Misstórir "jafningjar."

Sem efnahagsveldi stendur Rússland að baki Spáni, og Kalifornía ein og sér er miklu meira efnahagsveldi en Rússland. 

En það er ekki allt sem sýnist. Vladimir Pútín hefur spilað vel úr sínum spilum. Enn sem fyrr bera Bandaríkin höfuð og herðar yfir önnur kjarnorkuveldi og Pútín hefur eflt rússneska herinn það mikið og beitt honum af þvílíkri hagsýni og lagni, að hann hefur náð því markmiði sínu að standa Bandaríkjamönnum alveg á sporði á aðal átakasvæðunum í Sýrlandi og Írak. 

Trump og hans fylgismenn hafa gagnrýnt harðlega framgöngu Bandaríkjamanna á þessu svæði, vegna þess hve lítinn árangur hún hefur borið, og miðað við það sem nú er í gangi, virðist svo sem stefna Trumps sé sú að skárra sé að hafa samvinnu við Rússa á svæðinu og láta þá vinna með Bandaríkjamönnum gegn ISIS heldur en að vera í erfiðri samkeppni við þá með hættu á árekstrum. 


mbl.is Berjast saman gegn Ríki íslams
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig verður þá framhaldið?

Stundum hafa ríkisstjórnir hér á landi verið með feikna mikið fylgi í upphafi ferils síns en síðan hrunið í fylgi eftir því sem liðið hefur á starfstíma þeirra. 

Gunnar Thoroddsen hafði til dæmis miklu meira fylgi innan kjósenda Sjálfstæðisflokksins þegar hans stjórn tók við völdum 1980 heldur en svaraði til fjölda þeirra Sjalla-þingmanna en sem studdu hana.

En fylgið dalaði mikið þegar á leið.

Svipað er að segja um síðustu tvær ríkisstjórnir, sem höfðu góðan meirihluta í skoðanakönnunum í upphafi ferils síns, en döluðu niður undir það fylgi sem nýja ríkisstjórnin hefur nú.

Ef framhaldið verður núna með svipaðu fylgistapi og var hjá síðustu ríkisstjórnin verður það lægri prósentutala en hefur nokkurn tíma sést áður.

Það verður því óvenju spennandi að fylgjst með því hvernig framhaldið verður.

Ef stjórnin verður í vandræðum vegna tæps meirihluta og óánægju baklands eins eða fleiri stjórnarflokkanna vegna lítils fylgis, sem fer enn neðar,  getur margt gerst, því að það gæti orðið vafasamt að leita til Framsóknar um hlutleysi eða stuðnings vegna þessa sama baklands.    


mbl.is Lítill stuðningur við ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misskilningur að fjöldi fulltrúa sé línulegt hlutfall af mannfjölda.

Það er gegnumgangandi misskilingur í umræðum um fjölda þingmanna og fjölda í sveitarstjórnum að miða þennan fjölda beint við mannfjölda ríkja og sveitarfélaga. 

Væri svo myndi einn þingmaður nægja á Bandaríkjaþingi og hann væri samt hærra hlutfall af mannfjölda þess ríkis heldur en 63 þingmenn eru af mannfjölda Íslendinga. 

Þetta er vegna þess að fjöldi viðfangsefna í samræmi við lög og reglugerðir fylgir ekki mannfjöldanum línulega. 

Til dæmis er regluverkið, sem óbein aðild okkar að ESB í gegnum EES, jafnflókið fyrir Íslendinga og fyrir Evrópuþjóðir sem  eru meira en hundrað sinnum fjölmennari. 

Þegar verkefnin í borgarstjórn Reykjavikur eru skoðuð sést, að borgarfulltrúarnir eru greinilega of fáir til þess að þeir komist yfir öll þau verkefni sem borgarstjórn og nefndir borgarinnar þurfa að sinna. 

Þetta kallar á hættu á fúski jafnframt því að það er heilmikil vinna fólgin í því að vera samviskusamur varaborgarfulltrúi og heppilegra að slíkur fulltrúi hafi bein tengsl við kjósendur eins og aðalfulltrúi. 

Til er erlend regla um fjölda fulltrúa, sem sýnir þetta og þar er fjöldinn ekki línulegur miðað við íbúafjölda.  Hún sýnir einnig það að Alþingismenn eru ekki of margir, þótt þeir séu hlutfallslega fleiri en þingmenn hjá hundrað sinnum stærri þjóðum. 

Á árunum 1978-1986 ríkti asnaleg togstreita í borgarstjórn Reykjavíkur um fjölda borgarfulltrúa þar sem fulltrúunum var fjölgað og fækkað á víxl. 

En það ætti að nægja að setja skaplegt lágmark fulltrúa í lög, til dæmis 21 fulltrúa og leyfa borgarstjórn síðan að fjölga þeim og standa reikningsskil fyrir því á eðlilegan og lýðræðislegan hátt í kosningum. 

15 fulltrúar er sama tala og hefur verið frá því fyrir um átta áratugum þegar borgarbúar voru aðeins fjórðungur af því sem þeir eru nú, sem er raunar ekki aðalatriðið, heldur það að verkefnin, til dæmis í frumskógi laga og reglugerða nútíma þjóðfélags, hafa margfaldast að fjölda og umfangi.


mbl.is Afnema sjálfvirka fjölgun fulltrúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvannadalshnjúkur og Öræfajökull. Ekki Grímsfjall í Vatnajökli.

Eins og sést á meðfylgjandi korti í frétt mbl.is af Vatnajökli, þar sem Öræfajökull er eins eins og rani sem gengur suður úr Vatnajökli, er Grímsfjall nokkra tugi kílómetra frá þeim stað, sem myndin með fréttinni er tekin á, þar sem sést yfir Freysnes upp til Öræfajökuls og Hvannadalshnjúk. Það er í skásta falli afar langsótt að setja sem titil undir þessa mynd: "Vatnajökull."

Það er skárra að birta enga mynd en þessa, því að þetta landslag er í engu líkt Grímsvötnum og svona álíka að birta mynd af Henglinum og setja sem undirtitil "Reykjanesskagi" í frétt af óhappi á Keili. Kverkfjöll. Herðubreið

Það hefði verið upplagt að setja hér inn mynd af hinu raunverulega Grímsfjalli, en af því að ég er staddur á Akureyri, láðist mér að taka með mér harðan disk sem ég á fyrir sunnan með myndum af því. 

En ef leið ævintýramannsins liggur um Kverkfjöll í norðurjaðri Vatnajökuls, set ég hér inn mynd af Kverkfjöllum, með Herðubreið í baksýn og hina flötu ísbreiðu Vatnajökuls í forgrunni. 


mbl.is „Harðneitar að koma til byggða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2007 í fullu veldi, að tífalda allt á ofsahraða!

Nú eru menn búnir að gleyma því hvert gullæðið fyrir 2008 leiddi okkur. Á 2006 til 2007 héldu menn því ekki aðeins fram að íslenska "efnahagsundrið" fælist í snilli ofurmenna, sem hefðu fundið upp alveg ný lögmál fjármála og hagfræði, heldur hvöttu sumir, svo sem Hannes Hólmsteinn í "að bæta í" af enn meiri ákafa en áður.

Þegar farið er yfir það sem til stendur núna í laxeldinu hér á landi, meðal annars að tífalda framleiðsluna á metttíma í gull- og græðgisæði sem gefur bankabólunni og því sem fólst í samheitinu 2007 ekkert eftir, blasir nakin gróðafíknin við í öllu sínu veldi. 

Árið 2006 munaði hársbreidd að hið uppblásna og hátimbraða "snilldar"-bankakerfi hryndi, en viðbrögð við því að sleppa naumlega með allar aðvörunarbjöllurnar hringjandi voru aðeins þau "að bæta í" og tryggja með því að Hrunið, sem á eftir fór, yrði sem allra hrikalegast. 

Í ofanálag við stórhættu á óförum vegna mengunar og annars, sem fer úrskeiðis í laxeldinu í Noregi ætla menn að endurtaka það, sem gerst hefur þar í landi, að örfá stórfyrirtæki og auðmenn verði fljót að sölsa laxeldið hér á landi undir sig og verða svipaðir greifar og kvótagreifarnir í fiskveiðunum.   

Tífalda! Tífalda! Tífalda! Hver ósköpin liggur svona á? Og alveg eins og í stóriðjuæðinu að réttlæta hvað sem er með því að það sé eina færa leiðin til að "bjarga landsbyggðinni"?


mbl.is „Við erum að feta í fótspor feigðarinnar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannlíki Trumps.

Sannleikur er ágætt orð sem hefur hreina merkingu. En nú er kominn fram annar sannleikur, sannleikur, sem hann er svo mikið hans eigin, að hann vílar ekki fyrir sér að segja að sólin hafi skinið á sig við embættistökuna þótt öll heimsbyggðin hafi séð að það rigndi allan tímann, þótt það væri ekki mikið. 

Trump segist hafa dregið að sér fleiri til að vera viðstadda athöfnina en nokkur annar forseti hafi gert, þótt myndir, sem teknar hafa verið af viðstöddum hjá Obama sýni annað. 

Í tengslum við þetta hefur verið notað orðið "alternate truth", sem þýða mætti að hluta með íslensku nýyrði, sannlíki, samanber smjörlíki og smjör. 

Trump segist hafa fengið meirihluta atkvæða í kosningunum þótt Hillary hafi fengið 2,9 milljónum fleiri atkvæði. Þau atkvæði hafi verið frá fólki sem ekki hefði átt að hafa atkvæðisrétt.

Trump segist ætla að láta Mexíkóa borga fyrir múrinn mikla með 20 prósenta tolli, sem verði settur á mexíkóskar vörur í Bandaríkjunum.  

En þessar vörur hafa selst í Bandaríkjunum, vegna þess að bandarískir neytendur hafa sparað sér peninga með því að kaupa þær og nú hafa hagfræðíngar reiknað það út að bandarískir neytendur muni borga fyrir múrinn þegar öll kurl koma til grafar.

Trump hefur alla ævi talið sig hafa sigrað í öllu sem hann hefur tekið sér fyrir hendur, hafa unnið málaferli sem hann tapaði og verið sigurvegari í gegnum gjaldþrot sín.

Hann segist hafa verið besti hafnarboltamaðurinn í New York þegar hann var ungur, þótt engin gögn hafi fundist um það.  

Trump talaði alla innsetningaræðu sína um það sem hann hefur talað um alla sína hunds- og kattartíð, um sig sjálfan, það sem hann ætlaði að gera og það sem hann hugsaði og gerði. 

Trump nálgast nú að vera að eigin dómi jafn upphafinn og goðum líkur og annar þjóðarleiðtogi á síðustu öld sem sagðist vera ofurmenni í hópi ofurmenna og réttvalinn af forsjóninni sem alráður leiðtogi í valdamesta embætti heims. 

Á síðustu dögum sínum sagði hann að þjóð sín og allir aðrir hefðu brugðist, en hann sjálfur hefði aldrei brugðist né haft rangt fyrir sér. 


mbl.is Myndi bitna á bandarískum neytendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjötíu ára bið.

Um þessar mundir eru um sjötíu ár síðan amma mín, Ólöf Runólfsdóttir frá Hólmi í Landbroti, og afi minn, Þorfinnur Guðbrandsson frá Hörgslandi á Síðu, sögðu mér frá Kötlugosinu 1918. 

Ég lá hjá þeim veikur í nokkrar vikuTunglið, TF-ROS, Suzuki Foxr í mars 1947, og þegar Hekla gaus og ég hafði ekkert við að vera nema að fá að hlusta liggjandi á útvarpið, útskýrðu þau gosið fyrir mér og lýstu hinum miklu áhrifum sem gosið í Kötlu hafði á Skaftfellinga. 

1918 var hún 22ja ára og hann 28 ára. 

Ég man óljóst eftir frásögnum þeirra en þó það, að þær voru svo magnaðar, að ég ímyndaði mér hvernig það yrði að vera á ferð í grennd við Kötlu eða þar, sem vel sést til hennar, þegar hún gysi næst, væntanlega á síðari hluta 20. aldarinnar. 

Eftir því sem áratugirnir hafa liðið hefur þetta orðið að einskonar bið og þegar ég sé til hennar á flugi í björtu veðri að vetrarlagi tala ég við hana og líka við Heklu, sem einnig er komin á tíma og segi það sama við þær báðar, hvora um sig.

"Svona nú, það er kominn tími á þig og úr því að þú munt hvort eð er gjósa, væri ekki verra ef þú lykir því af núna á þeim árstíma sem þetta veldur minnstum usla." 

Þetta átti líka við þegar ég dvaldi oft á Hvolsvelli á árunum 2010 til 2014, en gosmökkur frá hvorri þeirra sem væri, myndi strax sjást þaðan, á þessari mynd bera við tunglið. 

En ekkert gerist og það er einfaldlega lögmál og djúp speki, að því eldri sem maður verður, því meiri líkur eru á því að maður drepist og það sé þar með kominn tími á mann sjálfan. 


mbl.is „Löngu kominn tími á hana“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Meiri háttar þorrablót." Þáttur Halldórs Gröndals og Björns M. Olsens.

Fyrri hluti þessa pistils um þorrablótin getur falist í innihaldi lagsins "Meiri háttar þorrablót" sem hægt er að finna á Youtube og sjá má og heyra í flutningi mínum og félaga úr Frumherjum rokksins.

Síðan kemur áframhaldið: 

Þorrablót voru haldin hér og þar og af og til allt frá heiðni.

Í Kaupmannahöfn stóðu stúdentar undir forystu Björns M. Olsens fyrir nokkrum þorrablótum undir lok 19. aldar, og saman gerðu hann og Hannes Hafstein texta við lagstúf eftir Mozart sem gengið hefur undir heitinu "Þegar hnígur húm að þorra. 

Þorrablótin í Höfn voru gagnrýnd fyrir að vera aftan úr rammri forneskju í anda heiðni og lognuðust útaf. 

En á árunum milli 1955 og 1960 urðu straumhvörf.

Í því efni skipti það miklu máli, að með tilkomu veitingastaðarins Naustsins við Vesturgötu og þorrablótanna, sem Halldór Gröndal stóð þar fyrir á skipulagðan hátt . 

Gott orðspor þessara þorrablóta spurðist hratt út og á örfáum árum ruddu þorrablótin sér til rúms um allt land í svipuðu formi og þau hafa verið síðan og urðu síðan að þætti í starfsemi Íslendingafélaga erlendis. 

Halldór Gröndal varð síðar sóknarprestur og það sýnir kannski aukið frjálslyndi og umburðarlyndi að maður, sem varð prestur, skyldi verða helsti frumkvöðull í að innleiða fyrirbæri, sem gagnrýnt var rúmri hálfri öld fyrir of mikið heiðið yfirbragð.

Raunar eru þorrablótin ekki einu hátíðarhöldin, sem voru upphaflega heiðin, en urðu síðar hluti af kristnu þjóðlífi, því að jólin voru upphaflega heiðin hátíð á Norðurlöndum í tilefni af hækkandi sól, en breyttust síðan í kristna hátíð.

Nafnið jól á Norðurlöndum sýnir tengslin við heiðni, en í ensku er hátíðin kennd við Krist í heitinu Christmas. 

 


mbl.is Þorrablót í sveitum létta lund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt atriði, jafnvel milljarða virði.

Það er ekki langt síðan að fáum hefði dottið í hug að Íslendingar vektu athygli erlendis fyrir afburða matargerð. En sú er raunin, jafnvel þar sem samkeppnin er hörðust á álþjóðlegum keppnismótum í matargerð. 

Það er heldur ekki langt síðan að fáum hefði flogið í hug að þetta hefði hið minnsta gildi. 

Og engan veginn neitt fjárhagslegt gildi fyrir íslenskt þjóðarbú á þeim tímum sem matargerð hefði verið flokkuð með fjallagrasatínslu og lopapeysugerð sem dæmi um hið fánýta "eitthvað annað en stóriðja", sem væri einskis virði. 

Ferðaþjonusta féll á þessum árum undir vonleysistalið um "eitthvað annað", en nú hefur annað komið á daginn, hinir stórkostlegu möguleikar þessarar mestu gjaldeyrisuppsprettu þjóðarinnar og burðarási í öflugra efnahagslífi. 

Þótt einstæð náttúra Íslands sé og fái vonandi að verða áfram helsta aðdráttaraflið fyrir erlenda ferðamenn er það líka gulls ígildi að önnur atriði séu í lagi, hvað þá ef þau verða alþekkt. 

Það er aðlaðandi fyrir ferðafólk að njótaa góðrar tónlistar og annarrar menningar og afþreyingar, góðra hótela og annarrar nauðsynlegrar aðstöðu og ekki hvað sist góðs matar. 

Hvert þessara atriða getur verið milljarða virði og ef svo fer að íslensk matargerð verði rómuð verður það dýrmætur plús. 


mbl.is Ísland í þriðja sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of stutt síðan Framsókn var í stjórn með Sjöllum?

Stjórnarandstaðan í tíð síðustu ríkisstjórnar náði býsna góðri málefnasamstöðu og batt vonir við það á fundi á Lækjarbrekku rétt fyrir kosningar að fá sjálf meirihluta í kosningunum. 

En tilkoma Viðreisnar og firnasterk oddaaðstaða þess flokks í stjórnarmyndunarviðræðum batt enda á þessar vonir. 

Björt framtíð límdi sig strax við Viðreisn, vitandi það að sá flokkur myndi á endanum ráða hvert stjórn með þátttöku hans myndi halla sér.

Því væru mestir möguleikar á stjórnarþátttöku með bandalagi við Viðreisn.

Með myndun Engeyjarstjórnarinnar var Björt framtíð komin Sjallamegin í pólitíkina og farin úr Lækjarbrekkuhópnum.

Benedikt Jóhannesson sagði strax eftir kosningar að hann myndi ekki fara í stjórn, þar sem Viðreisn yrði þriðja hjólið undir vagni fyrrverandi stjórnar Sjalla og Framsóknar.

Nú virðist svipað fyrirbæri vera ofarlega í huga hjá þingflokkum Vg, Pírata og Samfylkingar, að gefa Framsókn ekki færi á að verða fjórða hjólið undir núverandi stjórn.

Framsókn er einn af fjórum flokkum í núverandi stjórnarandstöðu og vegna þess að hún er tvöfalt stærri en Samfylking á þingi, telur hún sig eiga frekar rétt á nefndarformannssæti en Samfylking, af því að einhver af þessum fjórum flokkum getur hvort eð er ekki fengið slíkt sæti.

Það virðist uppi svipað og var í desember 1979 þegar þingflokkur Alþýðuflokksins lét sér renna úr greipum að hafa samstarf við Sjálfstæðismenn um kosningu í þingnefndir.

Jón Baldvin Hannibalsson kallaði það rúmum áratug síðar "pólitískt umferðarslys", sem orðið hefði vegna þess að einblínt hafi verið á núið í stað þess að horfa til framtíðar. 

Nú virðíst einblínt á núið og að Framsóknarmenn séu svo nýkomnir úr heitu faðmlagi við Sjalla, að ástæðulaust sé að hygla þeim með því að fá þeim formennsku í þingnefnd, þar sem þeir geti hjálpað hinni veiku nýju stjórn ef svo ber undir. 

Nú verður fróðlegt að vita hvort svona mat sé rétt þegar til lengri tíma er litið.

Það veit enginn núna, ekki frekar en að vitað sé einhver kalli þetta pólitískt umferðarslys seinna meir.   


mbl.is Gaf frá sér formennsku í þremur nefndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband