Verður Trump ekki helst að reka flesta nema sig?

Í sögu Bandaríkjanna hefur vafalítið aldrei sest maður í stól forseta, sem hefur jafn oft haft uppi stærstu orð um eigin yfirburði yfir aðra á jafn mörgum sviðum.

Vart verður komið tölu á fleiri setningar nokkurs mann, sem byrja á "...enginn veit betur en ég...", "...enginn hefur gert betur en ég...", "...enginn kann betur en ég..."

Þessu fylgja endalausar orð og gerðir þess efnis að það þurfi að reka fólk úr starfi, og þá ekki síst fólk, sem hann hefur ráðið sjálfur. 

Þetta fyrirbæri er rökréttur fylgifiskur hins takmarkalitla oflætis forsetans. 

Hann var vart sestur í valdastól þegar hann dæmdi dómarastétt Bandaríkjanna óhæfa vegna þess að hún dæmdi ekki í einu og öllu eftir hans skilningi. 

Fljótlega á eftir fylgdu alþjóðlegar vísindastofnanir og vísindasamfélagið allt, sem væri skipað gersamlega óhæfu fólki, sem kæmist ýmist að vitlausum niðurstöðum eða falsaði þær. 

Í stað þessa óhæfa fólks sagði Trump að þyrfti að ráða "alvöru" vísindamenn, sem kæmust að niðurstöðum, sem væru þóknanlegar honum. 

Í anda söngsins "Sumarliði fullur": "Ég veit allt. Ég skil allt." 

Í sumum tilfellum er Trump búinn að reka fólk og ráða annað, sem hann hefur síðan rekið líka. 

Núna er hann kominn í þann ham að loka ríkisstofnunum með harðri hendi, jafnvel um mjög langan tíma. Það er óbein útgáfa af því að reka úr starfi að reka þetta fólk með því að loka vinnustöðum þess. 

Ef Trump verður iðinn við þennan kola þyrfti hann að reka flesta nema sig sjálfan. 

Hins vegar er hætt við því að hin óhæfa dómarastétt muni gera það erfitt fyrir hann á meðan hann rekur ekki dómarana fyrst.  


mbl.is Trump sagður vilja reka seðlabankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margra áratuga lausung skýtur upp kollinum aftur og aftur.

Í örlitla vensla-, tengsla- og kunningjasamfélaginu, með öllu því, sem af því leiðir og nefnist íslensk þjóðfélag, var það einn stærsti brandari gróðærisáranna fyrir Hrun þegar erlend könnun átti að leiða í ljós, að íslenska þjóðfélagið væri með minnsta spillingu heims. 

Síðuhafi þekkir að vísu ekki mörg dæmi um slíkt í borgarkerfinu í Reykjavík, en nógu mörg til að þau varpi ljósi á margra áratuga lausung hvað snertir eftirlit, aðgerðir og ábyrgð á mörgum sviðum. 

Smá dæmi: Verktaki, sem er að malbika kafla Háaleitisbrautar, lokar 700 manna hverfi áður en fólk fer til vinnu án þess að hafa gefið neina viðvörun. 

Aðspurður bregst ókvæða við kvörtun síðuhafa, svo liggur við að hann leggi hendur á hann, segir aðfinnsluna byggða á nöldri út af máli, sem síðuhafi hafi ekkert vit á. 

Sem sé því, að samkeppnin í útboðunum við verk fyrir borgina sé svo hörð, að það sé ekkert fé til að vasast í því að setja upp aðvörunarmerki. 

Síðuhafi bendir á að hægt hefði verið að dreifa miðum í húsin kvöldið áður, en við þá athugasemd tryllist verkstjórinn alveg. 

Síðu hafi hðrfar og leitar upplýsinga hjá borginni. Í ljós kemur að verktakinn samþykkti útboð, sem gerir honum skylt að láta íbúana vita hvað til standi. 

"En hvað, ef hann gerir það samt ekki?" er spurt og svarið er athyglisvert: 

"Því miður höfum við ekki mannskap til þess að gera neitt í svona máli" er svarað, eins og ekkert sé sjálfsagðara. 

Niðurstaða: Borgin ber ábyrgð á því að haga málum þannig, að svona mál og hliðstæð mál koma aftur og aftur upp. 

Annað mál: Gúmmívinnstofubruninn fyrir þrjátíu árum, sem leiddi í ljós eftir málarekstur í nokkur misseri stórfelldar misfellur hjá Slökkviliði Reykjavíkur, sem langt mál væri að rekja. 

Til að einfalda málið sýnir niðurstaðan, gerbreytt og betri tilhögun nokkrum misserum seinna hve alvarlegt þetta mál var, sem keppst var við að mistúlka og þagga niður. 

Fleiri mál mætti telja hjá mismunandi borgarmeirihlutum, sem sýna sleifarlag æ ofan í æ, þar sem hinar "séríslensku aðstæður" leiða til þess að enginn er ábyrgur fyrir neinu. 

Erlendis segja æðstu yfirmenn oft af sér í hliðstæðum málum, en hér er ábyrgðinnin dreift á marga, þá sem framkvæma axarsköftin og þá sem vita hvað er að gerast en þora ekki að gera uppskátt um það, oft frá neðstu undirmönnum og upp í topp. 


mbl.is Víkur sjálf ef Dagur víkur ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrímið í Húnaþingi var hreint og rammíslenskt í dag.

Hrímþokan sem lá yfir Reykjavík í gær olli því að hrím settist á jörðina og hvað sem var. Húnaþing. Hross.Vetur 22.12.18

Þess vegna kostaði það vinnu bæði í gærkvöldi og í morgun að skafa hrímið af fararskjótanum, sem ég fór á til Akureyrar til þess að árita ljósmyndasöngljóðabókina Hjarta landsins hjá Pennanum-Eymundsson og Nettó Glerártorgi. 

Á leiðinni bar margt fyrir augu, meðal annars alhvít jörð í Húnvatnssýslu af hrími, sem greinilega hafði sest þar á jörðina á alllöngum tíma. 

Myndin er tekin Miðhópinu af útigangshrossum með Skagastrandarfjöllin í baksýn. 

Og engin hætta á nein óhrein mengunarefni hafi verið í þessari rammíslenska hrímlagi.Akureyri. Áritun 22.12.18

Þetta var eini hluti leiðarinnar þar sem sem svona þykkt hrímlag var að sjá.  

Neðri myndin er af fararskjótanum, Suzuki Fox 410, árgerð 1988, komnum á leiðarenda. 

Það hefði verið ennþá meira stuð að fara á vespuhjólinu Létti (Honda PCX) eins og til stóð, en á síðustu stundu kom í ljós leki úr afturdekki og ekki tök á laga það í tíma. 


mbl.is Segir þokuna í gær mengunarþoku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nánasarleg hækkun, svipað fyrirbæri og nú skekur Vesturlönd.

Áhöld eru um hvort hækkun persónuafsláttar og skattleysimarka um 4,17% nái að dekka þá fyrirsjáanlegu hækkun verðlags sem virðist blasa við á næsta ári. 

Í raun hefur því ekkert breyst í huga Bjarna Benediktssonar miðað við það sem Geir Haarde sagði í sjónvarpskappræðum í miðju gróðærinu 2007, að efnahagslífið réði alls ekki við neina hækkun. 

Þetta sagði hann þótt honum væri bent á, að persónuafslátturinn og skattleysismörkin hefðu að raungildi verið miklu hærri 1995 í lok samdráttarskeiðs. 

Svipað er að gerast hér og fer nú um eins og faraldur um æ fleiri Vesturlönd, álögur hækkaðar á almenning, sem bitnar verst á láglaunafólki á sama tíma sem elítan og hinir auðugri hygla sér og sínum. 

Af því sprettur annar faraldur, fyrirbæri sem Frakkar nefna Gulu vestin, auk vaxandi fylgis hópa sem nærast á óánægju og óróa. 


mbl.is Persónuafsláttur og skattleysismörk hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snærisspotta Gísla á Uppsölum var stolið. Hvers konar hugarfar?

Hver getur það verið sem stelur 180 kílóa þungum legsteini, sem er aðeins ársgamall og flytur hann í burtu af leiðinu? Til hvers? Hvaða hugarfar er að baki?

Hvaða hugarfar er að baki hjá þeim sem stal snærisspottanum, sem Gísli á Uppsölum skildi eftir í stiganum upp á loftið þar sem hann bjó, til þess að hjálpa sér til að vega sig upp á skörina?

Er hann með spottann heima hjá sér til þess að monta sig af honum við vini sína, þegar þeir koma í heimsókn? Hvers konar vini á hann þá? 

Síðuhafi og vinir hans, sem stóðu að því að bjarga húsinu á Uppsölum frá eyðileggingu, voru svo barnalegir að halda, að það nægði að segja opinberlega að við treystum hverjum og einum gesti til þess að vera safnvörður. 

Sú ósk var fótum troðin, þannig að ef þeir, sem þarna koma núna, eru spældir yfir því að dyrnar séu læstar, reyndist annað óumflýjanlegt en að loka húsinu fyrir umferð gesta.  


mbl.is Legsteini stolið úr Garðakirkjugarði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti spítali Evrópu reis næstum þegjandi og hljóðalaust.

Það er ekkert náttúrulögmál, sem nú er að gerast á Landsspítalalóðinni og verður þannig áfram næstu árin, þótt fyrir áratugum hafði verið tekin ákvörðun um að fara sömu leið og sumir Norðmenn nefndu hiklaust "víti til varnaðar", bútasaumurinn við spítalann í Þrándheimi. 

Það voru menn en ekki náttúruöfl, sem tóku þessa ákvörðun og fylgdu henni eftir með blekkingaleik, sem áður hefur verið lýst hér á síðunni og í sérstakri blaðagrein á grundvelli sérstakar ferðar síðuhafa til Oslóar og Þrándheims 2005. 

Blekkingarnar fólust meðal annars í því, að ráðamenn í þessu máli kölluðu aðeins til erlenda sérfræðinga til að greina í fjölmiðlum og á ráðstefnum frá byggingu spítala, sem þeir höfðu sjálfir hannað með aðferðinni, sem kallað var "vítið til varnaðar í Þrándheimi." 

Þjóðin fékk aldrei að heyra sjónarmið þeirra, sem fóru þá leið sem farin var í Osló nema óbeint, örstutt, í umfjöllun minni um málið.

Í stuttu máli ákváðu Norðmenn, að þjóðarspítali þeirra skyldi rísa á auðri lóð þar sem hægt var að hanna allan þennan spítala á þann veg, að hann yrði byggður í heilu lagi á samfelldan hátt og flutt inn í hann fullbúinn, sem besta spítala Evrópu að margra dómi eftir að hann hafði risið næstum þegjandi og hljóðalaust.  

Hagræði þessa, þegar upp var staðið, fólst í einu og öllu í þessu höfuðatriði um hreina nýsmíði. 

Úr því sem komið er, lítur hins vegar út fyrir að fyrirsjáanlegar, sársaukafullar byggingar-skurðaðgerðir árum saman, verði hlutskipti þeirra sjúklinga og starfsfólks, sem þurfa að búa við ástand líkt því sem lýst er í tengdri frétt á mbl.is. 

Er vonandi að menn beri gæfu til þess, úr því sem komið er, að draga þetta stríð ekki óhæfilega á langinn í stíl við hið langvinna stríð við að setja upp jáeindaskannann. 

Það hefur verið farið mikinn á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum um vandræðaganginn hjá fjórum þingmönnum Miðflokksins í Klaustursmálinu. Flokkurinn má þó eiga það, að í Landsspítalamálinu hefur hann barist fyrir nauðsynlegri stefnubreytingu í spítalamálum, en árangurslaust. 

Sú barátta hófst, því miður, of seint. 


mbl.is Íhuga flutninga vegna sprenginga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsjáanleg byrjun á öðru verra? "Mannleysu"stríð.

Nú eru kominn allmörg ár síðan hér á síðunni var varað við þeirri ógn, sem stafa myndi af annars frábærri uppfinningu, drónunum, og hvatt til þess að gert yrði mikið átak til þess að bregðast við þeim möguleikum, sem hin nýja tækni gæfi til þess að gera hana að gríðarlegri ógn. 

Því miður virðast þessar áhyggjur ekki hafa verið ástæðulausar, sérstaklega varðandi andvaraleysið gagnvart drónatækninni, því að undrun vekur hve lítils bresk lögregla virðist mega sín gagnvart ógninni við Gatwikflugvöll.

Það er stórmál, ef nýjustu atburðir reynast vera fyrirsjáanlegt upphaf á öðru og mun verra, fyrirbæri, sem kalla mætti "mannleysu"stríð í útvíkkuðum skilningi.  


mbl.is Lögregla leitar stjórnanda drónanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir rólega en með vaxandi þunga í gamalkunnugt far?

1939 var framkvæmd fyrsta hressilega gengisfellingin þegar ljóst var, að íslenska krónan gæti ekki fylgt þeirri dönsku eins og hún hafði gert upphaflega í kjölfar fullveldisins. 

Raunar hafði hægri stjórn hækkað gengið á þriðja áratugnum af svipuðu hugarfari og síðar gerðist í mun stórfelldari mæli hjá annarri hægri stjórn á árunum fyrir Hrun 2008, og það átti eftir að koma í bakið á mönnum, bæði þegar kreppan skall á hér á landi 1930 og 31 og þegar efnahagshrunið hófst veturinn 2007-2008. 

Í þau tæpu 80 ár síðan gengisfellingarþróunin og verðbólgan hafa ríkt að mestu, hefur krónan fallið um það bil 600 falt og eftir nokkur afbrigðileg og einstæð uppgripaár vegna sprengingar í ferðaþjónustu og lágs olíuverðs lengi vel, sem skópu möguleika á háu gengi, er nú komið að því að varla verður lengur komist hjá því að verðbólgan fari aftur af stað. 

Spurningin er bara, í hve miklum mæli það verður. 

Ráðandi íslensk öfl hafa hins vegar algerlega vanrækt að nota dýrmætt tækifæri til að lagfæra kjör hinna verst settu, heldur þvert á móti skóflað að elítunni og hinum best settu þvílíkar hækkanir launa, að það hefur verið eins og blautt handklæði framan í þá, sem minnst mega sín. 

Valdataka róttækari afla í stærstu verkalýðsfélögunum verður kennt um það, ef aftur kemst á gamalkunnugt átakaástand á vinnumarkaði, en það var græðgi ráðamanna og þeirra og þeirra eigna- og tekjumestu ( að undanteknum forseta Íslands)sem var ástæðan fyrir þessari valdatöku. 

Þess vegna stendur þjóðfélagið nú á öndinni af óvissu og kvíða á sama tíma og hægt hefði verið að skapa hér möguleika á áframhaldandi stöðugleika og minnkandi misrétti.  


mbl.is Mesta verðbólga síðan árið 2013
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta byrjaði sennilega sumarið 2007.

Vegna þess hve jarðskjálftamælum og öðrum mælum hefur fjölgað mjög ár frá ári, er stundum erfitt fyrir vísindamenn að átta sig til fulls á því, hvernig hægt sé að bera saman "skjálftahrinur" nútímans við aðdraganda eldgosa í fortíðinni. 

Því lengra aftur í tímann, sem farið er, því minna er vitað um það, hvaða vísbendingar voru á kreiki áður en til stórtíðinda dró. 

Sumarið 2007 verður þó að nefna varðandi það, að þá hófst skjáltahrina sunnan undir fjallinu Upptyppingum, sem er um 15 kílómetrum fyrir sunnan Herðubreið. Fiat 126, Fagridalur, Herðubreið

Þessi skjálftahrina stóð með hléum í heilt ár, og færðist smám saman til norðurs og síðar norðausturs í svonefnda Álftadalsbungu, sem er gömul dyngja suðaustur af Herðubreið. 

Á tímabili flögraði að síðuhafa að ef eldgos yrði á þessu svæði, yrði rólegt gos í Álftadalsdyngju kannski það skásta hvað varðaði það að verða "túristagos." 

Á myndinni sem birtist hér á síðunni er horft til norðurs yfir Fagradal í átt til Herðubreiðar í rykmistrinu, og er Álftadalsdyngja hægra megin á myndinni. 

Bíllinn er Fiat 126, áreiðanlega langminnsti bíllinn, sem ekið hefur verið um jeppaslóðirnar á þessu svæði, þeirra á meðal hina grófu jeppaslóð Álftadalsleið. 

Þaðan færðust skjálftarnir síðan til vesturs yfir í norðurhluta Krepputungu og voru í nokkurn tíma flestir undir brúnni á Kreppu. 

Enn fóru skjálftarnir á stjá og voru næstu vikur og mánuði á svæði frá Herðubreiðartöglum og norður og norðaustur fyrir Herðubreið. 

Síðan fjöruðu þessir skjálfar að mestu út, en hafa samt stungið upp kollinum við og við undanfarin ár. 

Hrinan núna á sér margar smærri hliðstæður. 

Það er orðið svo langt síðan gosið hefur á svæðinu fyrir norðan Öskju að engar hliðstæður mælinga frá þeim tímum er að finna. 


mbl.is Hundrað skjálftar við Herðubreið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Man nú enginn Ólaf Thors, Bjarna Ben eldri og Eðvarð Sigurðsson?

Á fyrstu árum Viðreisnarstjórnarinnar 1959-1971 ríkti býsna hörð togstreita á milli Verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar. 

Sumarið 1961 var hart verkfall hinna fjölmennu félaga verkamanna, sem enduðu með kjarasamningum upp a 13 prósent kauphækkun. 

Strax í kjölfarið felldi stjórnin gengi íslensku krónunnar um, - ja, - auðvitað 13%. 

Skýr skilaboð og verðbólgan óx og rýrði kjarabotina að miklu leyti. 

Um áramót 1962-63 stefndi í enn harðari rimmu, og var borin fram á þingi mjög stíf tillaga um að þingið gripi inn í deiluna á þann hátt, að orðið "stríðsyfirlýsing" var notað. 

Síðuhafi minnist enn kvöldsins, þegar útlitið var afar svart. 

Á síðustu stundu tókst að afstýra því að allt færi upp í loft með því að tillagan var dregin til baka, að miklu leyti fyrir frumkvæði Ólafs Thors, eins konar svanasöngs hans í stjórnmálum, en í kjölfarið hófst nýtt tímabil í kjaradeilum hér á landi, kennt við svonefnt júnísamkomulag 1964 og annað júnísamkomulag 1965. 

Þar var farin mun víðtækari leið til inngrips af hálfum ríkisvaldsins en áður hafði tíðkast, ef undan er skilin lausn sex vikna verkfallsins 1955. 

Kjölfestan í þessari stefnu var sérstakt trúnaðarsamband Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og Eðvarðs Sigurðssonar, formanns verkamannafélagsins Dagsbrúnar. 

Deilurar þessi ár leystust með stórbrotinni félagslegri lausn í húsnæðismálum, auk fleiri mikilsverðra atriða. Stór hluti nýs íbúðahverfis í Breiðholti var ágætt dæmi um slíkt. 

Á árunum eftir 1955 var til dæmis lagður grundvöllur að því lífeyrissjóðakerfi, sem vaxið hefur æ síðan. 

Þegar þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben komust til valda 2013, virtust þeir ekkert hafa lært af því sem að ofan er nefnt eða þá ekki að hafa vitað neitt um það, nema hvort tveggja sé. 

Spurningin ef hvort Bjarni hefur lært eitthvað síðan, og verður að vona að forsætisráðherrann geti haft einhver áhrif til þess að finna lausn. 


mbl.is „Stríðsyfirlýsing“ hjá Bjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband