Á að sætta sig við 2000 látna hér á landi?

Kórónuveirufaraldurinn er alþjóðlegt vandamál vegna þeirra áhrifa og afleiðinga sem hann hefur yfir landamæri og vegna þess að um val á milli baráttuaðferða er að ræða í öllum löndum. 

Bandaríkjaforseti hefur ítrekað nefnt það sem staðreynd, að ef ekkert hefði verið gert vestra til að hamla útbreiðslu veikinnar og algert aðgerðarleysi ríkti áfram gætu 2,2 milljónir dáið úr veikinni samtals. 

Þetta samsvarar um tvö þúsund manns hér á landi, miðað við fólksfjölda. 

Þegar deilt er um svona álitamál í mismunandi löndum um eina og sömu veikina er verið að deila um svo lík fyrirbæri, að sams skonar rökræða verður að miklu leyti gild í þessum löndum. 

Kostir og gallar þess að láta veikina ganga mótspyrnulaust yfir eru til dæmis það, að hjarðónæmi myndist og þjóðlíf og efnahagslíf skaðist ekki þrátt fyrir svona mikið mannfall. 

En ástandið sem sums staðar varð í byrjun faraldusins hræða óneitanlega, heilbrigðisstarfsfólk, sem hrundi niður, heilbrigðisstofnanir og stofnanir á borð við kirkjugarða og útfararþjónustu fóru gersamlega úr skorðum o. s. frv. með stórkostlegum afleiðingum fyrir það sama efnahagslíf, sem menn vildu halda áfran á sama dampi og fyrir faraldur. 


mbl.is „Við ætlum ekki að stjórna faraldrinum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2,2ja milljóna dauðsfalla setningin er líklega mögnuðust.

Ónákvæmar er vægt orð yfir sumar yfirlýsingar forsetaframbjóðendanna í seinni kappræðunum nú fyrir helgina.

En ef á að velja eina, sem er mögnuðust, er fullyrðing Trumps yfir því að búist hefði verið við því að 2,2 milljónir Bandaríkjamanna létust vegna COVID-19 er sennilega einna stórkarlalegust. 

Fullyrðingin er raunar ekki ný, heldur á sér orðið nokkuð langa sögu, því að hann nefndi hana á blaðamannafundi sínum í vor.

En í síðustu kappræðum endurvakti Trump þessa fullyrðingu sína. 

Nú er sumarið liðið og fróðlegt að sjá, hvernig viðrar fyrir þetta tröllaukna loforð.  

Á blaðamannafundinum fyrrnefnda útskýrði hann hana nánar og var það ævintýraleg útskýring, því að þá nefndi hann aðra tölu, eina milljón manna, sem hefðu látið lífið í öllum styrjöldum Bandaríkjamanna frá upphafi. 

Mismunur þessara tveggja talna er 1,2 milljónir manna, og lofaði Trump því á þeim grundvelli að bjarga sjálfur persónulega lífi fleiri manna en hefðu fallið í öllum styrjöldum tíu fyrirrennara sinna. 

Yrði hann með því langstærsti bjargvættur í sögu Bandaríkjamanna!

Nú eru liðnir nokkrir mánuðir síðan þessi stórkarlalega yfirlýsing var fyrst gefin, og eins og er, hafa um 230 þúsund látnir í Bandaríkjunum. 

Í ljósi þess ítrekar Trump nú grundvöllinn að hinu ofurmannlega afreki sínu, sem með svipuðum hraða dauðsfalla og nú er, gæti þýtt að ríflega 300 þúsund yrðu fallnir á ársafmæli faraldursins og tæpar tvær milljónir Bandaríkjamanna ættu Trump líf sitt að launa. 

Þegar nánar er gætt að, á hverju 2,2 milljóna talan var byggð, er það sú tala, sem sérfróðustu vísindamenn töldu að yrði niðurstaðan, ef engar sóttvarnaraðgerðir yrðu í gangi. 

Nú má sjá á vefsíðum margra fylgismanna Trumps, að hann stefni rakleiðis í stórsigur í kosningunum, og það meira að segja án þess að þetta björgunarafrek hans verði tekið með í reikninginn. 

 


mbl.is Trump og Biden fóru báðir með ósannindi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægar upplýsingar Faucis sóttvarnalæknis.

Í mjög athyglisverðu viðtali við doktor Fauci sóttvarnalækni Bandaríkjanna í 60 mínútum í dag kom fram, að þegar fyrir 20 árum spáði hann á grundvelli þekkingar sinnar og starfa, að það væri ekki spurningin um hvort, heldur hvenær ný og skæð tegund kórónaveiru kæmi fram og gæti orðið að stórum heimsfaraldri. 

Síðan þá hefði hann helgað allt sitt starf til þess að gera vísindasamfélagið betur í stakk búið til að taka á við slíka ógn. 

Einnig kom fram að í alþjóðlegri samvinnu hefðu smitsjúkdómavisindamenn reynt að rekja með flóknum rannsóknum hvar og hvernig í litrófi hins óhemju flókna veirusamfélags hin nýja veira gæti komið fram. 

Í ljós kom þegar í janúar hvar hún væri, var það gert opinbert, þegar  faraldurinn var kominn af stað. 

Þessar upplýsingar sýna að ástæðan fyrir því hve miklu hraðar gengur nú en í sambærilegum tilfellum fyrrum að framleiða nothæft bóluefni. 

En ef þessi mikla samvinna á alþjóðavísu, þar á meðal með þátttöku kínvarskra vísindamanna, hefur borið þennan ávöxt,er grátlegt að forseti Baandríkjanna skyldi stagaast á því að þessir menn hefðu búið veiruna til á kínverskri tilraunastofu til þess eins að koma í veg fyrir endurkjör sitt. 

Og kórónaði þetta með því að fullvissa gegn betri vitund langt fram eftir febrúar, að það væri engin hætta á ferð. 

Komið hefur fram, að á allt fram í mars voru andlitsgrímur af svo skornum skammti hjá bandarísku spítölunum, að reynt var að hamla gegn almennri notkun þeirra þar til búið var að finna út með tilraunum hvort einfaldari grímur nægðu fyrir almenning. 

Þótt þetta tækist hafa Trump og fylgismenn hans haldið uppi áberandi andróðri gegn grímunotkun.  

Síðar í þættinum var lýst einu af mörgum dæmum um það hvernig þessi orð Trumps slævðu "stórkostlegustu þjóð heims" eins og forsetinn hefur kallað þjóð sína, og var magnað að sjá hvernig þetta varð til þess að veiran barst eins og eldur í sinu um Bandaríkin. 


mbl.is Mjög miklar áhyggjur af stöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýmis athyglisverð áhrif farsóttarinnar.

Heimsfaraldur í á borð við COVID-19 er einsdæmi á okkar tímum og hefur þegar haft þau áhrif á mörg svið þjóðlífsins að eftirtekarvert er. 

Sem dæmi má nefna áhrifin á meðferð annarra sjúkdóma sem geta verið umtalsverð ef farsóttin tekur upp svo stóran hluta heilbrigðisstarfseminnar að aðrir hlutar, jafnvel brýnar skurðaðgerðir, líða fyrir það. 

Sömuleiðis virðist almenn sóttvarnarviðleitni bera árangur gegn svipuðum smitunum annarra sjúkdóma og fækka þar með dauðsföllum hjá fólki með svonefnda undirliggjandi sjúkdóma. 

Pallrólegar helgar skyldudjamms gætu verið afleiðingar hins nýja ástands. 


mbl.is Ótrúlega róleg nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þrjátíu ár á sjó og ertu hræddur?"

Aldalöng reynsla af siglingum og flugi hefur orðið til þess, að festa í sessi algert einveldi skipstjórans eða flugstjórans.

Ástæðan er sú að eðli starfans vegna hefur verið talið nauðsynlegt að einhver ein persóna um borð beri endanlega ábyrgð á öllum ákvörðunum, sem teknar eru.  

Hjá sumum austrænum þjóðum hefur auk þess fest í sessi algild virðingarröð frá aldaöðli, sem liggur í þjóðfélagsgerðinni og stéttaskiptingunni, sem á tímabili á síðustu öld olli mannskæðum flugslysum. Einkum fóru Suður-Kóresk flugfélög illa út úr þessu. 

Í þessum flugslysum tók flugstjórinn kolrangar ákvarðanir sem aðrir í stjórnklefanum þorðu ekki að véfengja eða andæfa og jafnvel ekki að spyrja um. 

Ókostur þessa alræðis hefur verið alþjóðlegur eins og sést til dæmis á því að mannskæðasta flugslys allra tíma varð að vegna stjórnunar hollenskrar þotu. 

Og í hernaði hefur röð valda frá hershöfðingja og niður úr verið rauður þráður til þess að halda uppi nauðsynlegum aga. 

Þegar Sovétmenn biðu afhroð fyrir Þjóðverjum á fyrstu mánuðum innrásar Hitlers hafði ekki aðeins farið fram einstæð "hreinsun" Stalíns, sem bitnaði mest á liðsforingjum á mismunandi stigum, heldur hafði líka dregið stórlega úr veitingu verðlauna og embætta og borðarnir, "strípurnar" lagðar af að mestu. 

Stalín neyddist til að breyta þessu í hefðbundið kerfi viðurkenninga og "rank" til þess að örva menn til dáða og efla nauðsynlegan aga. 

Í kjölfar fyrrnefndra flugslysa seint á síðustu öld var þróuð ný hegðun í stjórnklefum flugvéla sem að vísu hnekkti ekki valdaskipuninni, en gerði þó öllum skylt að taka meiri þátt í ákvarðantöku og aðgerðum á sameiginlegum grunni en áður var.

Fyrirbærið var nefnt CRM, onboard "Crew Resource management". Stjórn / skipulag mannauðsins í áhöfninni. 

Stórt atriði í því var að þora að spyrja spurninga um ákvarðanir, stjórnun og aðgerðir  yfirmannsins. 

Þetta bar árangur og hefur verið notað alls staðar síðan. Það tók til dæmis Suður-Kóreumenn ótrúlega stuttan tíma að útrýma þessum flugslysum. 

Eftir sem áður blífur tilvist goggunarraðarinnar áfram og skipstjórinn er einvaldur. 

Íslenskt dæmi:  Áður en kvótakerfið kepptu íslenskir vertíðarsjómenn um það að vera á aflahæsta skipinu á vertíð.   

Í eitt skipti var það gamall vélbátur og lúinn sem hreppti þennan titil fyrir harðfylgi skipstjóra og áhafnar. 

Á þeirri vertíð skall á mikið páskahret svo að bátar hrökkluðust í land og voru í landlegu í marga daga. 

Nema einn bátur, þessi gamli. Skipstjóranum komst að koma honum í var undir Látrabjargi í nokkra daga og voru þar meðal annars dregin net, sem aðrir höfðu flúið frá þegar veðrið skall á.  

Vélstjórinn á bátnum hafði verið til sjós í þrjátíu ár og sopið marga fjöruna, meðal annars í stórviðrum á Nýfundnalandsmiðum, en sagði mér að þessir óveðursdagar undir bjarginu hefðu verið það svakalegasta sem hann lenti í. 

Þá hefði hann farið að gæta að öryggisráðstöfunum um borð og komist að því að gúmmíbjörgunarbáturinn lá skorðaður niðri við botn bátsins undir heilmiklu af drasli. 

Fór hann upp í brú og sagði skipstjóranum og öðrum sem þar voru frá þessu. 

Skipstjórinn leit á hann og spurði: "Hvað ert þú búinn að vera lengi til sjós?"

"Þrjátíu ár," svaraði vélstjórinn. 

"Þrjátíu ár", sagði skipstjórinn, "og ertu hræddur?"

Sérkennilegri þögn sló á mannskapinn og enginn sagði orð.  

Málið var dautt og ekki minnst á þetta meir. 

Hvað snertir COVID-19 málið á Júlíusi Geirmundssyni vaknar spurningin af hverju enginn spurði skipstjórann í túrunum nánar út í fyrirmæli sóttvarnarlæknis eða samskipti hans við skipstjórann. 

 


mbl.is Erfitt að horfa á upp á veika skipverja við vinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búið að liggja fyrir í 60 ár: Glötuð hugmynd, kennd við Hvassahraun.

1. Fyrir 64 árum lýsti þáverandi flugmálastjóri, Agnar Koefoe-Hansen, því í viðtali í Morgunblaðinu hvernig tiltölulega lítil breyting á Reykjavíkurflugvelli gæti gert hann að fullkomnum og miklu betri velli á alla lund með því að lengja austur-vesturbrautina til vesturs. 

Þar með ykist fjölhæfni vallarins mjög en þó væri mest um vert, að megin flugumferðin myndi færast yfir á þessa braut, þannig að flug yfir Kvosina og Kársnesi myndi minnka um meira en helming. 

2.  Á þeim tíma var sama hugmyndin viðruð og núna að gera flugvöll í Kapelluhrauni, á sama hraunflákanum og núna er talað um að Hvassahraunsflugvöllur eigi að koma.   

Flugmálastjóri gerði eina tilraun til að kanna aðflug og fráflug frá þessu flugvallarstæði, þegar þar væri algengasta vindáttin, aust-suðaustan og algengustu hvassviðrisáttirnar.  

Hann bauð flugráði með í stuttan flugtúr, flugtak á Reykjavíkurflugvelli, aðflug að hrauninu og fráflug frá því og lendingu í Reykjavík. 

Eftir flug í gegnum alla ókyrrðina í þessari algengustu vindátt á hraunflákanum góða, þegar vindur stendur ofan af 6-800 metra háum fjallgarði skammt frá, kláruðu flugráðsmenn ælupoka vélarinnar og ekki var minnst meira á flugvöll suður af Straumsvík fyrr en flestir þeirra voru látnir og annað fólk komið í staðinn við að skoða og taka ákvarðanir um Hvassahraunsflugvöll. 

3.  Við þetta bætist að Hvassahraunsflugvöllur myndi verða á sama veðursvæði og Keflavíkurflugvöllur, en Reykjavíkurflugvöllur er á öðru og miklu skaplegra veðursvæði í sunnan- og austanáttum, sem nýtur góðs af því að Reykjanesfjallgarðurinn hreinsar þoku og úrkomu og býr til skaplegt flugveður í verstu vindáttunum úr suðaustri og austri.   

4.  Við þetta bætist þar á ofan, sem vitað hefur verið allan tímann, að flugvallarstæðið á Almenningum er aðeins nokkra kílómetra frá eldstöðvum og jarðskjálftasvæði og stendur raunar á svæði sem er markað af hraunflæmum frá eldgosahrinum allt fram til 1240, sem hafa sent hraun í sjó fram allt frá Grindavík norður til Elliðavogs í Reykjavík. 

Eldstöðin Stapafell er einnig aðeins fáa kilómetra frá Keflavíkurflugvelli. 

5.  Eftir um 800 ára hlé er orðið rétt að vera viðbúinn eldgosum á Reykjanesskaga, sem gætu staðið í nokkrar aldir. 

Að öllu framansögðu er jafn morgunljóst og það hefur alltaf verið, að það er jafn fráleitt og fyrir meira en 60 árum að ætla sér að leggja niður þann flugvöll landsins sem er á besta stað og eyða hundruðum milljarða í glataða framkvæmd.  


mbl.is Tilefni til að endurskoða Hvassahraunsflugvöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tölurnar virðast birtast að meðaltali mánuði á eftir raunveruleikanum.

Það er athyglisvert, að þegar kortin yfir stöðu mála í kórónuveikinni eru skoðuð aftur í tímann, verður atburðarásin rökréttust sem miðað er við að tölurnar, sem birtast, spegli í raun ástandið eins og það var í raun 3-6 vikum fyrr. COVID Evrópa 22.okt

Afleiðingar stórra hópsmita eða bylgna í einstökum löndum komi fram allt að sex vikum eftir að orsakirnar áttu sér. 

Þegar þetta er skoðað sést líka hið mikilvæga, að áhrif breytinga á sóttvörnum koma fram að meðaltali um 3-4 vikum síðar; bylgja vegna slökunar á aðgerðum, en rénandi bylgja vegna harðnandi aðgerða. 

Þegar þetta er haft í huga ætti það að geta auðveldað öllum að líta raunsærra á ástandið hverju sinni og en ella væri og taka heilshugar þátt í aðgerðum.

Það er til dæmis athyglisvert hvernig lönd, sem virtust með lítið smit í gangi á sama tíma og þau færðust í vöxt hér á landi, eru nú ýmist komin fram úr okkur eða að nálgast okkur. 

Margir vildu að við tækjum þessi lönd í til fyrirmyndar á þann hátt að slaka verulega á. 

En nú sést betur, að þetta var hvergi nærri svona einfalt mál.  


mbl.is Staðan er grafalvarleg víða í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verða framíköllin talin aftur?

Eftir fyrri kappræðuur Trumps og Biden gerðu menn það sér til dundurs að telja framíköll þeirra og reyndist Trump hafa haft yfirburði í því, 79 sinnum móti 11 hjá Biden. 

Trump var á heimavelli á sérsviði sínu hvað varðar þennan þátt sjónvarpsefnis, að hertaka athygli áhorfenda, en nú átti að hálfu þeirra, sem héldu kappræðurnar að finna ráð til að koma í veg fyrir annað eins met að endemum og var sett í fyrri umræðunum. 

Í þetta sinn átti að banna framíköll með því að frambjóðendunum var kynnt það fyrirkomulag, að hljóðnemar þeirra yrðu lokaðiar á meðan hinn kláraði sinn skenkta tíma. 

Í ljóst kom að Trump fann fljótt ráð til þess að vaða í gegnum þessar hindranir, og á stundum með enn ákafari framíköllum en nokkru sinni fyrr og þeirri aðferð að endurtaka sömu framíköllin aftur og aftur og iðulega um annað málefni, en talað var um í það skiptið.  

Með ágengujm framíköllum hrifsaði hann hvað eftir annað ákveðið umræðuefni úr höndum stjórnandans svo að hvað eftir annað varð öngþveiti úr. 

Með þessu tókst honum ansi oft að ljá umræðunum svipaðan blæ og varð í hinum fyrri, þótt farmíkallamagnið yrði í heildina kannski eitthvað minna og umræðurnar yrðu ögn skárri og ekki sami samfelldi leðjuslagurinn og var í fyrri umræðunum. . 

Verðu framíköllin talin núna eins og í fyrra skiptið?

Ætli þess þurfi? Ef tölurnar verða til dæmis 51-5 munu  margir ef til vill telja það sigur fyrir forsetann, sem ekki þurfi að efast um. 

Og nú, eins og í fyrra skiptið, verður andóf stjórnandans við árásum Trumps af stuðningsmönum hans túlkað sem hlutdrægni, sem styðji það enn frekar hve öflugur hann sé að geta fengist við tvo mótstöðumenn í einu í tveimur kappræðum í röð. 


mbl.is Þau eru ein en í hreinu húsnæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt verst útleikna svæði landsins.

Reykjanesskagi og þar með Reykjanesfólkvangur er hugsanleg verst útleikna svæði landsins hvað varðar umhverfis- og náttúruspjöll, ekki síst vegna þess að á þessu svæði er að finna einhver fjölbreyttustu spjöllin, - það er nánast allur pakkinn, ekki bara utanvegaakstur eins og sá, sem sést á ljósmynd Styrmis Sigurðssonar. Utanvega akstur

Lúmskust eru langtímaspjöllinn af völdum aldalagrar rányrkju í formi beitar og hrístekju.  

Þegar ekin er Reykjanesbraut og horft yfir auðnina halda flestir að svona hafi þetta alltaf verið. 

En það er nú öðru nær. Á Strandarheiði, sem er nú samt ekki nema 40-50 metrar yfir sjávarmáli var stundað miskunnarlaus hrístekja allt þar til síðustu hríslurnar voru höggnar 1935. 

Jafnvel á hinu forna Seltjarnarnesi milli Skerjafjarðar og Kollafjarðar voru örnefni sem sýndu, að það hafði verið viði vaxið í öndverðu.  Um það bera vitni heitin Skólavörðuholt, Rauðarárholt, Kleppsholt, Borgarholt og Breiðholt, því að orðið holt þýddi upphaflega skógur, samanber orðið holz í þýsku. 

Landið var sem sagt viði vaxið en beitt og hoggið svo miskunnarlaust að urðin stóð loks ein eftir. Rofabarð

Á Krýsuvíkursvæðinu stóðu tugir smábýla allt fram á sextándu öld, þegar skefjalaus sauðfjárbeit og viðarhögg byrjuðu að valda uppblæstri svo að landið varð að lokum að mestu gróðurvana, líkt þvi sem sést á ljósmynd Ólafs Arnalds. 

Besti hluti myndarinnar er aldeilis ótrúlega hringlaga gat vinstra megin á torfunni, en þar hefur hringmyndaður lofthvirfill sagað þetta kringlótta gat í gegnum þykka gróðurtorfuna. 

Það versta við meðferðina á landinu frá Grindavík og austur og norður eftir skaganum var, að þarna hefur verið stunduð stórfelld sauðfjárbeit allt fram á okkar öld á landi sem var fyrir löngu orðið óbeitarhæft. 

Ævinlega hefur eldgosum með öskufalli og kólnandi veðri verið kennt um, en ekkert gos eða öskufall hefur verið þarna í bráðum 800 ár. Raunverulegum orsökum hefur verið snúið á hvolf, því að þetta land sem að mestu liggur fyrir neðan 200 metra hæðarlínu, hefði alveg þolað kaldara veður ef ekki hefði verið vegna aðalorsakarinnar, að gróðrinum var gert ómögulegt að þola hinar minnstu veðursveiflur. 

Á okkar tímum hefur síðan stórfelldur utanvegaakstur og torfæruhjólaakstur bæst við, að ekki sé nú talað um risa gufuaflsvirkjanir með tilheyrandi háspennulínum, stöðvarhúsum, skiljuhúsum, gufuleiðslsum og virkjana- og línuvegum í svo ágengri orkuöflun, að virkjanirnar fela i sér rányrkju sem endar að lokum með orkuþurrð.  

 


mbl.is Fann djúp för eftir utanvegaakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því fyrr, því betra.

Sérkennilegt er að sjá þá upphrópun varðandi plastpoka, að stöðvun og framleiðslu og sölu þeirra flokkist undir ofstæki.  Fjölnota plastpokar (1)

Yfirgengileg notkun plasts hjá nútímafólki er þvert á móti dæmi um ofstækisfulla skammtímagræðgi, sem tekur ekkert tillit til þeirra afleiðinga sem takmarkalítil ofnotkun þessa skæða skaðvalds veldur. 

Það gerist í stuttu máli á þann einfalda hátt, að þrátt fyrir hið úrelta slagorð "lengi tekur sjórinn við" gildir hjá sísfjölgandi milljörðum neyslufíkinna jarðarbúa, að "fyllist það, sem fyllt er upp" af milljörðum tonna af efni, sem tekur margar aldir að brotna niður í náttúrunni og verður á þeirri leið að svonefndu örplasti, örsmáum ögnum sem berast inn í frumur lífvera, þar á meðal manna.

Auðvelt er að nota poka á þann hátt að þeir séu annaðhvort vistvænir og skaðlausir eða fjölnotapokar, sem ekki berast út í umhverfið.  

Ef til dæmis eru geymdir 2-4 plastpokar á hverju heimili, sem hafðir eru meðferðist til búðaferða, fylltir þar og farið með þá aftur heim, er hægt að fara þá leið. Ef orðið "fjölnota snarlpoki" er gúgglað, kemur það upp, að á Hvammstanga sé farið að framleiða slíka poka af ýmsum gerðum, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.  Nýyrðið "fjölnota snarlpoki var kynnt hér á síðunni fyrir tveimur árum, og er gaman að sjá, að þetta er ekki lengur bara nýyrði um hugtak, heldur áþreifanleg staðreynd. 

Léttfeti,      Borgarfjarðarbrú

Betra er og raunar æskilegt að pokar séu fullkomlega vistvænir fjölnotapokar. 

Slíkan ljósgulan poka, sem kvöldsólin skín á við Borgarfjarðarbrúna, má til dæmis sjá á myndum, sem birst hafa hér á síðunni, festan á stýri rafknúins léttbifhjóls í langferðum á því vistmilda hjóli. 

Pokinn sá er framleiddur í Baskahéruðum Spánar og skolaði til þátttakenda í fjölþjóðaráðstefnu samtaka dreifbýlisfélaga í Evrópu 2019.   

 

 

 


mbl.is Plastpokabirgðir Krónunnar að klárast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband