ekki bera ábyrgð á þessum reikningum og heimta að útlendir skattgreiðendur borgi þá.

Íslendingar sem voru með annan fótinn á Strikinu og Mall of America í boði íslensku bankanna og IceSave, hlæjandi upp í opið geðið á hver öðrum og róandi í spikinu af sjálfsánægju og frekju.

Tröll hafi þá og þeirra vini!

Þorsteinn Briem, 31.12.2009 kl. 01:56

9 identicon

Ómar, ríkisstjórnin hefur núna samþykkt samning sem hvorki er löglegur né siðlegur.   Af hverju eiga bara Íslendingar að bera skaðan af gölluðu regluverki evrópusamb.? Auðvita átti að byrja á því að búa til samning sem væri bæði löglegur og siðlegur.   Held það sé óskhyggja fyrir vopnlausa þjóð, að halda hægt sé að taka upp Icesave samninginn seinna

þór (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 02:24

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Úr því sem komið er sýnist ekkert annað verkefni framundan heldur en að lina tak þessara skuldbindinga því að stjórnarandstaðan talaði um það sem verkefni að halda áfram að tuða í Bretum og Hollendingum að fá betri samninga fyrir okkur.

Það er rangt að Íslendingar eigi bara einir að bera skaðann af gölluðu regluverki ESB. Hollendingar og Bretar taka að mig minnir helminginn á sig en eins og ég sagði áðan, er það hlutfallslega of lítið, þótt ekki hafi fengist meira fram í þessari atrennu.

Ómar Ragnarsson, 31.12.2009 kl. 02:49

11 identicon

IceSave vandamálið er skuldbinding sem síðasta ríkisstjórn stofnaði til í nafni allra Íslendinga og það eina sem gerst hefur í dag er að ríkisstjórnin hefur staðfest að standa við þær skuldbindingar. Það má auðvitað alltaf deila um það hversu góður samningurinn er, mér finnst hann persónulega með alltof háum vöxtum, en grunnskylda Íslendinga að standa við sínar skuldbindingar ætti að vera óumdeild. Það er þó fjarri því raunin þar sem alltof margir eru blindaðir af reiði sem er skiljanleg, en þjóðerniskennd og torttryggni gagnvart öllu útlensku sem er gamalt þjóðarvandamál.

Með því að samþykkja IceSave öxlum við sem þjóð ábyrgð á öllum þeim sársauka og fjármissi sem að íslenskur banki olli einstaklingum og fyrirtækjum erlendis með leyfi og tryggingu stjórnvalda. Þessa ábyrgð þurfum við því miður öll að bera þó svo að við höfum með mjög misjöfnum þætti tekið þátt í "ævintýrinu", en eins og Ómar bendir réttilega á það margt sambærilegt með Þjóðverjum við lok seinni heimsstyrjaldar. Þeir Þjóðverjar þá  sem að ekki gátu hugsað sér að bera ábyrgð á gjörðum nasistanna áttu í raun bara einn valkost, að hætta að vera Þjóðverjar, eins og í raun margir gerðu.

Ernir Erlingsson (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 02:51

12 identicon

Úr fréttum BBC í kvöld:

The measure, narrowly approved against strong opposition, was seen as crucial to Iceland's bid to join the EU and rebuild its economy.

http://news.bbc.co.uk/2/hi/business/8435662.stm

Maggi (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 03:17

13 Smámynd: Ellert Júlíusson

@ 12. Nú hoppa samfylkingar menn hæð sína af gleði. Jóhanna fær það sem hún vill, þjóðinni blæðir. Spái því að hún hætti í stjórn um áramótin en taki síðan við kósí stól í Brussel þegar þar að kemur.

Það verður spennandi að fylgjast með framvindu og framtíð þessara einstaklinga.

Ellert Júlíusson, 31.12.2009 kl. 04:08

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jóhanna Sigurðardóttir er ekki fullkomin fremur en aðrir stjórnmálamenn og gerir sín mistök eins og aðrir.

Allur hennar ferill hefur þó sýnt að hún leggur sig fram um að gera eins og best hún getur.

Og sá maður þekkir hana ekki vel sem heldur að hún muni "taka við kósí stól í Brussel þegar þar að kemur."

Ómar Ragnarsson, 31.12.2009 kl. 12:16

15 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Auðvitað fer Jóhanna ekki til Brussel. Hún er komin á eftirlaunaaldur og hennar tími í raun liðinn í pólitík. Hún á það alveg inni að setjast í helgan stein, eins og hún ætlaði sér nokkuð örugglega að gera áður en henni var ýtt út í formennsku (held að hún sé það þó það sé ekki skráð á heimasíðu Sf) í Samfylkingu og ríkisstjórn.

Ómar Bjarki Smárason, 31.12.2009 kl. 14:04

16 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Málið er að þessar upphæðir skipta Breta og Hollendinga engu máli.  Þær skipta okkur hins vegar öllu máli.

Fyrir þá er þetta prinsipp mál.  Það skiptir þá öllu máli að innstæðutryggingakerfi evrópskra banka haldi, þ.e. að viðkomandi ríkisstjórn sem var fyrir nokkrum misserum tilbúin að taka við sköttunum frá starfsemi bankanna um alla Evrópu beri ábyrgð á þessum rúmlega 20 þúsund Evrum.  Það er verið að senda öðrum ríkisstjórnum skýr skilaboð með þessu.  Þeir munu ekki bakka, enda hafa þeir forystumenn allra landa Evrópu, þ.m.t. Norðurlandann á bakvið sig. 

Þeir munu ekki heldur fara með málið fyrir dóm því á meðan á málsmeðferð stendur, sem getur tekið mörg ár, skapar það vafa á því hvort innstæðutryggingakerfi Evrópu haldi.  Þeir munu halda áfram að hamast á okkur á pólitíska sviðinu, tryggja að við fáum ekki lán, fækka þannig þeim sem vilja lána okkur sem aftur hækkar vexti o.s.frv.  Þeir hafa nægan tíma.  Þeirra vegna má þetta væflast næstu 5-10 árin.  Það myndi hins vegar valda verulegum skaða fyrir okkur, væntanlega margföldum skaða á við beint tjón okkar af samningunum.

Það sem við eigum að gera er að

1) samþykkja þennan samning,

2) fara síðan í mál ef við teljum að við eigum ekki að greiða þetta

3a) Ef við vinnum málið þá tökum við aftur upp samningana áður en sjö ára tíminn er liðinn og verðum þá mun líklegri til að hafa stuðning annarra Evrópuríkja til þess

3b) Ef við töpum þá standa samningarnir.  Óbreytt ástand.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 1.1.2010 kl. 17:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband