Á sjó, landi og í lofti.

Sjaldgæft er að sjá tvær fréttir hér á mbl.is með aðeins tíu mínútnar millibili sem greina frá svo mikilli mengin í sjó, á landi og í lofti, að viðvaranir eru sendar út. 

Einkum er er þetta sérkennilegt hjá borg, sem fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir tveimur árum. 

Við það mat hefur vegið þungt að hús borgarinnar eru hituð upp með heitu vatni en ekki með því að brenna jarðefnaeldsneyti með tilheyrandi loftmengun og útblæstri lofttegunda sem taldar eru líklegar til að valda loftslagsbreytingum með svonefndum gróðurhúsaáhrifum. 

En mengaður sjór, sem kemur í veg fyrir sjósund, og svifryk, sem er yfir heilsuverndarmörkum, rímar ekki vel við ímynd borgarinnar sem umhverfisverðlaunahafa. 

Þegar við hjónin komum vestur yfir Hellisheiði í fyrrakvöld og komið var vestur fyrir Gunnarshólma, sagði Helga allt í einu: Hér ökum við inni þessa líka litlu brennisteinsfýlu. 

Ég fann að vísu lyktina og dró þetta í efa; vitnaði í upplýsingar í athugasemdum hér á síðunni þess efnis að búið væri með niðurdælingu að draga úr brennisteinsvetnismengun um allt að tveimur þriðju af því sem hún var og að reiknað væri með því að að öllu eitrinu yrði dælt niður innan árs. 

En fnykurinn fékk upprunastaðfestingu í dag með tilkynningu um hann. 

Það leiðir hugann að því hvernig hún hefði verið á þeirrar niðurdælingar, sem þegar er í gangi. 

Sagt er að viðgerð verði lokið við hreinsistöðina við Faxaskjól á morgun og að þá verði senn ekki lengur ástæða til að syngja á komandi jólasamkomum: 

Gekk ég yfir sjó og hland...

 


mbl.is Varað við sjósundi vegna mengunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kampavínsstjórnin"? Varla. Og þó?

Margs konar venjur og siðir hafa skapast í kringum svonefnd freyðivín. Í akstursíþróttum og jafnvel fleiri íþróttum tíðkast að sigurvegarar hristi kampavínsflösku eða flöskur eftir atvikum og láti hið freyðandi vín sprautast úr flöskunum yfir sig og aðra. 

Hægt er að líta á slíka hefð gagnrýnisaugum með tilliti til "áfengisbölsins" en einnig þannig, að eftir langan og strangan aðdraganda, sem krefst 100% einbeitingar og algers bindindis, sé í lagi að slappa aðeins af. 

Ég er bindindismaður og þegar við Jón bróðir vorum settir í þá aðstöðu að fylgja hefðinni, gerðum við það með því að nota appelsínfernur í staðinn og hella safanum yfir hausana á okkur. 

Allt var það meinlaust og skemmtilegt, en þó með smá undirtóni. 

Við brúðkaup og fleiri slíkar athafnir er stundum skálað í kampavíni; við sjósetningu skipa er freyðvínflaska í bandi oft látin brotna á stefninu og þannig mætti lengi telja. 

Yfirleitt eru tilefnin þau að verið er að fagna árangri sem markar tímamót eins og fyrstu siglingu að ferð, ellegar þá að fagnað er afrakstri af mikilli og vandasamri vinnu eða þjálfun og hugsanlega hefur eitthvað slíkt verið í hugum þeirra sem sýndust skála í freyðvíni í vinnulok bak við gluggatjöld í Ráðherrabústaðnum í gærkvöldi. 

Það er spurning um smekk og stemningu hvernig fólk fagnar loknu verki sem markað geti upphaf á myndun markverðrar ríkisstjórnar og þannig má líta á þennan litla atburð í gærkvöldi sem hefur jafnvel kallað það fram, að ef úr ríkisstjórnarsamstarfinu verði eftir stranga törn, fái hún viðurnefnið "Kampavínsstjórnin", samanber "Viðeyjarstjórnin" og "Þingvallastjórnin" á sínum tíma. 

Og það má líta á heitið kampavínsstjórn jákvæðum augum hvað varðar það, að aðstandendur hennar líta greinilega á þessa stjórn, stefnu hennar og verk þeim augum að hún muni verða tímamótastjórn þarfra verka. 


mbl.is Vill engu svara um freyðivín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þýðir "af eða á"? Springur - springur ekki?

Orðalagið "nei eða já, - af eða á" í einu af söngvakeppnislögunum hér um árið ber með sér blæ af öðru orði, sem Katrín Jakobsdóttir notar aftur og aftur þessa dagana: "Áhætta."

Einhver myndi orða þetta þannig, að orðalagið benti til þess að viðræðurnar héngu á bláþræði jafnvel þótt unnið sé hörðum höndum að því að klára þær. 

Það minnir svolítið á það hvernig stjórnarmyndunarviðræður undir forystu Ólafs Thors voru í mikilli óvissu 1944 þegar svo virtist sem meirihluti Alþýðuflokksmanna gætu ekki hugsað sér að vinna með kommúnistum. 

Ólafur "fiffaði" þá lausn, eftir því sem hann greindi frá síðar, með því að gangast fyrir því að hér á landi yrði tekið upp svo gott almennatryggingakerfi, að það yrði jafnvel það besta í heimi. 

Engu að síður var afar mjótt á mununum hjá krötum, og formaðurinn sat hjá í innanflokksatkvæðageiðslu um málið. 

Þess vegna sér maður Katrínu í anda sitja með blómvönd í hendi og plokka blómin út eitt og eitt með orðunum:  "Elskar mig - elskar mig ekki - elskar mig - elskar mig ekki...", 

eða

"springur - springur ekki - springur - springur ekki..." 


mbl.is Katrín: Línur við það að skýrast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá fyrsti, sem kjaftaði frá, var látinn taka pokann sinn.

Kvótakerfið hafði verið við líði í innan við þrjú ár þegar hitti sjómann í Kaffivagninum sem lýsti brottkasti á bátnum, sem hann hafði róið á fram að því. 

Viðtalið var birt í Sjónvarpinu og þetta var í fyrsta sinn sem vitni að brottkasti lýsti því svona opinskátt og með skilmerkilegri röksemdafærslu, með því að líkja fiskinum við misstórar kartöflur hjá kartöflubónda. 

Hann vildi ekki greina opinberlega frá nafni bátsins. 

Daginn eftir var hann rekinn og látinn taka pokann sinn. 

Því miður gerðist það þegjandi og hljóðalaust og voru það mistök að fylgjast ekki með því og greina líka frá því. 

En satt að segja datt manni ekki í hug að viðbrögðin yrðu svona afgerandi og blygðunarlaus úr því að nafn bátsins var ekki nefnt. 

Auðvitað hefur brottkastið tíðkast allt frá upphafi kvótakerfisins og líka áður en það kom til. 

En ástæðan fyrir brottkastinu varð miklu meiri og augljósari eftir að kvótinn kom til sögunnar. 

Þegar þeir Magnús Þór Hafsteinsson og Friðþjófur Helgason mynduðu og gerðu frétt um brottkast voru viðbrögð útgerðarinnar svo harkaleg og þrýstingurinn þvílíkur, að allt var gert sem hægt var til þess að gera þetta ótrúverðugt, meira að segja að snúa því þannig að þetta hefði verið sýndargerningur! 

Í Kastljósi um það hvernig Fiskistofa hefur verið gert ómögulegt að fylgja eftir eftirliti með vigtun kom svipað fyrirbæri í ljós og lýst var í 60 mínútum varðandi lyfjaeftirlitið í Bandaríkjunum. 

Hér heima er líka lagaumhverfið þannig, að Landgræðsla Íslands getur ekki komið neinum viðurlögum yfir þá sem standa að gróðurspjöllum og því að níða land.

Það er eins og furðuleg hjarðhegðun valdi því að í útgerðinni og landbúnaðinum sé slegin allt að því skjaldborg um þá sem svindla á lögum og skapi sér séraðstöðu. 

Þetta er dapurlegt, því að með því að sölsa undir sig stærri hlut í fiskveiðum en löglegt er, og stunda búskap með rányrkju, er í raun verið að ráðast að kjörum hinna, sem fara að lögum.  


mbl.is „Haltu kjafti, taktu þátt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Róleg íhugun og aðalatriðin í lífinu. "Eins og blóm".

Það er gott að lesa viðtalið við Ragnheiði Arngrímsdóttur listljósmyndara í tilefni af ljósmyndasýningu hennar sem hún er með í Klínikinni mitt í öllum hasarnum og látunum sem fylgir nú orðið síðustu helginni í nóvember. 

Á facebook síðu minni í dag er tónlistarmyndbandið "Eins og blóm" sem Friðþjófur Helgason setti saman við nýju lögunum á plötu Gunnars Þórðarsonar, sem er einmitt verið að setja í umferð þessa dagana. 

P.S. inni í miðjum pistli: Fyrir mistök mín er myndbandið við ranga hljóðrás, danglað á píanó án söngs og nokkuð styttra en í lokaútgáfunni. Það er verið að vinna í að gera rétta útgáfu eins og hún er á plötu Gunnars, og verður þessu breytt þegar þeirri vinnu er lokið, en ekki víst hve langan tíma það tekur. 

Lagið fjallar um ástina sem dýrmætasta drifkraftinn í veröldinni í ljósi hringrásar kynslóðaskipta í mannheimi og lífríki. 

Þungamiðjan er kannski línan "Ást skóp allt í heimi" og þar á eftir lokalínur textans. 

Það er kannski viðeigandi að birta textann hér og tengja við hughrifin af lýsingu Ragnheiðar Arngrímsdóttur listljósmyndara á hugsuninni á bak við sýningu hennar.

 

EINS OG BLÓM. 

 

Eins og blóm tók við yl, sem gaf því lit, 

kviknar ást með sitt undurfagra glit

og breiðir blöð sín út, - 

já, eins og blóm. 

 

Lostin eldi svo undarlega hljótt, 

á unaðarins báli við áttum eina sál

ég og þú, og allt var orðið breytt. 

 

Og allt ævinnar skeið var ákveðið þarna; 

það sem okkar þá beið

við örlaga seið, 

en samferðafólk frá kyni til kyns 

er kært og líf vort léttir. 

 

Og við lítum á börn okkar ljómandi´af gleði  

þegar lífsundrið mesta það gerist á ný:  

 

Eins og fræ tók við yl, sem gaf því lit, 

kviknar ást með sitt undurfagra glit 

og breiðir blöð sín út,

já eins og blóm. 

 

Lostin eldi svo undarlega hljótt, 

alelda, jafnt hvern dag sem hverja nótt

á unaðarins báli þau eiga eina sál, 

hann og hún og allt er orðið breytt. 

 

Og allt lífið í kring það ljómar og iðar 

þegar lofgjörð ég syng 

um skaparans verk, 

en án minninga við erum ei neitt. 

Sönn ást skóp allt í heimi. 

 

Fyrir alvaldsins mætti við auðmjúk oss beygjum 

er að endingu loks kemur að okkur röð

og sem eilífðar smámblóm við fæðumst og deyjum

þegar andinn fær flug og um leið fellir blöð - 

eins og blóm. 

 


mbl.is Að staldra við og njóta augnabliksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mætti halda að þetta sé mesti hátíðisdagur ársins.

Í hádeginu í dag var heitið "Black Friday" og einstaka sinnum "Svartur föstudagur" nefnt mörgum sinnum á hverri mínútu í hverri auglýsingunni á fætur annarri. 

Söngurinn var kyrjaður í allan dag. 

Það er náttúrulega brandari að landtaka innflytjenda við Plymouth Rock á austurströnd Bandaríkjanna á sautjándu öld skuli vera að hefja Black Friday til himinhæða sem hátíðisdag hér á landi. 

Black Friday er nefnilega til orðinn vegna þessa atburðar í sögu Bandaríkjanna sem minnst er með frídeginum Thanksgiving Day, sem er jafnan síðasti fimmtudagur í nóvember. 

Þakkarhátíðin, - afsakið Thanksgiving Day, - er líka svipað fyrirbrigði í Bandaríkjunum og Kanada og töðugjöld voru hér á landi, þakkardagur fyrir uppskeru sumarsins. 

Af því að Þakkarhátíðin, - afsakið Thanksgiving Day, er frídagur vestra, hefur verslun verið lífleg daginn eftir hann og sömuleiðis á næsta mánudegi helgina á eftir. 

Naskur kaupahéðinn sá sér leik á borði að gera þennan mánudag að sérstökum netverslunardegi, sem hefur ekki síður sótt í sig veðrið en Black Friday undir heitinu Cyber Monday.

Cyber þykir einkar hentugt nafn af því engir skilja það til fulls. Þó hefur verið minnst á rafrænan mánudag, en auðvitað er ekki eins fínt og Cyber Friday.  

Miðað við ofangreinda hröðu þróun má spá í framhaldið á frekari innrás þess að hafa amerískar aðstæður og atburði úr sögu Bandaríkjanna í hávegum hér á landi. 

Fyrst þessir tveir dagar ásamt Single Day eru að verða einhverjir mestu tyllidagar hér á landi er úr samhengi að Thanksgiving Day, sem var upphafið á þessu öllu, skuli ekki fylgja með hinum bandarísku dögunum hér á landi og hlýtur hann að verða að fá að fljóta með og vera gerður að almennum frídegi á Íslandi. 

Í staðinn mætti leggja sumardaginn fyrsta niður, sem hefur alltaf verið lélegur dagur fyrir verslun og kaupahéðna.  

Þá verða fjórir hátíðisdagar seinni part nóvember með nafni á ensku farnir að keppa við jólin og páskana og náðarhöggið hlýtur að verða að eini nafngreindi íslenski dagurinn í nóvember, Dagur íslenskrar tungu, húki ekki þarna ekki einmana eins og álfur út úr hól, heldur fái að krýna sigur bandarískra aðstæðna á Íslandi með því að verða að Day of English Language. 

Til samræmis við þetta gæti næsta skref orðið, að fyrst hið merka ameríska örnefni Plymouth Rock er undirstaðan undir þessu öllu, mætti hugsa sér að þetta náttúrufyrirbæri í Bandaríkjunum fái verðskuldaða viðurkenningu hér á landi með því að gera 16. september að Day of American Nature. 

Í fréttum í dag var sagt: "Black Friday er kominn til að vera." Það hefði verið ósamræmi í því að segja: Black Friday hefur fest sig í sessi, því að orðin "er kominn til að vera" er hrá þýðing úr ensku: "...is here to stay." 

Hefur fest sig í sessi - og - er kominn til að vera - eru hvort tveggja sjö atkvæði, en  amerískt skal það vera í bak og fyrir. 

 


mbl.is „Stanslaust Þorláksmessurennsli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klettsháls ófær undanfarna daga og Kleifaheiði tímabundið.

Á vef Vegagerðarinnar um færð á vegum hefur mátt sjá undanfarna ófærðardaga, að ef Baldur siglir ekki, hefur leiðin frá Gufudalssveit til Vesturbyggðar verið ófær á Klettshálsi. Hálsar 21.11.17

Klettsháls (rauður litur á korti Vegagerðarinnar) hefur verið farartálminn milli Gufudalssveitar og Brjánslækjar og í sl. þriðjudag var Kleifaheiði ófær, og þar með er gagnslaust að komast yfir Breiðafjörð með Baldri til að komast yfir í Vesturbyggð. 

Kleifaheiði er hæst fjallveganna sem eru á leiðinni meðfram ströndinni til Vesturbyggðar og ófærð á Klettshálsi, sem er með fullbúnum og malbikuðum nýjum vegi, rímar við það sem ég hef haft tilfinningu fyrir í gegnum tíðina, að þar geti oftar orðið ófært en annars staðar á þessari leið. Hálsar 23.11.17

Hálsarnir í Gufudalssveit hafa ekki verið merktir sem "ófærir" í dag eða í þessari viku eftir því sem ég best veit og eins og sjá má á myndum, sem ég ætla að setja inn. 

Á neðstu myndinni má sjá, að nú síðdegis á föstudag er hvergi lengur ófært á þessari leið. 

Ef gerð yrðu jarðgöng undir Hjallaháls með gangamunna í 110 metra hæð, líkt og gert var við Vestfjarðagöng, yrðu þau ekki dýrari en vegur um Teigsskóg, og inni í jarðgöngum er aldrei ófærð, hvorki vegna snjóa né fárviðris. 

En með því að setja 40 metra hæð gangamunna sem skilyrði yrðu göngin það miklu lengri en með 110 metra hæð, að þau yrðu miklu dýrari en ella. 

Ódrjúgsháls er álíka hár og efstu hverfin við Vatnsendahvarf í Kópavogi, 160 metra yfir sjávarmál, og getur varla talist fjallvegur. 

Vegurinn um hann er hins vegar barn síns tíma með tvær brattar og krappar beygjum að austanverðu, sem má afmá með því að leggja veginn á skaplegri og nútímalegri hátt en gert var um miðja síðustu öld og malbika hann. 

.  


mbl.is „Alvarlegt tjón fyrir samfélagið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mestu breytingar á högum tónlistarmanna í heila öld?

Tónlistarmenn hafa gengið í gegnum ýmsar breytingar á högum í gegnum tíðina, oft vegna nýrrar tækni. 

Langt fram eftir síðustu öld var vínyllinn alls ráðandi í útgáfu tónlistar og fór vegur hans sívaxandi. 

Ég man þá tíð þegar að mestu voru gefnar út tveggja laga plötur, með einu lagi hvorum megin. 

En tvær tegundir breytinga komu síðan til sögunnar á um tíu ára tímabili, annars vegar varðandi breytingar á snúningshraða platnanna sem fóru í gegnum tölurnar 78, 45 og 33 snúninga, en einnig og kannski fyrst og fremst varðandi stækkun platna úr 2ja laga í fjögurra laga og síðan í tilkomu breiðskífunnar á sjöunda áratugnum. 

Allar breytingarnar juku á fjölbreytnina og plötusöluna. Þannig er tveggja laga plata Bítlanna með lögunum Penny lane og Strawberry fields forever yfirleitt taldar tilheyra "plötu aldarinnar" Sergent Peppers hjá Bítlunum, en vegna þess að vinna við hana tók hálft ár og tók allan tíma Bítlanna á því tímabili, svo að þeir komu hvergi fram og gáfu ekkert út á meðan,  var ákveðið vinna gegn hugsanlegum áhrifum þess með því að taka tvö lög af fyrirhuguðum lagalista og gefa þau út á smáskífu til að láta dampinn ekki detta niður. 

Á síðustu tveimur áratugum aldarinnar kom geisladiskurinn til sögunnar og var auðvitað gríðarleg bylting fólgin í honumm, en ef eitthvað var fjölgaði útgefnum plötum gríðarlega og plötusalan þar með. 

Fyrir nokkrum árum varð síðan áhrifarík bylting með tilkomu útgáfu tónlistar og ekki síður niðurhals á netinu. 

Afleiðingarnar eiga sér varla neina hliðstæðu síðan hljómplatan kom til sögunnar. 

Á örfáum misserum hefur salan á markaðnum hrunið gersamleg og þær tekjur, sem íslenskir tónlistarmenn geta haft með því að setja lög sín á Spotify eru yfirleitt í mýflugumynd, sé tónlistin miðuð að mestu fyrir innlendan markað. 

Spotify miðar sitt kerfi við heimsmarkaðinn og hundraða milljarða kaupenda, sem eru á honum, og tölurnar á Íslandi eru svona um það bil einn tíuþúsundasti af allri tónlistarveltunni. 

Allir hér á landi, sem ekki eru með kaupendur að neinu ráði erlendis, hafa sopið seyðið af þessu. 

Það segir sína sögu um stórfelldar breytingar á högum skapandi tónlistarfólks, að Páll Óskar bauð fyrstu kaupendum disks síns að koma í eigin persónu til þeirra með hann, Egill Ólafsson setti sína nýju tónlist á vínyl í takmörkuðu magni og áritar eftir númerum, og Bubbi Morthens gaf út ljóðabók. Léttir á Hrafnseyrar heiði

Sjálfur fór ég í trúbadorferð báða hringina, hringvegginn og Vestfjarðahringin í rykk á rúmum þremur sólarhringum, með hljómflutningstæki á litlu Honda vespuhjóli til að halda kynningar og tónleika á þeim slóðum sem markhópur slíks ferðalagavæns disk var helst á ferð.  

Á myndinni er hjólið, sem ber íslenska heitið "Léttir" með hljómflutningskerfið á bakinu eins og hestur, staddur uppi á Hrafnseyrarheiði með Dýrafjörð í baksýn. 

Íslenskir tónlistarmenn hafa nú verið sendir til baka til upphafsins, ef svo má að orði komast, við að leggja aðaláhersluna á að koma fram á tónleikum eða halda tónleika. 

Fall hljómdisksins má marka af því að í verslunum, sem áður seldu diskaspilara og annað tengt þeim, eru slík tæki ekki seld lengur, þeir hafa horfið úr nýjum tölvum, og það þarf að panta diskaspilara í nýjum bílum. 

 


mbl.is Tekjur tónlistarfólks rannsakaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ekki framboð til forseta?

Við Íslendingar ættum að bjóða Mike Hughes, "Mad Mike" til Íslands til þess að komast að því á miklu ódýrari hátt en hann ætlar sér, hvort jörðin sé flöt eða hnöttótt. 

Hann ætlar að skjóta sjálfum sér í heimasmíðaðri eldflaug til þess að sanna að jörðin sé flöt, en ef við bjóðum honum til Reykjavíkur, tekur þetta aðeins um tíu mínútur fyrir miklu minni peninga. 

Hann yrði fyrst settur niður á Eiðisgranda á heiðríkum degi, þar sem hann sæi yfir Faxaflóa efri hluta Snæfellsjökuls við sjóndeildarhringinn, síðan yrði farið með hann í flug beint upp frá Reykjavíkurflugvelli þar sem hann sæi jökulinn líkt og rísa allan úr sæ ásamt lægri fjöllum yst á Snæfellsnesi, sem ekki sjást frá sjávarmáli. 

Raunar er synd að Ingólfur Arnarson skyldi aldrei ganga á Esjuna til að sjá svipað og verða með því níu hunduð árum á undan öllum öðrum til að sanna að jörðin væri ekki flöt, úr því að hafið væri það greinilega ekki. 

En síðan mætti sleppa þessu og benda Mad Mike á það að láta ekki nægja að bjóða sig fram til embættis ríkisstjóra Kaliforníu heldur fara alla leið og bjóða sig fram þegar tækifæri gefst til embættis forseta Bandaríkjamanna, en hann er að því leyti skoðanabróðir Trumps að Trump telur vísindamenn heims fara með bull og vitleysu varðandi loftslag á jörðinni og að reka þurfi þá alla og ráða "alvöru" vísindamenn í staðinn að loftslag fari ekki hlýnandi heldur kólnandi, jafnvel "hratt kólnandi" eins og sumir skoðanabræður hans sögðu fyrir þremur árum.

Því að bæði Mad Mike og Donald Trump eiga sér fjölmarga skoðanabræður.  


mbl.is Hyggst sanna að jörðin sé flöt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég varð fyrir líkri árás hér um árið. Greyið var "vímaður."

Það vekur athygli þegar bíll af gerðinni NSU Prinz árgerð 1958, sem ég á, er skoðuð, að það vantar rúðuna í hægri hurð bílsins. Það ætti að sjást á meðfylgjandi mynd.NSU Prinz´58 á hlið

Ástæðan er sú, að óður maður, kýldi með krepptum hnefa í gegnum rúðuna þegar ég sat hinum megin í bílnum, svo að glerbrot og blóð dreifust frammi í bílnum og öskraði augnabliki áður: "Ég ætla að drepa þig, helvítið þitt!" 

Aðdragandinn að þessari fólskulegu árás var sá að ég var á leið með þennan örsmáa bíl frá bílasýningu í Öskju vestur í Útvarpshús, þar sem hann var á þeim tíma geymdur á bak við súlu í kjallaranum. 

Þetta var síðla kvölds um vor, og bensíngjöfin hafði bilað á bílnum, svo að ekki var hægt að aka honum nema á um 15 kílómetra hraða í vesturátt upp hallann á Vesturlandsveginum austan við gatnamót Höfðabakka. 

Ég ók bílnum alveg úti í hægri kanti og vegna smæðar hans tók hann afar lítið pláss og var að engu leyti til trafala fyrir umferðina sem var mjög lítil. 

Framhjá mér til vesturs var ekið nokkurra ára gömlum japönskum bíl, brúnum að lit. 

Skyndilega var honum svipt til hægri út í kant, stöðvaður þar og út úr honum snaraðist grannleitur maður og hljóp aftur fyrir bílinn í áttina framan að mínum bíl. 

Þegar hann var kominn það nálægt að ég sá framan í hann, brá mér í brún; hann var eldrauður í framan af æsingi og eins og augun í honum stæðu á stilkum, þegar hann hóf snaróður af tryllingi hnefann ógnandi á loft beint fyrir framan bílinn á móts við vinstra framhornið og öskraði svo hátt, að ég heyrði það inn í bílinn, enda var ég með litlu vindskeiðina fremst á glugganum opna: "Ég ætla að drepa þig, helvítið þitt!"

Nú kom sér vel að stýrið á þessum bíl var það sneggsta og léttasta í flotanum, því að mér tókst að snarbeygja til vinstri svo að maðurinn kom að hægra framhorni bílsins í stað þess vinstra þar sem hann virtist ætla að kýla mig í gegnum gluggann. 

Í stað þess að kýla mig beint í andlitið í gegnum gluggann bílstjóramegin, þar sem ég sat, sló hann í gegnum hægri rúðuna, svo að hún brotnaði í þúsund mola. 

Glerbrotin og blóðslettur dreifðust yfir til mín. Það sýnir hve maðurinn var dýróður og með ákveðinn brotavilja, að hann skyldi gera þetta. 

Að mínu viti er ekki hægt að líta á svona árás né svipaða árás á lítið barn sem greint er frá í fréttum í kvöld með léttúðaraugum. 

Því miður var atvikið í mínu tilfelli þess eðlis, og olli slíku sjokki, að það eina sem ég man, er atvikið sjálft og hinn hroðalegi svipur á árásarmanninum, en ég tók ekki eftir gerð bílsins, sem hann kom út úr, en var með afar venjulegt útlit eldri bíla. 

Ég ók aðeins eins hratt og ég gat miðað við ástand míns bíls vestur í Útvarpshús og kom honum þar fyrir. 

Eftir á að hyggja sýnist mér að hvort eð er hefði skipt litlu þótt ég kallaði á lögreglu miðað við þau viðbrögð, sem árásin á barnið veldur. 

Ég á dálítið erfitt með að sætta mig við það að afgreiða það eitthvað á þessa lund: "Greyið var vímaður."  

 


mbl.is „Þetta voru ákaflega vímaðir menn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband