Þegar flugásarnir urðu til og flugið fór í gegnum margar byltingar.

Þegar Fyrri heimsstyrjöldin hófst var flugið á algeru frumstigi, nýbúið að vinna það afrek í fyrsta sinn að fljúga yfir Ermasund, rúmlega 30 kílómetra leið. 

Í styrjöldinni sjálfri rak hver byltingin aðra og það svo hratt, að þegar nýjar gerðir komu fram hjá stríðsþjóðunum náðu þær yfirhönd í lofti til skiptis í nokkra mánuði í senn. 

Í fyrstu var gildið eingöngu að njósna um heri andstæðinganna, síðan fóru menn að skjóta í rifflum hverjir á aðra, en vélarnar voru svo veigalitlar, að erfitt að var fyrir flugmennina að halda stjórn á vélunum á meðan þeir munduðu byssturnar nógu langt út úr glugganum til þess að skjóta ekki á skrúfuspaðana. 

Bylting varð þegar hægt var að stilla vélbyssur þannig að þær skytu á milli skrúfublaðanna jafnframt því sem hreyflarnir tóku algerum stakkaskiptum hvað varðaði afl og gangvissu. 

Fyrsta loftárásin á saklaust fólk á jörðu niðri markaði upphaf hroðalegustu drápa styrjalda eftir það. 

Til varð kerfi listflugsæfinga eins og að fara í lykkju og svonefndan Immelmann. 

Baráttuathafnirnar í lofti voru með ákveðnum riddarabrag og brátt urðu svonefndir ásar, snjöllustu orrustuflugmennirnir, að goðsagnakenndum persónum, svo sem Rauði baróninn á hinni eldrauðu þrívængju sinni, sem var að vísu lipur, en varð úrelt á undra skömmum tíma. 

Það verður spennandi að sjá hvernig aðstandendum stórmyndainnar 1917 tekst að fanga þennan veruleika, sem kviknaði og vék fyrir öðrum veruleika hvað eftir annað. 


mbl.is „Besta stríðsmynd síðustu 20 ára“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Teslurnar eru réttnefnd "ólíkindatól".

Á dögunum var greint frá því hér á síðunni að í hinu virta bílablaði hefði Tesla 3 rúllað upp Audi 4 dísil, Benz dísil-tengiltvinnbíl  og BWw bensín-tengiltvinnbíl í ítarlegum samanburði á þessum fjórum bílum, sem eru allir af svipaðri stærð og afli og álíka dýrir. 

Vafasamt er að áður hafi þrír þýski eðalbílar farið slíkar hrakfarir fyrir bíl ættuðum úr annarri heimsálfu.  

Teslan reyndist meira að segja jafnoki svonefndra ofurbíla í hröðun. 

Tesla Cybertruck virðist vera enn meira ólíkindatól á tvo vegu miðað við frétt af frumsýningu hans. 

Á Youtube má sjá bílablaðamenn skýra frá reynsluakstri á Tesla 3, og tók  annar þeirra viku í að gera hann að einkabíl fyrir sig. 

Tækniundrin í bílnum eru ævintýraleg á flesta lund, allt upp í það að láta bílinn sjálfan um aksturinn og geta ekki aðeins fylgst með hvað sést í myndavélum, sem gegna hlutverki spegla í bílum, heldur séð yfirlitsmynd beint ofan frá á umferðina í kringum bílinn. 

Bíllinn ilmar af nýjungum og frumlegum lausnum, svo sem varðandi loftræsti og miðstöðvarkerfið og umgengni við bílinn ekki bara í nánd við hann, heldur hvaðan sem er 


mbl.is Brutu rúður Tesla Cybertruck á frumsýningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitler tapaði stríðinu vegna innistæðulauss áróðurs.

Í aðdraganda Seinni heimsstyrjaldarinnar var að vísu engin facebook, en Adolf Hitler og Joseph Göbbels kunnu sitt áróðursfag og notuðu yfirgengilegar skrautsýningar og fjöldafundi auk útvarps og dagblaða til þess að hamra á því í ræðum Hitlers, hvílíka yfirburði svonefndir Aríar hefðu í hernaðartækni og framleiðslu hergagna. 

Með því að hámarka hervæðinguna útrýmdi Hitler atvinnuleysi í Þýskalandi á sama tíma sem þjóðir verðandi Bandamenna glímdu við atvinnuleysi og kreppu af áður óþekktri stærð. 

En 1942, á fjórða ári stríðsins, var að koma annað hljóð í strokkinn, og er fróðlegt að kynna sér útvarpsræðu Hitlers til þjóðar hans og einnig orðræðu hans við Mannerheim, þegar fór á fund hins finnska þjóðarleiðtoga til að ræða um stríðið. 

Það var að verða ljóst, að stríðið myndi tapast af orsökum, sem voru jafngamlar hernaðarsögunni: Færri hermenn og lakari og færri hergögn. 

Hitler viðurkenndi í útvarpsræðunni og samtalinu við Mannerheim, að hann hefði ekki órað fyrir því að Bandaríkjamenn gætu framleitt 50 þúsund frábærar flugvélar á ári, hvað þá að Rússar gætu, eftir að hafa misst allt að helming iðnaðarsvæða sinna, frameitt meira 30 þúsund flugvélar árlega og hverki meira né minna en meira en 80 þúsund skriðdreka af aðeins einnig tegund, besta skriðdreka stríðsins, T-34. 

Þessi framleiðsla Bandamanna var margfalt meiri og betri en framleiðsla Öxulveldanna. 

Í bloggpistli hjá Halldóri Jónssyni er greint frá framleiðslu B-24 sprengjuflugvélanna, sem voru fjögurra hreyfla og eitt af táknunum um mun stærri og betri sprengjuflugvélar en Öxulveldin áttu;  gott dæmi um þá yfirburði Bandamanna, sem Hitler játaði 1942 að hann hefði ekki órað fyrir.   


mbl.is „Facebook hefði leyft Hitler að kaupa auglýsingar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Jepparuglið" alls staðar.

Nú má sjá á bílafréttum á mbl.is tvær fréttir af "jeppa"ruglinu, sem veður yfir allan bílaiðnaðinn og felst í því að skilgreina bíla, sem eru í raun aðeins venjulegir fólksbíla, sem jeppa eða sportjeppa, jafnvel þótt það sé ekki hægt að fá viðkomandi bíla með fjórhjóladrifi.Aston Martin Jeppi  

Aston Martin er með nýjan "jeppa" sem er með hvorki meira né minna en 16,8 sentumetra veghæð! 

Mikið er lagt upp úr því að hafa felgurnar sem stærstar, helst 18 til 22ja tommu, en á móti eru dekkin höfð svo breið og þunn, að þau þola varla akstur á venjulegum malarvegi. 

Gamla Volkswagenbjallan var með 20 sem veghæð og engum datt í hug að kalla Bjölluna jeppa.  Tazzari á hleðslustöð

16,8 sm veghæð er sama veghæð og á ör-rafbíl síðuhafa og aðeins einum sentimetra hærra en er að meðaltali á fólksbílaflotanum. 

Og önnur frétt er um það, að nú verði dregið stórlega úr jeppaeiginleikum Range Rover og lúxus og þægindi hafin í öndvegi. 


mbl.is Úr sportbílum í jeppa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ennþá er viðfangsefnið ofviða þjóðum heims.

Loftslagsváin svonefnda er hluti af enn stærra máli, rányrkju á auðlindum jarðar, sem helst í hendur við mannfjölgun, sem hefur verið óviðráðanleg hingað hvað heildina varðar, og hina linnulausa kröfu um endalausan hagvöxt, sem er enn annar hluti vandans. 

Mannfjölgunin er að vísu ekki vandamál á Vesturlöndum út af fyrir sig. Ölduðu fólki fjölgar en fæðingum og yngra fólki fækkar. 

Þótt bent sé á, að það sé hluti af lausn að flytja ungt fólk til Vesturlanda frá suðlægari löndum, þar sem þurrkar, hitar og gróðureyðing valda neyð, er umfangið svo stórt, að í ljósi reynslunnar af mun minni fólksflutningum hingað til, vex hið nýja vandamál um of. 

Jafnvel þótt kenningin um loftslagsvanda af mannavöldum væri röng, eru stóru línurnar þess eðlis í þessu máli, að aðgerðir í útblástursmálum með útskiptum á orkugjöfum eru ómissandi hluti af óhjákvæmilegri viðspyrnu við þeirri staðreynd, að olíuöldin; - sem er einstæð á alla lund í sögu mannkynsins; þessi öld ofurneyslunnar;  mun enda á 21. öldinn álíka hratt og hún hófst fyrir rúmri öld. 

 

 


mbl.is Magn gróðurhúsalofttegunda aldrei meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvenjulegur skjálfti?

Leikmanni hnykkir við þegar sagt er frá því að sá harðasti af nokkrum jarðskjálftumm við Bárðarbungu í morgun, 4 stig, hafi verið á 0,1 kílómetra dýpi; aðeins 100 metrum undir yfirborðinu.  

Ekki fylgir sögunni hvort þrír stærstu skjálftarnir urðu undir sikötlunum tveimur, sem eru við suðausturjaðar öskjunnar, en varla hefur íshrun valdið þeim. 

Og þá vaknar spurningin um hvort hið meinta dýpi, 01 kílómetri, sé virkilega rétt. 

Bárðarbunga var löngum lítið í fréttunum, enda mælar fáir miðað við það sem síðar varð, en með gosinu í Holuhrauni stimplaði hún sig rækilega inn sem hálfgerður mafíósi í miðju hins íslenska eldvirka svæðis, sem liggur ofan á öðrum af tveimur stærstu möttulstrókum jarðar; enn hinn er undir Hawai-eyjum. 


mbl.is Skelfur við Bárðarbungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitaði í hálftíma að götu í Kópavoginum.

Það er auðvitað pínlegt að leita að bíl sínum og finna hann ekki, en lítið skárra er að leita að götu eins og síðuhafi lenti í í kvöld.  

Að vísu er gatnakerfið í Kópavogi löngu þekkt eftir að Ríó-tríóið gerði grín að því á heimavelli, en í kvöld bættist enn ein lífsreynslan af því við hjá síðuhafa ofan á Hamraborgarsvæðið og iðnaðarhverfið við Smiðjuveg og Skemmuveg, þar sem í skrám eru núsnúmer fyrirtækjanna kyrfilega skráð, en húsin öll númerslaus þegar á að fara að leita að þeim. 

Erindið í kvöld átti að taka enga stund, að fara í hús eina af helstu og lengstu götunum í vesturhlutanum og ná í fyndinn leikmun, einn af nokkrum leikmunum og tækjum, sem leika hlutverk í söngskemmtuninni Syngjum saman í Hannesarholti á morgun. 

Tímahrak í undirbúningnum leiddi til þess að ætlunin var að rata umsvifalaust að húsinu, þar sem leikmunurinn var geymdur. 

En allt gekk á afturfótunum í Kópavoginum í kvöld.

Þannig er um hnúta búið að þegar maður ekur eftir lengstu götunum þar, sýna skiltin á báðar hendur kyrfilega nöfnin á þvergötunum en ekkert skilti sýnir manni eftir hvaða götu maður er að aka. 

Eftir að hafa ekið langs og þvers um vesturbæinn kom í ljós, að fjórum sinnum hafði verið ekið fram hjá skilti með nafni brautarinnar, sem var hálffalið á bak við gangbrautarskilti. 

Og auðvitað var leitun að húsi með húsnúmeri, sem sæist. 

Loks var maður einn á tröppum húss síns spurður um götunúmerin á svæðinu, þar sem maður var orðinn heitur, og var svarið þar, að öll húsnúmerin á þessu svæði tilheyrðu öðrum götum en löngu götunni sem þau voru við.   

Nú tók við leit að símanúmeri til að fá leiðsögn, og brá þá svo við, að þegar bakkað var út frá húsi mannsins, sem talað hafði verið við,  sást alla leið þaðan til þeirrar manneskju sem hafði varðveitt leikmuninn og var komin út í dyr með hann. 

Eftir á að hyggja hefði verið skárra að gefa sér fyrst tíma til að skoða almennilegt kort af bænum. Sá tími hefði margborgað sig. 


mbl.is Leitaði að bílnum í 25 mínútur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skortur á innviðum dragbítur rafbílavæðingar. Tævanbúar með snilldarlausn.

Jafn hér sem í öðrum löndum er skortur á innviðum á borð við hraðhleðslustöðvar og öðrum hleðslumöguleikum einn helsti dragbítur rafbíla- og rafhjólavæðingar. Gogoro. Skiptistöð

Ef uppbyggingin er of hæg, hefur hún hamlandi áhrif fram tímann, og því er meira að segja hægt að segja, að uppbyggingin eigi að vera hraðari rafbílasalan. 

Gott dæmi um uppbyggingu innviða, sem reyndist vera nauðsynleg til að greiða fyrir rafvæðingu í samgöngum, er bygging 757 skiptistöðva fyrir rafhlöður vespuvélhjólaflotans á höfuðborgarsvæði Tæpei á Tævan, en á svæðinu búa um 350 þúsund manns. Gogoro rafbifhjól

Með því að hafa skiptistöðvarnar svona margar, var hægt að búa þannig um hnúta, að maður á rafhjóli gæti séð í snjallsíma sínum, hvar sú skiptistöð væri, sem væri næst honum og væri með nóg af hlöðnum rafhlöðum til að skipta út. 

Sjálfur gerningurinn gæti ekki verið einfaldari: Rennt að sjálsalanum og snjallsíminn notaður til að versla á meðan tvær hlaðnar rafhlöður eru teknar út og tvær alveg eins tómar rafhlöður úr hjólinu settar inn. 

Tekur fáar sekúndur og ferðinni á hjólinu haldið áfram. 

Aðeins létt rafbifhjól geta eins og er orðið hluti af þessari byltingu, því að rafhlöðurnar í rafbílum eru meðaltali hátt í hálft tonn, en rafhlöðurnar tvær í vespuhjólinu, sem er af gerðinni Gogoro, vega aðeins um fimmtán kíló samtals. 

Hjólin ná 95 km hraða og eru því afar afkastamikil farartæki. Skiptistöðvarnar hafa þann kost, að hægt er að fá alveg fullhlaðnar rafhlöður í þeim, og einnig er það minnsta mál fyrir hvern hjóleiganda, að kippa rafhlöðunum tveim úr hjólunum og hlaða þær inni í íbúð til fulls. 

Þannig er hægt að sleppa því að hafa sérstaka hleðslustöð við hvert hús, ef menn vilja spara sér þann kostnað og fyrirhöfn.  

 


mbl.is ON setur upp um 40 hleðslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oft er nauðsynlegt að varpa ljósi á tölur í umhverfismálum.

Í umræðunni um loftslagsbreytingar og umhverfismál er nauðsynlegt að hafa réttar tölur við hendina, en ekki síður nauðsynlegt að þær séu notaðar af vandvirkni til útskýringar á málsatvikum, 

Með því að varpa tölum út í loftið án nokkurra útskýringa eða samanburðar, er oft gagnslaust að ræða mál eða komast að nothæfri niðurstöðu. 

Í umræðunni á netmiðlum að undanförnu hafa sumir farið mikinn í því að birta tölur, sem einar og sér hafa ekki varpað réttu ljósi á það viðfangsefni að minnka útblástur koltvísýrings. 

Þar má nefna tölur um útblástur frá eldfjöllum og jarðvarmasvæðum heims, sem áttu að sýna, að sá útblástur væri meiri en frá bílaflota jarðarbúa. 

Þegar nánar er að gætt kemur í ljós, að útblásturinn í samgöngum er hundrað sinnum meiri en útblástur eldfjallanna. 

Af hverju er hann svona mikill í samgöngunum?

Ástæðan er einföld og hægt að styðja hana með einföldum og óyggjandi tölum, sem ekki er deilt um. 

Meðal co2 útblástur bíls er líkast til um 150 grömm á hvern ekinn kílómetra. Ef meðalakstur bíls er um 12 þúsund kílómetrar á ári verður heildarútblástur hvers bíls á ári um tvö tonn á ári. 

Bílarnir á Íslandi eru ríflega 300 þúsund, þannig að hér á landi blása bílarnir um 600 þúsund tonnum á ári út í loftið. 

Í fréttum að undanförnu hefur verið upplýst að niðurdæling við Hellisheiðarvirkjun sé um 12 þúsund tonn á ári.

Það er stór og glæsileg tala ein og sér, en þetta samsvarar 2% af útblæstri bílaflotans og sýnir hve seinlegt það verður að ná sama árangri við niðurdælingunni og fæst með því einfaldlega að skipta sem hraðast um bíla og taka í notkun bíla með engum útblæstri. 

Svipað á við um tölur varðandi útblástur á heimsvísu, þar sem hinn gríðarlegi fjöldi bíla gerir það að verkum, að langmestur árangur næst með því að innleiða orkuskipti; bílar heimsins eru nefnilega hátt í 1000 milljónir, einn milljarður. 

Flugvélar heimsins eru þúsund sinnum færri, og þess vegna er áætlað að útblástur þeirra sé í kringum 15 prósent af heildarútblæstrinum. 

Gallinn er þar að auki sá, að tæknilega er, eins og nú standa sakir, ómögulegt að rafvæða flugið á þeim vegalengdum, sem mestu máli skipta. 

Því veldur hin mikla þyngd rafhlaðnanna, sem nota þarf, og gagnstætt bílum og einkum lestum, þar sem ekki er við það að glíma að lyfta þyngd í hvert sinn upp í hagkvæma hæð, er þessi upplyfting í hverju flugi ekki fyrir hendi nema að sára litlu leyti í landsamgöngum.  


Stjórnarflokkarnir með 38% en stjórnin sjálf mun meira.

Stjórnarflokkarnir þrír eru samtals með 38 prósent fylgi í skoðanakönnun MMR, en aðrir flokkar samtals með 62.  Vaxandi fylgi Miðflokksins er líklegast af svipuðum toga og vaxandi fylgi þjóðernissinnaðra flokka á Vesturlöndum yfir heildina litið. 

Allt frá myndun núverandi ríkisstjórnar hefur fylgið við stjórnina verið mun meira en samanlegt fylgi stjórnarflokkanna. 

Þetta þarf ekki að vera eins skrýtið og það sýnist; það má álykta sem svo að margir kjósendur séu að vísu ekki ánægðir með hvern stjórnarflokk útaf fyrir sig, heldur sjái ekki nú, frekar en í síðustu kosningum og í kjölfar þeirra, að hægt sé að finna annað stjórnarmynstur, sem gengur upp. 

Í því efni hefur mikið fylgi Miðflokksins mikil áhrif, því að líkt og í sumum nágrannalöndunum hugnast öðrum stjórnmálaflokkum ekki vel að hafa samvinnu við þann flokk. 

Ef fylgi hans er sett út fyrir sviga og dregið frá 62 prósentunum, sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa í könnun MMR, verður útkoman 45 prósent, sem er ekki svo langt frá 38 prósentum stjórnarflokkanna. 

 

 


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokksins nær nýjum lægðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband